Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 10 ára.
Rabarbarinn rifjaður upp
Á faglegum nótum 3. júlí 2014

Rabarbarinn rifjaður upp

Höfundur: Vilmundur Hansen

Rabarbari er ef ættkvíslinni rheum sem aftur er af súruætt (Polygonaceae). Innan ættkvíslarinnar rheum eru um 60 tegundir plantna. Þar á meðal er skrautrabarbari og aðrar tegundir rabarbarar sem vaxa villtir í Evrópu og víðar. Fyrir tveimur árum var fjallað um rabarbara hér í Bændablaðinu hér er sú grein rifjuð upp með breytingum.

Ekki villtur

Rabarbarinn sem verður fjalla um hér og er sá sem við þekkjum úr görðum og bóndabýlum um allt land kallast á latínu Rheum x cultorum eða Rheum x hybridum. Hann finnst ekki villtur í náttúrunni enda ræktunarafbrigði.

Annars er latneska nafnagjöfin ansi á reiki og oft erfitt að átta sig á tegundum eða kvæmum og uppruna þeirra samkvæmt henni enda gekk rabarbarinn lengi undir alþýðu- eða verslunarheitum eins og rússneskur, indverskur hollenskur, kínverskur eða tyrkneskur rabarbari eða bara rabarbararót.

Heitið rabarbari er komið úr grísku rha barbaron. Rha er gamalt nafn á fljótinu Volgu, sem er lengsta á í Evrópu, en barbaron þýðir erlendur, siðlaus eða einfaldlega barbari. Rabarbarinn er því planta hinna óþekktu eða villimannanna.

Formóður garðarabarbarans er að öllum líkindum tegund sem kallast Rheum palmatum og er upprunnin í Mongólíu og Kína og þekkt lækningarjurt þar með ríflega 5.000 ára sögu og þar með ein af elstu lækningarjurtum sem vitað er um.

Rabarbararætur frá löndunum við og handan við Silkileiðina voru eftirsóttar í Evrópu til lækninga þar sem rabarbarategundir sem vaxa villtar í Evrópu þóttu ekki eins kraftmiklar og góðar til lækninga. Austrænn rabarbari var eftirsóttur meðal Grikkja og Rómverja. Þurrkaðar rætur og rótarduft urðu því snemma dýr verslunarvara sem var flutt eftir Silkileiðinni frá Asíu til landanna við Miðjarðarhaf.

Úr rót og rótardufti rabarbarans var unnið lyf eða tiktúra sem þótti allt í senn í hreinsandi, niðurdrífandi og uppbyggjandi.

Marco Polo, sem var uppi á þrettándu öld, segir frá rabarbaraplöntum í frásögn um ferðalag sitt til Kína sem stóð í þrjú ár. Þrátt fyrir einbeittan vilja tókst honum ekki að komast yfir lifandi rabarbaraplöntu og flytja til Feneyja eins og hann ætlaði sér. Svo mikið var eftirlitið með plöntunum.

Lengi vel þekktu Evrópumenn kínverska rabarbarann ekki nema sem þurrkaðar rætur eða duft sem unnið var úr rótinni. Margsinnis var komið með rætur úr fjalllendi Litlu-Asíu og frá Rússlandi og því haldið fram að um hinn eina sanna lækningarabarbara væri að ræða. Fullyrðingarnar reyndust lengi orðið tóm. Það að plantan væri óþekkt og af austrænum uppruna jók á leyndardóminn í kringum hana og gerði hana enn eftirsóknarverðari og verðmeiri. Um leið jókst trúin á undraverðan lækningarmátt hennar.

Duft rótarinnar var um tíma tíu sinnum dýrara en kanilduft og þrisvar sinnu dýrara en sama þyngd af ópíum.
Tyrkir og Rússar voru stórtækir í flutningi á þurrkuðum rabarbararótum til Evrópu á síðmiðöldum. Um tíma var verslun með rabarbara stjórnað frá skrifstofu í Kiakhta, sem er borg á landamærum Mongólíu og Síberíu.

Skrifstofunni var lokað árið 1782 vegna minnkandi eftirspurnar í kjölfar þess að Evrópumenn komust yfir lifandi rót sem var smyglað til Evrópu.

Ekki er vitað hvernig rabarbari frá Asíu barst til Evrópu en fyrst er getið um ræktun á kínverskum rabarbara á Ítalíu árið 1608.

Í kjölfar þess hófst ræktun á rabarbara í stórum stíl og breiddist plantan hratt út um álfuna sem lækningajurt eftir það.

Teikningar af konunglega grasagarðinum í Edinborg, sem var lækningajurtagarður á þeim tíma, sýna að árið 1777 var stór hluti garðsins notaður til rabarbararæktunnar.

Rabarbari á Íslandi

Elstu heimildir um notkun rabarbara í Danmörku eru frá því um 1700 en það er ekki fyrr en 1840 nýting hans er orðin almenn á Norðurlöndunum að Íslandi undanskildu.

Elsta heimild sem ég heyrt um þar sem minnst er á rabarbara hér á landi er frá 1883, en þar talað um plöntu sem hefur verið í ræktun í nokkur ár og dafnar vel.

Samkvæmt því má gera ráð fyrir að rabarbari hafi borist hingað skömmu fyrir 1880 eða á seinni hluta 19. aldar og plantan því tengd sögu og menningu þjóðarinnar í rúm 130 ár. Einnig má leiða að því líkur að rabarbarinn hafi borist hingað með dönskum embættismönnum eins og svo margt annað gott á þeim tíma.

Hugsanlegt er að Björn Jónsson, sem fyrstur manna var skipaður lyfsali hér á landi 1772, hafi ræktað rabarbara í lækningajurtagarðinum í Nesi við Seltjörn á Seltjarnarnesi á sínum tíma. Slíkt er þó ósennilegt, þar sem rabarbaraplöntur og -fræ voru vandfengin á þeim tíma og engar heimildir styðja ræktun hans hér. Þrátt fyrir það er rabarbara getið í lyfjaskrá urtagarðsins á Nesi frá 1772 en þá er líklegt að um rótarduft hafi verið að ræða.

Í Garðyrkjukveri Schierbeck landlæknis, eins af stofnendum Garðyrkjufélags Íslands, frá 1891 segir höfundur frá ræktun og nýtingu á rabarbara. Schierbeck talar um tvær tegundir rabarbara, sem hann kallar reyndar rhabarber upp á dönsku. Tegundirnar eða yrkin sem hann nefnir eru Linnæus og Queen Victoria og reynast þau bæði vel að hans sögn.

Yrkið Queen Victoria er upphaflega frá Bretlandi og kom á markað 1837, árið sem Viktoría, dóttir hertogans af Kent, var krýnd drottning, og kennt við hana.

Yrkið er stórvaxið með græna stöngla og gefur mikla uppskeru en þykir súrt. Linnæus er einnig harðgert og snemmsprottið yrki. Bæði þessi yrki eru í ræktun í dag enda mun Schierbeck hafa verið duglegur við að dreifa þeim um landið.

Einar Helgason garðyrkjumaður gaf út þrjár bækur um garðyrkju og ræktun á árunum 1914 til 1926. Bækurnar heita hver annarri fallegri nöfnum, Bjarkir, Rósir og Hvannir. Í Hvönnum segir Einar frá rabarbara og kallar hann tröllasúru en segir það nafn fremur eiga við skrautrabarbara en að rabarbara-nafnið eigi við matrabarbara. Hann segir einnig að Englendingar hafi fyrstir manna farið að nýta leggina til matar skömmu eftir aldamótin 1800 og að Danir hafi fylgt fast á eftir.

Einar nefnir þrjú yrki í ræktun, Viktoríu og Linnæus eins og Schierbeck en bætir Early Red við sem er oft kallaður vínrabarbari. Þar á eftir fylgir allnákvæm lýsing á því hvernig á að rækta rabarbara. Viktoría og Linnæus þykja fremur súr en Early Red sætari.

Það sem Einar kallar skrautrabarbara gæti verið skrautsúra, sem er stundum nefnd skrautrabarbari og náskyld þeim rabarbara sem er ræktaður í grauta og sultu. Afbrigðið tangutica er með rauð blóm á háum stönglum, blöðin eru djúpflipótt, stór og skrautleg. Skrautsúra þarf djúpan og frjóan jarðveg og áburð árlega. Dafnar best á sólríkum stað þar sem plantan fær að standa óhreyfð árum saman.

Skömmu fyrir 1940 og á árum Seinni heimsstyrjaldarinnar var haldið uppi nokkrum áróðri sem hafði það að markmiði að fá Íslendinga til að auka rabarbararækt og helst áttu allir að eiga hnaus í garðinum.

Í grein sem birtist í tímaritinu Búfræðingurinn á þessum árum og er eftir Vigfús nokkurn Helgason segir: ,,Það er enginn vafi á því, að á rabarbaraframleiðslunni má byggja upp allverulegan niðursuðuiðnað og konfektiðnað, einkum ef innflutningshömlur verða áfram á erlendum ávöxtum og öðrum niðursuðuvörum úr ávöxtum. Leggjum því sérstaklega alúð við rabarbararæktina strax á komandi vori.“

Þrátt fyrir þessa hvatningu fara vinsældir rabarbarans dvínandi eftir 1950 og hann sagður óhollur vegna mikils innihalds af oxalsýru. Sjálfur man ég eftir að hafa verið varaður við að borða mikið af rabarbara skömmu fyrir 1970 vegna sýrunnar sem átti að éta upp glerunginn á tönnunum.

Líklega hefur þetta þó verið sagt vegna þess að ég rændi svo miklu af rabarbara úr matjurtagarði nágranna býlisins þar sem ég var í sveit.

Óli Valur Hansson, fyrrverandi garðyrkjuráðunautur, ferðaðist um landið undir lok níunda áratugar síðustu aldar og safnaði rabarbarayrkjum. Plöntunum var komið fyrir á Korpu, þar sem Rannsóknastofnun landbúnaðarins var til húsa á þeim tíma.

Eftir því sem ég hef best komist voru í safninu fjögur íslensk yrki, eitt grænlenskt og tólf erlend. Líklega er þó réttara að tala um staðbrigði í stað yrkja.

Væri nafn yrkjanna ekki þekkt voru þau kennd við staðinn þar sem þeim var safnað og heita þau nöfnum eins og Minni-Mástunga, Svínafell, Mývetningur, Vatnskot, Bjarnadalur og Hveravellir. Eitt heitið sker sig þó úr en það kallast Ráðherrafrú og er kennt við Evu Jónsdóttur, eiginkonu Ingólfs Jónssonar, fyrrverandi landbúnaðarráherra frá Hellu.

Árið 2000 var hluti safnsins fluttur frá Korpu í Grasagarðinn í Reykjavík til varðveislu fyrir Norræna genabankann. Þetta eru yrkin Early Red eða vínrabarbari, Hveravellir, Mývetningur, Ráðherrafrú og Svínafell.

Séu plönturnar í grasagarðinum skoðaðar sést vel hversu ólík yrkin eru að blaðstærð og lit og grófleika stilka. Án efa bragðast þau líka mismunandi.

Víða um land, í bakgörðum, við bóndabæi og jafnvel á eyðibýlum, er að finna gamla og gróskumikla rabarbarahnausa sem margir hverjir eiga sér án efa áhugaverða sögu sem gaman væri að grennslast fyrir um.
Áhugi á gömlum nytjaplöntum fer vaxandi og þrátt fyrir að íslensk ræktunarsaga sé ekki löng finnast hér á landi yrki af rófum, kartöflum og rabarbara sem vert er að varðveita.

3 myndir:

Fyrsta myglulausa sumarið frá 2018
Fréttir 13. september 2024

Fyrsta myglulausa sumarið frá 2018

Ekki hefur orðið vart við kartöflumyglu í sumar sem er þá fyrsta myglulausa suma...

Tugmilljónatjón hjá kartöflubændum
Fréttir 13. september 2024

Tugmilljónatjón hjá kartöflubændum

Kartöflubændur í Nesjum í Hornafirði urðu fyrir verulegu tjóni á dögunum þegar h...

Bændur selja Búsæld
Fréttir 13. september 2024

Bændur selja Búsæld

Um 90 prósent bænda í Búsæld hafa ákveðið að taka kauptilboði Kaupfélags Skagfir...

Frekari fækkun sláturgripa
Fréttir 12. september 2024

Frekari fækkun sláturgripa

Um 28 þúsund færri lömb komu til slátrunar síðasta haust en árið á undan. Áfram ...

Fjár- og stóðréttir 2024 - Uppfærður listi
Fréttir 12. september 2024

Fjár- og stóðréttir 2024 - Uppfærður listi

Fjár- og stóðréttir eru fram undan og venju samkvæmt birtir Bændablaðið lista yf...

Lækkað verð á greiðslumarki
Fréttir 12. september 2024

Lækkað verð á greiðslumarki

Niðurstöður tilboðsmarkaðar fyrir greiðslumark mjólkur í byrjun september sýna l...

Smalað vegna óveðurs
Fréttir 12. september 2024

Smalað vegna óveðurs

Fyrsta haustlægðin kom á dögunum, með gulum og appelsínugulum viðvörunum, norðan...

Garðyrkjubændur rafmagnslausir
Fréttir 12. september 2024

Garðyrkjubændur rafmagnslausir

Raforkusamningum meirihluta garðyrkjubænda landsins hefur verið sagt upp. Í suma...