Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 7 ára.
Jóhanna Þorvaldsdóttir á Háafelli við geitamjaltir.
Jóhanna Þorvaldsdóttir á Háafelli við geitamjaltir.
Mynd / smh
Fréttir 27. júní 2017

Ónýtt verðmæti í mjólk sauða og geita

Höfundur: smh
Fræðslufundur um nýtingu á sauða- og geitamjólk var haldinn á Hvanneyri 23. júní síðastliðinn. Fundinum var ætlað að kynna fólki sem hefur áhuga á að nýta sauða- og eða geitamjólk hvaða aðstaða þarf að vera fyrir hendi, hvaða kröfur eru gerðar til aðstöðunnar og hverju þarf að huga að áður en farið er út í slíkt verkefni.
 
Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins (RML), Landssamtök sauðfjárbænda og Geitfjárræktarfélag Íslands standa að fræðslufundinum. Eyþór Einarsson, ábyrgðarmaður í sauðfjárrækt hjá RML, sagði í viðtali fyrir fundinn að tilgangur hans væri að hvetja fólk til að skoða möguleikana á þessari nýtingu og hlúa að þeim áhuga sem þegar væri fyrir hendi.
 
Fráfærur almennt stundaðar áður fyrr
 
Að sögn Eyþórs þurfa lömbin vissulega á mjólkinni að halda fyrstu vikurnar. „Eftir því sem þau eldast og þroskast eru þau betur í stakk búin til þess að vaxa áfram á öðru fóðri án þess að það hægi mikið á vexti þeirra. Mér sýnist að það tíðkist að taka þau undan frá 4 vikna aldri til 4 mánaða aldurs – og fer það sjálfsagt eftir aðstæðum á hverjum stað til að ala lömbin áfram og mörkuðum fyrir afurðirnar.  
 
Á öldum áður voru frá­færur almennt stundaðar af sauðfjárbændum hér á landi. Þá var byrjað á því að taka lömbin undan á kvöldin, ærnar mjólkaðar að morgni og síðan fengu ærnar lömbin aftur. Þetta tímabil var kallað stekktíð. Við fimm til átta vikna aldur lambanna voru þau alveg tekin undan og ærnar mjólkaðar fram á haust. Það sem trúlega hentar best við íslenskar aðstæður í dag er að venja lömbin undan upp eftir miðjan júlí eða þegar þau hafa náð þokkalegum þroska, kannski í kringum 20 kíló á fæti, og koma þeim á kjarngóða beit. Í beitartilraunum sem gerðar hafa verið hér á landi hefur t.d. komið fram að lömb sem fara á fóðurkál í byrjun ágúst geta náð betri vexti en lömb sem ganga undir mæðrum sínum í úthaga.  Nú á seinni árum hafa menn aðeins verið að prófa sig áfram með eldi á heimalningum – þar sem frjósemi er orðin mjög mikil – og náð góðum vexti í þau lömb þannig að það á vel að vera hægt að ná góðum vexti í lömb þótt þau séu vanin undan um mitt sumar og ærnar mjólkaðar.“
 
Hefð fyrir mjöltum og fráfærum við Miðjarðarhaf
 
Eyþór segir að mismunandi sé milli landa hversu gömul lömbin eru sem fara á markað. „Ég held til dæmis að á Nýja-Sjálandi og í Ástralíu séu menn vanari lambakjöti af heldur eldri lömbum en við erum vön hér á landi. Síðan í löndum þar sem rík hefð er fyrir mjöltum og fráfærum, þar er hefð fyrir nýtingu á kjöti af smálömbum. Dæmi um slíka markaði væri í löndum við Miðjarðarhafið.  
 
Eyþór Einarsson.
Hér á landi hefur verið boðið upp á sumarslátrun lamba hjá einhverjum afurðastöðvum sem hefst þá í ágústmánuði. Fyrir þá sem vilja taka undan lömb, en telja sig ekki hafa hag af því að bata þau mikið þá getur verið valmöguleiki að taka frekar seint undan og velja ær til mjalta sem eru komin með þokkalega sláturhæf lömb sem stíla mætti inn á sumarslátrun. Þá er væntanlega ekki útilokað að ef áhugi fyrir mjöltum yrði mikill að hægt væri að fara í samstarf við afurðastöðvarnar með að leita að mörkuðum fyrir smálömb eða prófa að markaðssetja það hér á landi og hefja slátranir enn fyrr.“
 
Spennandi viðbót við hefðbundinn sauðfjárbúskap
 
„Ég myndi telja það mjög spennandi viðbót við hefðbundinn sauðfjárbúskap hér á landi ef við næðum að skapa hér einhverja menningu fyrir framleiðslu á vörum úr sauðamjólk.  Þetta var stundað hér um aldir og því ekki hægt að segja annað en nýting sauðamjólkur eigi sér mikla sögu hér á landi þótt sá þráður hafi slitnað. Það er vissulega mjög jákvætt að geta nýtt sem mest allar afurðir sem ærnar gefa af sér og jákvætt gagnvart neytendum að geta boðið upp á fjölbreytt vöruúrval af íslenskum landbúnaðarvörum.  
 
Mér hefur skilist á þeim sem eitthvað hafa prófað að framleiða osta að auðvelt sé að selja vöruna.  Nú er staðan þannig að sveitirnar eru fullar af ferðamönnum og víst er að einhver hluti þeirra hefur mikinn áhuga á því að smakka innlenda framleiðslu og sérvörur beint frá bændum.  Þá er staðan aðeins snúin í útflutningi á dilkakjöti um þessar mundir og því í raun margt sem gerir það áhugavert að prófa möguleikana á nýtingu sauðamjólkurinnar. Það ætti jafnframt að vera jákvætt innslag í ræktunarstarfið ef einhver bú fara að leggja áherslu á mjaltir og velja gripi til ræktunar sem sannarlega eru mjólkurlagnir. Mikilvægt er að þeir sem eru að spá í þennan möguleika kynni sér vel hvernig best sé að haga öllum málum, þannig að menn æði ekki af stað og lendi síðan á vegg og missi móðinn. Hugsanlega getur verið sniðugt ef menn ætla að vinna úr afurðunum að einhverjir taki sig saman um að koma upp aðstöðu sem stenst allar kröfur. Fræðslufundurinn er einmitt hugsaður til að hjálpa þeim sem hafa áhugann að átta sig á hvað til þarf,“ segir Eyþór.
 
Geitamjólkin á líka góða möguleika
 
Eyþór telur geitamjólkina ekki síður eiga góða möguleika þótt lítil hefð og reynsla sé fyrir vinnslu á afurðum úr henni. „Fyrir verndun íslenska geitastofnsins væri það gríðarlegur hvalreki ef nýting mjólkurinnar næði einhverju flugi og þar með myndi stofninn öðlast aukið gildi sem auðveldar verndun hans. Til að mjólkurframleiðsla með geitum eða sauðfé eflist þarf sjálfsagt ákveðna hugarfarsbreytingu og síðan góðan stuðning við þá sem hafa áhuga á að prófa sig áfram í þessum geira, þannig að auðvelt sé að hefjast handa,“ segir Eyþór. 
 
Sveinn Rúnar Ragnarsson í Akurnesi við sauðamjaltir. Mynd / bssl.is
 
Blámygluosturinn Breði frá Akurnesi
 
Í Akurnesi í Hornafirði voru ær mjólkaðar og mjólkin notuð til ostagerðar árin 2008 til 2010. 
 
Úr mjólkinni var unninn blámygluosturinn Breði – sem er í ætt við hinn fræga franska Roquefort  – og þótti vel heppnaður meðal ostaáhugafólks. 
 
Í Akurnesi voru mjólkaðar rúmlega 30 ær. Í byrjun júlí voru lömbin tekin undan ánum og sett á há og sumarrýgresi. 
 
Ærnar voru mjólkaðar kvölds og morgna og fengust um 20 kíló á dag af mjólk. 
 
Beitin sem ærnar fengu var há og svo fengu þær að auki 100 grömm hver af fóðurbæti í mjöltunum. Helgi Ragnarsson í Akurnesi smíðaði básinn sérstaklega fyrir aðstöðuna í Akurnesi, en mjaltatækin komu frá Remfló. 
 
Mjaltabásinn tók átta ær og var hægt að mjólka fjórar ær í einu. Kerfið var svokallað láglínukerfi, en þá rennur öll mjólkin saman í einn kút við enda bássins.
 
Úrvals afurðir úr sauða- og geitamjólk
  • Margir af bestu ostum í heimi eru gerðir úr geita- eða sauðamjólk. 
  • Meðal helstu kosta geitamjólkurinnar fyrir mannfólkið eru taldir vera hversu lík hún er hinni mannlegu móðurmjólk að gerð. Í mörgum tilvikum hentar hún þeim sem hafa óþol gagnvart kúamjólk, bæði í ofnæmistilvikum en einnig fólki með mjólkursykursóþol.  Geitamjólk er rík af vítamínum. 
  • Sauðamjólk er rjómakennd og þurrefnarík og er því afar hentug til ostagerðar. Eins og geitamjólkin er sauðamjólkin ólík kúamjólkinni að gerð og fólk með óþol fyrir kúamjólk gæti því í einhverjum tilvikum neytt afurða úr sauðamjólk. Hún er auðug af vítamínum og steinefnum.
Fyrsta myglulausa sumarið frá 2018
Fréttir 13. september 2024

Fyrsta myglulausa sumarið frá 2018

Ekki hefur orðið vart við kartöflumyglu í sumar sem er þá fyrsta myglulausa suma...

Tugmilljónatjón hjá kartöflubændum
Fréttir 13. september 2024

Tugmilljónatjón hjá kartöflubændum

Kartöflubændur í Nesjum í Hornafirði urðu fyrir verulegu tjóni á dögunum þegar h...

Bændur selja Búsæld
Fréttir 13. september 2024

Bændur selja Búsæld

Um 90 prósent bænda í Búsæld hafa ákveðið að taka kauptilboði Kaupfélags Skagfir...

Frekari fækkun sláturgripa
Fréttir 12. september 2024

Frekari fækkun sláturgripa

Um 28 þúsund færri lömb komu til slátrunar síðasta haust en árið á undan. Áfram ...

Fjár- og stóðréttir 2024 - Uppfærður listi
Fréttir 12. september 2024

Fjár- og stóðréttir 2024 - Uppfærður listi

Fjár- og stóðréttir eru fram undan og venju samkvæmt birtir Bændablaðið lista yf...

Lækkað verð á greiðslumarki
Fréttir 12. september 2024

Lækkað verð á greiðslumarki

Niðurstöður tilboðsmarkaðar fyrir greiðslumark mjólkur í byrjun september sýna l...

Smalað vegna óveðurs
Fréttir 12. september 2024

Smalað vegna óveðurs

Fyrsta haustlægðin kom á dögunum, með gulum og appelsínugulum viðvörunum, norðan...

Garðyrkjubændur rafmagnslausir
Fréttir 12. september 2024

Garðyrkjubændur rafmagnslausir

Raforkusamningum meirihluta garðyrkjubænda landsins hefur verið sagt upp. Í suma...