Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 8 ára.
Öfgakennt tíðarfar hafði sitt að segja um afurðir ársins
Á faglegum nótum 6. apríl 2016

Öfgakennt tíðarfar hafði sitt að segja um afurðir ársins

Höfundur: Eyjólfur Ingvi Bjarnason, ráðunautur í sauðfjárrækt hjá RML
Uppgjöri á skýrslum fjárræktarfélaganna fyrir árið 2015 er að mestu lokið. Fallþungi sláturlamba haustið 2015 er sá mesti frá upphafi eða 16,5 kg að meðaltali. 
 
Reiknaðar afurðir eftir hverja fullorðna kind lækka um tæpt kíló og munar þar mestu um að færri lömb koma til nytja. 
 
 
Meiri vanhöld má að einhverju leyti rekja til vorsins en meðalhiti tímabilsins frá lokum apríl til fyrstu daga júní var víða um land sá lægsti í 30 ár. Gróður tók seint við sér sumarið 2015 og nýgræðingur í boði langt frameftir hausti þar sem milt veðurfar einkenndi haustið. Sumarið var þó vætusamt og kalt norðaustanlands og þar munar talsverðu á afurðum milli ára enda árið á undan algjört metár á því svæði.
Í flestum sýslum landsins voru afurðir minni árið 2015 en árið áður eða þá undir fimm ára meðaltali viðkomandi sýslu. Eina undantekningin var Vestur-Húnavatnssýsla en þar voru jafnmiklar afurðir eftir hverja kind og árið áður og einnig meiri afurðir en meðaltal síðustu fimm ára í sýslunni.
 
Þátttaka í skýrsluhaldi dróst heldur saman frá fyrra ári en alls skiluðu 1.750 aðilar skýrslum um 350.184 fullorðnar ær (346.031 - 2014). Í skýrsluhaldi sauðfjárræktarinnar eru því skráðar um 92% af ásettum ám m.v. upplýsingar úr forðagæsluskýrslum.
 
Hluti skýringarinnar á fækkun aðila er sú að enn eiga einhverjir eftir að skila skýrslum þrátt fyrir áminningar um að skýrsluhald ársins sé óklárað. 
 
Veturgamlar ær í skýrsluhaldinu voru 80.171 (77.386 - 2014), að auki var forystuám nú haldið utan við afurðauppgjör í fyrsta skipti en þær eru 1.412 í gagnagrunnum sauðfjárræktarinnar. Ær alls á skýrslum eru því 431.767 (422.532 - 2014) sem er nokkur aukning milli ára.
 
Þau vanhöld sem voru á sauðfé í aðdraganda sauðburðar 2015 sjást glöggt í skýrsluhaldinu en fjöldi kinda sem drepst fyrir burð er helmingi fleiri (13.000 ær) en nokkur ár þar á undan. Eru þá ótalin vanhöld um og eftir sauðburð.
 
Afurðir árið 2015
 
Frjósemi var svipuð á landinu öllu líkt og undangengin ár eða 1,82 fædd lömb á hverja kind. Hlutfall fleirlembna á landinu öllu var 6,4% og hefur það hlutfall ekki verið hærra í nokkur ár. Frjósemi er mest í Suður-Þingeyjarsýslu en þar fæðast 1,91 lömb eftir hverja kind, skammt að baki henni koma nágrannar í Norður-Þingeyjarsýslu með 1,90 lömb eftir hverja kind. Í nokkrum fjárræktarfélögum er meðalfjöldi fæddra lamba meiri en 1,90 lömb og eiga öll þessi félög það sameiginlegt að þar eru um og yfir 10% ánna fleirlembdar. 
 
Afurðir eftir fullorðnar ær voru 26,9 kíló eftir hverja kind árið 2015 sem er tæpu kílói minna en árið á undan (27,8 kg - 2014) og eins minna en meðalafurðir síðustu fimm ára sem reiknast 27,1 kíló.
Á meðfylgjandi mynd má sjá afurðir síðustu tveggja ára (2015 rauð súla, 2014 græn súla) sýndar eftir sýslum ásamt meðaltali áranna 2011-2015 (blá súla) í viðkomandi héraði.
 
Mestu afurðir í einu héraði árið 2015 voru í Vestur-Húnavatnssýslu en þær reiknast 29,6 kíló sem er jafnmikið og árið á undan og hærra en meðalafurðir síðustu fimm ára á svæðinu.
 
Í Austur-Húnavatnssýslu og Skagafirði eru afurðir einnig lítillega meiri en fimm ára meðaltal viðkomandi svæða. Í öðrum héruðum eru afurðir minni eða svipaðar og árið 2014 og ætíð undir 5 ára meðaltali svæðisins. Þarna hefur tíðarfarið líklega sitt að segja þar sem vanhöld á lömbum voru meiri en undangengin ár en 1,63 lömb komu til nytja 2015 (1,67 - 2014).
 
Víða voru bændur með fé lengur heima að vori, þar sem úthagi gréri seint með aukinni hættu á vorhníslasótt í lömbum. Annars staðar var sumarið bæði kalt og votviðrasamt sem hefur áhrif á afdrif gripa. Afurðir eftir veturgömlu ærnar minnka einnig örlítið milli ára 10,9 kíló (11,3 kg - 2014). 
 
 
Afurðahæstu búin
 
Afurðahæsta bú landsins árið 2015 er bú Eiríks Jónssonar í Gýgjarhólskoti, Biskupstungum með 44,9 kíló eftir hverja kind. Þær afurðir munu vera Íslandsmet í afurðum frá upphafi skýrsluhalds. Sífellt fleiri bú hafa verið að bætast í hóp þeirra búa sem ná góðum árangi á síðustu árum og þessi bú má finna í flestum landshlutum. Í 1. töflu er listi yfir öll þau bú sem hafa 36 kg eða meira eftir hverja kind árið 2015 og fleiri en 100 ær í skýrsluhaldi.
 
Árið 2013 var í fyrsta skipti birtur listi yfir „úrvalsbú“ í sauðfjárrækt, þau eiga það sameiginlegt að ná góðum árangri fyrir marga þætti og eru mörkin sett með tilliti til ræktunarmarkmiða í sauðfjárrækt. Árið 2015 náðu 95 bú þessum árangri á móti 104 árið 2014 og 70 árið 2013.  
 
Gæðamatið
 
Í skýrsluhaldinu eru upplýsingar um rúmlega 500.000 sláturlömb haustið 2015. Meðalfallþungi þeirra var 16,5 kíló sem er sá hæsti í mörg ár. (16,4 - 2014) og meðaltal síðustu fimm ára er 16,2 kíló. Meðaltal fyrir holdfyllingu 8,87 árið 2015 (8,72 - 2014), fimm ára meðaltal 8,66 og meðaltal fyrir fitumat 6,54 árið 2015 (6,53 - 2014), fimm ára meðaltal 6,49.
 
Oft er þetta skoðað sem hlutfallstala holdfyllingar og fitu, sú tala var 1,36 haustið 2015. Hagstæðasta hlutfallið má finna í Suður-Þingeyjarsýslu (1,44) og í Norður-Þingeyjarsýslu (1,42). Af búum sem höfðu holdfyllingarmat yfir 9,5 árið 2014 er þetta hlutfall hagstæðast hjá Félagsbúinu í Baldursheimi 1, Mývatnssveit með hlutfallstölu 1,98. Í 2. töflu má finna öll þau bú sem höfðu gerðarmat 11,0 eða hærra árið 2015 og fleiri en 100 sláturlömb.
 
 
Erfiðara er að bera saman árangur í fitumati vegna þess sambands sem er á milli fallþunga og fitumats. Stundum er þessi samanburður gerður milli fallþunga og fitumats, það hlutfall er 2,52 árið 2015 og hefur sú tala hækkað á undanförnum árum. Af búum sem höfðu holdfyllingarmat yfir 9,5 árið 2015 hafa tvö bú hlutfallstöluna 2,94, það eru bú Eiríks Jónssonar í Gýgjarhólskoti og bú Trausta og Kristínar að Austurhlíð í Biskupstungum.
 
Að lokum
 
Listar með öllum helstu niðurstöðum skýrsluhaldsins árið 2015 er hægt að finna á heimasíðu RML. Þar má einnig finna niðurstöður skýrsluhaldsins undanfarin ár. Árangurinn árið 2015 sýnir enn og aftur að ræktunarstarfið í sauðfjárrækt er að skila sér í auknum framförum. Grunnforsenda allrar upplýsingaöflunar er þó vel fært skýrsluhald og flest þau bú sem eru að ná góðum árangri eru að nýta sér kosti skýrslu­haldsins til fullnustu.

3 myndir:

Sumarkomunni fagnað
Fréttir 25. apríl 2024

Sumarkomunni fagnað

Að venju verður opið hús í Garðyrkjuskólanum á Reykjum á sumardaginn fyrsta, fim...

Burðarhjálp: Leiðbeiningarmyndbönd
Fréttir 24. apríl 2024

Burðarhjálp: Leiðbeiningarmyndbönd

Síðan 2019 geta bændur og aðstoðarfólk notað fjölda leiðbeiningarmyndbanda, sem ...

Afurðamestu sauðfjárbúin
Fréttir 24. apríl 2024

Afurðamestu sauðfjárbúin

Í niðurstöðum skýrsluhalds í sauðfjárrækt fyrir síðasta ár, sem eru birtar hér í...

SS segir of flókið að upprunamerkja
Fréttir 24. apríl 2024

SS segir of flókið að upprunamerkja

Sláturfélag Suðurlands (SS) sér ekki hag í að upprunamerkja svínakjöt frá Korngr...

Hraðhlaðið við Galdrasafnið
Fréttir 23. apríl 2024

Hraðhlaðið við Galdrasafnið

Orkubú Vestfjarða hefur sett upp nýja 400 kW hraðhleðslustöð við Galdrasafnið á ...

Hámarksmagn minnkað í matvælum
Fréttir 23. apríl 2024

Hámarksmagn minnkað í matvælum

Innan skamms taka gildi breytingar á reglugerð þar sem leyfilegt hámarksmagn nít...

Greiða götu viðskiptasambanda við Indland
Fréttir 22. apríl 2024

Greiða götu viðskiptasambanda við Indland

Bæði þjónustu- og vöruviðskipti við Indland munu að öllum líkindum aukast á næst...

Jarðræktarmiðstöðin rís
Fréttir 22. apríl 2024

Jarðræktarmiðstöðin rís

Jarðræktarmiðstöð Landbúnaðarháskóla Íslands mun verða tilbúin árið 2027 gangi á...