Nýja fjósið verður algjör bylting í búskapnum
Höfundur: Magnús Hlynur Hreiðarsson
Gaman er að koma á bæinn Litla-Ármót í Flóahreppi og finna þar kraftinn og jákvæðnina í ungum kúabændum sem hafa nýlega eignast jörðina. Hjónin Hrafnhildur Baldursdóttir og Ragnar Finnur Sigurðsson eru að ljúka við byggingu nýs og glæsilegs hátæknifjóss. Saman eiga þau tvo frísklega stráka, Baldur Ragnar, sem er sjö ára og Nikulás Tuma, sem er fimm ára. Fjölskyldan er samhent, kát og hress og lifir skemmtilegu lífi. En byrjum á að forvitnast um bændurna.
Fæddur á Oddsstöðum í Lundarreykjadal
Ragnar Finnur Sigurðsson fæddist 1983 hjónunum Sigurði Oddi Ragnarssyni og Guðbjörgu Ólafsdóttur og ólst hann þar upp með fjórum systkinum. Eftir barnaskóla að Kleppjárnsreykjum í Reykholtsdal var stefnan sett á stúdentspróf frá náttúrufræðibraut Fjölbrautaskóla Vesturlands. Eftir fjölbraut tók Háskóli Íslands við og lögð stund á verkfræði. Þarna entist Ragnar stutt við en á öðru ári hafði hann samband við Magnús B. Jónsson hjá Landbúnaðarskóla Íslands á Hvanneyri og hóf þar nám skömmu síðar. Ragnar lauk námi þar í B.sc í búvísindum árið 2007. Sama ár að hausti hóf hann nám við raungreinadeild landbúnaðarháskólans að Ási í Noregi þar sem hann lærði byggingaverkfræði með áherslu á landbúnaðarbyggingar.
„Það sem einkennir þessi löngu námsár er að lærdómurinn fólst mikið í þeirri aukavinnu og sumarvinnu sem maður kom sér í þar sem maður kynnist verkháttum og góðu fólki hvort sem það var í Borgarfirði eða Noregi. Eftir að náminu lauk bauðst mér vinna hjá norsku ráðgjafarsamtökunum NLR, vann ég þar við ráðgjöf í byggingarmálum bænda þar til ég fluttist til Íslands 2012 með fullan skilning á þrá forfeðra okkar á tímum Noregskonunga til heimferða,“ segir Ragnar og glottir.
Bændurnir Hrafnhildur Baldursdóttir og Ragnar Finnur Sigurðsson með strákana sína tvo, þá Nikulás Tuma og Baldur Ragnar. Þeir eyða miklum tíma í fjósinu með foreldrum sínum og una sér þar vel.
Hrafnhildur er frá Litla-Ármóti
Hrafnhildur Baldursdóttir er fædd 1983. Foreldrar hennar eru Baldur Indriði Sveinsson og Betzy Marie Davidsson. Þegar hún var eins árs keyptu foreldrar hennar Litla-Ármót í Hraungerðishreppi (nú Flóahreppur) og ólst hún því upp þar ásamt tveimur systkinum, þeim Davíð Inga (1981) og Sólrúnu Maríu (1989). Hún var í grunnskóla í Þingborg frá sex til tólf ára aldurs en áttunda, níunda og tíunda bekk tók hún í skóla á Selfossi. Næst lá leið hennar í Fjölbrautaskóla Suðurlands á náttúrufræðibraut. Eftir skólaárin þar tók hún sér eitt ár frí frá skóla og vann í SS, afleysingakennslu í grunnskóla og leikskóla ásamt íþróttaþjálfun. Haustið 2004 tók við nám á Hvanneyri þar sem hún tók BS-nám í búvísindum og útskrifaðist 2007. Eftir það var haldið til Noregs í meistaranám með áherslu á fóðurfræði kúa.
Hefur víða komið við
„Ég hef unnið við ýmis störf í gegnum árin og markmiðið var að prufa sem flest störf áður en ég myndi velja mér framtíðarstarfið. Ég hef starfað eins og áður sagði við afleysingar við kennslu í grunn- og leikskóla, einnig á sambýli og starfað erlendis við hross, börn og á veitingastað. Námið erlendis var gott en einnig fékk ég mikla reynslu í fóðurráðgjöfinni í Noregi á kúabúi, ásamt því að vera starfsmaður á kúabúi. Ég vann við fóðurráðgjöf hjá Búnaðarsambandi Suðurlands en færðist svo yfir í RML þegar það var stofnað. Nú starfa ég eingöngu við búskapinn,“ segir Hrafnhildur.
Mjólkurframleiðslan er númer 1, 2 og 3
Ragnar og Hrafnhildur tóku formlega við kúabúskapnum 1. maí 2013 af foreldrum Hrafnhildar en þau höfðu verið með búskap á bænum síðan 1984. Á Litla-Ármóti er mjólkurframleiðslan aðalatriðið með kjötframleiðslu sem hliðargrein og sölu á afurðum beint frá býli. Baldur og Hrafnhildur hafa látið gelda naut og þá kallast þau uxar, sem að þeirra mati gefur betri framleiðsluafurð.
Undirbúningur að fjósframkvæmdum hófst 2016
Nú er verið að ljúka við byggingu nýs og glæsilegs fjóss á hlaðinu á Litla-Ármóti. Um fimmtíu kýr eru komnar inn í fjósið og mjaltaþjónninn er farinn að virka vel. „Við byrjuðum á undirbúningi 2016 með hugmyndavinnu og þess háttar. Svo um haustið 2017 var byrjað á jarðvegsframkvæmdum. Í maí 2018 hófst svo vinna við bygginguna sjálfa. Áætlað er að fjósið verði komið í fulla notkun núna í haust. Við keyptum burðarvirki og steinullareiningar af Límtré Vírnet og var það mjög góð ákvörðun. Allt stóðst hjá þeim og frábær þjónusta. Varðandi innréttingar og mjaltatækni tókum við það hjá Fóðurblöndunni. Aðstaðan er hönnuð fyrir eina mjaltastöð ásamt uppeldi, með möguleika fyrir breytingar í framtíðinni,“ segir Ragnar alsæll með nýja fjósið.
Ekki erfið ákvörðun
Þegar hjónin voru spurð að því af hverju þau hafi ákveðið að fara út í byggingu nýs fjóss verður Hrafnhildur fyrir svörum: „Það var ekki mjög erfið ákvörðun þar sem vitað mál var að í einhverjar framkvæmdir þurftum við að fara í. Hins vegar tók tíma að ákveða hvar og hvernig framkvæmdin átti nákvæmlega að líta út. Við hönnun hússins var það haft að leiðarljósi að möguleiki yrði á að geta breytt sem mestu inni í húsinu ef þörf væri á og einnig að húsið gæti nýst til annara nota ef ekki yrði áfram mjólkurframleiðsla í því.“
Bændur dragast aftur úr í launum
Tal okkar berst nú að stöðu kúabænda og greinarinnar. Hvernig líst Ragnari og Hrafnhildi á hana árið 2019?
„Okkur líst ekki nógu vel á stöðuna þar sem að greinilegt er að bændur eru að dragast aftur úr hvað varðar laun. Það er alltof oft ætlast til þess að lítið sem ekkert kosti fyrir bændur þrátt fyrir sífelldar hækkanir í samfélaginu. Við getum ekki keppt við auknar kröfur fólks um hærri laun og meira frí, við þurfum að standa okkar vakt og huga að búskapnum, bændur eru ekki að fá frí eða hærri laun, það er heila málið,“ segir Ragnar og Hrafnhildur bætir við: „Það er gott að auknar kröfur séu um dýravelferð og leggjum við okkar af mörkum að dýrunum sem fæðast hjá okkur líði eins vel og kostur er á meðan þau eru í okkar vörslu. Það er hins vegar alveg ljóst að um leið og krafan um velferð eykst þá eykst kostnaður bóndans líka og því erfitt að ætla stöðugt að auka kostnað án þess að innkoma aukist þar sem afkoman er eins og hún er.“
Nýja fjósið breytir öllu
Hjónin eru sammála um að nýja fjósið verði algjör bylting í búskapnum en það taki tímann sinn að venja kýrnar við nýjar aðstæður og ekki síst mjaltaþjóninn. „Fjósið mun vonandi verða til þess að dýrum og mönnum líði vel í því, allir búi við góða aðstöðu og allt verði frjálsara og betur aðlagaðra að kröfum nútímans,“ segir Ragnar. Að lokum hvetja þau Ragnar og Hrafnhildur fólk til að velja íslenskar landbúnaðarvörur eins og hægt er því þá sé verið að gera umhverfinu sem mestan greiða og kolefnisfótsporið minnkar um leið.
Tvær vinnukonur eru á Litla-Ármóti, þær María Sif Rosse Indriðadóttir frá Ysta-Koti í Vestur-Landeyjum, sem er 15 ára, og Freyja Björk Þorsteinsdóttir, 13 ára úr Kópavogi.
Það skemmtilegasta sem litlu strákarnir gera í nýja fjósinu er að fara í kappakstur á traktorunum sínum á fóðurganginum, enda nóg pláss og vítt til veggja.