Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 8 ára.
Laufa byggja skyldi skála
Fræðsluhornið 18. júlí 2014

Laufa byggja skyldi skála

Höfundur: Vilmundur Hansen

Aðgangur að gróðurhúsi eða garðskála eru lúxus sem allt of fáir leyfa sér en sem betur fer færist sífellt í vöxt að slík útihús séu byggð í görðum eða við íbúðarhús.

Garðyrkjumenn í Róm ræktuðu plöntur, frá landvinningasvæðunum herforingjanna, í sólreytum og gróðurskálum. Í Pompei á Ítalíu hefur fundist ræktunarhús frá fyrstu öld eftir Krist. Þar voru múrsteinshillur sem plöntur í pottum stóðu á og leiðslur fyrir heitt loft í veggjum. Framhlið hússins var klædd með ljóshleypnum steinflögum.

Það var ekki fyrr en á tíma endurreisnarinnar og landafundanna miklu sem gróðurhús og laufskálar ná einhverri útbreiðslu. Ræktunarhús urðu tísku fyrirbrigði og stöðutákn meðal hina efna meiri. Mikill af nýjum og spennandi plöntum barst til Evrópu frá nýlendunum. Grasafræðingar þekktu ekki plönturnar og áttu fullt í fangi með að gefa þeim nafn og skrásetja. Fæstar þeirra þoldu evrópska veðráttu og efnaðir áhugamenn um gróður kepptust við að reisa gróðurhús á landareign sinni. Garðyrkjumenn prófuðu sig áfram og voru furðu fljótir að átta sig á sérþörfum hverrar tegundar fyrir sig.

Gróðurhús á hjólum

Fyrstu gróðurhúsin í Evrópu voru nær eingöngu ætluð til að verja appelsínutré sem voru mikið í tísku á sínum tíma. Trjánum var plantað í jörð en húsin á hjólum og keyrt yfir trén yfir vetrartímann. Seinna var farið að rækta trén í kerum eða stórum pottum og þau borinn í hús á haustin og aftur út að vori.

Fyrst þegar gler kom til sögunnar voru rúður litlar og aðeins hafðar á suðurhlið skálana en ekki leið á löngu þar til farið var að nota gler í þakið líka. Í fyrstu voru framfarir litlar í gerð gróðurhúsa en um miðja 19. öld voru tekin stór skref fram á við með tilkomu þynnra og sterkara glers.

Gróðurhús eða garðskálar nútímans eiga sér langa hefð, þótt saga þeirra hér á landi sé stutt. Björn Halldórsson í Sauðlauksdal er líklega allra fyrsti Íslendingurinn til að reisa gróðurskála hér á landi. Eggert Ólafsson skáld og mágur Björns kallaði húsið lystigarð ljúfra kála og samdi um það Listhúskvæði þar sem segir meðal annars

Laufa byggja skyldi skála,
skemmtiliga sniðka og mála,
í lystigarði ljúfra kála,
lítil skríkja var þar hjá,
– fagurt galaði fuglinn sá –
týrar þá við timbri rjála
á tólasmíða fundi.
– Listamaðurinn lengi þar við undi.

Gróðurskálar og byggingarefni

Hér á landi, þar sem er oft vindasamt og sumur stutt, er notagildi gróðurskála slíkt að ekki þarf að réttlæta byggingu þeirra. Það ætti að vera sjálfsagt að hanna gróðurskála við nýbyggingar og auðvelda ætti fólki að byggja skála við eldra húsnæði.

Best er að nota ál, plast eða timbur í burðargrindina. Í grunninn skal hafa járnbenta steypu sem þarf að ná niður fyrir frost. Framræsla verður að vera góð svo vatn safnist ekki fyrir í grunninum.Veggirnir þurfa að standa að minnsta kosti 10 til 15 sentímetra upp úr jörðinni og vera 10 til18 sentímetra þykkir. Ef um er að ræða timburgrind eru steyptar í grunninn járnstoðir sem halda þakinu uppi. Sé grindin úr áli er hún boltuð við grindina.

Í upphituðum skálum má draga verulega úr hitakostnaði með því að hafa veggi í borðhæð og einangra vel og gæta þess að einangra öll samskeyti. Gólf gróðurskálans þarf að vera sterkt og þola vel vatn, óhreinindi og upplitun af völdum sólarljóss. Gólfið er best að steypa eða helluleggja og æskilegt er að hafa niðurfall með vatnslás á hverja 10 fermetra. Einnig má notast við leirflísar, járnrimla eða vatnsvarið timbur. Gólfið þarf að vera þannig að hægt sé að bleyta það til að auka loftraka í þurrum veðrum. Ef rækta á plöntur á gólfinu er best að steypa í það ker. Kerin þurfa að vera vel einangruð og með niðurfalli. Þau eiga að vera um 60 sentímetra djúpt en lengd og breidd þess fer eftir stærð skálans. Einnig má steypa ker við háa grunnveggi og jafnvel hafa þau í stöllum.

Umhverfisþættir

Þættir sem stjórna loftslagið í skálanum eru hiti, raki, loftræsting, skygging og lýsing.
Gróðurskálum er oftast skipt í þrjár gerðir eftir hitastigi og þeim ræktunarmöguleikum sem skálinn býður upp á. Í köldum skálum, er engin hitalögn og hitastig ræðst af veðurfari. Loftslagið í skálanum líkist kaldtempruðu loftslagi Vestur Evrópu. Í svölum skálum er hitalögn sem nægir til að halda hitastigi ofan við frostmark yfir vetramánuðina. Hiti á vetrum er 1til 10 °C og ræðst að mestu af veðurfari. Í slíkum skálum líkist loftslagið heittempruðu loftslagi Suður Evrópu, við Miðjarðarhaf. Í heitum gróðurskálum er hitalögn sem heldur lofthita yfir 10 °C allt árið.

Jarðvegshiti þarf að vera stöðugur við 18°C, þannig að nauðsynlegt er að hafa hitalagnir í beðum og gólfi. Loftslag í heitum skálum líkist hitabeltisloftslagi við miðbaug.

Loftraki í íbúðum er oft of lágur til þess að plöntur þrífist vel og vanþrif í þeim má oft rekja til lágs loftraka. Til að halda rakastigi háu í gróðurskálum er nauðsynlegt að getað að lokaða þá frá öðrum vistarverum hússins með hurð. Heppilegur loftraki í gróðurskálum er 60 til 80%, hann má ekki fara niður fyrir 40%. Loftrakann má tempra með því að sprauta vatni á gólfin eða hafa bakka með rökum vikri eða möl í skálanum. Einnig er hægt að fá fullkomna tölvustýrða vatnsúðara til að stjórna rakastiginu. Gott er að láta plönturnar standa þétt því þá nýta þær vel rakann hver frá annarri.

Gróðurskálar þurfa að hafa opnanleg fög sem eru 30 til 40% af grunnfleti þeirra. Hægt er að fá sjálfvirkan gluggaopnara til að auðvelda loftræstingu. Einnig er gott að hafa viftu til að halda loftinu á hreyfingu. Það skal haft í huga að sé loftræsting góð er gróðurskálaloftslag bæði heilnæmt og frískandi.

Fari hitastigið í skálanum yfir 27°C vegna sólgeislunar verður að grípa til skyggingar til að koma í veg fyrir að plönturnar skemmist af völdum hitans. Til skygginga má nota akrýldúk, bambus- eða rimlagardínur og þeir sem lengst vilja ganga geta keypt ofinn spegildúk sem hleypir inn birtu en ekki hita og í köldum veðrum varnar hann hitaútgeislun.

Þegar sólin er lægst á lofti getur verið nauðsynlegt að grípa til lýsingar, þetta á aðallega við um heita skála, til að plönturnar geti ljóstillifað og haldið áfram að vaxa. Hægt er að fá sérstakar gróðurperur til lýsingar.

Einnig má ná fram skemmtilegum áhrifum með því að hafa lýsingu í garðinum og tengja þannig garðinn og skálann.

Plöntur og ræktun

Það eru einkum fimm þættir sem fólk þarf að huga að þegar fengist er við ræktun í gróðurskálum, jarðvegur, áburður, vökvun, sjúkdómar og staðsetning.


Mold er mjög breytileg að eðli og gerð, hægt að fá sendna mold, leirkennda mold og mýrarmold. Moldin getur verið þétt eða gljúp, súr eða basísk. Best er að nota góða pottamold og blanda hana að þriðja hluta með sandi. Einnig er nauðsynlegt að gæta vel að sýrustigi jarðvegsins. Hætt er við að mold í kerum og pottum verði of þétt í og loftlítil. Því er gott að setja grjót eða hraun í botninn, við það myndast loftrými milli steinanna og ræturnar geta andað. Gott er að skipta um mold á 4 til 5 ára fresti, jafnvel þótt hún sé stunginn upp og blönduð áburði á hverju ári.

Í gróðurskálum á að notast við fljótandi og lífræna áburðarlausn en ekki kornaðan áburð eins og utanhúss. Fljótandi áburður er auðleystari og skolast fyrr út og því minni hætta á að áburðarsölt safnist fyrir í moldinni og brenni ræturnar. Erfitt er að benda á einhverja eina tegund eða einn styrkleika af áburður sem hentar öllum plöntum. Hver planta hefur sína sérvisku og heilavænlegast er að eiga góða handbók til að fletta upp í.

Það á alltaf að vökva með volgu vatni, um 18°C og ekki mikið í einu. Þótt plöntur vilji hafa háan loftraka er ekki þar með sagt að þær vilji standa í blautum jarðvegi. Hver tegund þarf sína sérstöku vökvun og það getur verið verra að vökva of mikið en of lítið. Reglan er því lítið í einu en oft.

Loftslag í gróðurskálum er kjörið fyrir sjúkdóma og meindýr af öllu tagi og má því reikna með að þurfa að fást við slíkt frá upphafi. Flestir sjúkdómar berast í skálann með plöntunum og því verður að skoða hverja plöntu gaumgæfilega áður en hún er sett í skálann. Gott er að fylgjast vel með nývexti og ungum plöntum. Allra best er að beita fyrirbyggjandi aðgerðum, hreinlæti er nauðsynlegt svo og að fjarlægja fallin blóm og visnuð blöð. Græðlinga skal einungis taka af heilbrigðum plöntum og nota smitfría mold. Ef upp koma skordýraplágur skal beita lífrænum vörnum sé þess nokkur kostur.

Breytilegt er hvað hver tegund vill mikla birtu og það verður því að taka tillit til þess þegar plöntunum er valinn staður í skálanum. Plöntur með stór blöð þola yfirleitt skugga betur en plöntur með smá blöð. Kaktusar og mjólkurjurtir þurfa mikla sól en jurtir eins og rifblaðka kjósa skugga. Hæð plantna ræður einnig miklu um staðsetningu þeirra, háar plöntur eiga að vera innarlega í beðum en þær lægri fremst. Með þessu njóta lágu plönturnar sín betur og minni hætta er á að þær falli í skugga þeirra stærri.

Riðuþolinn sauðfjárstofn verður ræktaður
Fréttir 7. júlí 2022

Riðuþolinn sauðfjárstofn verður ræktaður

Staðfest er að samtals 128 gripir bera annaðhvort ARR-arfgerð, sem er alþjóðlega...

Bændur borguðu 412 krónur með hverju kílói af framleiddu nautakjöti árið 2021
Fréttir 7. júlí 2022

Bændur borguðu 412 krónur með hverju kílói af framleiddu nautakjöti árið 2021

Afurðatekjur af nautaeldi mæta ekki framleiðslukostnaði og hafa ekki gert síðast...

Sláturfélag Vopnfirðinga boðar verulegar afurðaverðshækkanir
Fréttir 27. júní 2022

Sláturfélag Vopnfirðinga boðar verulegar afurðaverðshækkanir

Sláturfélag Vopnfirðinga boðar umtalsverðar hækkanir á afurðaverði til sauðfjárb...

„Viðnámsþróttur þjóða byggir á öflugri innlendri matvælaframleiðslu“
Fréttir 14. júní 2022

„Viðnámsþróttur þjóða byggir á öflugri innlendri matvælaframleiðslu“

Stjórn Bændasamtakana telur skýrslu og tillögur Spretthóps, sem lagaðar voru fyr...

Spretthópur leggur til 2,5 milljarða króna stuðning
Fréttir 14. júní 2022

Spretthópur leggur til 2,5 milljarða króna stuðning

Spretthópur, sem matvælaráðherra skipaði vegna alvarlegrar stöðu í matvælaframle...

Mjólkurvörur frá Örnu til Bandaríkjanna
Fréttir 13. júní 2022

Mjólkurvörur frá Örnu til Bandaríkjanna

Nýlega skrifuðu forsvarsmenn Örnu í Bolungarvík og forsvars- menn Reykjavík...

Samdráttur í sölu á fræi
Fréttir 8. júní 2022

Samdráttur í sölu á fræi

Samkvæmt lauslegri könnun Bændablaðsins er búið að flytja inn rúm tvö tonn a...

Aðstaða bænda og fyrirtækja í landbúnaði á Íslandi er lakari en í öðrum ríkjum Evrópu
Fréttir 8. júní 2022

Aðstaða bænda og fyrirtækja í landbúnaði á Íslandi er lakari en í öðrum ríkjum Evrópu

Rúmlega tuttugu íslensk fyrirtæki sem tengjast landbúnaði og matvælaframleiðslu ...