Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 1 ára.
Hér er Gunnlaugur Bragason hjá Fjarðakaupum með þeim Valla og Kristni hjá Landnámseggjum. Nýstárlegar umbúðir með 7 eggjum sem verja eggin mjög vel. Þær passa mun betur í ísskáp og/eða t.d. í bakpoka.
Hér er Gunnlaugur Bragason hjá Fjarðakaupum með þeim Valla og Kristni hjá Landnámseggjum. Nýstárlegar umbúðir með 7 eggjum sem verja eggin mjög vel. Þær passa mun betur í ísskáp og/eða t.d. í bakpoka.
Mynd / Landnámsegg
Fréttir 14. febrúar 2020

Landnámseggin streyma frá Hrísey

Landnámsegg ehf. afhenti sín fyrstu egg í Fjarðakaup í vikunni en eggin eru frá landnáms­hænum í Hrísey. Umbúðirnar eru nýstárlegar þar sem sjö eggjum er pakkað saman í eina lengju.

„Við hjónin eigum hús í Hrísey en þar býr félagi minn Kristinn Árnason sem kom með þá hugmynd að vera með eggjabú eingöngu með landnámshænum og nýta húsnæði Svínaræktarfélagsins undir starfsemina.

Mér þótti þetta frábær hugmynd og vildi vera með. Frá þeim tíma höfum við verið að vinna í þessu verkefni og höfum fjárfest í góðu húsnæði fyrir eggjabúið. Við erum búnir að vera að gera gott útisvæði, setja upp fóðurlínu og sjálfvirka varpkassa svo eggin þurfi ekki neinn þvott. Við viljum hafa þetta eins náttúrulegt og hægt er. Fjölskyldur okkar hafa líka lagt mikla vinnu með okkur í að ná þessu öllu saman.

Það var svo verkefnið Brothættar byggðir sem var lykillinn að því að þetta var hægt,“ segir Valgeir Magnússon, annar eigenda Landnámseggja, um verkefnið.

Óvenjulegar pakkningar

Pakkningar eggjanna eru nokkuð óvenjulegar, þríhyrndar og rúma sjö egg. Eggin eru nú komin í sölu í Fjarðakaupum.

„Við köllum þessar umbúðir Langhús eftir húsakynnum forfeðra okkar. Fjarðakaup hefur fest kaup á nánast öllu sem við getum framleitt á næstunni svo við munum ekki geta annað öðrum verslunum fyrst um sinn. En eggin munu einnig fást á Akrueyri og að sjálfsögðu í versluninni Hrísey ásamt því að Verbúðin 66 í Hrísey verður með eggin á sínum matseðli í vor,“ segir Valli enn fremur.“

Já, það var merkileg stund þegar við sáum umbúðirnar komnar í búðina og með hinum eggjunum í kælinum. Nú er bara að sjá hvernig fólk tekur í þetta en við trúum því að fólk sé tilbúið núna árið 2020 að borga meira fyrir gæði og því ætti að vera pláss fyrir lítið eggjabú eins og okkur á markaðnum sem er að gera aðeins öðruvísi hluti,“ sagði Valgeir Magnússon hjá Landnámseggjum um þessa merkilegu stund.

„Nú erum við bara spennt að heyra hvernig fólki líkar varan. Við munum stækka búið smám saman næstu mánuðina og það er aldrei að vita nema við náum að selja víðar síðar,“ segir Valli svo til viðbótar um málið.

Matvælaframleiðsla alltaf heillað

„Þetta er mjög spennandi þar sem ég hef alltaf haft áhuga á að framleiða og sérstaklega matvæli. Ég var í sveit í sjö sumur sem krakki og unglingur svo ég hef alltaf haft áhuga á dýrahaldi og vinnu í kringum það.

Ég hef lengi haft mikinn áhuga á matvælum, matargerð og næringu. Einnig er sjálfbærni og hvernig við getum skilað af okkur betri heimi en við tókum við honum mér hugleikið. Þarna finnst mér við ná að sameina þetta allt ásamt því að byggja upp starfsemi í Hrísey sem er eyja sem þarf fjölbreyttari atvinnumöguleika en eru þar nú. Svo er bara að sjá hvernig þetta þróast en við höfum áhuga á að reyna með einhverjum hætti að tengja ferðatengda þjónustu við þetta í framtíðinni.

Kristinn er vanari í þessum geira en hann hefur unnið við dýrahald í tugi ára. Lengst af hjá Svína­ræktarfélaginu en er núna bústjóri í svínabúinu Hraukbæ í Kræklinga­hlíðinni meðfram því að vera bústjóri Landnámseggja,“ segir Valli.

Nammidagur 3 skipti í viku

„Hænurnar eru miklir karakterar og hanarnir líka. En við erum með hana með hænunum svo eggin eru frjó ef einhver vill prufa að setja þau í útungunarvél. Það er að vísu öruggara þegar líður nær vorinu þar sem landnámshaninn er frjórri eftir því sem daginn lengir á þessum árstíma. Þær hópast að okkur þegar við mætum með brauðafganga frá Kristjánsbakaríi 3 daga í viku á nammidögum. Þá setjast þær á öxlina á manni og æða í bakkana áður en maður nær að leggja þá frá sér.

Það er ótrúlegt hvað nammi­dagarnir hafa mikil áhrif en varpið eykst um ca 15–20% daginn eftir miðað við hefðbundinn dag. Þær eru líka margar mjög gæfar og vilja láta klappa sér og halda á sér. Ég hef komið í hænsnabú í fortíðinni og ég man ekki eftir svona gæfum hænum. Eggin eru svo talsvert fjölbreytt að lit og misstór. Við höfum samt gert tilraunir og það þarf ekki að hafa áhyggjur við bakstur heldur nýta uppskriftir eins og þær eru þó svo eggin séu aðeins minni,“ segir Valgeir að lokum um verkefnið.

Rauðgrönótt kvíga fæddist  á Syðri-Gróf 2 í Flóahreppi
Fréttir 17. maí 2021

Rauðgrönótt kvíga fæddist á Syðri-Gróf 2 í Flóahreppi

Nýlega kom í bæinn mjög falleg hvít kvíga á bænum Syðri-Gróf 2 í Flóahreppi þar ...

Framleiða á frumuvaka og önnur prótein fyrir frumuræktað kjöt
Fréttir 17. maí 2021

Framleiða á frumuvaka og önnur prótein fyrir frumuræktað kjöt

Umhverfisstofnun hefur samþykkt umsókn ORF Líftækni hf. um leyfi fyrir útiræktun...

Skorað á stjórnvöld að hefja strax vinnu við aðgerðaráætlun vegna lífrænnar ræktunar
Fréttir 17. maí 2021

Skorað á stjórnvöld að hefja strax vinnu við aðgerðaráætlun vegna lífrænnar ræktunar

Aðalfundur VOR (félags bænda í lífrænum búskap og fullvinnslu afurða) hélt aðalf...

Sveitahljómurinn ómar inn í helgina
Fréttir 14. maí 2021

Sveitahljómurinn ómar inn í helgina

Nýr Sveitahljómur er nú aðgengilegur í Hlöðunni, hlaðvarpi Bændablaðsins. Að þes...

Axel Sæland kjörinn formaður Sambands garðyrkjubænda
Fréttir 14. maí 2021

Axel Sæland kjörinn formaður Sambands garðyrkjubænda

Aðalfundur Sambands garðyrkjubænda fór fram í Þykkvabæ fyrr í dag og var Axel Sæ...

Landgræðslu- og landsáætlun í skógrækt
Fréttir 14. maí 2021

Landgræðslu- og landsáætlun í skógrækt

Drög að landgræðsluáætlun og lands­áætlun í skógrækt eru nú til kynningar á vefs...

Skeggrætt um tollamál – af hverju breyttist ostur í jurtaost í hafi?
Fréttir 12. maí 2021

Skeggrætt um tollamál – af hverju breyttist ostur í jurtaost í hafi?

Frá því á vormánuðum 2020 hafa hagsmunasamtök bænda og afurðastöðvar þeirra teki...

Kuldatíð setur mark sitt á sauðburðinn norðan heiða
Fréttir 12. maí 2021

Kuldatíð setur mark sitt á sauðburðinn norðan heiða

Sauðburður er víðast hvar kominn í gang og gengur eftir atvikum vel, að því er S...