Landbúnaður verði skilgreindur sem grundvallaratvinnuvegur
Margrét Ágústa Sigurðardóttir, framkvæmdastjóri Bændasamtaka Íslands, fagnar nýrri atvinnustefnu en leggur áherslu á mikilvægi þess að landbúnaður verði skilgreindur sem grundvallaratvinnuvegur í atvinnustefnunni. Ekki er minnst á landbúnað í atvinnustefnu stjórnvalda sem kynnt var í síðustu viku.
„Þetta er flott framtak og markmiðin háleit og góð,“ segir Margrét Ágústa. „Við styðjum þau að sjálfsögðu og fögnum þeim miðað við það sem fram hefur komið a.m.k., en á sama tíma leggjum við áherslu á mikilvægi þess að landbúnaður verði skilgreindur sem grundvallaratvinnuvegur í atvinnustefnunni. Í tímanna rás hefur landbúnaður verið ein af grunnstoðum byggðaþróunar og fæðuöryggis og er jafnframt mikilvæg auðlindagrein sem getur skilað aukinni verðmætasköpun og fjölgað störfum á landsbyggðinni. Það er einmitt það sem áformin snúast meðal annars um.“
Ekki var minnst á landbúnað í máli forsætisráðherra við kynningu þessarar vinnu að atvinnustefnu. Hver eru viðbrögð ykkar?
„Landbúnaður er ein af mikilvægustu atvinnugreinum á Íslandi, það er óumdeilt,“ segir Margrét Ágústa. „Ekki bara gegnir hann mikilvægu hlutverki í fæðu- og matvælaöryggi þjóðarinnar, heldur er hann einmitt oftar en ekki sá grunnur sem ýmis þjónusta og nýsköpun hvíla á í dreifðum byggðum og á landsbyggðinni allri og er þannig undirstaðan í lífsviðurværi og atvinnu. Ég get þannig ekki ímyndað mér annað en að stjórnvöld horfi til þessarar mikilvægu atvinnugreinar í atvinnustefnu sinni og það væri í raun fjarstæðukennt að halda öðru fram. Þrátt fyrir að ekki hafi verið minnst á landbúnað með beinum hætti í kynningunni þá efast ég ekki um að stjórnvöld séu fullmeðvituð um mikilvægi landbúnaðarins, rétt eins og annarra mikilvægra innviða í landinu.“
Landbúnaður grunnur atvinnulífs víða á landsbyggðinni
Hvað hefur íslenskur landbúnaður fram að færa þegar kemur að framtíðartækifærum í atvinnulífi landsmanna?
Með því að einfalda regluverk, liðka fyrir fjárfestingum og tryggja að kjör þeirra sem landbúnað stunda verði í sem nánasta samræmi við kjör annarra stétta og jafnframt gera landbúnaðinn að samkeppnishæfari atvinnugrein á alþjóðamarkaði – þá verða sóknarfærin í landbúnaði mikil. Við getum t.a.m. horft til „Einnar heilsu“ (e. One Health) sem felst í samþættri stefnu þar sem samþætt og þverfagleg nálgun sem hefur það að markmiði að viðhalda jafnvægi og hámarka heilsu fólks, dýra og vistkerfa á sjálfbæran hátt. Þetta er grundvallaratriði og ætti að vera undirtónn í hvers kyns stefnum stjórnvalda, ekki síst atvinnustefnu. Þar kemur matvælaöryggi inn og sérstaða okkar í sýklalyfjanotkun búfjár sem er með því lægsta sem um getur. Þannig gætu stjórnvöld gripið til aðgerða og átaks að efla enn frekar innlendan landbúnað og framleiðslu og auka markaðssetningu íslenskra matvæla erlendis í nafni matvælaöryggis og hreinna afurða og efla þannig útflutning með tilheyrandi samfélagslegum ábata. Ótvíræð tækifæri liggja til þess vegar að íslenskur landbúnaður verði vaxandi útflutningsgrein í takt við aukna eftirspurn á alþjóðamörkuðum eftir heilnæmum og loftslagsvænum matvælum. Sérstaða íslensks landbúnaðar er þar með eindæmum og sóknarfærin mörg. Að auki fellur landeldið vel að markmiðum stjórnvalda enda byggir búgreinin á því að á Íslandi séu kjörskilyrði til staðar vegna auðlinda okkar. Landeldið hefur alla burði til mikils og ótvíræðs vaxtar hér á landi skapi stjórnvöld á annað borð greininni skýran og hagstæðan ramma.
Þá hafa íslenskir bændur alla burði og viljann til að framleiða einar loftslagsvænustu afurðir í heimi án þess að fæðuöryggi sé ógnað eða afkomuöryggi bænda enda hefur íslenskur landbúnaður, þrátt fyrir áskoranir, sýnt mikinn árangur á sviði loftslagsmála og nýsköpunar. Bændur hafa sett sér loftslagsvegvísi þar sem aðgerðir eru byggðar á flokkun losunar í landbúnaði og tengdra lausna sem sannreyndar hafa verið, og jafnvel víðs vegar innleiddar, með tilheyrandi árangri.
Landbúnaður er grunnur atvinnulífs víða á landsbyggðinni og skapar störf sem ekki er unnt að flytja úr landi. Í stað þess að horfa eingöngu til nýrra atvinnugreina ætti atvinnustefna stjórnvalda að líta á landbúnað sem kjölfestuverkefni í sjálfu sér, sem heldur uppi byggðum og leysir úr læðingi krafta allra landshluta. Með því að tryggja einfalt, stöðugt og fyrirsjáanlegt rekstrarumhverfi, styðja við fjárfestingar og nýliðun yrði landbúnaður burðarstoð í því tíu ára vaxtarplani sem atvinnustefnan kveður á um.“
