Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 7 ára.
Oddný Steina Valsdóttir, formaður Landssamtaka sauðfjárbænda.
Oddný Steina Valsdóttir, formaður Landssamtaka sauðfjárbænda.
Mynd / HKr.
Fréttir 20. júlí 2017

Landbúnaðarráðherra veldur bændum vonbrigðum

Höfundur: Tjörvi Bjarnason

Frá því snemma í vor hafa fulltrúar Landssamtaka sauðfjárbænda og Bændasamtaka Íslands átt samtöl við Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur landbúnaðarráðherra og ráðuneyti hennar um erfiða stöðu sauðfjárræktarinnar í landinu. Að mati Oddnýjar Steinu Valsdóttur, formanns LS, blasa við fjárhagslegir erfiðleikar hjá mörgum bændum ef ekkert er að gert. Hún óttast að yngri bændur gefist upp og afleiðingar muni hafa varanleg áhrif á byggð víða um land, sérstaklega þar sem fábreytni er í atvinnulífi.

„Það dylst engum sem til þekkja að staða greinarinnar er alvarleg,“ segir Oddný Steina. Ástæðan er forsendubrestur er varðar útflutning á lambakjöti vegna viðskiptabanns í Rússlandi, hás gengis íslensku krónunnar og breytinga á lykilmörkuðum, einkum í Noregi og Bretlandi. Landbúnaðarráðherra hefur valdið bændum miklum vonbrigðum en í bréfi sem forsvarsmönnum bænda barst úr atvinnuvegaráðuneytinu í síðustu viku kemur fram að ekki sé svigrúm til að veita fjármagni í þær aðgerðir sem bændur telja nauðsynlegar.

„Þetta eru ytri aðstæður sem við bændur höfðum engin tök á að hafa áhrif á en skapast m.a. af efnahagsstjórn og stjórnvaldsákvörðunum. Útflutningstekjur hafa staðið undir um þriðjungi framleiðslu lambakjöts hérlendis um nokkurt árabil, þannig að umfangið er verulegt,“ segir Oddný Steina og bendir á að lambakjötsframleiðsla á Íslandi hafi verið samkeppnishæf á alþjóðamörkuðum þrátt fyrir norðlæga legu landsins og á margan hátt erfið skilyrði til búskapar.

Vandi sem afmarkast við útflutning

Á sama tíma og útflutningur á við ramman reip að draga eru jákvæðari teikn á lofti er varða innanlandssölu. Hún hefur glæðst á síðustu mánuðum og skýrar vísbendingar eru um að sú aukna áhersla á markaðsmál, samstarf við veitingahús og áhersla á vörumerkið „Icelandic Lamb“ hafi nú þegar skilað árangi. Innanlandssala á tímabilinu mars til maí á þessu ári var 4,6% meiri en á sama tíma í fyrra sem eru jákvæðar fréttir. „Heldur virðist vera að lifna yfir vöruþróun á þessum þjóðarrétti okkar Íslendinga og framsetning vörunnar að þokast í rétta átt þó þar megi og verði að gera miklu betur,“ segir Oddný Steina.

Hætta á byggðaröskun

Markmið viðræðna við ríkisvaldið hafa fyrst og fremst verið að koma í veg fyrir hrun í greininni með tilheyrandi byggðaröskun. „Í þessu samhengi er vert að hafa í huga að flestar vestrænar þjóðir hafa aðferðir til að takast á við markaðsbrest af þessu tagi. Sem dæmi má nefna að Bandaríkin kaupa upp vörur af markaði ef verð fellur. Til svipaðra aðgerða greip Evrópusambandið á síðastliðnu ári vegna erfiðrar stöðu landbúnaðar í sambandinu. Norðmenn hafa miðstýrt kerfi til að jafna sveiflur á mörkuðum og svo mætti áfram telja,“ segir Oddný Steina sem legur áherslu á að lambakjötsframleiðsla hérlendis búi ekki við neinar hömlur og tollvernd á kindakjöti sé lág.

„Framleiðendur hafa því undanfarin ár staðist samkeppni án verndar eða stýringar, þó er ekkert innbyggt í okkar kerfi til að takast á við markaðsbrest af þessu tagi og því þarf að grípa til sértækra aðgerða.“

Bændur hafa lagt fram tillögur

Forystumenn bænda, ráðherra og starfsmenn atvinnuvegaráðuneytisins hafa fundað reglulega á síðustu mánuðum eins og áður segir. Þar hafa ýmsar leiðir verið ræddar til þess að takast á við vandann. Þá hafa sláturleyfishafar gert grein fyrir stöðunni út frá sínum bæjardyrum.

„Ráðherra hefur því verið gerð ítarleg grein fyrir stöðu mála og talsmenn bænda á öllum fundum lagt fram tillögur sem eru til þess fallnar að aðlaga greinina að núverandi stöðu. Ef ekkert er að gert blasa við fjárhagserfiðleikar hjá mörgum bændum,“ segir Oddný Steina.

Í apríl síðastliðnum lögðu bændur fram minnisblað með ýmsum tillögum sem samþykktar voru á aðalfundi Landssamtaka sauðfjárbænda skömmu áður. Þar var m.a. farið fram á að lögð yrði á útflutningsskylda og fleiri tillögur lagðar fram til að mæta breyttum markaðsaðstæðum ásamt aðgerðum sem miðuðu að því að fækka fé. Hugmyndir um að bjóða bændum upp á að taka að sér landbótaverkefni til kolefnisbindingar voru einnig lagðar fram enda ljóst að það félli að stefnu ríkisstjórnarinnar og myndi styðja greinina til að kolefnisjafna sína framleiðslu sem er yfirlýst stefna samtaka sauðfjárbænda. Þá voru settar fram tillögur til að greiða fyrir endurfjármögnun yngri bænda.

Ráðherra hafnaði útflutningsskyldu

„Ráðherra var ekki tilbúinn til að leggja á útflutningsskyldu eða leggja fram aðrar bitastæðar aðgerðir til að bregðast við bráðavanda greinarinnar sem skapaðist af sveiflum á mörkuðum. Lagði Markaðsráð kindakjöts í kjölfarið fram undanþágubeiðni til Samkeppniseftirlitsins, þar sem óskað var undanþágu frá samkeppnislögum til að vinna samræmt að útflutningi lambakjöts. Undanþágubeiðnin hafði það að markmiði að vinna á markvissari og skilvirkari hátt að útflutningi á lambakjöti,“ segir Oddný.

Ekki liggur fyrir endanlegt svar frá Samkeppniseftirlitinu en nýlega óskaði stofnunin eftir frekari rökstuðningi af hendi bænda.

Bændur hafa reynt að nálgast sjónarmið ráðherra

Í kjölfarið á aprílviðræðunum við ráðherra áttu sér stað fleiri fundir, samtöl og tölvupósts­samskipti að sögn Oddnýjar Steinu sem miðuðu öll að því að ná niðurstöðu um aðgerðir. 

„Talsmenn bænda hafa í öllu ferlinu reynt að nálgast sjónarmið ráðherra um aðgerðir, sem fólust helst í því að leggja til breytingar og nýjar leiðir. Ekki virtist þó skýr sýn á það hvert þær breytingarnar eða aðgerðir ættu að leiða greinina, hvað þá að ráðherra hefði tillögur um hvernig unnið skyldi að margumræddum breytingum.“

Síðasti fundur með ráðherra, aðstoðarmönnum, ráðuneytisstjóra, formanni sauðfjárbænda og Bændasamtakanna var haldinn 3. júlí sl. Þá lögðu fulltrúar bænda fram minnisblað með tölusettum tillögum. Þær miðuðu að því að leggja til aðgerðir til að draga úr sveiflum á mörkuðum, m.a. með því að fá leyfi Samkeppniseftirlitsins til handa sláturleyfishöfum til þess að vinna saman að sölu og markaðssetningu afurða erlendis.

Þá voru lagðar til aðgerðir til að draga úr framleiðslu, m.a. með því að aðstoða þá bændur sem vilja hætta og útvega 200 milljón króna framlag til að fækka ám um a.m.k. 20.000 til þess að draga þannig úr framleiðslu.

Einnig var lagt til að reglur um innlausn á greiðslumarki verði endurskoðaðar fyrir lok ársins 2017 í því skyni að auðvelda innlausnina fyrir þá sem kjósa þá leið. Líkt og í fyrri tillögum var lagt til að sauðfjárbændum verði gert kleift að taka að sér verkefni á sviði kolefnisbindingar svo sem skógræktar og landgræðslu.

Undirbúum varanlegar kerfisbreytingar

Sem aðgerð til breytinga lögðu bændur til að ríkið útvegaði sérstakt 100 m. kr. framlag sem verði ráðstafað í þágu nýsköpunar í sauðfjárrækt, s.s. vöruþróunar, heimavinnslu og markaðssetningar beint til neytenda. Hagræðingaraðgerðir fælust í því að leita frekari leiða til að þróa sauðfjárframleiðsluna og gera ítarlega úttekt á ferlinu frá bónda til neytenda. Þar væri horft til hagkvæmni, umhverfisfótspors, vörugæða, dýravelferðar og hagsmuna neytenda og bænda. Niðurstöður verði grundvöllur viðræðna milli stjórnvalda, bænda og sláturleyfishafa um varanlegar kerfisbreytingar sem ætlað er að gera greinina hæfari til að takast á við breytt alþjóðlegt samkeppnisumhverfi og auknar kröfur með hag íslenskra neytenda og bænda fyrir augum.

Aðgerðir voru jafnframt lagðar til vegna skuldamála sem höfðu það markmið að forða bændum frá fjárhagserfiðleikum eða brottfalli yngri bænda úr greininni. Lagt var til að Byggðastofnun kannaði þörf á endurfjármögnun eða lengingu lána skuldsettra bænda sem hafa nýlega hafið sauðfjárbúskap. Stofnuninni yrði falið að meta stöðuna, gera tillögur að aðgerðum og kostnaðarmeta þær.

Annað hljóð komið í strokkinn

Að sögn Oddnýjar Steinu tók ráðherra vel í aðgerðarplan bænda á fyrrgreindum fundi sem haldinn var 3. júlí.

„Það var ekki annað að skilja en að hún ætlaði að vinna að aðgerðum allra liða minnisblaðsins. Hún bað okkur m.a. að setja fram mælanleg markmið varðandi suma liði og að taka til samandreginn rökstuðning fyrir mikilvægi þess að fara í aðgerðirnar. Sem við og gerðum og sendum ráðherra og aðstoðarmönnum umbeðnar viðbætur í fyrstu viku júlímánaðar,“ segir Oddný Steina.

Skellurinn kom síðan þegar svarbréf barst úr ráðuneytinu 11. júlí síðastliðinn. Þar koma fram kurteislegar þakkir fyrir erindið og að ráðuneytið hafi skilning á erfiðri stöðu framleiðenda sauðfjárafurða. Ráðherra sé tilbúinn til þess að ræða við bændur um öll möguleg ráð innan þess ramma sem núgildandi búvörusamningar setja. Um sérstaka aukafjárveitingu segja ráðamenn að fjárhagsrammi málaflokksins, þ.e. landbúnaðarins, sé fullnýttur samkvæmt fjármála­áætlun og fjárlögum 2017. Jafnframt er það sagt í svarbréfi ráðherra að það megi efast um að þær aðgerðir sem lagðar eru til nái tilætluðum árangri.

„Það verður að teljast algjörlega óskiljanlegt hvernig það gat tekið ráðherra nærri fjóra mánuði að komast að þeirri niðurstöðu að fjárhagsrammi málaflokksins væri fullnýttur. Það voru lögð fram mælanleg markmið með aðgerðum til fækkunar fjár í framhaldi af okkar síðasta fundi með ráðherra, eins og ráðherra óskaði sérstaklega eftir, þó látið sé liggja að öðru,“ segir Oddný Steina. Þá má einnig lesa úr bréfi ráðherra að umgjörð Framleiðnisjóðs landbúnaðarins sé ekki nægjanlega gagnsæ eða skilvirk. Ráðherra bendir jafnframt á að það sé ekki sýnt að frekari fjárframlög til markaðsmála skili auknum árangri. Ráðuneytið sé hins vegar tilbúið að skoða tilfærslu fjármuna innan liða sauðfjársamningsins og leita leiða til að efla nýsköpunarumhverfi landbúnaðarins. Að lokum er ráðuneytið reiðubúið að leggja sín lóð á vogarskálarnar til þess að liðka fyrir um aðgang að Kínamarkaði eftir þeim leiðum sem ráðuneytinu eru færar.

Alvarlegt að ráðherra skuli draga bændur á svörum í 4 mánuði

„Það eru mikil vonbrigði að hið opinbera virðist ætla að bregðast algjörlega við þessar fordæmalausu aðstæður. Útflutningur hefur staðið undir tekjum vegna sauðfjárafurða á þriðja hverju sauðfjárbúi í landinu eða á nærri fimmta hverju lögbýli sem er í ábúð en það er haldið sauðfé og lagðar inn afurðir frá meira en helmingi sveitabæja í byggð. Þó svörin valdi vonbrigðum þá er hins vegar óþolandi og í raun mjög alvarlegt að ráðherra skuli draga bændur á svörum, í fjóra mánuði, og leggja til grútmáttlausar aðgerðir sem eru á engan hátt fallnar til að takast á við þann vanda sem við blasir. Þennan tíma hefði mátt nýta svo miklu, miklu betur,“ segir Oddný Steina Valsdóttir, formaður Landssamtaka sauðfjárbænda.

Minnisblað LS og BÍ - pdf

Svarbréf ráðherra - pdf

Skógarfura í Varmahlíð föngulegust
Fréttir 4. október 2024

Skógarfura í Varmahlíð föngulegust

Skógræktarfélag Íslands hefur valið skógarfuru í Varmahlíð tré ársins 2024.

Þrír forstjórar skipaðir fyrir nýjar ríkisstofnanir
Fréttir 4. október 2024

Þrír forstjórar skipaðir fyrir nýjar ríkisstofnanir

Nýlega voru skipaði þrír forstjórar fyrir nýjar ríkisstofnanir sem urðu til með ...

Eftirlíking af hálfri kú
Fréttir 4. október 2024

Eftirlíking af hálfri kú

Nautastöð Bændasamtaka Íslands tók á dögunum í notkun eftirlíkingu af kú sem er ...

Gagnrýna nýjar reglur um hollustuhætti
Fréttir 3. október 2024

Gagnrýna nýjar reglur um hollustuhætti

Heilbrigðisnefndir kringum landið hafa gagnrýnt skort á kynningu á nýrri regluge...

Aðgerðaáætlun gefin út
Fréttir 3. október 2024

Aðgerðaáætlun gefin út

Matvælaráðherra, Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, hefur gefið út aðgerðaáætlun fyrir...

Grasrótin gaumgæfir atvinnulíf og nýsköpun
Fréttir 3. október 2024

Grasrótin gaumgæfir atvinnulíf og nýsköpun

Verkefnið Vatnaskil á Austurlandi miðar að því að efla nýsköpun og stuðla að fjö...

Áburðarverkefni í uppnámi
Fréttir 3. október 2024

Áburðarverkefni í uppnámi

Áburðarverkefni í Syðra-Holti í Svarfaðardal, sem gengur út á moltugerð úr nærsa...

Aukinn innflutningur á lægri tollum
Fréttir 2. október 2024

Aukinn innflutningur á lægri tollum

Ekki er hægt að fá uppgefna þá aðila sem standa að baki innflutningi á landbúnað...