Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 3 ára.
Kjötsúpa með árstíðargrænmeti
Matarkrókurinn 13. október 2022

Kjötsúpa með árstíðargrænmeti

Höfundur: Hafliði og Halldór

Íslenska kjötsúpan er í grunninn alltaf eins en samt einhvern veginn aldrei eins.

Allir eiga sína uppáhaldskjötsúpu og hefðirnar, uppskriftirnar og leynihráefnin leynast í hverju eldhúsi. Enda er hin eina rétta uppskrift að kjötsúpu til á hverju einasta heimili. Skoðanaskipti á kaffistofum og í heitum pottum sundlauganna um hina réttu uppskrift ná hámarki nú að hausti þegar sláturtíð og uppskera íslenska grænmetisins mætast í ljúffengri og nærandi kjötsúpu, sem færir okkur yl í kroppinn og ekki síður sálina.

Íslensk kjötsúpa
Haustsúpur og pottréttir

Næringarríkar súpur og pottrétti með feitu kjöti á beini og haustgrænmeti má víða finna og kjötsúpan íslenska á sér marga ættingja þegar við rýnum í ættartréð. Þessir réttir eiga það sameiginlegt að þurfa hægeldun og þolinmæði við eldamennskuna og eiga sinn uppruna í sveitum viðkomandi landa.

Pot au feu

Frægastur þeirra er líklegast franski rétturinn pot au feu sem samanstendur af feitu nautakjöti á beini, gjarnan því ódýrasta sem er í boði hverju sinni, og því grænmeti sem Frakkar tengja helst haustinu. Gulrótum, næpum, steinseljurót, sellerí og lauk auk kryddjurta. Stundum er hvítkáli og blaðlauk einnig bætt við.

Pot au feu er ýmist borin fram á flötum diski með sterku Dijon sinnepi og piparrótarsósu, eða sem súpa á líkan máta og við þekkjum með kjötsúpuna okkar.

Irish Lamb Stew

Frændur okkar Írar eiga vel þekktan lambakjötsrétt. Irish Lamb Stew sem, eins og kjötsúpan, á uppruna sinn í fáum og ódýrum hráefnum sem voru flestum aðgengileg.

Með tímanum og batnandi efnahag Íra hefur rétturinn breyst töluvert og auk lambsins, rótargrænmetis, kartaflna og lauks er nú algengt að hann innihaldi einnig beikon, hvítlauk og hvítvín og að kjötið sé brúnað áður en rétturinn er settur yfir til suðu.

Fårikål

Frændur okkar úr hinni ættinni, Norðmenn, halda mikið upp á réttinn fårikål sem líklega er einfaldasti lambaréttur í heimi, gerður úr súpukjöti úr ýmist lamba- eða ærkjöti og hvítkáli sem er raðað lagskipt í steikarpott, vatni bætt við og hægeldað í ofni borinn fram með soðnum kartöflum. Fårikål var valið þjóðarréttur Norðmanna í kosningu fyrir sléttum 50 árum og varð aftur fyrir valinu í sams konar kosningu 2014. Rétt eins og Íslendingar halda sinn kjötsúpudag fyrsta vetrardag ár hvert, halda Norðmenn Fårikål- daginn hátíðlegan síðasta fimmtudag í september.

Nýtum árstíðirnar

Við hvetjum íslenska neytendur nú sem fyrr til að nýta árstíðirnar sem best og gefa þeim afurðum sem fylgja árstíðum gaum. Haustið á Íslandi er kjörinn tími fyrir kjötsúpur af ýmsu tagi þegar allt grænmetið er í árstíð og ferskt nýslátrað lambakjöt fæst í verslunum. Í uppskriftinni sem fylgir eru íslenskt grænmeti, sellerí, nýjar kartöflur, gulrætur, toppkál, grænkál og perlubygg, en að þessu sinni sleppum við rófunum. Við leikum okkur reglulega með uppskriftir að kjötsúpunni þó að grunnurinn sé yfirleitt nokkurn veginn eins, en það er að okkar mati mun betra að nota ríkulega af fersku grænmeti heldur en að notast við súpujurtir. En súpujurtir notum við samt stundum, allt eftir efnum og aðstæðum hverju sinni.

Á þessum árstíma er flest íslenskt útiræktað grænmeti enn til í verslunum og við nýtum þann lúxus til fulls á meðan.

Kjötsúpa með árstíðargrænmeti
  • 1 kg súpukjöt
  • 2,5 l vatn
  • 50 g perlubygg
  • 4 stk. nýjar kartöflur
  • 6 stk. gulrætur
  • 1/2 haus toppkál
  • 1 laukur
  • 1⁄2 blaðlaukur
  • 3 stönglar sellerí
  • 1 hvítlauksrif
  • 2 blöð grænkál
  • Íslenskt sjávarsalt
  • Pipar

Byrjið á að skola lambakjötið vel og nuddið af beinasag sem stundum er fast við, setjið síðan í rúman pott og hellið vatninu yfir, stillið á miðlungshita og bíðið eftir suðu.

Á meðan að suðan er að koma upp er grænmetið skorið, skerið nýjar kartöflur og gulrætur í hæfilega munnbita. Pillið blöðin af selleríinu og saxið í fína strimla og geymið til hliðar í skál. Skerið sellerístönglana svo í grófa bita. Saxið hvítlauk fínt og lauk, blaðlauk, grænkál og toppkál í grófa bita.
Þegar suðan er komin upp og hefur soðið í nokkrar mínútur, fleytið þá froðuna sem kemur á yfirborðið af. Saltið og sjóðið í 20 mínútur og bætið við kartöflum, perlubyggi, hvítlauk, lauk, sellerístönglum og gulrótum. Sjóðið í 30 mín.

Bætið grænkáli, toppkáli og blaðlauk við og sjóðið í 10 mínútur þar til grænmetið er eldað í gegn. Smakkið súpuna til með salti og pipar og stráið í lokin selleríblöðum yfir áður en þið berið súpuna fram.

Prentaðu þessa uppskrift.

Kolefnisspor íslenskra matvæla á pari við Evrópu
Fréttir 11. desember 2025

Kolefnisspor íslenskra matvæla á pari við Evrópu

Ný rannsókn Matís sýnir að kolefnisspor helstu íslenskra matvæla – mjólkur, kjöt...

Þörungakjarni með mörg hlutverk
Fréttir 11. desember 2025

Þörungakjarni með mörg hlutverk

Undirrituð hefur verið formleg viljayfirlýsing um stofnun Þörungakjarna á Akrane...

Húsaeiningar frá Noregi
Fréttir 9. desember 2025

Húsaeiningar frá Noregi

Nýlega komu um tvö þúsund fermetrar af svonefndum „Modulum“, sem eru forsmíðaðar...

Unnið að friðun sex svæða á landsbyggðinni
Fréttir 9. desember 2025

Unnið að friðun sex svæða á landsbyggðinni

Alþingi hefur samþykkt framkvæmdaáætlun náttúruminjaskrár til ársins 2029. Um tí...

Gervigreind í Grímsnesi
Fréttir 9. desember 2025

Gervigreind í Grímsnesi

Grímsnes- og Grafningshreppur tekur nú þátt í þróunarverkefni í samstarfi við up...

Jarðakaup frumkvöðla á landsbyggðinni
Fréttir 9. desember 2025

Jarðakaup frumkvöðla á landsbyggðinni

Þingsályktunartillaga um nýtt fyrirkomulag jarðakaupa frumkvöðla á landsbyggðinn...

Þurfum að viðhalda sérstöðu og forskoti
Fréttir 8. desember 2025

Þurfum að viðhalda sérstöðu og forskoti

Niðurstöðu COP30 sem fram fór í Brasilíu í nóvember hefur verið lýst sem lægsta ...

Fituúrgangur til framleiðslu á hreinsivörum
Fréttir 8. desember 2025

Fituúrgangur til framleiðslu á hreinsivörum

Nýsköpunarfyrirtækið Gefn sérhæfir sig í framleiðslu á umhverfisvænum bílahreins...