Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 7 ára.
Kinkaku ji – Gullna hofið í Kyoto
Á faglegum nótum 17. maí 2016

Kinkaku ji – Gullna hofið í Kyoto

Höfundur: Vilmundur Hansen

Kyoto var höfuðborg Japans frá 794 til 1868, tæpar ellefu aldir. Í borginni eru margir fallegir garðar og hof. Sautján hofanna eru á heimsminjaskrá UNESCO. Frægast þeirra er Kinkaku  ji, eða Gullna hofið.

Opinbert nafn Kinkaku ji hofsins er Rokuno ji sem þýðir hofið í dádýragarðinum og er það helgað zen-búddisma. Hofið er staðsett í norðvestur hluta Kyoto í sunnanverðri hvilft fjallsins Kinugsa. Lágar hlíðar umliggja hofið á þrjá vegu og eru þær grónar sígrænum barrtrjám og haustrauðum lauftrjám.

Þegar gengið er í garðinn í átt að hofinu er farið um trjágöng sem skyggja á útsýnið. Skyndilega opnast göngin og hofið blasir við handan lítils stöðuvatns og speglar í því fullkomna harmóníu milli himins og jarðar í gullinni dýrð.

Umhverfis hofið er garður sem er ekki síður áhugaverður en hofið sjálft. Göngustígarnir í garðinum eru hannaðir þannig að farið er í hring og komið út á sama stað og gengið er inn í hann. Í garðinum og tíu litlum eyjum í stöðuvatninu umhverfis hofið er mikið um tré, meðal annars kirsuberjatré sem blómstra í apríl og furur sem búið er að, eða enn er verið, móta í anda bonsai-trjáa.

Bruni, geðklofi og harakírí

Hof á þessum stað var upphaflega byggt á árunum 1358 til 1408 af fyrrum stríðsherra, shogun, sem gerðist munkur rétt fyrir fertugt og erfingjum hans. Hofbyggingarnar í dádýragarðinum hafa oft verið brenndar til grunna í gegnum aldirnar af andstæðingum munkanna og stríðsherrum sem barist hafa um völdin í Kyoto.

Snemma í júlí 1950 kveikti 22 ára gamall munkur í hofinu í dádýragarðinum með þeim afleiðingum að það brann til grunna. Eftir brunann flýði ungmunkurinn til fjalla og reyndi að fyrirfara sér en mistókst og var handtekinn. Munkurinn var nokkur ár í fangelsi en sleppt vegna alvarlegs geðklofa. Hann lést skömmu síðar.

Japanski rithöfundurinn Yukio Mishima skrifaði bók um atburðinn sem nefnist á ensku The Temple of the Golden Pavilinon. Mishima er einnig höfundur bókarinnar Sjóarinn sem hafið hafnaði og kom út í íslenskri þýðingu árið 1974. Yukio Mishima flýtti sjálfur fyrir sér, með harakírí, árið 1970 eftir misheppnað valdarán í Japan. Hann var í hópi uppreisnarmanna sem vildu endurreisa japanska her- og keisaraveldið til fyrri dýrðar.

Klætt gulli

Gullna hofið, eins og það er í dag, var byggt árið 1955 og eftirmynd þess sem munkurinn brenndi niður fimm árum áður. Hofið er á þremur hæðum og 12,5 metrar á hæð. Tvær efri hæðirnar eru klæddar gullþynnum og þakið pýramídalagað. Hver hæð er í ólíkum stíl sem kallast shinden, samúræ og zen. Sagan segir að inni í hofinu sé geymt duftker sem inniheldur ösku Búdda og það hafi varðveist óskemmt alla bruna hofsins til þess.

Nafnið Kunkaku vísar til gullklæðningarinnar og gullið til hreinleika líkamans og jákvæðra hugsana og tilfinninga gagnvart dauðanum. Gylling hofsins var endurnýjuð árið 1987 þar sem hún var víða farin að flagna.

Trúarlegt vatn og fimmta skref hugljómunar

Að innan, sem almenningur hefur ekki aðgang að, er fyrsta hæðin innréttuð eins og íverustaður aðalsmanns á 11. öld í Japan. Rýmið er opið og með færanlegum veggjum sem hægt er að stjórna birtunni með. Á fyrstu hæðinni er hægt að ganga út á pall sem teygir sig út á vatnið á þremur hliðum og gefa koi, skrautfiskunum, sem þar synda.

Fyrsta hæðin er kölluð Hosiu-in sem gróflega má þýða sem trúarlegt vatn og vísar til tilgangsleysis jarðneskra langana.

Önnur hæðin er innréttuð í mínímalískum anda sem hæfði japönskum stríðsherra á miðöldum með rennihurðum og hlerum til að byrgja gluggana. Á annarri hæðinni er altari þar sem minjar Búdda eru geymdar og svalir allt í kringum bygginguna. Hæðin kallast Cho-on-do eða Hljóð sjávar og vísar til þess að kenning sannleikans heyrist víða.

Þriðja hæðin er í zen-stíl og ambíiskum eða hljóðlátum trúaranda. Hæðin kallast Kykkyo-do og vísar til fimm síðustu skrefanna í átt að hugljómun.

Umhverfi hofsins

Í þeim hluta garðsins sem almenningur hefur aðgang að er gott útsýni að hofinu frá mörgum sjónarhornum. Meðfram göngustígunum sem liggja að hluta meðfram vatninu að hofinu og síðan upp í hæð, eru auk gróðurs lágir klettar, steinagróður, litlir fossar, uppsprettur og lækir með bogalaga trébrúm. Auk dreifðra bygginga starfsmanna, munka og nunna við hofið, tehúss og lítillar minjagripaverslunar.
Besta leiðin til að komast að hofinu er að taka strætisvagn 205 frá aðallestarstöðinni í Kyoto á Kinkakuji-michi stoppistöðina. Gullna hofið er handan við hornið.

Ævintýralegt ferðalag fjallkóngsins
Fréttir 22. september 2023

Ævintýralegt ferðalag fjallkóngsins

Heimildamyndin Konungur fjallanna var frumsýnd 12. september í Bíóhúsinu á Selfo...

Sauðfjárafurðir af sjálfbæru beitilandi
Fréttir 22. september 2023

Sauðfjárafurðir af sjálfbæru beitilandi

Nú í haust verða íslenskar sauðfjárafurðir af vel grónu og sjálfbæru beitilandi ...

Fé fækkað um 3.500 á undanförnum árum
Fréttir 21. september 2023

Fé fækkað um 3.500 á undanförnum árum

Laugardaginn 2. september var réttað í Ljárskógarétt í Dölum, rétt norðan Búðard...

Landbúnaður í fjárlögum  ársins 2024
Fréttir 21. september 2023

Landbúnaður í fjárlögum ársins 2024

Í síðustu viku kynnti Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra fjárlagafrumvarp sitt...

Garðyrkjubændur í áfalli
Fréttir 21. september 2023

Garðyrkjubændur í áfalli

Einu landbúnaðartengdu verk­efnin í fjárlögum ríkisins fyrir árið 2024 sem fá au...

Varnarlínur breytast
Fréttir 21. september 2023

Varnarlínur breytast

Með nýjum tólum er líklegt að áherslan á varnarlínur og niðurskurð minnki í bará...

Alls staðar fækkun sláturlamba
Fréttir 21. september 2023

Alls staðar fækkun sláturlamba

Sláturtíð er komin á fullt og kemur fé vænt af fjalli. Eins og er starfa öll slá...

Nýr landnemi úr svepparíkinu
Fréttir 20. september 2023

Nýr landnemi úr svepparíkinu

Sveppur af ættkvíslinni Rhizopogon fannst nýlega á Íslandi en hann hefur ekki ve...