Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 6 ára.
Jarðhnetur eru baunir
Á faglegum nótum 26. janúar 2018

Jarðhnetur eru baunir

Höfundur: Vilmundur Hansen

Jarðhnetur leyna grasafræðilegum uppruna sínum vel með því að stinga aldinbelgjunum í sandinn. Það sem almennt er kallað jarðhnetur eru ekki hnetur heldur baunir sem þroskast neðanjarðar.

Áætluð heimsframleiðsla á jarðhnetum er um 45 milljón tonn. Kínverjar framleiða allra þjóða mest af þeim, eða rúmlega 16,5 milljón tonn. Indland er í öðru sæti þegar kemur að framleiðslu jarðhneta í heiminum, með tæp 7,2 milljón tonn. Nígería er í þriðja sæti með rúm 3,6 milljón tonn og Bandaríki Norður-Ameríku í því fjórða með framleiðslu upp á rúmlega 2,4 milljón tonn. Í fimmta til tíunda sæti eru Súdan, Indónesía, Myanmar, sem áður hét Búrma, Senegal, Argentína og Víetnam sem framleiða frá tæpum 1,4 milljónum tonna niður í rúm 400 þúsund tonn.

Stærstu útflytjendur jarðhneta í heiminum eru Kína, Indland, Argentína og Bandaríkin en stærstu innflytjendurnir eru Evrópusambandið sem heild, Mexíkó, Indónesía og Rússland.

Áætluð heimsframleiðsla á jarðhnetum er um 45 milljón tonn.

Á vef Hagstofu Íslands er innflutningur á jarðhnetum og jarðhnetuafurðir settur undir nokkur tollnúmer. Samkvæmt flokkunum var flutt inn árið 2016 undir heitinu jarðhnetur til ræktunar 16 kíló, 89 kíló eru skráð sem jarðhnetur í hýði og afhýddar jarðhnetur tæp 6,9 tonn. Jarðhnetur, unnar eða varðar skemmdum, sykraðar o.þ.h. rúm 201 tonn og rúm 153 tonn sem hnetusmjör. Hrá jarðhnetuolía, til matvælaframleiðslu tæp 2,3 tonn, önnur hrá jarðhnetuolía 47 kíló, önnur jarðhnetuolía til matvælaframleiðslu 310 kíló og önnur jarðhnetuolía 624 kíló.

Sem alls gera um 360 tonn af jarðhnetum og jarðhnetuafurðum.

Í einum flokknum er jarðhnetum haldið saman með öðrum hnetum og fræjum og því ógerlegt að greina magn þeirra frá öðrum vörum í tollflokknum. Auk þess sem jarðhnetur er að finna í margs konar sælgæti eins og til dæmis Snickers súkkulaði. Innflutningur á jarðhnetum er því talsvert meiri en tölur Hagstofunnar gefa til kynna.

Ættkvíslin Arachis

Um 70 tegundir blómstrandi plantna tilheyra ættkvíslinni Arachis og allar eiga þær uppruna sinn að rekja til Suður-Ameríku. Nokkrar tegundir innan ættkvíslarinnar eru nýttar til manneldis í Suður-Ameríku en enginn á heimsvísu í viðlíka magni og jarðhnetur.

Talið er að jarðhnetur hafi orðið til við víxlfrjóvgun A. duarnensis og A. ipaensis, sem báðar eru villtar tegundir. Að öllu jöfnu mynda þessar tegundir ekki frjó fræ saman en talið er að fyrir tilviljun hafi það gerst að minnsta kosti einu sinni. Plantan sem upp óx af þeirri blöndu kallast A. monticola og eru jarðhnetur A. hypagaea ræktunarafbrigði hennar. Ólíkt náttúrulegum ættingjum sínum eru jarðhnetuplöntur þéttar í sér og runnalaga og mynda stór aldin.

Blómin gul með rauðu æðamynstri og tveir til fjórir sentímetrar að breidd og blöðin líkjast smára.

Elstu minjar um fræbelg sem talinn er vera af ræktaðri jarðhnetu er aldursgreindur frá því 5.600 árum fyrir Krists burð og er talinn vera af yrki á fyrstu stigum ræktunar.

Baun en ekki hneta

Hnetuhluti heitisins jarðhneta er í raun rangnefni þar sem jarðhnetur eru ekki hnetur. Plantan er af ertublómaætt og belgjurtir og grasafræðilega er aldinið baun eða erta og ætti því að kallast jarðbaun eða jarðerta. Þrátt fyrir að heitið jarðhneta verði notað hér er plantan skyldari lúpínu og valhnetu.

Hnetuhluti heitisins jarðhneta er í raun rangnefni þar sem jarðhnetur eru ekki hnetur. Plantan er af ertublómaætt og belgjurtir og grasafræðilega er aldinið baun eða erta og ætti því að kallast jarðbaun eða jarðerta.

Jurtkennd, sjálffrjóvgandi og einær planta sem er milli 30 og 50 sentímetrar að hæð. Laufblöðin gagnstæð, fjöðruð og með fjórum smáblöðum sem eru einn til sjö sentímetrar að lengd og einn til þrír að breidd.

Blöð jarðhneta og margra belgjurta loka sér þegar fer að skyggja líkt og plantan fari að sofa. Minna á blöð smára. Blómin gul með rauðu æðamynstri og tveir til fjórir sentímetrar að breidd. Líkt og aðrar belgjurtir lifir jarðhnetan í sambýli við niturmyndandi jarðvegsgerla sem lifa á rótum plöntunnar.

Eftir frjóvgun lengist blóm­stilkurinn og sveigist niður þar til egglegið snertir jörðina og vex síðan nokkra sentímetra ofan í hana áður en það sveigir til hliðar. Aldinið þróast í mjúkum lóðréttum belg neðanjarðar. Belgurinn þrír til sjö sentímetrar að lengd og einn til einn og hálfur sentímetri í þvermál og inniheldur eitt til sex fræ.

Sé fullþroska fræ klofið í sundur sést að innan í því er að finna litla kímplöntu með blöðum. Það er hún sem vex í nýja plöntu sé lifandi jarðhnetubaun sáð.

Sé fullþroska fræ klofið í sundur sést að innan í því er að finna litla kímplöntu með blöðum. Það er hún sem vex í nýja plöntu sé lifandi jarðhnetu sáð.

Uppruni og saga

Uppruni jarðhneta er í Suður-Ameríku og er talið að ræktun þeirra nái allt að sjö þúsund ár aftur í tímann. Staðbrigði jarðhneta í Norðvestur-Argentínu og suðurhluta Bólivíu eru líkust villtum ættingjum sínum og er því talið að ræktun þeirra hafi hafist á þeim slóðum.

Við komu Evrópumanna til Nýja heimsins voru jarðhnetur hluti af daglegri fæðu innfæddra og seldar á mörkuðum um alla Mið-Ameríku. Jarðhnetur bárust með Portúgölum til Afríku og frá Afríku með verslunarleiðum Spánverja og Portúgala til Indlands og Kína. Plantan barst svo aftur vestur yfir Atlantsála til Suðurríkja Bandaríkjanna Norður-Ameríku með þrælum frá vesturströnd Afríku.

Plantan var fljót að aðlagast aðstæðum í nýjum heimsálfum og aldin hennar fljótlega hluti af daglegri fæðu fólks í nýju heimkynnum plöntunnar. Í dag er ræktun hennar mest í Kína og Afríku.

Ræktun á jarðhnetum í Kína jókst gríðarlega á níunda áratug síðustu aldar sem liður í því að auka tekjur og fjárhagslegt sjálfstæði smábænda í landinu og hefur Kína verið stærsti framleiðandi jarðhneta í heiminum frá 2006.

Óteljandi yrki

Í gegnum aldirnar hafa orðið til mörg þúsund staðbrigði og yrki af jarðhnetum. Í dag er þeim skipt í sex megin afbrigði og tvær undirtegundir, A. h. fastigiata sem vex upprétt og hefur styttri vaxtartíma en A. h. hypogaea sem er jarðlægari.

Talið er að í Kína finnist að minnsta kosti hundrað staðbrigði og ólík yrki af jarðhnetum. Flest yrkin sem ræktuð eru í Suður-Kína eru afkomendur A. h. fastigiata en norðlægari yrki komin af A. h. hypogaea.
Í Bandaríkjum Norður-Ameríku er jarðhnetum skipt í nokkra ólíka flokka eftir vaxtarlagi, stærð, lögun, olíuinnhaldi og bragði og talað um spænskar jarðhnetur, jarðlægar, virginía og valensía. Mest er ræktun þeirra í Suðurríkjum Norður-Ameríku, Georgíu og í um það bil 200 kílómetra radíus í kringum borgina Dothan í Alabama.

Þess má geta að Jimmy Carter, 39. forseti Bandaríkjanna, og sá eini í seinni tíð sem ekki leiddi þjóðina í stríð, er af ætt jarðhnetubænda í Georgíuríki.

Jimmy Carter, 39. forseti Bandaríkjanna og sá einni í seinni tíð sem ekki leiddi þjóðina í stríð, var af ætt jarðhnetubænda. 

Nafnaspeki

Sænski grasafræðingurinn og frumexelmaðurinn Carl von Linneus gaf jarðhnetum tegundarheitið hypogaea sem á latínu þýðir neðanjarðar. Á ensku kallast jarðhnetur peanuts eða groundnuts, á kínversku lou hua sheng, arachide á frönsku, erdnuss á þýsku, arachide á ítölsku, nankinmame eða piinatsu á japönsku og cacahuete á spænsku. Íslenska heitið jarðhneta er hingað komið frá Danmörku, eins og svo margt annað gott, því á máli Margrétar Þórhildar drottningar segjum við jordnöt.

Jarðhnetur sem fæða

Hérlendis þekkjast jarðhnetur og jarðhnetuafurðir bestar ristaðar eða sem salthnetur og njóta mikilla vinsælda sem slíkar og einnig sem hnetusmjör og jarðhnetuolía sem er vinsæl til steikingar vegna þess hvað hún þolir mikinn hita.

Þurrkaðar jarðhnetur má mala í mjöl og nota til baksturs og sagt vera góð lausn fyrir þá sem kjósa glúteinlausa fæðu.

Þrátt fyrir að jarðhnetur séu grasafræðilega ekki hnetur líkjast þær trjáhnetum, til dæmis valhnetum og möndlum á bragðið. Þær eru sagðar hollar og innihalda margs konar næringarefni og meðal annars níasín, fólat, trefjar, E-vítamín, magnesíum og fosfór. Jarðhnetur innihalda enga transfitu og natrín og geta verið allt að 25% prótein.

Jarðhnetum pakkað í neysluumbúðir.

Fjöldi fólks er með ofnæmi fyrir hnetum og getur lítið magn af jarðhnetum valdið alvarlegu bráðaofnæmi.
Í latnesku Ameríku er jarðhnetusósa með chili og lauk stundum borin fram með grilluðum naggrís eða kjúklingi. Ristaðar jarðhnetur sem húðaðar eru með hveiti eða salti eru vinsælt snakk í Ísrael. Í Suðaustur-Asíu eru jarðhnetur notaðar í bragðmiklar sósur með eldpipar sem borinn er fram með rauðu kjöti.

Indverjar eru hrifnastir af ristuðum jarðhnetum sem snakki sem stundum er kryddað með chilidufti. Íbúar Vestur-Afríku, á Fílabeinsströndinni, Búrkína Fasó, Gana, Nígeríu og Senegal, eru sólgnir í jarðhnetusósu með lauk, gulrótum eða káli sem hellt er út á kjúklinga eða annað kjöt. Einnig er á þessum slóðum búin til jarðhnetusúpa úr sama hráefni. Í Evrópu eru jarðhnetur mikið borðaðar sem snakk og sem bragðefni í sælgæti en í Norður-Ameríku er þeirra mest neytt sem hnetusmjörs.

Laufið sem fellur til við ræktun jarðhneta er notað og þykir gott sem húsdýrafóður, aðallega fyrir nautgripi og hænsni vegna mikils próteininnihalds plöntunnar. Einnig eru jarðhnetubelgir notaðir sem fóður fyrir jórturdýr.

Jarðhnetur í alþýðulækningum

Í heimildum segir að jarðhnetur séu góðar við bólgum í gallblöðru, blóðþynnandi, hreinsi lifrina og lostavekjandi. Víða í Afríku eru þær sagðar eyða vörtum.

Jarðhnetur til iðnaðar

Auk þess að vera nýttar sem fæða og fóður eru jarðhnetur og jarðhnetuafurðir notaðar sem íblöndunarefni til iðnaðar. Í málningu, þynni, smurolíu, sápu og snyrtivörur, í leðurfeiti, skordýraeitur og sprengiefnið nítróglyserín. Fræbelgirnir eru notaðir í plast, þilplötur, slípiefni, sellulósa, eldsneyti og lím.

Harðgerð og þurrkþolin planta

Jarðhnetur þrífast best í sand- og leirkenndum jarðvegi með sýrustig á bilinu 5,9 til 7. Vegna sambýlis við niturbindandi bakteríur eru plönturnar jarðvegsbætandi en þar sem nitrið eða köfnunarefnið sem bakteríurnar framleiða fer að mestu í blaðvöxt nýtur aldinið takmarkaðs gagns af sambýlinu. Jarðhnetur eru mikið notaðar við skiptiræktun og sýnir reynslan að jarðhneturnar njóta einnig góðs af skiptiræktinni.

Uppskera þeirra eykst um allt að 50% eftir að annars konar plöntur hafa verið ræktaðar í jarðhnetubeði eða akri í tvö til þrjú ár.

Plantan er þurrkþolin og kýs fremur hlýtt og þurrt loft og getur komist af með 350 millimetra af vatni yfir vaxtartímann.

Ræktunartími A. h. fastigiata eru 90 til 120 dagar en 120 til 150 dagar hjá A. h. hypogaea. Einnig getur tíminn frá sáningu verið misjafn milli yrkja og afbrigða.

Þar sem plantan heldur áfram að blómstra og mynda belgi allt til dauða getur reynst erfitt að ákveða hvenær skal uppskera hana til að fá sem mest. Sé það gert of snemma eru aldinin óþroskuð í belgnum en sé það gert of seint brotna belgirnir af við uppskeru.

Við uppskeru, hvort sem hún er unnin með höndum eða vélvædd, er öll plantan tekin upp með rót til að ná til aldinsins. Eftir upptöku eru belgirnir látnir þorna í nokkra daga og svo annaðhvort tíndir með höndum af plöntunum eða hristir af með vélum. Við áframvinnslu er belgurinn brotinn og fræin tekin innan úr honum og fræin mulin í hnetusmjör eða pressuð í jarðhnetuolíu.

Hnetusmjöri tappað á tunnur.

Jarðhnetur í Þjóðólfi

Í tímaritinu Þjóðólfi 1855 er grein sem ber heitið Um jarðhneturnar en við nánari skoðun kemur í ljós að greinin fjallar um möguleika þess að rækta ætifífla, Helinatus tuberosus, hér á landi. Erlendis eru ætifíflar aðallega ræktaðir vegna rótarhnúanna. Höfundurinn G. Ólafsson segir meðal annars í greininni: „Nær miðsumars taka til að spretta út úr aðalrótinni hnúðar eður hnetur, stækka þær smámsaman og verða á haustin á stærð við væn jarðepli. Hneturnar eru rauðar utan, en innan hvítur ávöxtur, líkt og jarðepli.“

Nafngiftin verður að segjast vera skemmtileg tilraun til að gefa erlendum rótaávexti nafn. Nafn sem reyndar var lengi notað um það sem á dönsku er kallað jordskokker en Jerusalem artichoke á ensku.
Í Hagskýrslu um utanríkisverslun frá 1936 er talað um innflutning á tvenns konar jarðhnetum, það er að segja með og án skurnar. Freistandi er að ætla að þar sé átt við jarðhnetur eins og við þekkjum þær í dag þar sem þær eru flokkaðar meðal annars með dýra- og jurtafeiti, pálmahnetum, sojabaunum og baðmullarfræjum.

Útrýmir jarðhnetan ullinni og sauðkindinni?

Í Fálkanum árið 1952 er að finna áhugaverða grein sem ber fyrirsögnina Útrýmir jarðhnetan ullinni og sauðkindinni?

„Er hlutverki sauðkindarinnar sem ullarframleiðanda lokið? Ef trúa má síðustu skýrslum vefnaðarvöruframleiðenda er svo að sjá sem að reyfið af sauðkindinni sé að verða óþarfavarningur. Á síðari árum hefir tekist að framleiða ýmiss konar ullarlíki, sem þykir standa jafnfætis ullinni, ef ekki betra. Nú þekkja allir orðið nylon og þess háttar galdraefni.

Menn framleiða bæði sellu-ull og plast-ull, steinull og glerull án þess að biðja sauðkindina um aðstoð. Og jafnvel Bretar, sem bæði eru taldir mesta ullariðnaðar- og mesta vanafestuþjóð heimsins eru að segja sauðaullinni upp hlýðni og hollustu. Nú eru þeir að gera tilraunir með gervi-ull úr sojabaunum, fiski, eggjum og fiðri.

Síðasta gerviullar nýjungin er úr jarðhnetum - pea nuts. Það er stórfirmað „Imperial Chemical Industries“ sem að þessum tilraunum stendur og á rannsóknarstöð firmans í Skotlandi hefir tekist að gera ágæta ull úr hnetunum. Þær eru keyptar frá Vestur-Afríku, Indlandi, Kína og Suður-Ameríku.

Proteinefnið í hnetunum er notað til að gera ull úr, eftir að öll fita hefir verið soðin úr þeim. Það er með öðrum orðum úrgangurinn sem ullin er unnin úr. Fita hefir lengi verið unnin úr jarðhnetum, en úrganginum fleygt. Nú fer ekkert til ónýtis, því að úrgangurinn sem eftir verður þegar ullin er fengin, er besta kjarnfóður, á borð við síldarmjöl. Jarðhnetuullin er kölluð Ardil, eftir staðnum sem verksmiðjur „Imperial Chemical l'ndustries“ í Skotlandi standa á. Sérfræðingar fullyrða að Ardil sé besta gerviullin sem í boði sé á heimsmarkaðinum. Ardil mölést ekki, því að mölurinn vill það ekki, það hleypur ekki við þvott og þolir vel slit. Efnið er eins sterkt og alullarefni, og fataefni úr samkembu Ardils og ullar eða bómullar er níðsterkt. Reynslan hefir verið svo góð að nú stendur til að hefja framleiðslu í stórum stíl á Ardil.

Þegar Ardil og ull er kembt saman fæst efni sem reynist prýðilega í kambgarn, ullardúka, prjónles, ullarvoðir, gólfdúka, flóka og hatta. Þetta efni er mjúkt og létt, ekki síður en alullarefni, og það er hægt að lita það hvernig sem maður vill.

Jarðhnetan er hvorki aldin né grænmeti heldur til beggja. Jurtin lítur út eins og stórvaxinn smári, en svipar að því leyti til kartöflunnar að ávöxturinn er undirvöxtur en ekki ofanjarðar.

Í jarðhnetunni er 42% af þyngdinni fita, og það er fyrst og fremst olían sem unnin er úr hnetunni, sem hefir gert hana verðmæta. Olían eða feitin er notuð í smjörlíki, matarfeiti, salatolíu og í stað ólívenolíu. Það af feitinni sem ekki er notað til manneldis er notað í sápu. - En það væri rangt að halda að allt verðmæti væri unnið úr hnetunni, þegar búið er að sjóða úr henni fituna. Amerískur vísindamaður hefir komist að því að úr afganginum sé hægt að vinna um 300 mismunandi efni. Þ. á m. ost, mjólk mjöl, kaffi, blek, lit, einangrunarefni og bæs. Og úr því sem eftir verður má fá kjarnafóður, er inniheldur 45% af próteini. Og nú eigum við að fara að ganga í jarðhnetufötum ofan á allt þetta! Því miður eru sjálfsagt vandkvæði á að rækta jarðhnetuna hér á landi, jafnvel við hverahita.“

Nóg af sæði í hafrastöðinni
Fréttir 8. nóvember 2024

Nóg af sæði í hafrastöðinni

Nóg er til af frystu hafrasæði og geitabændur hvattir til að nýta sér það til að...

Eggjaskortur vegna dýravelferðar
Fréttir 8. nóvember 2024

Eggjaskortur vegna dýravelferðar

Litlar birgðir á eggjum í verslunum má rekja til umfangsmikilla breytinga sem bæ...

Hveitikynbætur alger nýlunda
Fréttir 8. nóvember 2024

Hveitikynbætur alger nýlunda

Á vegum Landbúnaðarháskóla Íslands er verið að hefja vinnu að hveitikynbótum í f...

Japanir ætla sér mikla hluti í ræktun á Íslandi
Fréttir 7. nóvember 2024

Japanir ætla sér mikla hluti í ræktun á Íslandi

Japanskt fyrirtæki hyggst bæta hrísgrjónarækt við jarðarberjaframleiðslu sína á ...

Nýr verðlagsgrunnur og ný verðlagsnefnd
Fréttir 7. nóvember 2024

Nýr verðlagsgrunnur og ný verðlagsnefnd

Drög að nýjum verðlagsgrunni kúabús liggja fyrir, sem er uppfærsla á grunninum f...

Jafnvægisverð lækkar áfram
Fréttir 7. nóvember 2024

Jafnvægisverð lækkar áfram

Á markaði með greiðslumark í mjólk, haldinn 1. nóvember, myndaðist jafnvægisverð...

Áframhaldandi vöxtur í neyslu og framleiðslu á kjúklingi
Fréttir 7. nóvember 2024

Áframhaldandi vöxtur í neyslu og framleiðslu á kjúklingi

Nýtt kjúklingframleiðsluhús er á teikniborðinu á Miðskógi í Dölum, sem verður sö...

Framleiðslan dregst saman um 340 tonn
Fréttir 7. nóvember 2024

Framleiðslan dregst saman um 340 tonn

Áfram heldur þeim lömbum að fækka sem koma til slátrunar ár hvert. Í liðinni slá...