Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 5 ára.
Hringtenging Vestfjarða og Snæfellsness voru fyrstu málin  sem fengu  fjárveitingu í átakinu.
Hringtenging Vestfjarða og Snæfellsness voru fyrstu málin sem fengu fjárveitingu í átakinu.
Lesendarýni 29. mars 2019

Ísland ljóstengt

Höfundur: Haraldur Benediktsson
Á vettvangi bænda hafði á árunum frá 2011 aukist mjög áhugi á uppbyggingu öflugra fjarskipta í sveitum.  Bændasamtökin hafa lengi látið sig fjarskipti varða, enda þau mikilvæg fyrir líf og atvinnulíf sveitanna.  Margar lausnir hafa þar verið ræddar og markvisst var fylgst með framgangi þeirra mála í nágrannalöndum okkar.  M.a. hafði vakið athygli frumkvæði bænda í lagningu ljósleiðara um sveitir og framgangur þess.
 
Hér á landi var merkilegt frum­kvæði bænda og íbúa í Öræfasveit, sem lögðu þar framtíðar ljósleiðarakerfi.  Fleiri sveitarfélög höfðu fylgt í kjölfarið og nýtt samleið með hitaveituframkvæmdum, og lagt annaðhvort rör fyrir ljósleiðara og eða þráð og byggt þannig upp ljósleiðarakerfi fyrir íbúa sinna.
 
Hugmynd að átaki í lagningu ljósleiðara kynnt 2012
 
Haraldur Benediktsson.
Snemma árs 2012 átti ég fund með Páli Jónssyni og Evu Magnúsdóttur hjá Mílu um framtíðarskipulag fjarskipta í sveitum.  Míla, sem allir þekkja, hélt á grunnkerfi fjarskipta í sveitum.  Undir lok ársins 2012 kynntu Páll og Eva hugmynd að átaki í lagningu ljósleiðara. Páll og Eva lögðu í raun fyrst grunn að þeirri hugsun að mögulegt væri fjárhagslega að kljúfa þann kostnað – en þá með aðkomu hins opinbera.
 
Þann fund sátu nokkrir alþingismenn sem hóað var í með stuttum fyrirvara. Lausn þeirra opnaði augu okkar margra fyrir því tækifæri sem gæti verið í átaki um lagningu ljósleiðara um sveitir.  Míla kynnti síðan ráðherra fjarskiptahugmyndir sínar.
 
Nú háttaði þannig til að sá sem þetta ritar var á þeim tímamótum að hverfa frá formennsku fyrir samtök bænda og í framboði til Alþingis.  Var raunar kjörinn alþingismaður vorið 2013.
Það var þessi hugmynd Mílu og nálgun sem var grunnur að þeirri baráttu sem ég hóf strax sumarið 2013, fyrir aðkomu stjórnvalda að því að leggja málinu lið. 
 
Starfshópur lét vinna kostnaðargreiningu
 
Innanríkisráðherra, Hanna Birna Kristjánsdóttir, tók strax frumkvæði í málinu og skipaði starfshóp um fjarskipti. Í þeim hópi var ég skipaður formaður og félagi minn Páll Jóhann Pálsson þingmaður var einnig skipaður í hópinn, ásamt fulltrúum m.a. úr atvinnulífinu.
 
Starfshópur minn lét vinna vandaða kostnaðargreiningu á lagningu ljósleiðara um sveitir landsins. Niðurstaða þeirrar könnunar var grunnur að þeim tillögum sem hópurinn skilaði af sér og lagði til átak í fjarskiptum.  Niðurstaða var að kostnaður við að ná 99,9% útbreiðslu á a.m.k. 100 mbs tengingum væri um 6 milljarðar. 
 
Aukinn og vaxandi þrýstingur sveitarfélaga um endurbætur á fjarskiptum
 
Á sama tíma starfaði ég í fjárlaganefnd Alþingis. Á þeim vettvangi kom vel fram aukinn og vaxandi þrýstingur sveitarfélaga um aðkomu stjórnvalda að endurbótum á fjarskiptum.  Fyrir fjárlagagerðina 2014 og aftur 2015 var málið eitt af aðalmálum sveitarfélaganna að vinna að úrbótum í fjarskiptum.  
 
Hringtenging um Vestfirði
 
Við fjárlagagerðina 2015 gerði meirihluti fjárlaganefndar breyting­ar­tillögu um fjármagn til að tryggja að hringtengingu ljósleiðara um Vestfirði og Snæfellsnes voru tryggðir.  Var það fyrst fjármagnið sem veitt var til átaksins.  Tillagan okkar til breytinga á fjárlagafrumvarpinu hlaut stuðning allra flokka á Alþingi.
 
Ólöf Nordal hafði þá tekið við ráðuneyti fjarskipta. Hún var ekki síður en Hanna Birna áfram um að leita leiða til úrbóta. Ólöf Nordal skipaði okkur Pál Jóhann ásamt núverandi iðnaðaráðherra í verkefnishóp um að vinna að útfærslum á tillögum fyrri starfshóps.  Ætlun Ólafar var mjög skýr – að vinna að framgangi þess að tryggja að sú áætlun næði fram að ganga.
 
500 milljónir í átakið við fjárlagagerð 2016
 
Við fjárlagagerðina 2016 tók meirihluti fjárlaganefndar, undir forustu Vigdísar Hauksdóttur og Guðlaugs Þór Þórðarsonar aftur til óspilltra mála. Breytingartillaga við fjárlagafrumvarp – um að veita 500 milljónum til átaks í lagningu ljósleiðara.  Aftur var það samþykkt á Alþingi.
 
Með þá fjármuni hafði verkefnishópurinn í fyrsta sinn tækifæri til að hrinda af stað þessu mikilvæga og merkilega átaki Ísland ljóstengt.
 
Hugmyndin að fá sem flestar tengingar fyrir sem minnst fjármagn
 
Aftur tókum við Páll Jóhann, ásamt starfsmönnum ráðuneytis Ólafar Nordal, til við að útfæra átakið. Það verður ekki rakið hér hvernig að því var staðið – en megin hugmyndin var sú að fá sem flestar tengingar fyrir sem minnst fjármagn.  Sveitarfélögin og kraftur heimamanna var því virkjaður.  Að vinna að þessum grunninnvið samfélagsins.
 
Virkjun heimamanna var lykillinn að farsæld verkefnisins
 
Það er lykillinn að farsæld og framgangi Ísland ljóstengt að hafa leitað til heimamanna um að takast á við verkefnið.  Það hefur tryggt þann árangur sem nú er að koma í ljós.
 
100 milljónir til viðbótar 2016
 
Vatnaskil verða aftur við ný lög um opinber fjármál.  Fjármálaáætlun í raun tryggði til lengri tíma að hægt væri að ljúka átakinu. Jón Gunnarsson, ráðherra byggða- og samgöngumála, lagði til 100 milljónir til viðbótar árið 2016 til að efla enn frekar stöðu veikari byggðarlaga. Sú ákvörðun Jóns var mjög mikilvæg og tryggði í raun að hægt var að ljúka því.
 
Bæði fjármálaáætlun ríkisstjórnar Bjarna Benedikssonar og Katrínar Jakobsdóttur hafa síðan staðfest mikilvægi átaksins.
 
Skipaður formaður Fjarskiptasjóðs 2016
 
Ólöf Nordal skipar mig formann stjórnar Fjarskiptasjóðs frá 1. janúar 2016 til að tryggja framgang verksins. Það hefur bæði verið flókið og krefjandi að láta slíkt ganga upp.
 
Frá haustdögum 2018 hefur verið unnið að útfærslu á breyttri nálgun við að tryggja að endalok átaksins verði. Góð mynd var komin á það verk um áramót, þegar núverandi samgönguráðherra ákvað að skipa mig ekki formann Fjarskiptasjóðs áfram. En til leiks var kallaður Páll Jóhann Pálsson, sem allan tímann hefur fylgt þessu átaki með mér. Ég hef setið með Páli í stjórn fjarskiptasjóðs frá áramótum ásamt Margréti Gauju Magnúdóttur.
 
Það var aldrei í mínum huga kostur að hverfa frá þessu verki – án þess að sjá fyrir endann á þessu mikilvæga verki – sem ég hef barist svo lengi fyrir.
 
Núna hefur Fjarskiptasjóður birt tilboð til sveitarfélaga, á grundvelli fjármálaáætlunar til 2021.  
 
Átakið hefur skilað Íslandi í fremstu röð
 
Þegar horft er til baka, og eftir að hafa fylgt þessu mikla innviðaátaki frá frumbernsku þess – er ekki úr vegi að líta til baka og meta árangur. Átakið hefur m.a. skilað Íslandi í fremstu röð allra þjóða í fjarskiptum. Þegar staða mála er greind í nágrannalöndum okkar sést að okkur hefur tekist hið ómögulega.  Að fámennri þjóð í stóru landi hefur tekist að byggja upp grunnkerfi framtíðar fjarskipta.
Þessum áfanga hefðum við ekki náð nema vegna framsýni ráðherranna Hönnu Birnu, Ólafar Nordal og Jóns Gunnarssonar. Eða meirihluta fjárlaganefndar árin 2013–2016.  Þetta fólk gerði þetta mögulegt, ásamt góðum stuðningi allra flokka á Alþingi.
 
Aðferðafræðinni mætti beita við aðra innviðauppbyggingu
 
Okkur getur greint á um leiðir og aðferð. Ég segi hins vegar hiklaust að sú aðferð sem okkur lánaðist að vinna með og mótuð var af góðu fólki og ráðgjöfum í samgönguráðuneytinu er til eftirbreytni. Þeirri hugsun og aðferð má vel beita til framfara og sóknar við aðra innviði – eins og rafmagn og tengivegi.
 
Ég skal vel viðurkenna að margar vinnustundir, ferðalög og margir fundir hafa skilað þessu verki áfram. Árangurinn er miklu meiri og betri en ég þorði að vona.
 
Haraldur Benediktsson
alþingismaður
Skógarfura í Varmahlíð föngulegust
Fréttir 4. október 2024

Skógarfura í Varmahlíð föngulegust

Skógræktarfélag Íslands hefur valið skógarfuru í Varmahlíð tré ársins 2024.

Þrír forstjórar skipaðir fyrir nýjar ríkisstofnanir
Fréttir 4. október 2024

Þrír forstjórar skipaðir fyrir nýjar ríkisstofnanir

Nýlega voru skipaði þrír forstjórar fyrir nýjar ríkisstofnanir sem urðu til með ...

Eftirlíking af hálfri kú
Fréttir 4. október 2024

Eftirlíking af hálfri kú

Nautastöð Bændasamtaka Íslands tók á dögunum í notkun eftirlíkingu af kú sem er ...

Gagnrýna nýjar reglur um hollustuhætti
Fréttir 3. október 2024

Gagnrýna nýjar reglur um hollustuhætti

Heilbrigðisnefndir kringum landið hafa gagnrýnt skort á kynningu á nýrri regluge...

Aðgerðaáætlun gefin út
Fréttir 3. október 2024

Aðgerðaáætlun gefin út

Matvælaráðherra, Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, hefur gefið út aðgerðaáætlun fyrir...

Grasrótin gaumgæfir atvinnulíf og nýsköpun
Fréttir 3. október 2024

Grasrótin gaumgæfir atvinnulíf og nýsköpun

Verkefnið Vatnaskil á Austurlandi miðar að því að efla nýsköpun og stuðla að fjö...

Áburðarverkefni í uppnámi
Fréttir 3. október 2024

Áburðarverkefni í uppnámi

Áburðarverkefni í Syðra-Holti í Svarfaðardal, sem gengur út á moltugerð úr nærsa...

Aukinn innflutningur á lægri tollum
Fréttir 2. október 2024

Aukinn innflutningur á lægri tollum

Ekki er hægt að fá uppgefna þá aðila sem standa að baki innflutningi á landbúnað...