Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 5 ára.
Ísland er í öðru sæti á heimsvísu
Mynd / smh
Fréttaskýring 19. september 2016

Ísland er í öðru sæti á heimsvísu

Höfundur: Hörður Kristjánsson
Ísland er önnur umhverfisvænsta þjóð í heimi samkvæmt Yale vísitölu (Yale's Environmental Performance Index (EPI). Samkvæmt þeirri vísitölu er Finnland númer 1, Ísland númer 2, Svíþjóð númer 3, Danmörk númer 4 og Noregur er númer 17 á heimsvísu. Það sem dregur okkur niður fyrir Finna í þessari vísitölu eru loftgæði og svifryksmengun.
 
 
Fyrrnefnd lönd eru næst því að geta talist kolvetnishlutlaus. Athygli vekur að Noregur lendir í 17. sæti og er langt á eftir Danmörku vegna mikillar kolefnismengunar. Olíuiðnaðurinn spilar eflaust töluverða rullu en einnig er tekið fram að það sé líka vegna „slæmra vinnubragða í landbúnaði“. Væntanlega má þá ýmislegt segja um landbúnað í þeim löndum sem á eftir koma. 
 
Kallað eftir vistvænni landbúnaði
 
Það eru ekki síst bændur sem eru með lífræna ræktun sem hafa kallað eftir vistvænni hugsun og vistvænum vinnuvélum. Þar ættu íslenskir bændur að vera vel heima með alla sína umhverfisvænu framleiðslu, hreint vatn og með alla þessa vistvænu orku sem að mestu er unnin úr endurnýjanlegum orkulindum. Þar er þó einn hængur á sem er dísilolían á dráttarvélarnar.
 
Ekki hefur gengið sérlega vel að leysa dísilknúnu dráttarvélarnar af hólmi með vistvænum vélum. Að vísu hafa bændur eins og Ólafur Eggertsson á Þorvaldseyri verið að prófa sig áfram með eigið lífrænt eldsneyti úr repjuolíu, en mikið lengra nær það varla.
 
Íblöndun metanóls í eldsneyti á Íslandi eða íblöndun á innfluttu etanóli og metanóli getur varla talist sérlega vistvæn leið. Bæði er innflutta íblöndunarefnið mjög dýrt auk þess sem kolefnissporið af slíkum flutningum yfir hafið verður seint talið vistvænt. Til að minnka kolefnissporið að einhverju marki yrði þá að framleiða eldsneytið að öllu leyti úr lífmassa hérlendis eða skipta um orkumiðil og fara annaðhvort í íslenskt lífgas, vetni eða raforku. Slíkar dráttarvélar eru bara alls ekki auðfundnar. 
 
Tilbúið köfnunarefni stór áhrifavaldur í náttúrunni
 
Það er þó fleira en eldsneyti á vélar sem skiptir þar máli. Köfnunarefnisnotkun sem áburður á tún og akra skiptir líka miklu máli. Köfnunarefni er nauðsynlegur þáttur í allri ræktun. Jurtir vinna það úr andrúmsloftinu, en hægt er að auðvelda þeim ferlið með tilbúnu köfnunarefni. Ofnotkun köfnunarefnis leiðir hins vegar oft bæði til mengunar andrúmslofts og grunnvatns. 
 
Aðeins 20% þjóða heims mæta kröfum um að fylgjast með skilvirkri notkun köfnunarefnis samkvæmt úttekt Yale-háskóla. Er þetta mælt sem köfnunarefnis skilvirkni, eða „Nitrogen Use Efficiency (NUE)“. Til eru mælitæki til að fylgjast með þessu jafnvægi í jarðvegi. Ekki er talið líklegt að köfnunarefni sé mikið ofnotað á Íslandi og sjálfsagt er mikill kostnaður af slíkri notkun þar helsti hemillinn.   
 
Kröfur um aukna massaframleiðslu geta haft neikvæð áhrif
 
Kröfurnar um að skaffa fæðu fyrir ört vaxandi fólksfjölda í heiminum, ýtir undir lausnir sem geta reynst hættulegar. Þar er m.a. um að ræða ofnotkun á lífrænum og kemískum áburði til að hámarka uppskeruna. Samkvæmt skilgreiningu í Yeal vísitölunni er hámarks skilvirkni köfnunarefnis (NUE) skilgreind sem 100%. Er reyndar talið náttúrulega ómögulegt að ná svo mikilli skilvirkni. Eðlilegra er talið að skilgreina góða nýtingu sem 70–80% skilvirkni. 
 
Í ESB-löndunum og Bandaríkjunum er skilvirknin talin vera nokkuð góð, eða 75%, 60% í Kína og öðrum Asíulöndum, en 70% í öðrum löndum. Það vantar sem sagt um 30–40% upp á að hámarksskilvirkni sé náð. Það getur þýtt að víða sé um ofnotkun að ræða sem ekki skilar sér í samsvarandi auknum afrakstri. 
Þótt NUE skilvirkni sé víða innan þess sem menn hafa talið ásættanleg skilgreind mörk, þá er vitað að skilvirknin er víða alls ekki nógu góð. Það hefur m.a. leitt til köfnunarefnismengunar í ám og vötnum að því er segir í skýrslunni. Skiptir þar m.a. miklu máli hvenær á vaxtartíma plantnanna köfnunarefninu er dreift. Þá er uppi ágreiningur um áreiðanleika skilvirknimælinga m.a. af hálfu OECD og Eurostat. Er því talin full þörf á að betrumbæta upplýsingaöflunina og hefur OECD m.a. gefið út handbók í því augnamiði „OECD’s handbook on nutrient budgets“.
 
 
Dauðasvæðið
 
Greinileg merki um sóðaskap í ofnotkun köfnunarefnis, eyðingu skóga og mengun jarðvegs og grunnvatns er m.a. sögð vera að finna við Mexíkóflóa og við Chesapeak Flóa. Er þar talað um dauðasvæðið (The dead zone). Þar hefur ofnotkun áburðar mengað grunnvatnið ískyggilega mikið og leitt til mikils vaxtar þörunga í vötnum og sjó sem geta kæft lífríkið. 
 
Græna byltingin og 100 milljón tonn af köfnunarefni
 
Notkun tilbúins áburðar fór að aukast mikið um miðja síðustu öld í kjölfar „Grænu byltingarinnar“ sem svo var nefnd. Með henni varð gríðarleg framleiðsluaukning í landbúnaði um allan heim. Með því að nota efnahvata og vinna köfnunarefni í áburð úr andrúmsloftinu var ýtt undir þessa þróun og notkunin jókst út alla síðustu öld. Í dag eru framleidd yfir 100 milljón tonn af köfnunarefnisáburði á hverju ári. 
 
Aukin afkastageta í landbúnaði hefur vissulega leitt til þess að færri svelta en ella, en það hefur líka haft sín neikvæðu áhrif. Það hefur m.a. ýtt undir fólksfjölgun og fólksflutninga úr sveitum í borgir í stærðarskala sem engan óraði fyrir. Þá er síaukið land tekið undir ræktun og skógum eytt í stórum stíl. Í dag er talið að landbúnaður sé stundaður á um helmingi alls nýtanlegs lands á jörðinni.  
 
Alvarlegar afleiðingar af ofnotkun köfnunarefnis
 
Í skýrslu Yale-háskóla kemur fram að stóraukin notkun köfnunarefnis og þrautpíning á jarðvegi sé að hafa alvarlegar afleiðingar. Það leiði m.a. til mengunar jarðvegs og neysluvatns og versnandi heilsu fólks. Þá leiði þessi mengun oft til súrefnisþurrðar í vatni og ozon-myndunar við jörðu (Ground-level ozone) sem aftur leiði til útrýmingar dýrategunda. Þá verði til súrt regn vegna köfnunarefnissambanda sem fari út í andrúmsloftið og allt ýti þetta undir loftslagsbreytingar. 
 
Þá segir að ozon við jörðu geti haft margvísleg heilsufarsleg áhrif á fólk. Þar er m.a. um að ræða aukna tíðni asma, ofnæmi af ýmsum toga og blóðsjúkdóma. Þá leiði aukning á nítrati í drykkjarvatni til aukinnar hættu á krónískum sjúkdómum og krabbameini. Eins standi  níturoxíð mengun úr áburði fyrir um 7% af gróðurhúsagasmengun af mannavöldum á heimsvísu. 
 
Kostnaður talinn á við tvöfaldan ávinning bænda 
 
Kostnaðurinn vegna margbreytilegra áhrifa sem köfnunarefnismengunin hefur í löndum Evrópusambandsins er talinn kosta  á bilinu 70 til 320 milljarða evra á ári. Það er meira en tvöföld sú upphæð sem bændur í ESB löndunum ávinna sér í tekjuauka fyrir aukna framleiðslu vegna köfnunarefnisnotkunar. 
 
Húsdýraeldi hefur líka áhrif
 
Eldi nautgripa, sauðfjár og annarra húsdýra er talið hafa umtalsverð áhrif á hversu mikið köfnunarefni sleppur út í náttúruna. Um 80% þeirrar uppskeru sem fæst með aukinni notkun köfnunarefnis er notuð sem fóður fyrir eldisdýr. Áætlað er að dýraeldi m.a. vegna kjötframleiðslu muni tvöfaldast fram til 2030 á heimsvísu. Ekki hefur tekist að mæla nákvæmlega hversu mikil köfnunarefnisáhrifin eru af dýraeldinu fyrir náttúruna. Þá er enginn opinber gagnagrunnur til sem mælir köfnunarefnisáhrif af ræktun dýra. Þó er unnið að þróun skilvirknismats köfnunarefnis til notkunar á heimsvísu á vegum Matvæla- og landbúnaðarstofnunar sameinuðu þjóðanna (FAO). Með því á að reyna að meta flæði köfnunarefnis í gegnum landbúnaðargeirann. 
 
Skógareyðingin er geigvænleg
 
Einn angi enn sem hefur veruleg áhrif á jafnvægið í náttúrunni er svo skógur og skógrækt. Þar hefur vissulega orðið jákvæður viðsnúningur á Íslandi.
 
Áætlað er að um 30,6% af öllu landi heims sé þakið skógi. Ekki er vitað hvort einhver hefur arkað um og talið öll þau tré en í skýrslu Yale-háskóla eru þau áætluð vera þrjár milljónir talsins
(3.000.000.000.000.000.000) og fer fækkandi. Þar af eru um 93% náttúrulegir skógar og hin 7% pantaðir skógar.
 
Ýmislegt ógnar skóginum, eins og umsvif manna, timburvinnsla og aukið pláss sem tekið er undir akra. Af þessum sökum hafa tapast að meðaltali um 180.749 ferkílómetrar af skógum á hverju ári síðan árið 2000. Það samsvarar 18,1 milljón hektara. Hraði skógareyðingar jókst um 19% á árunum 2012 til 2014 samanborið við árin 2009 til 2011.
 
Samkvæmt mati um skógareyðingu hefur tapast um og yfir 30% skóglendis á sumum svæðum frá árinu 2000. Er þetta mat byggt á háskerpuloftmyndum Matt Hansen og félaga hjá háskólanum í Maryland. Verst er ástandið í Brasilíu, Indónesíu, á svæðum við Mekong-fljótið í Asíu á Gran Chao svæðinu, Kongó og fleiri svæðum í Vestur-Afríku. 
Vinstri grænir stýra ráðuneyti matvæla, sjávarútvegs og landbúnaðar
Fréttir 27. nóvember 2021

Vinstri grænir stýra ráðuneyti matvæla, sjávarútvegs og landbúnaðar

Samkvæmt heimildum Bændablaðsins mun þingmaður Vinstri grænna vera með ráðuneyti...

Bitbein um áburðarnotkun
Fréttir 26. nóvember 2021

Bitbein um áburðarnotkun

Lífrænir bændur í Danmörku geta nýtt sér húsdýraáburð frá ólífrænum búum í meira...

Nær 36 milljónir íbúa ESB geta ekki kynt heimili sín sómasamlega
Fréttir 26. nóvember 2021

Nær 36 milljónir íbúa ESB geta ekki kynt heimili sín sómasamlega

Í síðasta Bændablaði var greint frá því að samkvæmt könnun sem kynnt var af Euro...

Kolefnissporið kortlagt
Fréttir 26. nóvember 2021

Kolefnissporið kortlagt

Skútustaðahreppur hefur samið við nýsköpunarfyrirtækið Greenfo um að kortleggja ...

Flestir bílaframleiðendur veðja á efnarafala fremur en rafhlöður í þung ökutæki
Fréttir 25. nóvember 2021

Flestir bílaframleiðendur veðja á efnarafala fremur en rafhlöður í þung ökutæki

Vetnisvæðing, sem nú er rekin áfram af mikilli ákefð hjá öllum stærstu iðnríkjum...

Rekstur vindorkugarða sagður brjóta á mannréttindum Sama
Fréttir 25. nóvember 2021

Rekstur vindorkugarða sagður brjóta á mannréttindum Sama

Norðmenn hafa upplifað spreng­ingu í uppsetningu vindorkustöðva á undanförnum ár...

Rúlluplast í plastgrindur í göngu­stígum og bílaplönum slær í gegn
Fréttir 24. nóvember 2021

Rúlluplast í plastgrindur í göngu­stígum og bílaplönum slær í gegn

Fyrirtækið Ver lausnir í Garðabæ hefur verið að vinna að athyglisverðu verkefni ...

Leiðbeiningar um hvernig hámarka megi gæði nautakjöts
Fréttir 24. nóvember 2021

Leiðbeiningar um hvernig hámarka megi gæði nautakjöts

Nýr upplýsingabæklingur hefur verið gefinn út undir merkjum Íslensks gæðanauts. ...