Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 6 ára.
Hver er stefna flokkanna í landgræðslu- og skógræktarmálum?
Mynd / BBL
Fréttir 24. október 2017

Hver er stefna flokkanna í landgræðslu- og skógræktarmálum?

Höfundur: Tjörvi Bjarnason

Flestir stjórnmálaflokkar styðja hugmyndir um eflingu landgræðslu og aukna skógrækt á Íslandi. Björt framtíð vill fjórfalda aðgerðahraða í landgræðslu og fjölbreyttri skógrækt og Samfylkingin styður stóraukna landgræðslu með þeim jurtum sem við á. Framsókn telur að auka þurfi enn frekar skógrækt, landgræðslu og aðra endurheimt landgæða og Alþýðufylkingin vill auka fjárframlög til þess að verja land gegn eyðingu vegna uppblásturs. 

Bændablaðið sendi spurningar um landbúnaðarmál til allra þeirra framboða sem bjóða fram lista í komandi alþingiskosningum.

Spurt var: Hver er stefna flokksins í landgræðslu- og skógræktarmálum?
 

Viðreisn

„Styðja þarf við umhverfisvænan og fjölbreyttan landbúnað á þann hátt að stuðningskerfið hvetji til landverndar og sjálfbærra framleiðsluhátta. Nýta skal jákvæða efnahagslega hvata og ráðgjöf til að breyta álagi á landsvæði og stýra beit sauðfjár og hrossa. Ráðist verði í aukna skógrækt og endurheimt votlendis.“

 

Dögun

„Auka skógrækt, en leggja áherslu á að ekki sé ræktaður skógur á landi sem hæft sé til annarar ræktunar. Nóg er til af landi sem ekki er nothæft til akuryrkju. Ekki má slá slöku við í landgræðslu.“

 

 

Samfylkingin

„Flokkurinn styður stóraukna landgræðslu – með þeim jurtum sem við á – á þeim mörgu svæðum þar sem landið er að blása upp og leggur áherslu á að beit og ágengum ferðamáta séu sett mörk í grennd við slík svæði. Við teljum að skógrækt og endurheimt landgæða sé auk matvælaþróunar og ferðaþjónustu eitt sóknarfæranna í landbúnaði næstu áratugina. Sátt verður að ná um skógrækt eins og aðrar greinar, innan skipulagsramma og háð umhverfismati.“

 

Miðflokkurinn

„Miðflokkurinn er hlynntur aukinni skógrækt og landgræðslu. Í ár eru 100 ár frá fyrstu skógræktarlögunum og er óhætt að segja að vel hafi tekist til um skógrækt og landgræðslu á þessum árum. Eflaust má gera betur og er flokkurinn reiðubúinn til samstarf við skógræktar- og landgræðslufólk.“

 

Framsóknarflokkurinn

„Framsókn telur að auka þurfi enn frekar skógrækt, landgræðslu og aðra endurheimt landgæða. Það verði gert í samstarfi við landeigendur, skógræktar- og landgræðslufélög, bændur og sveitarfélög. Slíkt samstarf leiðir til aukinnar kolefnisbindingar, verðmætasköpunar og verndunar jarðvegs. Skapa þarf hvetjandi umhverfi sem leiðir til nýsköpunar úr afurðum og arðs af skógrækt. Skipuleggja þarf skógrækt, endurheimt votlendis og landgræðsluframkvæmdir á völdum svæðum á landinu. Þannig verði til framkvæmdaáætlun með hagkvæmni og samþætt sjónarmið skógræktar, landbúnaðar og útivistar að leiðarljósi.“

 

Flokkur fólksins

„Flokkurinn styður núverandi stefnu í þessum málum.“ 

 
 

Sjálfstæðisflokkurinn

[Fulltrúi Sjálstæðisflokksins vísaði í svar við annarri spurningu sem lögð var fyrir framboðin og fjallaði um kolefnisbindingu. Svarið fer hér á eftir:]

„Sjálfstæðisflokkurinn hefur lagt fram hugmyndir og tillögur um skipulegar aðgerðir til að minnka losun og auka bindingu.  Sjálfstæðisflokkurinn hefur þá sérstöðu að vilja flétta saman verkefni á þessu sviði við byggðamál, landbúnaðarsamninga.  Þannig að samfélagið fjárfesti í aðgerðum sem bændur geta unnið að og þannig tekist á við þetta stóra verkefni sem lofslagsmálin eru. Það er með margvíslegri nálgun, s.s. bættri bústjórn, nýtingu lands, ræktun, skógrækt og landgræðslu. Við viljum að í stað þess að senda milljarða króna úr landi vegna kaupa á losunarheimildum snúi verkefni að þeim sem vilja reka starfsemi í sveitum. Ekki síður en til fjölmargra annarra þátta sem samfélagið allt á að láta sig varða og taka þátt.“

 

Píratar

„Píratar styðja aukna landgræðslu og skógrækt. Í landbúnaðarstefnu okkar leggjum við til að í viðbót við grunnstuðning, sem allir virkir bændur fá, hafi bændur sem beita tilteknum aðferðum við ræktun, sem taldar eru stuðla að vernd loftslags og umhverfis, kost á „grænum greiðslum“ pr. hektara. Þrjár mikilvægustu aðferðirnar í þessu sambandi eru viðhald túna, sáðskipti og að halda „lífræn svæði“.“

 

Björt framtíð

„Björt framtíð vill fjórfalda aðgerðahraða í landgræðslu og fjölbreyttri skógrækt. Það mun leiða til þess að árið 2030 verður búið að græða upp eða þekja skógi, alls 485.000 ha lands neðan 400 metra hæðar yfir sjó. Aðgerðirnar munu skila nettóbindingu í jarðvegi og gróðri um allt að ríflega 1.300 þúsund tonnum CO2 árlega. Endurheimt vistkerfa (þ.m.t. náttúruskóga) er mikilvæg samfélagsleg loftslagsaðgerð sem hefur einnig jákvæð áhrif á aðrar vistkerfaþjónustur (vatnsmiðlun, frjósemi jarðvegs, lífmassaframleiðslu, líffræðilegan fjölbreytileika, skjól o.fl.).

Ábúendur á lögbýlum ættu að fá styrki frá ríkinu til endurheimtar og viðhalds fjölbreyttra vistkerfa. Styrkirnir gætu fallið undir landgreiðslur innan búvörusamninga eða annars styrkjakerfis landbúnaðarins. Nytjaskógrækt er einnig mjög mikilvæg loftslagsaðgerð í samfélagslegu og hagrænu samhengi, ásamt því að hafa jákvæð áhrif á aðrar vistkerfaþjónustur. Síðast en ekki síst leggur hún til timbur til nota á innanlandsmarkaði.“

 

Vinstri græn

„Mikilvægt er að landbúnaðurinn og öll önnur landnýting þróist í sátt við umhverfið og á grundvelli viðhorfa um sjálfbæra þróun í búskaparháttum. Jafnframt er mikilvægt að tryggt sé  að ræktarland fari ekki undir aðra starfsemi en landbúnaðarframleiðslu.

VG leggur áherslu á og hefur flutt tillögur á Alþingi um kortlagningu, skráningu og flokkun ræktarlands, ræktanlegs lands og alls gróðurlands. Mikilvægt er að byggja aðgerðir á traustum faglegum grunni og flokkun þar sem ræktað land og ræktanlegt er viðurkennt sem mikilvæg auðlind. Skógrækt og landgræðslu á svo að efla, sbr. hér að ofan, á slíkum grunni.

VG er tilbúinn til að leggja aukna fjármuni í aðgerðir á þessu sviði sem lið í aðgerðaáætlun í loftslagsmálum.

Jarðvegs- og gróðurvernd þarf að hafa í huga við endurskoðun búvörusamninga. “
 

Alþýðufylkingin

„Alþýðufylkingin er náttúruverndarflokkur. Nytjaskógrækt og stuðningur við hana sem búgrein hefur sannað gildi sitt og flokkurinn vill halda slíkum stuðningi áfram þótt á næstu árum kynni að vera betra að beina þeim stuðningi meira að grisjun skóga og úrvinnslu afurða en nýplöntun. Einnig telur flokkurinn rétt að auka framlög til þess að verja land gegn eyðingu vegna uppblásturs og rofi af völdum vatnagangs, en telur að kapp sé best með forsjá þegar að því kemur að nota innfluttar tegundir, sem síðar geta reynst ágengar og illviðráðanlegar, til að breyta ásýnd landsins með stórfelldum hætti.“

Verslunarrekstur í dreifbýli er samfélagsverkefni
Fréttir 18. apríl 2024

Verslunarrekstur í dreifbýli er samfélagsverkefni

Vegamót á Bíldudal er matvöruverslun og veitingastaður. Gísli Ægir Ágústsson, ve...

„Allt of fáar messur“
Fréttir 18. apríl 2024

„Allt of fáar messur“

Tryggvi Sveinn Eyjólfsson, sem er á sautjánda aldursári, hefur vakið athygli fyr...

Íslenskar sængur um allan heim
Fréttir 18. apríl 2024

Íslenskar sængur um allan heim

Íslenskur dúnn ehf. selur æðardúnsængur beint til viðskiptavina um heim allan. Þ...

Vörðust ásælni ríkisins í jarðareign
Fréttir 17. apríl 2024

Vörðust ásælni ríkisins í jarðareign

Kristín Lárusdóttir og Guðbrandur Magnússon, bændur að Syðri- Fljótum í Meðallan...

Breyttar reglur um flutning líflamba
Fréttir 17. apríl 2024

Breyttar reglur um flutning líflamba

Verklagsreglur hafa verið endurskoðaðar um flutning á lömbum með verndandi eða m...

Gýgjarhólskot ræktunarbú ársins
Fréttir 16. apríl 2024

Gýgjarhólskot ræktunarbú ársins

Á fagfundi sauðfjárræktarinnar sem haldinn var á dögunum var Gýgjarhólskot í Bis...

Verulegur samdráttur í innflutningi á áburði
Fréttir 16. apríl 2024

Verulegur samdráttur í innflutningi á áburði

Matvælastofnun hefur birt leiðrétta skýrslu yfir áburðareftirlit síðasta árs.

Ísteka í yfirburðastöðu
Fréttir 15. apríl 2024

Ísteka í yfirburðastöðu

Í nýrri ályktun Samkeppniseftirlitsins kemur fram að Ísteka beiti sterkri stöðu ...