Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 8 ára.
Gustur.
Gustur.
Á faglegum nótum 18. júní 2015

Helstu niðurstöður nýs kynbótamats í maí 2015

Höfundur: Guðmundur Jóhannesson
Nú í maí var keyrt nýtt kynbótamat í nautgriparæktinni og lesið inn í nautgriparæktarkerfið Huppu í beinu framhaldi af því. Niðurstöður þess eru því aðgengilegar notendum Huppu en hér verður stiklað á stóru um þau naut sem hafa verið og koma ný í dreifingu. 
 
Rétt er að taka fram að við þessa keyrslu var svokallaður viðmiðunarárgangur færður fram um fimm ár, þ.e. sá árgangur sem meðaltal stofnsins er miðað við. Þetta þýðir að kynbótamatið lækkar nokkuð án þess að breyting hafi orðið á raunverulegu kynbótagildi gripanna. Framvegis mun þetta verða gert á hverju ári þannig að breytingar á kynbótamatinu verði minni og jafnharðan hverju sinni.
 
Fagráð í nautgriparækt tók á fundi sínum þann 26. maí sl. ákvörðun um það hvaða naut verða í almennri dreifingu næstu mánuði. Ákveðið var að setja þrjú ný naut úr 2009 árgangi nauta í dreifingu að lokinni prófun. Þrátt fyrir það fækkar reyndum nautum í dreifingu úr 20 í 15 þar sem sæði úr nokkrum þeirra er uppurið. Þetta á við um Dynjanda 06024, Hjarða 06029, Víðkunn 06034, Sand 07014, Húna 07041, Lög 07047, Laufás 08003 og Klett 08030. Áfram verður viðhöfð magnstýring á notkun úr þeim Flekki 08029 og Bamba 08049. Sérstök ástæða er til þess að biðja menn að nýta sæðið úr Bamba vel, gæta hófsemi og sýna takmörkunum á dreifingu sæðis úr honum fullan skilning. Notkun hans síðustu mánuði sýnir að þetta hafa menn gert og eiga sérstakir þakkir skildar fyrir gott samstarf hvað þetta snertir.
 
Ánægjulegt er að sjá að flest þau naut sem hafa verið í notkun undanfarin misseri standa við fyrri dóm að mestu leyti.
 
Afkvæmadómi 2008 árgangsins er lokið en nú þegar eru þau naut sem telja má áhugaverð til framhaldsnotkunar úr þeim árgangi komin í dreifingu. Því miður er ekki um fleiri naut að ræða þar sem fengið hafa verulega gott mat að lokinni afkvæmaprófun eða þá að þau hafa umtalsverða galla í einhverjum þáttum. 
 
Eins og áður sagði var ákveðið að þrjú ný naut kæmu til dreifingar sem reynd naut. Þessi naut eru komin með dágóðan fjölda dætra með afurðaupplýsingar bak við sitt mat sem og fjölda dætra með útlitsmat og mjaltaathugun þannig að öryggi á mati þeirra er nokkuð gott.
 
Ný naut í notkun
 
Þau naut sem koma ný inn í dreifingu eða nautaskrá eru Gustur 09003, Foss 09042 og Gæi 09047. Hér verður gerð nánari grein fyrir þeim.
 
Gustur 09003 er frá Hóli í Sæmundarhlíð, faðir er Laski 00010 og móðir Rák 384 Hersisdóttir 97033. 
Dætur Gusts eru meðalkýr hvað afurðamagn snertir, fituhlutfall er nærri meðallagi en próteinhlutfall hátt. Þetta eru meðalstórar kýr og fremur háfættar. Þær eru fremur bolgrunnar en útlögur allgóðar. Yfirlína er bein. Malir eru í meðallagi breiðar, aðeins hallandi en fremur flatar. Fótstaða er bein og sterkleg. Júgurgerðin er góð, mikil júgurfesta, prýðilegt júgurband og þau ágætlega borin. Spenar eru vel gerðir, hæfilega langir og þykkir og vel settir. Dætur Gusts eru góðar í mjöltum og skapið er úrvalsgott. Um 60% afkvæma Gusts eru tvílit þar sem mest ber á huppóttum og skjöldóttum. Af grunnlitum eru rauðir litir langmest áberandi. Gustur kemur til notkunar sem nautsfaðir.
 
Foss 09042 er frá Fossi í Hrunamannahreppi og er hann fyrsti sonur Kappa 01031 sem kemur til framhaldsnotkunar. 
 
Móðir hans er Lykkja 389 Príorsdóttir 98042. Dætur Foss er góðar afurðakýr hvað magn snertir en hlutföll verðefna í mjólk eru um meðallag. Þetta eru ákaflega stórar og háfættar kýr með mikla boldýpt og útlögur og mjög sterka yfirlínu. Malir eru mjög breiðar og vel gerðar, beinar og fremur flatar. Fótstaða er sterkleg. Júgurgerðin er úrvalsgóð, góð festa og áberandi júgurband auk þess sem þau eru sérlega vel borin. Spenagerðin er góð, þeir eru aðeins langir en vel settir. Dætur Foss eru í meðallagi í mjöltum og skapi og fá góða umsögn eigenda sinna. Um þrír fjórðu hlutar afkvæma Foss eru einlit og eru rauðir litir algengastir grunnlita þó einnig sé hátt hlutfall afkvæmanna bröndótt eða kolótt. Af tvílitum ber mest á huppóttum.
 
Gæi 09047 er frá Svertingsstöðum 2 í Eyjafirði og þetta er fyrsti Lykilssonurinn 02003 sem kemur til notkunar að lokinni afkvæmaprófun. 
 
Móðir Gæja er Pæja 265 Stígsdóttir 97010. Dætur Gæja eru góðar afurðakýr hvað magn varðar en fituhlutfall í mjólk er lágt. Próteinhlutfall er hins vegar yfir meðallagi. Þetta eru meðalstórar kýr og í góðu meðallagi háfættar. Þær fremur bolléttar og útlögulitlar en yfirlína er bein og sterkleg. Malir eru fremur grannar en vel gerðar, beinar og fremur flatar. Fótstaða er bein og sterkleg. Júgurgerð er góð, vel borin júgur með mikla festu og greinilegt júgurband. Spenar eru ágætlega lagaðir en fremur langir, grannir og eilítið gleitt settir. Mjaltir og skap eru í góðu meðallagi. Tæpur helmingur afkvæma Gæja er einlitur og eru rauðir litir algengastir grunnlita. Af tvílitum kemur huppóttur oftast fyrir þó einnig beri nokkuð á sokkóttum/leistóttum og skjöldóttum.
 
Naut sem áfram verða í notkun
 
Þau naut sem áfram verða í notkun eru: Logi 06019, Rjómi 07017, Toppur 07046, Keipur 07054, Blámi 07058, Laufás 08003, Blómi 08017, Þáttur 08021, Flekkur 08029, Bambi 08049, Kraki 09002 og Bolti 09021. Alls verða því 15 reynd naut í dreifingu næstu mánuði eins og áður sagði.
Ef við lítum aðeins nánar á þau naut sem voru í dreifingu þá stendur Logi 06019 með 109 í heildareinkunn og hefur haldið sínu. Hans sterkustu þættir liggja í miklum mjólkurafköstum dætra, háu próteinhlutfalli og skapi auk þess sem þessar kýr eru fremur júgurhraustar. Hins vegar verður ekki fram hjá því litið að fituhlutfallið er töluvert undir meðallagi sem kannski takmarkar notkunarmöguleika hans við kýr með hátt fituhlutfall í mjólk. 
 
Rjómi 07017 styrkir sína stöðu og er með 108 í heildareinkunn. 
Dætur hans eru gríðarmiklar mjólkurkýr en hlutföll verðefna eru um eða heldur undir meðallagi. Styrkleikar hans liggja að öðru leyti í mjög góðri júgur- og spenagerð, sérstaklega er júgurband áberandi, og afbragðsgóðum mjöltum. Veiki hlekkurinn er hins vegar lágt mat fyrir skap sem segir okkur að þetta eru skapmiklar kýr en þó verður að hafa í huga að Þollur, faðir hans, dregur hann verulega niður. Þrátt fyrir það raðast dætur hans hátt í gæðaröð sem segir að bændum líkar almennt vel við þessa gripi.
 
Toppur 07046 heldur sínu og stendur með 110 í heildareinkunn. 
Styrkur Topps felst í mjólkurlagni dætra og geysilega háum verðefnahlutföllum í mjólk þeirra. Þær eru jafnframt mjög skapgóðar og júgurhreystin mikil en mjaltir eru í tæpu meðallagi og kippir þeim þar í kynið, sonardætur Hersis. Þá eru þetta bolléttar kýr og ætti einkum að nota Topp á bolmiklar og sterkbyggðar kýr. Toppur verður ekki í notkun sem nautsfaðir lengur en menn beðnir um bjóða syni hans og nautsmæðra á stöð.
 
Keipur 07054 heldur áfram að bæta í og stendur með 111 í heildareinkunn. 
Dætur Keips eru stórar og bolmiklar samhliða því að vera gríðarmiklar mjólkurkýr með verðefnahlutföll í mjólk um eða rétt yfir meðallagi. Júgurgerð þeirra er mjög góð og spenagerðin með ágætum. Þá eru mjaltir mjög góðar en skapið er mikið þó rétt sé að hafa í huga að Þollur, faðir hans, dregur hann niður. Þrátt fyrir mikið skap koma þessar kýr vel út í gæðaröð sem sýnir að almennt líkar mönnum vel við þessa gripi. Keipur verður til notkunar sem nautsfaðir næstu mánuði.
 
Blámi 07058 heldur sínu og er nú með 107 í heildareinkunn. 
Styrkur Bláma liggur í mjólkurafköstum dætra og góðri júgur- og spenagerð auk þess sem þeir eru mjög vel settir. Þetta eru stórar og rýmismiklar kýr með góða júgurhreysti. Ókostir liggja í fituhlutfalli sem er undir meðallagi og mjaltir eru um meðallag. Áfram er óskað eftir nautkálfum á stöð undan Bláma.
 
Blómi 08017 styrkir sína stöðu og stendur í 111 í heildareinkunn. 
Hann sækir sinn styrk í afurðasemi dætranna sem og gríðarmikla júgurhreysti ásamt júgur- og spenagerð. Ástæða er til að taka fram hversu spenar eru vel settir. Þetta eru stórar og bolmiklar kýr en mjaltir eru í tæpu meðallagi.
 
Þáttur 08021 gefur aðeins eftir og stendur nú með 103 í heildareinkunn. 
Þáttur er hins vegar í notkun vegna sérstöðu sinnar að segja má en dætur hans eru undir meðallagi mjólkurlagnar en gefa hins vegar gríðarhá efnahlutföll í mjólk, bæði fitu og prótein. Þetta eru fremur smáar kýr með prýðilega júgurgerð og úrvalsgóða spenagerð ásamt því að þeir eru mjög vel settir. Þá eru þetta skemmtilegar kýr í mjöltum og skapi. Þáttur er fyrst og fremst valkostur til að bæta efnahlutföll.
 
Flekkur 08029 heldur sinni stöðu og er með 110 í heildareinkunn. 
Dætur Flekks eru gríðarmiklar mjólkurkýr en fituhlutfall í mjólk er fremur lágt og próteinhlutfall nærri meðallagi. Þessar kýr eru fremur bolgrunnar og útlögulitlar með vel gerð og borin júgur. Sterkasti þátturinn liggur hins vegar í spenagerðinni sem er úrvalsgóð. Mjaltirnar eru um meðallag en skapið heldur mikið. Flekkur verður áfram í notkun sem nautsfaðir auk þess sem takmarkanir eru á notkun hans.
 
Gói 08037 heldur sinni stöðu að mestu og er nú með 103 í heildareinkunn. 
Gói gefur geysilega mjólkurlagnar kýr með gríðarhátt fituhlutfall í mjólk. Próteinhlutfall er hins vegar í tæpu meðallagi. Júgur- og spenagerð þessara kúa er góð, sérstaklega eru spenar vel settir. Mjaltir eru hins vegar ekki nema um meðallag og skapið neðan þess. 
 
Bambi 08049 heldur sinni gríðarsterku stöðu og er nú með 117 í heildareinkunn. 
Segja má að Bambi sé yfirburðagripur, fremstur meðal jafningja og hvergi veikan blett að finna í glæsilegu kynbótamati hans sem byggir orðið á þó nokkrum fjölda dætra. Þetta eru fremur smáar kýr með miklar útlögur, mjólkurlagnar og hutfall verðefna í mjólk er hátt. Júgur- og spenagerð ásamt mjöltum og skapi verður að teljast frábært enda eru þessar kýr geysivinsælar hjá eigendum sínum. Bambi verður áfram í notkun sem nautsfaðir auk þess sem takmarkanir eru á notkun hans. 
 
Kraki 09002 kom til notkunar fyrripart vetrar að lokinni kynbótamatskeyrslu í nóvember. 
Því miður dalar Kraki nokkuð nú og stendur með 101 í heildareinkunn. Það er þó full ástæða til að nota Kraka með hliðsjón af kostum hans og göllum. Kostirnir eru ótvírætt gríðarlega öflug og góð júgurgerð auk góðra mjalta. Auk þess má benda á að Kraki er eitt þeirra nauta sem er með mjög hátt mat fyrir frjósemi dætra þó enn byggi það að mestu á ætterni. Gallar Kraka liggja hins vegar fyrst og fremst í afurðasemi dætranna sem eru í tæpu meðallagi mjólkurlagnar auk þess sem efnahlutföll eru lág. Auk þessa má benda á að Kraki er lítt skyldur afkomendum Kaðals94017, Stígs 97010 og Laska 00010.
 
Bolti 09021 kom til notkunar í vetur að lokinni kynbótamatskeyrslu í nóvember. 
Bolti bætur heldur í og stendur með 105 í heildareinkunn. Dætur Bolta er mjög mjólkurlagnar en efnahlutföll eru næri meðallagi. Stærsta einkenni þessara kúa er hversu gríðarstórar og háfættar þær eru að jafnaði. Júgurgerðin er afbragðsgóð og spenar vel gerðir. Þetta eru vinsælar kýr með góðar mjaltir og meðalskap.
 
Nautsfeður
 
Eins og fram hefur komið í umfjöllun um nautin hér að ofan verða nautsfeður til notkunar næstu mánuði þeir Keipur 07054, Flekkur 08029, Bambi 08049 og Gustur 09003.
 
Áfram er óskað eftir að látið verði vita um nautkálfa undan nautsmæðrum og efnilegum kvígum sem fengu við Sandi 07014, Toppi 07046, Bláma 07058, Laufási 08003 og Kletti 08030 auk ofantalinna nautsfeðra.
 
Væntanleg naut
 
Við næstu keyrslu kynbótamats ætti að öllu óbreyttu að vera hægt ljúka afkvæmadómi nautaárgangs 2009 enda þá liðin 6 ár frá því að þau naut komu í heiminn. Núna í maí hefði verið hægt að afkvæmadæma fleiri naut úr þessum árgangi ef burðaraldur 1. kálfs kvígna væri ekki jafn hár að meðaltali og raun ber vitni. Þannig seinkar hár burðaraldur í raun erfðaframförum í kúastofninum til viðbótar t.d. þeim kostnaði sem hann hefur í för með sér fyrir bændur.
 
Ef við víkjum að þeim nautum sem að öllum líkindum koma úr afkvæmaprófun við næstu keyrslu kynbótamats þá eru það naut fædd 2009 eins og áður sagði. Feður þessara nauta eru einkum Skurður 02012, Spotti 01028, Kappi 01031, Flói 02029 og Lykill 02003. Þá eiga Hersir 97033, Þrasi 98052, Þollur 99008, Laski 00010, Gosi 00032, Snotri 01027 og Glæðir 02001 einnig syni í þessum árgangi sem er frekar stór, telur 27 naut. Eins og komið hefur fram koma þrjú naut úr árganginum til notkunar nú til viðbótar þeim tveimur sem áður höfðu komið til framhaldsnotkunar. Þessi þrjú naut eru synir Laska 00010, Kappa 01031 og Lykils 02003. Því miður eiga nautsfeðurnir úr 2001 árgangnum það sammerkt að hafa fallið mikið í mati þannig að væntingar til sona þeirra eru vægast sagt mjög hóflegar. Synir Skurðs 02012 virðast því miður gefa kýr sem eru fremur seinar í mjöltum. Þá hefur Lykill 02003 lækkað töluvert í mati en það sem einkum háir dætrum hans eru veikbyggð júgur og lítil júgurheysti. Seinni hluti árgangsins, sem telur einkum syni Glæðis 02001 og Flóa 02029, gefur nokkra ástæðu til bjartsýni. Glæðir og Flói sjálfir hafa báðir staðist tímans tönn og standa nú með 110 og 109 í heildareinkunn. 
 
Frekari upplýsingar
 
Nánari upplýsingar um nautin er að finna á nautaskra.net og í nautgriparæktarkerfinu Huppu. Auk þess er vinna við útgáfu nýrrar nautaskrár þegar hafin og vonandi tekst að koma henni út sem fyrst. 

2 myndir:

Passíusálmar sr. Hallgríms
Fréttir 29. mars 2024

Passíusálmar sr. Hallgríms

Passíusálmarnir verða fluttir í Hallgrímskirkju á föstudaginn langa.

Halla tekur upp Íslenskt staðfest
Fréttir 28. mars 2024

Halla tekur upp Íslenskt staðfest

Halla Sif Svansdóttir Hölludóttir, garðyrkjubóndi og eigandi Sólskins grænmetis ...

Uppfærsla á stefnumörkun Bændasamtaka Íslands
Fréttir 27. mars 2024

Uppfærsla á stefnumörkun Bændasamtaka Íslands

Fjölmörg mál voru til afgreiðslu á nýliðnu Búnaðarþingi 2024, úr fimm nefndum, s...

Endurnýting heimil til 1. nóvember 2025
Fréttir 27. mars 2024

Endurnýting heimil til 1. nóvember 2025

Matvælaráðuneytið hefur tilkynnt um frestun á gildistöku banns við endurnýtingu ...

Horfið frá framleiðslutengdum stuðningi
Fréttir 27. mars 2024

Horfið frá framleiðslutengdum stuðningi

Fyrirkomulag landbúnaðarstuðningskerfis á Íslandi mun taka miklum breytingum ef ...

Hyggur á slátrun í haust ef leyfi fæst
Fréttir 26. mars 2024

Hyggur á slátrun í haust ef leyfi fæst

Fyrrverandi sláturhússtjóri á Vopnafirði ætlar ekki að láta deigan síga þrátt fy...

Niðurskurði lokið á fé úr Blöndudal
Fréttir 26. mars 2024

Niðurskurði lokið á fé úr Blöndudal

Niðurskurður á sauðfé frá bæjunum Eiðsstöðum og Guðlaugsstöðum í Blöndudal fór f...

Kornræktarfélag gengur í endurnýjun lífdaga
Fréttir 26. mars 2024

Kornræktarfélag gengur í endurnýjun lífdaga

Kornræktarfélag Suðurlands verður endurvakið sem viðskiptavettvangur ræktenda og...