Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 2 ára.
Kona af frumbyggjaættum í Andesfjöllunum með vænan kindahóp. Annar greinarhöfunda (SM) falaðist eftir kaupum á lömbum hjá nokkrum bændum og virtist sem gangverðið til ferðamanna væri um 100 dollarar m.v. svörin sem fengust við þeim umleitunum.
Kona af frumbyggjaættum í Andesfjöllunum með vænan kindahóp. Annar greinarhöfunda (SM) falaðist eftir kaupum á lömbum hjá nokkrum bændum og virtist sem gangverðið til ferðamanna væri um 100 dollarar m.v. svörin sem fengust við þeim umleitunum.
Fræðsluhornið 5. júní 2019

Heimaslátrun – hvað má og má ekki víða um heim?

Höfundur: Sveinn Margeirsson og Ólafur Margeirsson
Við bræður erum að talsverðu leyti aldir upp á heimaslátruðu lambakjöti og höfum margoft aðstoðað foreldra okkar við að slátra lömbum að hausti.  Í mörgum tilvikum hefur kjöt frá Mælifellsá ratað í frystikistur og á grill ættingja og vina, sem notið hafa góðs af, enda margir hverjir ansi pattaralegir og vel haldnir. Löngu áður en umræða um dýravelferð komst í almenna umræðu var okkur kennt að umgangast ætti sláturlömb af virðingu og gæta þess að stress og álag á þeim væri sem allra minnst.  Þannig liði lömbunum best og kjötið yrði af þeim gæðum sem mætti vænta af alvöru íslenskum fjallalömbum. 
 
Sjö systkina hópur flutti allur á mölina, eins og gengur, en tengslin við smalamennsku, heimaslátrun og umræðu um verðmætasköpun í landbúnaði hafa aldrei rofnað. Það er sama hversu mikið málin eru rædd, ekki fæst neinn botn í það hvers vegna bændur eigi ekki að geta unnið að eigin verðmætasköpun í anda „beint frá býlis“, enda öllum ljóst sem til þekkja að umtalsverð heimaslátrun á sér stað hvort eð er. Engin dæmi höfum við enn fundið um neytendur sem veikst hafa af neyslu heimaslátraðs lambakjöts og væru dæmi um það vel þegin, búi lesendur yfir slíku.
 
Í anda þessarar umræðu höfum við bræður, samhliða ferðalögum og störfum síðustu vikna, stundað skemmtilega rannsóknavinnu varðandi ríkisafskipti og regluverk þegar kemur að slátrun lamba. Heimskt er heimaalið barn og höfum við því lagt okkur eftir því að skilja það helsta sem einkennir slátrun bænda á nokkrum stöðum í heiminum.
 
Staðan á Íslandi og Gran Canaria virðist á margan hátt mjög svipuð. Bændur hafa ekki formlega leyfi til að stunda slátrun lamba. Margir hins vegar gera það.  Um leið og byrjað er að spyrja nánar út í málin, er manni bent á mann sem þekkir mann sem getur komið þér í kynni við bónda sem slátrar heima og er tilbúinn að selja þér kjöt. Vöruþróun er hins vegar takmörkuð, enda um svarta atvinnustarfsemi að ræða og áhættan af vöruþróun því veruleg.  Ríkið tapar skatttekjum og meðferð á úrgangi er vafasöm og alfarið undir þeim komin sem heimaslátrunina stunda.
 
Í Marokkó er heimilt að slátra lömbum og geitum hjá bændunum sjálfum. Í sumum tilvikum er um bændur að ræða í þeim skilningi sem við eigum að venjast, í öðrum tilvikum fremur um hirðingja að ræða. Kjöt er selt á mörkuðum og manna í millum. Nýting á aukahráefnum virðist góð, en hreinlæti á mörkuðum er mun takmarkaðra en við eigum að venjast og oft hægt að greina ýldulykt við sorpílát. Regluverk hefur verið einfaldað síðustu ár og stuðningur við bændur aukinn, ekki síst til að auka fæðuöryggi og draga úr vægi innflutnings á matvælum, en sveiflur á heimsmarkaði með hrávörur hafa reynst fátækari íbúum landsins erfiðar.
 
Í Ekvador er heimilt að slátra lömbum og kindum. Bændur af frumbyggjaættum í Andesfjöllunum halda sauðfé í talsverðu magni og er þeim heimilt að slátra og vinna afurðir. Rafael Correa, fyrrverandi forseti Ekvador, sem dvalist hafði meðal fólks af frumbyggjaættum á námsárum sínum, innleiddi stuðningskerfi við uppbyggingu frumbyggja á ferðaþjónustu og er algengt að afurðir úr heimaslátrun séu seldar á veitinga- og gististöðum þeirra. Correa, sem flæktist í ýmiss konar spillingarmál á stjórnartíma sínum, getur vart talist vinsæll í Ekvador miðað við umtal margra íbúa borgarinnar Quito. Séu frumbyggjar hins vegar spurðir út í kauða, nýtur hann mun meiri stuðnings, ekki síst vegna þess að hann studdi við möguleika þeirra til að skapa aukin verðmæti í dreifðum byggðum Andesfjalla.
 
Á Kúbu er heimaslátrun leyfileg. Hægt er að kalla til dýralækna til að meta ástand dýra fyrir slátrun og afurðanna eftir slátrun, en það er ekki skylda. Viðskiptamódel framsækinna bænda og veitingamanna gengur út á milliliðalaus viðskipti, lang­tímasamband og þróun á vöruframboði í takti við breytta eftirspurn, en ferðamennska er orðin mikilvæg stoð efnahags Kúbu. Lífræn ræktun er á uppleið meðal þess hluta bænda sem stefna á sölu afurða til ferðamanna. Það er talsverð breyting frá fyrri árum þar sem áhersla var lögð á magnræktun (e. intensive farming) og notkun hjálparefna á borð við skordýraeitur, án þess að auka viðnámsþrótt lands með skiptiræktun. Þeir hlutar landbúnaðarframleiðslu sem háðir eru miklum ríkisafskiptum (sykur og kaffi sem dæmi) virðast vera í miklum vandræðum og búa við ósveigjanlegt kvótakerfi, þar sem ríkið tekur til sín um 90% framleiðslunnar á hrakvirði.
 
Í Sviss er hægt að kaupa heima­slátrað kjöt á bænda­mörkuðum, líkt og lýst var í 9. tbl. Bændablaðsins 2019, og fyrir hendi er skýrt regluverk um meðferð sláturdýra og afurða. Við höfum ekki enn lagt í að skilja til hlítar hvers vegna Svisslendingar geta farið þessa leið, á meðan Íslendingar telja sig síður geta gert það (þeir hafa a.m.k. ekki enn stigið það skref).  Mögulega snýst það um pólitískt hugrekki, stefnu um fæðuöryggi eða þá að við Íslendingar höfum gengið skrefinu lengra í innleiðingu reglna Evrópusambandins en aðrir meðlimir EES, eins og stundum virðist hafa verið raunin.
 
Að lokum er vert að geta þess hvernig náfrændur okkar og vinir í Færeyjum líta á málin. Þar er ekki einvörðungu heimaslátrun leyfileg, heldur kennd í skólum. Sala á afurðum heimaslátrunar er leyfileg í verslunum, svo framarlega sem skýrt kemur fram á umbúðum að um heimaslátrað kjöt sé að ræða.
Ef horft er raunsæisaugum á málið má ljóst vera að heimaslátrun lamba er hluti af atvinnustarfsemi í íslenskum sveitum, líkt og víða erlendis. Sögulega séð hefur heimaslátrun lamba tíðkast allt frá landnámi og í áratugi í andstöðu við regluverk sem hefur verið ætlað að koma í veg fyrir hana. Í ljósi þessa má spyrja sig að því hvers vegna regluverkið er jafn stíft og raun ber vitni og hvaða samfélags- og efnahagslegar afleiðingar það gæti haft ef því yrði breytt, í átt að auknu frjálsræði og minni ríkisafskiptum. Það verður umfjöllunarefni síðustu greinar okkar um málið hér í Bændablaðinu.
 
Sveinn Margeirsson og Ólafur Margeirsson, bændasynir
Grein nr. 3 af fjórum í greinaflokki Sveins og Ólafs um reglur og ríkisafskipti af landbúnaði.

4 myndir:

Vinstri grænir stýra ráðuneyti matvæla, sjávarútvegs og landbúnaðar
Fréttir 27. nóvember 2021

Vinstri grænir stýra ráðuneyti matvæla, sjávarútvegs og landbúnaðar

Samkvæmt heimildum Bændablaðsins mun þingmaður Vinstri grænna vera með ráðuneyti...

Bitbein um áburðarnotkun
Fréttir 26. nóvember 2021

Bitbein um áburðarnotkun

Lífrænir bændur í Danmörku geta nýtt sér húsdýraáburð frá ólífrænum búum í meira...

Nær 36 milljónir íbúa ESB geta ekki kynt heimili sín sómasamlega
Fréttir 26. nóvember 2021

Nær 36 milljónir íbúa ESB geta ekki kynt heimili sín sómasamlega

Í síðasta Bændablaði var greint frá því að samkvæmt könnun sem kynnt var af Euro...

Kolefnissporið kortlagt
Fréttir 26. nóvember 2021

Kolefnissporið kortlagt

Skútustaðahreppur hefur samið við nýsköpunarfyrirtækið Greenfo um að kortleggja ...

Flestir bílaframleiðendur veðja á efnarafala fremur en rafhlöður í þung ökutæki
Fréttir 25. nóvember 2021

Flestir bílaframleiðendur veðja á efnarafala fremur en rafhlöður í þung ökutæki

Vetnisvæðing, sem nú er rekin áfram af mikilli ákefð hjá öllum stærstu iðnríkjum...

Rekstur vindorkugarða sagður brjóta á mannréttindum Sama
Fréttir 25. nóvember 2021

Rekstur vindorkugarða sagður brjóta á mannréttindum Sama

Norðmenn hafa upplifað spreng­ingu í uppsetningu vindorkustöðva á undanförnum ár...

Rúlluplast í plastgrindur í göngu­stígum og bílaplönum slær í gegn
Fréttir 24. nóvember 2021

Rúlluplast í plastgrindur í göngu­stígum og bílaplönum slær í gegn

Fyrirtækið Ver lausnir í Garðabæ hefur verið að vinna að athyglisverðu verkefni ...

Leiðbeiningar um hvernig hámarka megi gæði nautakjöts
Fréttir 24. nóvember 2021

Leiðbeiningar um hvernig hámarka megi gæði nautakjöts

Nýr upplýsingabæklingur hefur verið gefinn út undir merkjum Íslensks gæðanauts. ...