Hækkun raforkuverðs skekkir samkeppnisstöðuna
Nýlegar raforkuverðshækkanir hjá garðyrkjubændum í ylrækt hafa að undanförnu leitt til hærra vöruverðs á íslensku grænmeti.
Halla Sif Svansdóttir Hölludóttir, eigandi og framkvæmdastjóri Sólskins grænmetis, segir að þrenns konar verðhækkanir hafi lagst á raforkukostnað garðyrkjubænda að undanförnu. „Í nóvember á síðasta ári hækkaði RARIK dreifingarkostnaðinn um átta prósent og aftur nú eftir áramótin um fjögur prósent. Síðan kom raforkuverðshækkunin nú í byrjun árs. Við eigum eftir að fá fyrsta reikninginn eftir hækkun en það er vitað að sú hækkunin er um þrjátíu prósent, en það kemur inn mismunandi verð hvenær dags lýst er svo erfitt er að sjá núna í dag nákvæmlega hvernig fyrsti mánuðurinn mun koma út. Svo urðu launahækkanir hjá mínu starfsfólki um áramótin um fimm prósent að meðaltali.“
Vöruverðshækkun upp á 8-10 prósent
„Við gáfum út nýjan verðlista fyrir okkar afurðir í desember sem tók gildi um áramótin. Þar er hækkunin aðeins mismunandi eftir tegundum, en á bilinu átta til tíu prósent. Við vorum með vöruverðshækkun í október upp á um fjögur prósent, einmitt út af hækkun á dreifingarkostnaði og þá vorum við líka að gera upp aðrar hækkanir sem við höfðum fengið tímabilið á undan,“ heldur Halla áfram.
„En við sjáum það ekki fyrr en núna um mánaðamótin hvort vöruverðshækkunin hjá okkur hafi verið næg til að að halda í við raforkuverðshækkanirnar.
Við erum hins vegar að fínstilla þetta og það á eftir að skýrast betur í mars hvort við getum lýst svona mikið á nóttunni, með lægri lýsingarkostnaði, þegar líður nær sumrinu. Við þurfum væntanlega að fjárfesta í búnaði sem getur mælt þetta skilmerkilega fyrir okkur, líka hvort til dæmis við getum minnkað lýsinguna meira yfir sumartímann.“
Eðlilegt að hækkað sé jafnt og þétt
Þann 1. maí á síðasta ári sagði Halla skilið við Sölufélag garðyrkjumanna og fór að selja vörurnar sínar sjálf og dreifa þeim.
„Ég er ekki hlynnt því að vörurnar hækki bara einu sinni eða tvisvar á ári eins og mér fannst venjan vera hjá bændum í Sölufélaginu þegar við vorum þar. Held það sé sanngjarnast og eðlilegast að það sé bara hækkað jafnt og þétt – og þá minna í hvert skiptið – með ábyrgum verðlagsgrunni og eftir aðstæðum hverju sinni þannig að vöruverð haldist í takti við raunkostnað við framleiðsluna.
Við höfum reynt að vinna út frá þessu í sambandi okkar við þær verslanir sem við eigum í viðskiptum við.“
Framleiðendum att saman í verðsamkeppni
Halla segir að flestar verslanir, sem hennar fyrirtæki er í viðskiptasambandi við, hafi tekið verðhækkunum ágætlega þótt enginn sé ánægður með verðhækkanirnar sem slíkar. „Þó höfum við orðið vör við að einstaka verslanir vilja ekki kaupa vörurnar okkar á uppsettu verði – og maður finnur fyrir því að vegna þessara hækkana á raforkukostnaðinum þá hefur borið á því að tilteknar verslanir etji okkur saman í samkeppninni um verð. Bæði innbyrðis og í samkeppninni við innfluttar vörur. Þannig hefur þetta skekkt samkeppnisstöðu okkar. Staðan er núna sú að það er lítill fyrirsjáanleiki hjá okkur með sölu á okkar afurðum, sem eru tómatar af nokkrum tegundum og gúrkur allt árið um kring, en svo erum við með útiræktað grænmeti á sumrin.
Það er helsta vandamálið sem hefur kannski aukist með þessum raforkuverðshækkunum, að verslanir kaupa stundum af okkur og stundum ekki – og prútta meira um verðið. Það er svolítið erfitt að byggja framleiðslu sína á því.
Við ætlum að bregðast við því meðal annars með því að fjölga tegundum hjá okkur og auka sveigjanleika fyrir markaðssetningu, jafnvel að horfa meira til veitingahúsanna. Það flækir lífið mitt og hækkar aðeins rekstrarkostnaðinn tímabundið, en það er skárra en að vera óöruggur með að geta selt afurðirnar sínar.“
Ný ríkisstjórn hefur lýst því yfir að hún vilji koma til móts við garðyrkjubændur og lækka raforkukostnað þeirra og segir Halla að sá tímapunktur sé kominn að það þurfi að sýna fram á hver raunkostnaður við framleiðslu á afurðum garðyrkjunnar er, svo hægt sé finna út hver sanngjarn stuðningur við greinina sé.
„Maður heyrir að sumir garðyrkjubændur vilja halda að sér höndum varðandi verðhækkanir til neytenda og standa þannig með þeim. Þeir taka þá kostnaðinn á sig til að styðja sína vöru en það hjálpar greininni ekki í þeirri vegferð að sýna stjórnvöldum og öllum öðrum hver staðan raunverulega er. Sérstaklega á það við um okkur nýliðana sem erum gjarnan með hærri fjármagnskostnað en þeir sem hafa verið lengi í greininni.
Ef ríkið vill raunverulega styðja við bakið á okkur garðyrkjubændum þá þarf að taka mið af stöðu hvers og eins þeirra í útfærslum á stuðningnum. Hingað til hefur dreifingin bara verið niðurgreidd úr föstum potti sem deilist þá niður á alla og hefur kannski ekki mjög mikið að segja. En ef það á að fara að styrkja okkur varðandi raforkukostnaðinn sjálfan með leiðréttingum á töxtum til dæmis, þá væri það náttúrlega bara gríðarleg búbót.“
Salan aftur á uppleið
Halla segir að salan sé aftur á uppleið eftir lægð fyrir jólin og hún finni fyrir því að neytendur standi með þeim. „Við fundum fyrir því í desember að sala hjá okkur dróst mikið saman en hefur rokið af stað aftur núna, þannig að við höfum verið að spá í hvað valdi.
Fólk leggur oft áherslu á hollustu frekar í janúar en desember en ég hef hugleitt hvort það geti verið vegna umræðunnar um fyrirsjáanlegar verðlagshækkanir sem neytendur fóru að horfa til innflutta grænmetisins meira.“