Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 6 ára.
Göngum til kosninga
Mynd / BBL
Skoðun 19. október 2017

Göngum til kosninga

Höfundur: Sindri Sigurgeirsson

Það er stutt í þingkosningarnar og baráttan um hylli kjósenda er að ná hámarki. Það var auðvitað ekki meiningin og má ekki verða að reglu að kjósa á hverju einasta ári. Einhverjir gætu kallað það lýðræðislegra en staðreyndin er engu að síður sú að undirbúningur mála sem eiga að fara í gegnum ríkisstjórn og Alþingi tekur tíma. Eigi að undirbúa breytingar vel þarf að vanda til þeirra og gefa meðferð þeirra tíma. 

Eftir að ríkisstjórn springur gerist fátt fyrr en að ný hefur verið mynduð og tekið til starfa. Ráðherrar þurfa líka tíma til að setja sig inn í þá málaflokka sem þeim er ætlað að fara með svo það getur liðið alllangur tími þar til fer að sjást til einhverra verka. Sá pólitíski óstöðugleiki sem við höfum upplifað hér síðustu mánuði er ekki góður fyrir samfélagið, hvaða skoðun sem menn hafa á þeim flokkum sem standa við stýrið hverju sinni. Þess er í það minnsta óskað hér að niðurstöður kosninganna færi okkur meiri stöðugleika við stjórn landsins en undanfarið. Jafnframt hvet ég alla lesendur til að nýta kosningaréttinn. Kannski eru einhverjir orðnir leiðir á endurteknum kosningum, en það breytir ekki því að við berum öll ábyrgð á því samfélagi sem við búum í og rétturinn til að kjósa með lýðræðislegum hætti er langt því frá sjálfgefinn í veröldinni. Svo við skulum ganga til kosninga eins og annarra verka í sveitinni og klára það með sóma.

Við þurfum stöðugleika og við þurfum framtíðarsýn

Það eru mörg mál sem brenna á bændum nú sem fyrr. Stjórnarslitin settu vinnu við aðgerðir vegna vandans í sauðfjárrækt í uppnám og ekkert af þeim hugmyndum sem settar voru fram komust til framkvæmda. Vandinn er enn óleystur og hlýtur að verða eitt af fyrstu verkum nýrrar ríkisstjórnar að taka hann til meðferðar. 

Það styttist í endurskoðun búvörusamninga árið 2019. Við höfum hvatt bændur til að spyrja framboðin um áherslur sínar í því efni. Það verður áhugavert að vita hvaða línu ný ríkisstjórn dregur í því máli, en enn sem komið er hefur ekki mikil umræða orðið um landbúnaðinn í kosningabaráttunni. Bændur hljóta að leggja áherslu á bætt kjör í þeim viðræðum. Það þarf að auka virði afurða og þar af leiðandi að skoða hvernig það verði best gert, til dæmis með því að virðisaukinn verði eftir í sveitunum í meira mæli en nú er raunin. Ein leið til þess er að greiða sem mest fyrir beinum viðskiptum á milli bænda og neytenda. Mestu skiptir samt að við endurskoðun á löggjöf um landbúnað verði horft til heildarhagsmuna, ekki tilviljanakenndra inngripa. Við þurfum stöðugleika og við þurfum framtíðarsýn. Landbúnaðurinn er grein hinna löngu framleiðsluferla.

90% af öllum vörum í tollskrá bera engan toll

Samkeppni er að aukast og tollvernd að minnka. Allir tollar, nema á ákveðnum landbúnaðarvörum, hafa verið felldir niður og nú er svo komið að um 90% af öllum vörum í tollskrá bera engan toll. Það er margfalt meira en víðast hvar tíðkast. Til dæmis er hlutfallið um það bil fjórðungur á innflutningi til ESB. Í samningum um fríverslun er því ekkert að bjóða lengur nema með því að sækja að landbúnaðinum. Það er áhyggjuefni því að á sama tíma hefur tollvernd almennt rýrnað vegna sterks gengis krónunnar og fleiri ytri þátta.  Innflutningur hefur því aukist á sama tíma og útflutningur hefur orðið óhagstæðari. Costco, sem kom inn á markaðinn hér með látum fyrr á árinu, selur til dæmis ekkert innlent grænmeti. Það er verulegt áhyggjuefni.

Umhverfismálin eru annar þáttur þar sem landbúnaðurinn þarf að stíga sterkar fram sem og samfélagið allt. Þar er ekki síst um að ræða lausnir í loftslagsmálum bæði með minni losun og aukinni bindingu, meðal annars í gegnum landgræðslu, skógrækt og endurheimt votlendis. Það eru líka möguleikar í aukinni orkuframleiðslu á bændabýlum bæði til nýtingar á bæjunum sjálfum en einnig til að vera hluti af nauðsynlegri innviðauppbyggingu við rafbílavæðingu í landinu.

Setjum aukinn kraft í nýsköpun, menntun og þróunarstarf

Við þurfum vissulega líka að skoða okkar eigin umhverfi. Það þarf að setja aukinn kraft í nýsköpun, menntun og þróunarstarf í landbúnað, auðvelda fjárfestingar og einnig að styrkja sérstöðu okkar framleiðslu í hugum neytenda. Við eigum sannarlega sameiginlega hagsmuni með neytendum í að berjast fyrir bættri upplýsingagjöf á markaði. Þar er ekki síst átt við skýrari upprunamerkingar, ekki bara í verslunum heldur líka annars staðar þar sem matvæli eru seld svo sem í veitingahúsum og mötuneytum. Þar vantar mikið upp á. En það eru fleiri upplýsingar sem er eftirspurn eftir. Þar má nefna dýravelferð, framleiðsluaðstæður svo sem aðbúnað starfsfólks, vatnsnotkun ásamt lyfja- og varnarefnanotkun. Það er veruleg og verðmæt sérstaða hérlendis hversu sýklalyfjanotkun er hér lítil, á tímum þegar sýklalyfjaónæmi er að verða eitt af alvarlegustu heilsufarsvandamálum veraldarinnar. Lítil notkun er almenna reglan hérlendis, líka í svína- og alifuglarækt. Því hefði utanríkisráðherra mátt muna eftir þegar að hann segir að það eigi ekki að vernda það sem hann kallar verksmiðjubúskap.

Mörgum framboðum hefur orðið tíðrætt um uppbyggingu innviða í kosningabaráttunni.  Undir það skal tekið. Það er áhyggjuefni hvað grunnstoðirnar, eins og vegakerfið, orkuflutningskerfið og önnur opinber þjónusta hefur liðið fyrir viðhaldsleysi á undanförnum árum. Síðast en ekki síst vona ég að fyrirheit um breytingar í því efni verði sem fyrst að veruleika með nýrri ríkisstjórn. Um leið ítreka ég hvatningu til ykkar allra um að nýta kosningaréttinn og hvet ykkur til að fara vel yfir svör framboðanna við spurningum Bændablaðsins sem er að finna annars staðar í blaðinu. Fleiri spurningar og svör um landbúnað eru jafnframt á vef blaðsins, bbl.is.

Gýgjarhólskot ræktunarbú ársins
Fréttir 16. apríl 2024

Gýgjarhólskot ræktunarbú ársins

Á fagfundi sauðfjárræktarinnar sem haldinn var á dögunum var Gýgjarhólskot í Bis...

Verulegur samdráttur í innflutningi á áburði
Fréttir 16. apríl 2024

Verulegur samdráttur í innflutningi á áburði

Matvælastofnun hefur birt leiðrétta skýrslu yfir áburðareftirlit síðasta árs.

Ísteka í yfirburðastöðu
Fréttir 15. apríl 2024

Ísteka í yfirburðastöðu

Í nýrri ályktun Samkeppniseftirlitsins kemur fram að Ísteka beiti sterkri stöðu ...

Hverfandi líkur á riðusmiti árið 2032
Fréttir 15. apríl 2024

Hverfandi líkur á riðusmiti árið 2032

Í nýrri landsáætlun verður stefnt að því að hverfandi líkur verði að upp komi ri...

Hrútaverðlaun fyrir Gullmola og Blossa
Fréttir 15. apríl 2024

Hrútaverðlaun fyrir Gullmola og Blossa

Á fagfundi sauðfjárræktarinnar sem haldinn var í Ásgarði Landbúnaðarháskóla Ísla...

Sláturhús brann til grunna
Fréttir 12. apríl 2024

Sláturhús brann til grunna

Sláturhúsið í Seglbúðum í Landbroti brann til grunna þann 1. apríl.

Ekki farið að lögum um útivist nautgripa
Fréttir 12. apríl 2024

Ekki farið að lögum um útivist nautgripa

Matvælastofnun lagði stjórnvaldssektir á þrjú kúabú á Vesturlandi á dögunum vegn...

Dregur úr kaupvilja
Fréttir 12. apríl 2024

Dregur úr kaupvilja

Niðurstöður tilboðsmarkaðar fyrir greiðslumark mjólkur í byrjun apríl sýna að ja...