Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 6 ára.
Allt í kringum Ísland vex þarategund sem virðist innihalda sæmilegt magn af bromoformi. Það er tegund sem heitir „laminaria saccharina“, eða beltisþari. Á myndinni eru frá vinstri Símon Sturluson og Árni Jón Einarsson með beltisþara.
Allt í kringum Ísland vex þarategund sem virðist innihalda sæmilegt magn af bromoformi. Það er tegund sem heitir „laminaria saccharina“, eða beltisþari. Á myndinni eru frá vinstri Símon Sturluson og Árni Jón Einarsson með beltisþara.
Mynd / Símon Sturluson
Fréttaskýring 25. nóvember 2016

Getur dregið úr metangasmyndun og líka sparað fóðurgjöf

Höfundur: Hörður Kristjánsson
Eins og greint var frá í síðasta Bændablaði hafa ástralskir vísindamenn verið að rannsaka möguleika á því að minnka metangasframleiðslu í búfé með því að blanda þangi í fóðrið. Umfjöllun Bændablaðsins vakti mikla athygli og meðal þeirra sem hafa tjáð sig um málið er Hörður G. Kristinsson hjá Matís.
 
Hörður, sem er rannsókna- og nýsköpunarstjóri hjá Matís, segir þessar rannsóknir í Ástralíu áhugaverðar og gefi fullt tilefni til tengdra rannsókna hér á landi. 
 
„Það er þó engin spurning að það er vel þess virði að skoða þetta nánar, líka hér á landi.“
Hann segir að svo virðist sem íblöndun þangs í fóður búfénaðar í litlu magni hafi ekki neikvæð áhrif á líf dýranna, en það þurfi þó að rannsaka frekar.
 
Tvöfaldur ávinningur af minnkun á metangasi
 
„Það sem ég hef skoðað af þessum rannsóknum er að vísindamennirnir í Ástralíu tala um að metangasframleiðsla í meltingarvegi dýranna leiði til 15% orkutaps í fóðrinu sem þau éta. Það er sú orka sem fer í að framleiða metangasið. Með því að minnka metanframleiðsluna ættu menn því að fá betri fóðurnýtingu sem er mjög áhugavert,“ segir Hörður. 
 
Bendir hann á að þannig yrði tvöfaldur ávinningur af því að minnka metanframleiðslu í meltingarvegi dýranna, annars vegar minnkun á losun gróðurhúsalofttegunda og hins vegar mögulegur sparnaður í fóðurgjöf.  
 
Virka efnið bromoform
 
Hann segir að virka efnið sem um ræðir og dregur úr myndun metangass í meltingarvegi dýranna heiti bromoform (CHBr3). Þetta efni finnst í miklum mæli í náttúrunni og þá sérstaklega í þangi og svifþörungum (phytoplankton). Einangrað sem vökvi er það fölgult að lit við stofuhita og sagt hafa sæta lykt, ekki ósvipað klóróformi, og hefur mjög hátt sýrustig.
 
„Það er töluvert af þessu efni í hafinu og ansi mikið í svifþörungum,“ segir Hörður.
 
Þangið sem áströlsku vísinda­mennirnir fundu og innihélt hátt hlutfall af bromoformi heitir „Asparagopsis taxiformis“. Ekki er vitað til að sú tegund finnist við Ísland. Við Ástralíu er ekki mikið af þessu þangi og ef fara ætti að nota það í fóðurblöndur í stórum stíl, þá þyrfti mjög mikið magn. Eina leiðin til að anna því væri þá ræktun á þessu tiltekna þangi sem ekki mun vera auðvelt.
 
Þyrfti mikið magn af þangi
 
„Ef við tökum alla nautgripina í Ástralíu, sem eru um 2,5 milljónir, þá þyrfti um 3 milljón tonn af þangi. Það er gríðarlegt magn ef tekið er tillit til þess að heimsframleiðslan sem nýtt er af þangi í dag er um 25 milljónir tonna,“ segir Hörður.
 
Beltisþarinn mikil uppspretta bromoforms
 
− Eru þá ekki mögulega aðrar þang­tegundir með svipaða virkni sem mætti nýta í þetta?
„Ég hef verið að fletta þessu upp og hef séð eina tegund sem vex hér við Ísland og virðist innihalda sæmilegt magn af bromoformi. Það er tegund sem heitir „laminaria saccharina“, eða beltisþari.“ 
 
Þess má geta að beltisþari vex hér við land í  miklum breiðum og er auk þess hraðvaxin jurt. Þetta eru stórar, aflangar, brúnar blöðkur sem sitja á stilk (þöngli) sem er festur við klöppina með greinóttum festusprotum (þöngulhaus). Hann vex neðst í grýttum fjörum eða klapparfjörum. Beltisþarinn vex á vorin og er blaðkan fullvaxin í maí til júní. Beltisþarinn getur orðið meira en 5 metra langur og blaðið rúmur metri á lengd. Algengast er hins vegar að blaðið á fullvöxnum beltisþara sé 1,5 til 2,0 metrar á lengd og 20 til 30 cm á breidd. Stilkur beltisþara er sívalur og heill í gegn. Hann er oftast á bilinu 20 til 100 cm á lengd, samkvæmt heimild úr riti Karls Gunnarssonar um þara frá 1997. 
 
Samkvæmt Vísindavef Háskóla Íslands telst beltisþari til brún­þörunga (Fucophyceae). Hann finnst allt í kringum landið og vex neðst í fjöru og allt niður á 25 metra dýpi. Kjörbotngerð beltisþarans er malarbotn. Á heimsvísu vex hann allt í kringum norðurhvel jarðar frá Norður-Rússlandi og Skandinavíu suður til Galisíu á Spáni. Beltisþari er algengur í fjörum bæði við Bretlandseyjar og á Írlandi.
 
Í fjörðunum fyrir austan vex afbrigði af beltisþara sem er með holan stilk. Áður var sá þari flokkaður sem sér tegund, Laminaria faeroensis, en er nú skilgreindur sem deilitegund beltisþarans.
 
Á vef Rannsóknasjóðs í sjávarútvegi AVS er greint frá verkefni sem unnið var að 2014 og hét „Þróun ,matvæla úr beltisþara“. Þar segir að verkefnið hafi snúist um að bæta nýtingu og auka verðmæti beltisþara með því að þróa vinnsluferla fyrir beltisþara í neytendavörur. Samhliða því að öðlast þekkingu og færni við meðhöndlun og vinnslu beltisþara. Beltisþari sem og annar þari hefur hingað til verið talin vannýtt auðlind við Íslandsstrendur. 
 
Þörf á að rannsaka efnainnihald þarans betur
 
Hörður segir að nauðsynlegt sé að rannsaka notkun þara í fóður betur og þá líka hvort önnur efni í þaranum geti valdið meltingartruflunum hjá búfé. Samkvæmt rannsóknunum í Ástralíu voru menn þar að gefa 2% hlutfall af þangi með blöndun í annað fóður og gaf það allt að 99% minnkun á myndun á metangasi. Þar var einnig talað um að ef hlutfallið færi um eða yfir 10% gæti það haft neikvæð áhrif á meltinguna hjá dýrunum. 
 
Segir Hörður að þótt megnið af tilraununum í Ástralíu hafi verið á tilraunaskala, hafi menn þar líka verið að gera mælingar á lifandi dýrum. Því væri fróðlegt ef þetta yrði rannsakað betur. 
 
Svifþörungar líka álitlegur bromoformgjafi
 
Svifþörungar (grænþörungar - phytoplankton) innihalda líka mikið af bromoformi. Þeir vaxa í gríðarlegu magni í heimshöfunum m.a. við Ísland og framleiða mikið af súrefni. Við ljóstillífunina og súrefnisframleiðsluna nýta þeir kolefni úr andrúmsloftinu og vinna þannig gegn gróðurhúsaáhrifum jarðar. Áætlað hefur verið að á milli 50% til 85% af súrefni heimsins sé framleitt með ljóstillífun svifþörunga.
 
Svifþörungar vinna gegn gróðurhúsaáhrifum
 
Samkvæmt vefsíðu NASA draga þörungar um 10 gígatonn af kolefni úr andrúmsloftinu árlega og fella það til botns þegar þeir drepast. Þeir innihalda mikið af omega 3 fitusýrum og eru jafnframt mjög olíurík tegund og hafa m.a. verið notaðir til að framleiða lífeldsneyti. Slíkir þörungar hafa verið ræktaðir í Japan frá 1960 til ýmissa nota. 
 
Þörungarnir eru einfrumungar sem fjölga sér með skiptingu. Þeir eru örsmáir, um 1/1000 millimetrar til 2 mm í þvermál. Svifþörungar eru frumbjarga lífverur sem nýta sér sólarorku og ólífræn efni til vaxtar og viðgangs. 
 
Matís gaf reyndar út skýrslu um ræktun og nýtingu svifþörunga við Ísland árið 2012. Var hún unnin í samvinnu við Háskólann á Akureyri, Hafrannsóknastofnun, Verkefnasjóð sjávarútvegsins og sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið.
 
Skoða þarf möguleg áhrif á kjötgæði og mjólk
 
„Allt þetta þyrfti að rannsaka betur og íblöndun í fóður með tilliti til langtímaáhrifa á dýr. Þá væri áhugavert að rannsaka líka hvaða áhrif slíkt hefði á kjötgæði. Það er vel þekkt að fóðursamsetning hefur þar mikil áhrif sem og á bragðgæði.
 
Sjálfur hef ég tekið þátt í rann­sóknum á hvaða áhrif mismunandi fóður hefur á svín, t.d. með íblöndun á fiskimjöli og lýsi. Það er því fullt tilefni til að skoða þetta betur og eitthvað sem landbúnaðurinn og sjávarútvegurinn gætu skoðað í sameiningu,“segir Hörður G. Kristinsson. 
 
Varðandi íblöndun á þangi eða þara í fóður hjá mjólkurkúm benda Ástralarnir líka á nauðsyn frekari rannsókna. 

8 myndir:

Lífræni dagurinn haldinn hátíðlegur í Kaffi Flóru
Fréttir 25. september 2023

Lífræni dagurinn haldinn hátíðlegur í Kaffi Flóru

Lífræni dagurinn var haldinn hátíðlegur víðs vegar um landið laugardaginn 16. se...

Ágúst verður forstöðumaður
Fréttir 25. september 2023

Ágúst verður forstöðumaður

Ágúst Sigurðsson hefur verið skipaður forstöðumaður Lands og skógar, nýrrar stof...

Skeljungur kaupir Búvís
Fréttir 25. september 2023

Skeljungur kaupir Búvís

Samningar hafa tekist um kaup Skeljungs á öllu hlutafé í Búvís. Bæði fyrirtækin ...

Ævintýralegt ferðalag fjallkóngsins
Fréttir 22. september 2023

Ævintýralegt ferðalag fjallkóngsins

Heimildamyndin Konungur fjallanna var frumsýnd 12. september í Bíóhúsinu á Selfo...

Sauðfjárafurðir af sjálfbæru beitilandi
Fréttir 22. september 2023

Sauðfjárafurðir af sjálfbæru beitilandi

Nú í haust verða íslenskar sauðfjárafurðir af vel grónu og sjálfbæru beitilandi ...

Fé fækkað um 3.500 á undanförnum árum
Fréttir 21. september 2023

Fé fækkað um 3.500 á undanförnum árum

Laugardaginn 2. september var réttað í Ljárskógarétt í Dölum, rétt norðan Búðard...

Landbúnaður í fjárlögum  ársins 2024
Fréttir 21. september 2023

Landbúnaður í fjárlögum ársins 2024

Í síðustu viku kynnti Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra fjárlagafrumvarp sitt...

Garðyrkjubændur í áfalli
Fréttir 21. september 2023

Garðyrkjubændur í áfalli

Einu landbúnaðartengdu verk­efnin í fjárlögum ríkisins fyrir árið 2024 sem fá au...