Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 5 ára.
Guðfinna Harpa Árnadóttir, bóndi og formaður Landssamtaka sauðfjárbænda. Mynd / HKr.
Guðfinna Harpa Árnadóttir, bóndi og formaður Landssamtaka sauðfjárbænda. Mynd / HKr.
Fréttir 28. júní 2019

Gæðastýringin er til bóta en ekki hafin yfir gagnrýni

Höfundur: Vilmundur Hansen

Landnýtingarþáttur gæða­stýringar í sauðfjárrækt var harðlega gagnrýndur í riti sem prófessor við Landbúnað­arháskóla Íslands sendi frá sér fyrir stuttu. Í gagnrýninni er þess krafist að umhverfisáhrif sauðfjárbeitar standist viðmið um sjálfbærni og ástand landsins sem er beitt.

Guðfinna Harpa Árnadóttir, formaður Landssambands sauðfjárbænda, segir að verkefni eins og landnýtingarþáttur gæðastýringar í sauðfjárrækt séu í sífelldri mótun og aldrei hafin yfir gagnrýni. „Verkefnið hefur tekið miklum breytingum frá upphafi enda er það lifandi og þarf að mótast eftir því sem við öðlumst reynslu og þekkingu.“

Margþætt gagnrýni

Guðfinna segir að hvað varði gagnrýni frá Ólafi Arnalds hjá  Landbúnaðarháskólanum þá beinist hún í ýmsar ólíkar áttir. „Í fyrsta lagi er gagnrýni á það sem getur kallast stjórnsýsla verkefnisins og lýtur að söfnun og aðgengi að gögnum sem er eitthvað sem stjórnvöld hafa með að gera og svara fyrir. Við bændur höfum til dæmis ekki aðgengi að þeim gögnum sem nýtt voru við gerð skýrslunnar.

Í öðru lagi er hörð gagnrýni á að þeir aðilar sem að verkefninu koma hafi ekki þekkingu, metnað og að vinnubrögð séu ófagleg. Hér er einkum verið að gagnrýna starfsfólk Landgræðslunnar og MAST. Við getum ekki á neinn hátt tekið undir þessa gagnrýni. Samskipti bænda við Landgræðsluna og þá einkum héraðsfulltrúa eru mjög góð. Þar starfar fólk af heilindum sem sýnir mikinn metnað í sínum störfum. Við eigum samt sem áður alltaf að sækja fram og bæta við þekkingu og auðvitað viðurkenna að hana getur stundum skort. Það er ekkert launungarmál að stofnun eins og Landgræðslan er undirfjármögnuð og allir að vinna eftir bestu getu innan þess ramma sem skapast af því fjármagni sem er ætlað í þessi verkefni. Með auknu fjármagni má sækja enn meira fram og efla og breikka þann vísindagrunn sem starfið byggir á sem og starfið sjálft.

Megingagnrýni skýrslunnar snýr að framkvæmd landnýtingarþáttar gæðastýringarinnar. Að mínu mati má taka undir hluta af því sem fram kemur og alla gagnrýni ber að nýta til að gera gott verkefni betra en það er líka þannig að vísindamenn hafa ólíka sýn á þessi mál og í skýrslunni er einhliða gagnrýni frá höfundi hennar.“

Landgreiðslur

Þegar Guðfinna er spurð hvers vegna sé verið að greiða bændum fyrir að nýta land í slæmu ástandi og hvort ekki væri eðlilegra að greiða þeim sem eiga gott beitiland frekar og færa framleiðsluna þannig frá því landi sem ekki þolir beitina segir hún fjölmörg dæmi um að landgræðsla samhliða beit gangi mjög vel.
Langstærsti hluti framleiðslunnar fer fram á landi sem stenst viðmið um sjálfbæra landnýtingu. Það land sem ekki stenst viðmiðin er nýtt í samræmi við landbótaáætlanir. 

„Við höfum einnig dæmi um að algjör friðun hafi verið forsenda fyrir endurheimt landgæða. Þannig er erfitt að fara inn í umræðuna eins og málið sé einungis svart eða hvítt. Ólíkar aðstæður kalla á ólíkar lausnir. Það er rétt að hafa í huga að sauðfjárbændur eru gífurlega virkir í landgræðslu. Annars vegar með þeim verkefnum sem eru skilgreind í landnýtingaráætlunum gæðastýringarinnar og hins vegar með þátttöku í Bændur græða landið, sem er verkefni á vegum Landgræðslunnar. Öll vinna bænda í því verkefni er kostuð af þeim sjálfum og það sama á við um vélakostnað. Þannig að bændur eru víða að leggja mikið fé til landgræðslu á hverju ári.“

Guðfinna segir að auðvitað sé hægt að gera betur og vinna hraðar þegar kemur að landbótum en að til að svo geti orðið þurfi fjármagn. „Við ætlum okkur líka að gera betur og lítum ekki svo á að við séum hafin yfir gagnrýni og við hlustum á gagnrýnina með opnum hug og nýtum hana til að gera gott verkefni betra. Sauðfjárbændur hafa til dæmis sýnt frumkvæðið hvað varðar mat á kolefnisspor greinarinnar og lagt í aðgerðir sem miða að því að kolefnisjafna greinina. Þar munum við að stórum hluta horfa til aðgerða í landgræðslu en líka skógrækt og endurheimt votlendis.“

Gæðastýringin hefur skilað árangri

Markmið gæðastýringar í sauðfjárrækt er að bæta búskapar­hætti og segir Guðfinna að út frá því sjónarmiði eigi allir sem það vilja að geta fallið undir hana.

„Til að falla undir gæðastýringu þarf að gera úttekt á aðstæðum býla og þurfi þess með fá umsækjendur ákveðinn frest til úrbóta eftir eðli þeirra athugasemda sem gerðar eru.

Landbótaverkefni eru langtíma­verkefni en verkefni sem snúa að aðbúnaði gripa eru verkefni sem hægt er að bætta á styttri tíma og ef bændur sinna því halda þeir áfram að teljast til þeirra aðila sem uppfylla kröfur og viljugir til að bæta búskaparhætti sína.

Eins og gæðastýringunni er háttað lendir hluti beitarlands undir viðmiðunarmörkum og þar þarf því að gera landbótaáætlun en þar sem land lendir ofan viðmiðunarmarka þarf ekki að gera landbótaáætlun. Mat á landnýtingu byggir á ástandsmati sem lýst er í riti sem Landgræðslan gaf út árið 2019 og heitir Sauðfjárhagar. Landbótaáætlanir eru til tíu ára í senn og í tilvikum þar sem ekki er búið að uppfylla viðmið um ástand lands að þeim tíma loknum eru settar fram enn ítarlegri tillögur um landbætur og nýtingu beitarlandsins.

Sauðfjárbændur telja að með gæðastýringunni hafi þeir tekið ákveðna forustu í því að breyta nýtingu lands til hins betra. Gæðastýringin og landbótaáætlanirnar hafa til dæmis gjörbreytt því hvernig margir afréttir eru nýttir. Beitartími hefur verið styttur verulega, upprekstri á vorin hefur verið seinkað, göngum á haustin flýtt og landgræðsla stóraukin auk þess sem ekki má gleyma að í einhverjum tilfellum er friðun hluti af aðgerðum í tengslum við landnýtingarþáttinn.

Þá erum við í sumum tilfellum að tala um friðun með því að halda því fé heima eða farga því sem hefur fundist inn á ákveðnum svæðum, í sumum tilfellum hafa svæði eða hluti svæða verið girt af og í enn öðrum tilfellum hefur land verið bætt verulega á ákveðnum svæðum til að hlífa öðrum. Þessar aðgerðir hafa verið unnar í samstarfi við Landgræðsluna og ég held að bændur hafi víða séð verulegan árangur af þeim. Sömuleiðis eru þessar aðgerðir dregnar fram í skýrslu Landbúnaðarháskólans sem kostir við gæðastýringuna.

Á öðrum svæðum þarf hugsanlega að bæta í þessar aðgerðir og þar sem viðhorf bænda til að auka landbætur eru almennt jákvæðar ætti ekkert að vera því til fyrirstöðu.

Hins vegar má heldur ekki gleyma því að við erum að tala um lífsviðurværi fólks og í flestum tilfellum áratuga uppbyggingu í búrekstri sem byggja á upprekstrarréttindum sem fylgja jörðunum og ekki alltaf auðvelt eða aðgengilegt að breyta slíku. Málið snýst sem sagt ekki bara um skemmtireið í afréttinn.

Gæðastýringin sem slík hefur heldur ekki heimildir til að banna þessa nýtingu og hver og einn bóndi velur hvort hann stendur innan eða utan gæðastýringarinnar.

Sjálf hef ég fyrst og fremst hugsað gæðastýringuna sem stjórntæki inn á við til að bæta búskaparhætti enda tekur hún til fleiri þátta en landnýtingar, eins og aðbúnaðar, utanumhalds aðfanga til býla og skýrsluhalds. Ég held að það sé þannig hjá flestum bændum að þeir líti á gæðastýringuna sem verkfæri inn á við á eigin búi og fyrir greinina í heild.

Það er mitt mat að það hafi í aðalatriðum tekist mjög vel til með gæðastýringuna enda hefur afurðasemin aukist mjög mikið á þeim tíma sem hún hefur verið í gildi,“ segir Guðfinna.

Land víða í framför

Guðfinna segir að það þurfi að bæta gagnaöflun um landnýtingu og þar hafa Landssamtök sauðfjárbænda lengi ýtt á um breytingar. „Grólindarverkefnið varð til vegna þrýstings samtakanna og mun það hjálpa okkur að greina þau svæði þar sem mestra úrbóta er þörf. Tilfinning bænda víða er að land sé í mikilli framför, meðal annars vegna breytinga á veðurfari og einnig vegna minni beitarbúfjár undanfarna áratugi. Þessi tilfinning er studd af rannsóknum og má nefna rannsókn Náttúrufræðistofnunar sem gerð var upp úr 2010 með greiningu á gervitunglamyndum og sýndi aukningu á lífmassa gróðurs víða um land.
Ég á erfitt með að taka undir þá gagnrýni að ekkert hafi verið hlustað á fagfólk. Landgræðslan hefur komið að þróun gæðastýringarinnar frá upphafi auk þess sem starfsmenn Landgræðslunnar hafa aðstoðað og verið ráðgefandi í uppsetningu og framkvæmd landbótaverkefna.

Hins vegar er ferli við innleiðingu á nýjum viðmiðum og setningu reglugerða sem þeim tengjast alltaf málamiðlun, sérstaklega í upphafi. Ég man til dæmis eftir áliti lögfræðings sem taldi að kröfur sem landgræðslustjóri segir of rúmar enga lagastoð hafa. Þannig að það má segja að það sé reynt að ná ákveðnu jafnvægi.“

Sjálfbær landnýting

Guðfinna segir að eins og réttilega komi fram í riti Landbúnaðarháskólans sé hugtakið „sjálfbær landnýting“ vel til þess fallið að draga fram ólík sjónarmið, meðal annars vegna þess að það hafi ekki alþjóðlega skilgreinda merkingu.

„Beitarlönd meirihluta íslenskra sauðfjárbænda eru í þannig ástandi að skilgreining um að ekki sé gengið á gæði landsins á fyllilega við. Þar sem ástand lands er ekki í góðu ástandi þarf flóknari skilgreiningar og flóknari aðgerðir og þar vinna sauðfjárbændur að úrbótum með landbótaáætlunum sem oftar en ekki eru unnar með hjálp fagfólks Landgræðslunnar og ráðleggingum fylgt eftir.“

Skógarfura í Varmahlíð föngulegust
Fréttir 4. október 2024

Skógarfura í Varmahlíð föngulegust

Skógræktarfélag Íslands hefur valið skógarfuru í Varmahlíð tré ársins 2024.

Þrír forstjórar skipaðir fyrir nýjar ríkisstofnanir
Fréttir 4. október 2024

Þrír forstjórar skipaðir fyrir nýjar ríkisstofnanir

Nýlega voru skipaði þrír forstjórar fyrir nýjar ríkisstofnanir sem urðu til með ...

Eftirlíking af hálfri kú
Fréttir 4. október 2024

Eftirlíking af hálfri kú

Nautastöð Bændasamtaka Íslands tók á dögunum í notkun eftirlíkingu af kú sem er ...

Gagnrýna nýjar reglur um hollustuhætti
Fréttir 3. október 2024

Gagnrýna nýjar reglur um hollustuhætti

Heilbrigðisnefndir kringum landið hafa gagnrýnt skort á kynningu á nýrri regluge...

Aðgerðaáætlun gefin út
Fréttir 3. október 2024

Aðgerðaáætlun gefin út

Matvælaráðherra, Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, hefur gefið út aðgerðaáætlun fyrir...

Grasrótin gaumgæfir atvinnulíf og nýsköpun
Fréttir 3. október 2024

Grasrótin gaumgæfir atvinnulíf og nýsköpun

Verkefnið Vatnaskil á Austurlandi miðar að því að efla nýsköpun og stuðla að fjö...

Áburðarverkefni í uppnámi
Fréttir 3. október 2024

Áburðarverkefni í uppnámi

Áburðarverkefni í Syðra-Holti í Svarfaðardal, sem gengur út á moltugerð úr nærsa...

Aukinn innflutningur á lægri tollum
Fréttir 2. október 2024

Aukinn innflutningur á lægri tollum

Ekki er hægt að fá uppgefna þá aðila sem standa að baki innflutningi á landbúnað...