Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 7 ára.
Daníel Hansen, forstöðumaður Fræðaseturs um forystufé að Svalbarði í Þistilfirði.
Daníel Hansen, forstöðumaður Fræðaseturs um forystufé að Svalbarði í Þistilfirði.
Á faglegum nótum 13. janúar 2017

Fróðleikur tengdur forystufé

Höfundur: Vilmundur Hansen

Í gamla félagsheimilinu að Svalbarði í Þistilfirði er að finna áhugavert fræðasetur og sýningu um forystufé. Þar er haldið til haga fróðleik og minjum um íslenskt forystufé og gert aðgengilegt fyrir almenning og fræðafólk. Forystufé úr Norður-Þingeyjarsýslu er viðurkennt sem sérstakur fjárstofn.

Forystufé hefur verið til og í miklum metum á Íslandi um alda­raðir. Það hefur í eðli sínu að fara á undan fjárhópi í rekstri og sýnir meiri vitsmuni en fé almennt og annað fé fylgir því. Forystuféð er meira vexti og fjöldi sagna er til um það þegar góður forystusauður fór á undan í slæmri færð og fann bestu leiðina.

Forystusauðurinn rataði vel í hríðarbyljum og skilaði fé í hús heilu og höldnu. Forystufé er talið veðurglöggt og var oft tregt til að fara úr húsi ef von var á slæmum veðrum á vetrum.

Fullvíst þykir að fé með hegðunarmynstur íslenska forystufjárins sé hvergi þekkt í heiminum annars staðar en hér á landi.

Samkomuhúsi breytt í fræðasetur

Daníel Hansen, forstöðumaður forystufjársetursins, var áður skólastjóri í Svalbarðsskóla og leiðsögumaður. „Frá því að ég var barn á Patreksfirði hef ég haft mikinn áhuga á sauðkindum og þegar ég flutti í Þistilfjörð sá ég í fyrsta sinn vel ræktað og vel þjálfað forystufé að störfum og varð strax hugfanginn af því.

Samkomuhúsið í Þistilfirði stóð autt þegar ég fluttist hingað og ekkert annað eftir en að jafna það við jörðu. Smám saman vaknaði hjá mér sú hugmynd að nýta húsið sem fræðasetur og safn fyrir forystufé og tengja það ferðamennsku í sveitinni því allt forystufé á landinu er upprunnið í Norður-Þingeyjarsýslu.

Árið 2010 samdi ég við sveitarfélagið um afnot af húsinu og um svipað leyti var stofnað fræðafélag um forystufé. Meðlimir félagsins unnu í sjálfboðavinnu við að gera húsið upp eftir hugmyndum hönnuðar sem við fengum til að hanna setrið fyrir okkur enda höfum við stefnt að því að gera allt vel og faglega frá upphafi.

Við höfum viðað að okkur öllu því sem við getum og tengist forystufé, hvort sem það eru bækur, fræði- eða dagblaðagreinar, sögur, uppstoppaðir hausar eða bein. Hugmyndin er að hér sé aðgengi fyrir alla að upplýsingum um forystufé sem nýtast bæði almenningi til fróðleiks og fræðimönnum sem vinna að rannsóknum sem tengjast þessu fé. Við höfum til dæmis aðstoðað við lokaritgerð í þjóðfræði í Háskóla Íslands þar sem fjallað var um viðhorf til forystufjár.“

Sérstakur fjárstofn

„Forystufé er sérstakur fjárstofn. Ræktunarmarkmið stofnsins eru önnur en höfð eru að leiðarljósi með hefðbundið fé. Forystufjárstofninn telur um 1.400 einstaklinga sem eru hávaxnari og holdþynnri en venjulegt fé og það hefur sérstakt göngulag. Mest um vert eru þó þær sérgáfur eða genasamsetning sem gerir það einstaklega veðurglöggt eins og margar sögur eru til um. Forystufé finnur á sér hættur, er einstaklega ratvíst og það er eitthvað í karakter þess sem gerir að verkum að annað fé fylgir því.

Eitt af verkefnum okkar er, í samvinnu við áhugamannafélagið um forystufé, að kanna útbreiðslu þess um landið og hverjir eiga það. Þessum upplýsingum er reyndar nokkuð vel haldið saman á Fjárvís Bændasamtaka Íslands en það vantar að mér skilst samt eitthvað upp á og okkur langar til að fullgera þá skráningu.

Fyrr á öldum dreifðist forystufé um landið héðan en vegna sjúkdóma eins og garnaveiki og riðu var því víðast eytt í öðrum sýslum landsins. Í dag er forystufé sótt hingað vegna þess að svæðið er sjúkdómafrítt og því má flytja fé héðan í aðra landshluta,“ segir Daníel.

Forystufé í tísku

Áhugi á forystufé hefur aukist töluvert undanfarin misseri og eins og það hafi komist í tísku. „Forystufé er viðurkennt í vísindaheiminum sem sérstakur fjárstofn en vegna niðurskurða og breyttra þarfa fækkaði því mikið. Þegar hætt var að beita á veturna og fé tekið á hús minnkaði þörfin fyrir forystufé og hlutverk þess að hluta til hvarf. Okkur ber því að þakka þeim sérvitringum hér í Norður-Þingeyjarsýslu sem héldu stofninum við og notuðu hann áfram og nota enn. Undanfarið hefur svo orðið vakning í kringum þetta sérstæða fé og það er gott.“

Safnaverslun og gallerí

Setrið var formlega opnað 2013 og segir Daníel að um 900 manns hafi heimsótt það á ári frá því að það var opnað. „Til að byrja með voru flestar heimsóknir yfir hásumarið en í ár hefur heimsóknum fjölgað bæði í vor og haust.“

Auk sýningar er safnaverslun á fræðasetrinu að Svalbarði þar sem hægt er að kaupa minjagripi sem tengjast forystufé. Þar má nefna leggi, horn, kjúkur, garn og handavinnu gerða úr ull af forystufé, uppstoppaða hausa, gærur og punga.

Þar er einnig gallerí, líklega það minnsta á landinu, þar sem myndlistarmenn sýna verk sín og segir Daníel að rýmið sé bókað til 2025. Til að auka nýtingu rýmisins hefur Daníel í hyggju að bjóða upp á ýmiss konar menningarviðburði í framtíðinni og nefnir hann þar sem dæmi fræðilega fyrirlestra, bókmenntaupplestur, tónleika og leiksýningar.

Markaðssetning forystufjárafurða

Daníel segir að þar sem ullin á forystufé sé mýkri en á hefðbundnu fé séu eiginleikar hennar öðruvísi. „Rúningsmenn segjast finna strax hvað ullin er mjúk og mér er líka sagt að hún sé hlýrri un venjuleg ull. Sú ull sem er til sölu á setrinu er þvegin við vægan hita þannig að hitinn sprengi ekki fituna úr henni. Þannig heldur hún upprunnalegri mýkt og hrindir vel frá sér vatni.“

Að sögn Daníels er afskaplega lítið kjöt á forystufé og nánast engin fita. Hann segir það öðruvísi á bragðið og nokkurs konar millistig milli geita- og kindakjöts.

„Haustið 2015 var gerð tilraun með vinnslu á kjöti af forystufé. Ég hafði samband við nokkra innleggjendur hjá Fjallalambi og fékk hjá þeim kjöt til vinnslu af hreinræktuðu og skráðu forystufé. Kjötið er tvíreykt og látið liggja í sérblönduðum pækli sem gefur því annað bragð en öðru kindakjöti.

Kjötið er það sérstakt að bændur hafa fengið hærra verð fyrir það en annað kjöt. Það hefur líka þá sérstöðu að vera frá stað á landinu sem er laus við búfjársjúkdóma og þess vegna má segja að þetta kjöt sé hrein náttúruafurð.

Allt kjötið fer á veitingahúsið Matur og drykkur í Reykjavík þar sem það er unnið áfram og boðið á matseðli. Mér er sagt að gestir staðarins rómi kjötið og að það þyki einstaklega gott og engu öðru líkt,“ segir Daníel Hansen, forstöðumaður Fræðaseturs um forystufé að Svalbarði í Þistilfirði.

Skylt efni: Forustufé | Daníel Hansen

Halla tekur upp Íslenskt staðfest
Fréttir 28. mars 2024

Halla tekur upp Íslenskt staðfest

Halla Sif Svansdóttir Hölludóttir, garðyrkjubóndi og eigandi Sólskins grænmetis ...

Uppfærsla á stefnumörkun Bændasamtaka Íslands
Fréttir 27. mars 2024

Uppfærsla á stefnumörkun Bændasamtaka Íslands

Fjölmörg mál voru til afgreiðslu á nýliðnu Búnaðarþingi 2024, úr fimm nefndum, s...

Endurnýting heimil til 1. nóvember 2025
Fréttir 27. mars 2024

Endurnýting heimil til 1. nóvember 2025

Matvælaráðuneytið hefur tilkynnt um frestun á gildistöku banns við endurnýtingu ...

Horfið frá framleiðslutengdum stuðningi
Fréttir 27. mars 2024

Horfið frá framleiðslutengdum stuðningi

Fyrirkomulag landbúnaðarstuðningskerfis á Íslandi mun taka miklum breytingum ef ...

Hyggur á slátrun í haust ef leyfi fæst
Fréttir 26. mars 2024

Hyggur á slátrun í haust ef leyfi fæst

Fyrrverandi sláturhússtjóri á Vopnafirði ætlar ekki að láta deigan síga þrátt fy...

Niðurskurði lokið á fé úr Blöndudal
Fréttir 26. mars 2024

Niðurskurði lokið á fé úr Blöndudal

Niðurskurður á sauðfé frá bæjunum Eiðsstöðum og Guðlaugsstöðum í Blöndudal fór f...

Kornræktarfélag gengur í endurnýjun lífdaga
Fréttir 26. mars 2024

Kornræktarfélag gengur í endurnýjun lífdaga

Kornræktarfélag Suðurlands verður endurvakið sem viðskiptavettvangur ræktenda og...

Grípa þarf tækifærin
Fréttir 26. mars 2024

Grípa þarf tækifærin

Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, telur að bændur eigi að leyfa sér að hor...