Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 2 ára.
Flestir bílaframleiðendur veðja á efnarafala fremur en rafhlöður í þung ökutæki
Fréttir 25. nóvember 2021

Flestir bílaframleiðendur veðja á efnarafala fremur en rafhlöður í þung ökutæki

Höfundur: Hörður Kristjánsson

Vetnisvæðing, sem nú er rekin áfram af mikilli ákefð hjá öllum stærstu iðnríkjum heims, byggir á að vetni verði framtíðar orkumiðill í komandi orkuskiptum og fráhvarfi frá nýtingu jarðefnaeldsneytis. Þá er gengið út frá því að vetnið verði nýtt í margvíslegum iðnaði og líka í samgöngum til að knýja rafbíla.

Það eru einkum framleiðendur á trukkum, rútum og öðrum þungum farartækjum sem horfa nú til að nota vetni sem orkumiðil í umbreytingu yfir í rafbíla. Ástæðan liggur í því að liþíumjóna-rafhlöðurnar (lithiumIon) sem nú er notast við, þykja of dýrar í framleiðslu, of þungar og að of langan tíma taki að endurhlaða þær fyrir bíla á langkeyrslu. Þá sé enn óleystur vandi sem felst í endurnýtingu á notuðum rafhlöðum, þó mikil þróunarvinna sé þar í gangi.

Hyundai, Hino, General Motors, Nikola, Toyota, Cummins og fleiri sammála um vetnisvæðingu

Framleiðendur eins og Hyundai, Hino, General Motors, Nikola, Toyota, Cummins og fleiri virðast vera sammála um að trukkar framtíðarinnar verði rafknúnir, en orkuna fái þeir ekki frá rafhlöðum heldur frá vetnis-efnarafölum. Þetta er í miklu samræmi við mjög gagnrýna umræðu víða um lönd á framleiðslu og nýtingu á LithiumIon rafhlöðum sem og rannsóknir sem gerðar hafa verið á slíkum rafhlöðum. Samt eru þetta þær rafhlöður sem þykja bestar í dag, en stöðugt berast þó fréttir af frekari þróun á því sviði.

Dana og Bosch í samstarf um íhlutaframleiðslu fyrir efnarafala

Dana Inc., sem er heimsþekktur framleiðandi á hásingum undir jeppa, vörubíla, stóra trukka og rútur, tilkynnti nýlega langtímasamstarf við rafiðnaðarrisann Bosch um framleiðslu á rafþynnum í efnarafala. Bosch segir að þekking fyrirtækisins í framleiðslu á búnaði í efnarafala muni gera báðum fyrirtækjum kleift að bæta enn frekar tvískautar plötur í efnarafla. Til viðbótar komi sérþekking Bosch í fjöldaframleiðslu, sérstaklega á leysisuðu, prófunum og nýtingu á sjálfvirkni. Til að mæta aukinni eftirspurn á markaði mun heildarmagn framleiðslunnar fara yfir 100 milljónir tvískautaðra málmplatna fyrir markaði í Evrópu-, Asíu og Kyrrahafslöndum sem og í Norður -Ameríku. Fyrirtækin segjast búast við því að plöturnar verði komnar í efnarafala fyrir atvinnubíla frá og með árinu 2022.

Flutningabíll sem verður knúinn drifbúnaði og vetnisefnarafal frá Toyota.

Toyota hefur framleiðslu á efnarafalasamstæðu 2023

Toyota ætlar að koma vetnis-efnarafal fyrir rafknúna trukka í framleiðslu innan tíðar. Mun sérstök framleiðslulína hjá Toyota Motor Manufacturing Kentucky (TMMK) hefja samsetningu á tvöföldum samþættum efnarafalseiningum (FC) á árinu 2023. Í raun er um að ræða allt drifkerfi trukka og verða efnarafalarnir ætlaðir til notkunar í vetnisknúnum atvinnubílum til þungaflutninga. Toyota segir að FC-einingarnar geri vörubílaframleiðendum kleift að innleiða mengunarlausa efnarafala í núverandi framleiðslulínur með tæknilegum stuðningi frá Toyota. Tvöfalda efnarafalasamstæðan mun vega um 700 kg og á að skila 160 kílówöttum af stöðugu rafmagni. Samstæðan samanstendur líka af háspenntri rafhlöðu, rafmótorum, skiptingu og vetnistönkum.

Fyrir tæpu ári tilkynnti Hino Trucks að það væri að smíða rafknúinn vörubíl í flokki 8 sem knúinn yrði með vetnisefnarafal. Fyrirtækið stóð við þetta með því að afhjúpa frumgerð Class 8 Hino XL8 á sýningunni 2021 ACT Expo á Long Beach í Kaliforníu.

Daimler Truck og Volvo í samstarf um vetnisefnarafal

Í apríl 2020 tilkynntu Daimler Truck AG (framleiðendi Benz) og Volvo Group að þessir stóru samkeppnisaðilar á heimsvísu skrifuðu undir bráðabirgðasamning um að koma á fót nýju samstarfsverkefni til að þróa, framleiða og markaðssetja efnarafala (Fuel cell) fyrir þungar bifreiðar og aðra notkun. Í október tilkynnti Hino um eigið vetnisbílaverkefni. Í nóvember tilkynntu Cummins og Navistar að þeir muni vinna saman að þróun Class 8 vörubíls sem knúinn verður vetniseldsneyti. Árið 2021 byrjaði svo með því að Navistar tilkynnti um samstarf við General Motors og OneH2 um að koma vetnisbíl til aksturs á löngum leiðum á markað.

Olíurisinn Shell ætlar sér stórt hlutverk í vetnisvæðingunni

Hollenski olíurisinn Shell stefnir á miklar fjárfestingar í vetnisiðnaði. Fyrirtækið hyggst m.a. byggja á mikilli reynslu í uppbyggingu innviða í dreifingu á jarðefnaeldsneyti. Lítil innviðauppbygging varðandi vetni er einmitt sá Akkilesarhæll sem oftast er bent á varðandi frekari vetnisvæðingu. Hefur Shell þegar sett af stað uppbyggingu dælustöðva fyrir vetni í Kaliforníu í Bandaríkjunum.
„Fyrir mér er notkun vetnis og vetnisefnarafalar framtíðin,“ segir Jeff Priborsky, yfirmaður markaðssetningar Shell á heimsvísu, á vefsíðu tímaritsins Fleet Equipment fyrr á þessu ári.
Hann telur að dísilvélar í ökutækjum muni samt áfram verða yfirgnæfandi á markaðnum næstu 30 ár, eða fram til 2050.

Shell hefur lýst því yfir að fyrir­tækið ætli sér að vera orðið kolefnis­hlutlaust ári 2050. Er Shell komið á fulla ferð í þessari vegferð. Fyrirtækið hefur alla tíð verið öflugt í gasframleiðslu, þá hefur það fjárfest í uppbyggingu vindorkugarða og á það fjölda vindmylla úti fyrir ströndum Evrópuríkja. Það er líka í framleiðslu á rafhlöðum og er komið á fullt í vetnisvæðingu.

Vetni er framtíðin í trukkunum, segir fulltrúi Volvo

Framleiðendurinir Cummins, Daimler Trucks, Hino, International Trucks, PACCAR og Volvo Trucks hafa allir fjárfest mikið í þróun vetnisbíla. Á blaðamannafundi þar sem Volvo Trucks North America tilkynnti að það væri þó að opna fyrir pantanir fyrir VNR Electric [það er rafhlöðudrifinn trukkur, innskot blm.], sagði Peter Voorhoeve, forseti Volvo Trucks North America:

„Við trúum því að vetniseldsneyti sé annar valkostur sem mun eiga sér stað í framtíðinni. Þið munið ekki bara sjá eina lausn varðandi eldsneytisgjafa. Við munum halda áfram að nota dísilbíla. Við munum sjá hratt vaxandi fjölda rafmagnsbíla á vegunum. Við munum líka sjá vetnisefnarafala í vörubílum, sem munu leika aðalhlutverkið í akstri á lengri leiðum og í þungaflutningum.

Rafhlöðuknúnu rafmagnsbílarnir munu frekar vera notaðir í stuttar ferðir og við dreifingu á vörum innan svæða, við heimsendingar á mat og öðru. Við munum líka enn sjá dísilolíu notaða í samgöngum sem og jarðgas. Trukkar búnir efnarafal munu klárlega verða hluti af lausninni í framtíðinni,“ sagði Peter Voorhoeve. 

Nýir liðsmenn Bændablaðsins
Fréttir 21. júní 2024

Nýir liðsmenn Bændablaðsins

Lesendur hafa kannski tekið eftir nýjum efnisþáttum í blaðinu í vor. Hugarleikfi...

Opnað fyrir milljarða króna fjármögnun
Fréttir 21. júní 2024

Opnað fyrir milljarða króna fjármögnun

Lítil og meðalstór fyrirtæki á Íslandi fá aðgengi að 3,2 milljarða króna fjármög...

Stækka ræktarland og fjölga vörutegundum
Fréttir 20. júní 2024

Stækka ræktarland og fjölga vörutegundum

Hvítlauksbændurnir í Neðri-Brekku í Dölum fengu nýlega tvo styrki úr Matvælasjóð...

Verðlaunuðu góðan árangur
Fréttir 20. júní 2024

Verðlaunuðu góðan árangur

Tabea Elisabeth Schneider hlaut verðlaun fyrir besta árangur á B.S. prófi þegar ...

Fuglum fækkar vegna óveðurs
Fréttir 20. júní 2024

Fuglum fækkar vegna óveðurs

Samkvæmt fuglatalningu varð algjört hrun í fjölda fugla á Norðausturlandi þegar ...

Óhrædd að takast á við áskoranir
Fréttir 19. júní 2024

Óhrædd að takast á við áskoranir

Tilkynnt var um ráðningu Margrétar Ágústu Sigurðardóttur í starf framkvæmdastjór...

Halla færir út kvíarnar
Fréttir 19. júní 2024

Halla færir út kvíarnar

Halla Sif Svansdóttir Hölludóttir, garðyrkjuframleiðandi og eigandi garðyrkjustö...

Sala Búvís stöðvuð
Fréttir 19. júní 2024

Sala Búvís stöðvuð

Samkeppniseftirlitið hefur komið í veg fyrir að Skeljungur kaupi Búvís ehf. þar ...