Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 7 ára.
Hið mikla kjötframleiðslu- og kjötútflutningsríki Ástralía, ver sitt vistkerfi og sinn landbúnað fyrir innflutningi eins og flest önnur lönd með ströngu laga- og regluverki.
Hið mikla kjötframleiðslu- og kjötútflutningsríki Ástralía, ver sitt vistkerfi og sinn landbúnað fyrir innflutningi eins og flest önnur lönd með ströngu laga- og regluverki.
Fréttir 16. janúar 2017

Flest ríki beita ströngum lögum og tollum til að vernda sinn landbúnað

Höfundur: Hörður Kristjánsson
Flestar þjóðir heims eru með ströng lög um innflutning á landbúnaðarvörum, það á ekki síður við um lönd innan Evrópusambandsins og Banda­ríkjanna en önnur. Ísland er því langt frá því að vera sér á báti í þessum efnum eins og oft mætti ætla á umræðunni. 
 
Undir stranga löggjöf fellur m.a. innflutningur á matvælum, ekki síst á kjöti, mjólk, mjólkurafurðum, grænmeti og ávöxtum. Það sem leyft er að flytja inn fellur auk þess í flestum tilvikum undir mjög vel skilgreinda tollalöggjöf. Er þá aðallega borið við heilsufarsástæðum fyrir mannfólkið og verndun lífríkis. 
 
Bandaríkin vernda sinn landbúnað
 
Sem dæmi er bannað að flytja inn til Bandaríkjanna án sérstakra heimilda  ferskt, þurrkað og niðursoðið kjöt og kjötafurðir frá flestum löndum heims. Það á einnig við um tilbúna rétti sem innihalda kjöt. Fyrir kjöt sem flutt er inn utan innflutningskvóta eru yfirleitt rúmlega 21–26% tollur.
 
Brot einstaklinga á þessum ákvæðum varðar allt að 10.000 dollara sekt. Aðeins er heimilt að flytja kjöt frá löndum sem eru ekki með þekkta sjúkdóma í sínu búfé eins og gin- og klaufaveiki og fleiri sjúkdóma.
Í þeim tilvikum sem heimilt er að flytja inn nautakjöt, svínakjöt og kindakjöt er það gegn því að slíku kjöti fylgi rækileg heilbrigðisvottorð. Sama á við um alifuglakjöt og egg og eggjaafurðir. Í einhverjum tilfellum, hefur þó verið heimilað að flytja inn ferskt lambakjöt, t.d. frá Íslandi.   
 
Hormónagjafir nær allsráðandi í bandarískri nautakjötsframleiðslu
 
Ágreiningur um nýjan fríverslunar­samning ESB-ríkjanna við Bandaríkin, svokallaðan TTIP-samning, snýst að verulegu leyti um hversu mikið þjóðirnar eru tilbúnar að slaka á sínum varúðarreglum varðandi landbúnað. Þar er m.a. tekist á um innflutning á svokölluðu hormónanautakjöti frá Bandaríkjunum og erfðabreyttu korni. Fjallaði bandaríska þingið  sérstaklega um algjört bann ESB við innflutningi á kjöti af nautgripum sem meðhöndlaðir höfðu verið við ræktun með hormónalyfjum. 
 
Á þinginu kom fram að notkun hormóna (stera) við ræktun nautgripa í Bandaríkjunum væri mjög útbreidd til að auka og hraða vexti gripanna. Slíkt hafi verið leyft þar í landi  líkt og í Bretlandi síðan upp úr 1950 með notkun á diethylstilboestrol (DES) og hexoestrol. ESB bannaði innflutning á slíku hormónakjöti árið 1989 gegn vilja Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar WTO. Hormónalyf eru notuð við ræktun á tveim þriðju allra nautgripa í Bandaríkjunum og við um 90% eldi nautgripa til kjötframleiðslu samkvæmt því sem fram kom á bandaríska þinginu. 
 
Á stórum kjötframleiðslubúum er notkunin á hormónalyfjum 100% samkvæmt skýrslu Congressional Research service. Eru gripunum þá einkum gefnir náttúrulegir hormónar eins og estradiol, progesterone og testosterone. Auk þess eru notaðir efnafræðilega tilbúnir hormónar eins og zeranol og trenbolone acetate auk melengestrol. Er þó tekið fram í skýrslunni að ekki sé heimilt að nota hvaða hormóna sem er við eldi dýranna en FDA (Food and Drug Administration) og USDA (U.S. Department of Agriculture) setja um það nánari reglur.
 
Viðræður um tollamálin snúast líka um fleira eins og klórþvott á kjöti sláturdýra.  
 
Flókið lagskipt leyfiskerfi
 
Fara þarf í gegnum flókið og lagskipt kerfi til að fá innflutningsleyfi fyrir kjöt til Bandaríkjanna samkvæmt gögnum utanríkisþjónustu banda­ríska landbúnaðar­ráðuneytisins (USDA Foreign Agricultural Service). Innflytjendur þurfa fyrst að fá samþykki ráðuneytisins og  Dýra- og plöntuheilbrigðiseftirlitsins (APHIS). Þar er gert áhættumat varðandi hugsanlegan inn­flutning sjúkdóma. Þar að auki kemur sjúkdómaeftirlit landbúnaðarráðuneytisins sem verður að gefa út staðfestingu á að inn­flutningurinn standist allar kröfur. Eins og að kjötið sé framleitt við sambærilegar kröfur (U.S. standards) og gerðar eru af bandarískum stjórnvöldum. 
 
Nokkur ríki hafa heimild til að flytja inn „frosið“ nautakjöt
 
Sem stendur hafa 12 ríki heimild til að flytja „frosið“ nautakjöt til Bandaríkjanna (ekki ferskt). Þetta eru Ástralía, Kanada, Chile, Costa Ríka, Hondúras, Írland, Japan, Litháen, Mexíkó, Nýja-Sjáland, Nikaragva og Úrugvæ. 
 
Þótt þessi ríki hafi fengið leyfi til að flytja nautakjöt til Bandaríkjanna, þá er það háð ýmsum skilyrðum og allt undir innflutningstollkvótum. Þar er um að ræða tvenns konar tollkvóta, svokallaða sérstaka landskvóta fyrir tiltekin ríki, sem eru Ástralía, Japan, Nýja-Sjáland, Úrugvæ og Argentína.  Þar er enginn tollur á kvótakjöt frá Kanada, Mexíkó og Argentínu, en 4,4 sent á kíló frá hinum ríkjunum. Ef innflutningur fer umfram kvóta greiða öll ríkin nema Kanada, Mexíkó og Ástralía 21,1% til 26,4% toll. Síðan er tollkvóti fyrir önnur ríki sem hafa heimild til að flytja inn nautakjöt. Sá tollur er 4,4 sent í toll á kíló og 26,4 sent á kíló fyrir kjöt umfram tollkvóta. 
 
Nær allur kjötinnflutningur í gegnum tollkvóta
 
Bandaríkin flytja árlega inn mikið af nautakjöti Þess má geta að Ástralir eru stærstir í innflutningi á nautakjöti til Bandaríkjanna og fluttu þangað 418.000 tonn árið 2015. Þar á eftir kom Nýja-Sjáland með 211.000 tonn og Kanada með 210.000 tonn. Síðan er Mexíkó með 145.000 tonn og Úrúgvæ með 39.000 tonn. Bandaríkin fluttu hins vegar út 720.000 tonn af nautakjöti á árinu 2015 á meðan heildarinnflutningurinn nam 1.080.000 tonnum. 
Nær allur innflutningur Bandaríkjamanna á kjöti er í gegnum sérstaka tollkvóta. Þá hefur verið í gildi bann á innflutningi á nautakjöti til Bandaríkjanna frá ESB vegna kúariðunnar sem þar kom upp um árið. 
 
Löggjöf ESB er líka ströng
 
Evrópusambandið er ekki síður en Bandaríkin með mjög stranga innflutningslöggjöf varðandi kjöt og aðrar landbúnaðarafurðir. Byggja þær reglur á matvælaöryggi og sjúkdómavörnum líkt og gert er á Íslandi.
 
Ferðamönnum bannað að flytja kjöt til ESB-landa
 
Samkvæmt reglum Evrópu­sambandsins (Directorate-General for Health & Consumers), verður að vera tryggt að innflutt kjöt uppfylli sömu gæðareglur um framleiðslu og gilda í ESB-löndunum. Er þar borið við matvælaöryggi eins og á Íslandi. Það á einnig við um dýraheilbrigði í framleiðslulöndunum. Í staðinn fyrir þessi ströngu ákvæði beita menn lægri tollum en ella varðandi það kjöt sem heimilt er að flytja inn. 
Ný og strangari löggjöf þar um fjallar um allt framleiðsluferlið frá býli á disk neytenda. Til að fylgja þessu eftir er almennt bann á kjötinnflutningi ferðamanna til ESB-landa. 
 
Ekki er allt sem sýnist
 
Meðalinnflutningstollur á öllum landbúnaðarvörum til ESB-landa er 12% samkvæmt úttekt sem Australian Farm Institute gerði um áhrif af útgöngu Breta úr ESB.  Áhugavert er að í þeirri úttekt kemur líka fram að matreiðsla opinberra gagna getur verið misvísandi. 
 
Opinber stuðningur við breska bændur er t.d. í skýrslunni sagður nema sem svarar 55% af heildartekjum á meðan hann er samkvæmt PSE-mati OECD 56% á Íslandi, og 62% Noregi. Aftur á móti er hann sagður vera 18,9% í ESB-löndunum að meðaltali. Spurningin  er hvort þarna sé að öllu leyti verið að bera saman sambærilega hluti. 
 
Nefna má að ýmsir styrkir sem veittir eru bændum innan ESB eru ekki skilgreindir sem stuðningur við landbúnað. Það má m.a. segja um aðstoð við þýska bændur til að framleiða raforku inn á orkukerfið með því að brenna gasi sem búið er til með gerjun á korni og skít. Þetta er gert með því að kaupa orkuna af bændum á mjög háu yfirverði. Ýmislegt af þessum toga kemur ekki fram undir CAP-landbúnaðarstefnu ESB. Margvíslegir samfélagslegir styrkir og stuðningur við byggð í dreifbýlinu geta líka verið af svipuðum toga. Þá var á síðasta ári undir CAP aukið verulega við stuðning við bændur og þá til að draga úr mjólkurfamleiðslu. Verða þeir styrkir auknir enn frekar á nýbyrjuðu ári sem nemur 14 evrusentum á hvert kíló af mjólk sem ekki er sett á markað. 
 
Ástralir vernda mjög hart sína framleiðslu
 
Ástralir eru með mjög ströng lög um innflutning á kjöti og öðrum matvælum og eina landið sem nýtur einstakra sérreglna samkvæmt samningum þar um er nágrannaríkið Nýja-Sjáland. Háir innflutningstollar eru líka á kjöti og kjötvörum til Ástralíu til að vernda innlenda framleiðslu. Er þar um að ræða allt að 100% tolla á kjöti sem flutt er inn utan innflutningskvóta eins og á sumu kjöti frá ESB-löndum.
Meðaltollur á innfluttum landbúnaðarvörum innan tollkvóta til Ástralíu er þó ekki nema 1,2%. Tollur á kvótakjöt getur þó numið frá 0 til 50%. Við sum ríki gilda síðan sérstakir fríverslunarsamningar. Danir hafa t.d. flutt svínakjöt til Ástralíu.
 
Á tólf mánaða tímabili frá október 2015 til október 2016 fluttu Ástralir út 1.048.344 tonn af nautakjöti, 373.686 tonn af kindakjöti og 26.489 tonn af geitakjöti samkvæmt tölum MLA. 
Hörð viðurlög eru við brotum á lögum og reglum um innflutning á kjöti til Ástralíu, eða allt að 100.000 dollara sekt og fangelsi í nokkur ár. 
 
Vernd lífríkis og vatns í landinu
 
Lögin í Ástralíu byggja á vernd lífríkis og vatns í landinu og heimila margvíslega hindranir til að framfylgja þeirri verndarstefnu. Undir þessi lífríkisöryggisákvæði fellur líka innflutningur á eggjum og afurðum sem innihalda egg, mjólkurvörur, óniðursoðið kjöt, fræ, hnetur, ferskir ávextir og grænmeti.
 
Hörð viðurlög á Nýja-Sjálandi við brotum á kjötinnflutningi
 
Svipuð löggjöf er í Nýja-Sjálandi og í Ástralíu.  Þar er ströng löggjöf um innflutning á matvælum hverju nafni sem þau nefnast. Undir það falla öll dýr lifandi eða dauð og dýraafurðir. Allt kjöt og kjötafurðir er ýmist alfarið bannað að flytja inn eða sett undir mjög stranga innflutningslöggjöf. Undir þessi lög falla líka lífsýni, plöntur og plöntuhlutar lifandi eða dauðir. Einnig tæki og tól sem tengjast dýraeldi og afurðavinnslu, útilegubúnaður, golfkylfur og meira að segja notuð reiðhjól. Ótti er við að  nýr TPP-samningur (Trans-Pacific Partnership) 12 Kyrrahafslanda um tollamál geti eyðilagt þessar varnir og þar með landbúnað viðkomandi landa.  
Átök um mögulegan TTIP-tollasaming milli Bandaríkjanna og ESB-landa snúast m.a. um mikla hormónanotkun Bandaríkjamanna við kjötframleiðslu.
 
Ferðamenn þurfa að útfylla sérstök lífríkisöryggiseyðublöð er varðar einangrun við komu með matvæli til Nýja-Sjálands. Er það nefnt „Passenger Arrival Card“. Ef fólk bregst þessari skyldu á það yfir höfði sér háar sektir. Ranglega útfyllt eyðublað kostar t.d. skilyrðislausa sekt upp á 400 dollara. Ef brotið er alvarlegra eru viðurlögin allt að 100.000 dollarar upp að nokkurra ára fangelsisvist. Tollvörðum er ekki skylt að útskýra í smáatriðum fyrir fólki við komuna hvaða matvæli falla nákvæmlega undir bann við innflutningi. Til að fá slíkar upplýsingar er fólki bent á ráðuneyti frumframleiðslugreina. 
 
Hér er aðeins stiklað á stóru en algengt er að tekið sé upp tímabundið bann á kjötinnflutningi víða um lönd þegar uppvíst verður um sjúkdóma af ýmsu tagi í framleiðslulöndunum. Þetta á ekki síst við innflutning á „fersku“ kjöti. Kannski er það þess vegna sem sumir Bandaríkjamenn hafa miklar væntingar til TPP-samningsins. Markaður fyrir kjöt í Asíu hefur verið að aukast hröðum skrefum þar sem regluverkið er veikast fyrir. Ráðgert er að nautakjötsinnflutningur Asíuríkja verði kominn í um 3,3 milljónir tonna á næsta ári en hann var um 2 milljónir tonna árið 2012 samkvæmt tölum USDA.

Skylt efni: tollar

Fyrsta myglulausa sumarið frá 2018
Fréttir 13. september 2024

Fyrsta myglulausa sumarið frá 2018

Ekki hefur orðið vart við kartöflumyglu í sumar sem er þá fyrsta myglulausa suma...

Tugmilljónatjón hjá kartöflubændum
Fréttir 13. september 2024

Tugmilljónatjón hjá kartöflubændum

Kartöflubændur í Nesjum í Hornafirði urðu fyrir verulegu tjóni á dögunum þegar h...

Bændur selja Búsæld
Fréttir 13. september 2024

Bændur selja Búsæld

Um 90 prósent bænda í Búsæld hafa ákveðið að taka kauptilboði Kaupfélags Skagfir...

Frekari fækkun sláturgripa
Fréttir 12. september 2024

Frekari fækkun sláturgripa

Um 28 þúsund færri lömb komu til slátrunar síðasta haust en árið á undan. Áfram ...

Fjár- og stóðréttir 2024 - Uppfærður listi
Fréttir 12. september 2024

Fjár- og stóðréttir 2024 - Uppfærður listi

Fjár- og stóðréttir eru fram undan og venju samkvæmt birtir Bændablaðið lista yf...

Lækkað verð á greiðslumarki
Fréttir 12. september 2024

Lækkað verð á greiðslumarki

Niðurstöður tilboðsmarkaðar fyrir greiðslumark mjólkur í byrjun september sýna l...

Smalað vegna óveðurs
Fréttir 12. september 2024

Smalað vegna óveðurs

Fyrsta haustlægðin kom á dögunum, með gulum og appelsínugulum viðvörunum, norðan...

Garðyrkjubændur rafmagnslausir
Fréttir 12. september 2024

Garðyrkjubændur rafmagnslausir

Raforkusamningum meirihluta garðyrkjubænda landsins hefur verið sagt upp. Í suma...