Feldfjárrækt
Íslenska sauðfjárkynið býr yfir miklum fjölbreytileika hvað ýmsa eiginleika varðar og eru fjölbreyttir litir skýrasta dæmið þar um.
Með áralöngu vali hefur tekist að rækta fram sérstaka gærueiginleika hjá gráu fé í örfáum hjörðum hér á landi og hefur það verið kallað feldfé. Þessar kindur eru þó jafnmikið af íslensku bergi brotnar og allt annað sauðfé í landinu. Í þessari grein er farið yfir eitt og annað sem tengist íslenskri feldfjárrækt.
Eiginleikar
Sérkenni íslensku ullarinnar er tvenns konar háragerð, tog og þel og ólíkir eiginleikar þessara háragerða. Almennt þykir eftirsóknarvert að þelið sé þétt og hlutfall þess í reyfinu hátt. Æskilegt er að togið sé fremur fínt en algengur galli á íslenskri ull er gróf tog og fremur þunnt þel. Ullareiginleikar hafa almennt hátt arfgengi og tiltölulega auðvelt að breyta þeim með einstaklingsúrvali, þ.e. að velja beint út frá útlitseinkennum gripanna.
Annað sérkenni íslenska fjárkynsins er hin mikla fjölbreytni lita. Erfðareglur lita eru vel þekktar hjá íslensku fé og með þá vitneskju að leiðarljósi á að vera auðvelt að fjölga fé í þeim litum sem óskað er eftir í viðkomandi hjörð.
Við ræktun á svokölluðum feldeiginleikum er horft til annarra ullareiginleika en almennt er gert hjá íslensku fé. Þar er meginmarkmiðið að rækta fé með ullareiginleika sem gefa sútuðum gærum sérstakt útlit og eiginleika. Fyrirmyndin er grátt fé sem upprunnið er frá sænsku eyjunni Gotlandi á Eystrasalti, sem lengi hefur verið ræktað þar með loðskinnaframleiðslu að meginmarkmiði. Í feldfjárrækt er sóst eftir því að háragerðin sé sem jöfnust og hárin falli í sterka hæfilega stóra, gljáandi lokka sem ná alveg inn að skinni.
Hjá íslensku fé er þá reynt að auka hlutfall togs og að það sé jafnframt fínt, hæfilega hrokkið og gljáandi. Hér er æskilegt að þelið sé sem minnst því fín þelhárin vilja þófna þegar loðskinnin eru notuð í t.d. áklæði á stóla eða í flíkur. Litur kindarinnar skal vera sem jafnastur um allan bolinn og grár litur hefur verið nær alveg ríkjandi í þessari ræktun bæði í Gotlandsfénu og hér á landi.
Talsverð breidd er þó í þessum gráa lit sem sóst er eftir, allt frá mjög ljósgráum kindum og yfir í mjög dökkgráar. Steingrátt (milligrátt) hefur þó verið vinsælast í gegnum tíðina. Aðalatriðið er að litur hverrar kindar sé jafn um allan bolinn þannig að loðskinnið sé sem jafnast að lit.
Svartar kindur þarf oft að nota eitthvað með í þessari ræktun og góð svört skinn eru vel seljanleg. Svartar kindur geta verið nauðsynlegar í feldfjárhjörð til þess að grái liturinn verði ekki of ljós því arfhreinar gráar kindur eru ljósgráar og hjörðin gæti orðið of ljós með tímanum.
Golsóttar, botnóttar og flekkóttar kindur eru ekki æskilegar í þessari ræktun af augljósum ástæðum og sama á við um mórauðar kindur. Mórauðar feldgærur með jafnan lit geta þó vissulega verið fallegar en ræktun á gráu fé og mórauðu fer illa saman hvað hreinleika litar varðar.
Blöndun þessara lita skilar háu hlutfalli grámórauðra lamba auk þess sem hætta er á að litirnir spilli hreinleika litar hver fyrir öðrum. Ræktun á mórauðu feldfé væri því í raun aðskilið viðfangsefni væri áhugi fyrir því.
Vel svartar kindur gætu einnig nýttst þar til innblöndunar stöku sinnum án þess að spilla mórauða litnum. Það væri þá gert til að ná í aðra eftirsóknarverða eiginleika sem hugsanlega vantaði í mórauðu hjörðina s.s. góðan lokk eða betra byggingarlag.
Ull af Gotlandsfé er eftirsótt í hvers konar handverk og vísbendingar eru um að ull af íslensku fé sem ræktað hefur verið með tilliti til feldeiginleika sé einnig eftirsóknarverð. Ræktendur hafa nú þegar hafið vinnslu á ullarvöru af fé sínu og annað handverksfólk er farið að sækjast eftir þessari ull.
Sérstaðan umfram aðra lambsull liggur fyrst og fremst í meiri gljáa á bandinu og meiri mýkt því togið á þessu fé er svo fínt. Þetta eru vissulega eftirsóknarverðir eiginleikar í handverksull.
Feldfjárrækt á Íslandi síðustu áratugi
Upp úr 1950 hækkaði verð á gráum gærum mjög mikið í Svíþjóð og víðar og voru íslenskar gráar gærur seldar þangað um árabil. Þessi markaður hélst fram undir 1980 og fékkst allgott verð einkum framan af þessu tímabili. Þetta leiddi til þess að gráu fé fjölgaði talsvert í landinu. Þegar á leið stóðust íslenskar gærur ekki samkeppni við gærur af gráu Gotlandsfé.
Sveinn Hallgrímsson sauðfjárræktarráðunautur hafði þá frumkvæði að því að hvetja bændur til ræktunar á gráu fé með sem best feldgæði.
Sænskur sérfræðingur var fenginn til landsins til að meta feldgæði í gráu fé hér á landi og taldi hann að besta gráa féð með tilliti til þessa væri að finna í Strandasýslu og í Vestur-Skaftafellssýslu austan Mýrdalssands. Stofnuð voru nokkur feldfjárræktarfélög dreift um landið að frumkvæði Sveins en starfsemi þeirra stóð aðeins í örfá ár nema hjá nokkrum bændum í V-Skaft.
Teknir voru kynbótahrútar með tilliti til feldgæða inn á sauðfjársæðingastöðvarnar og má þar nefna Lokk 81-816 og Feld 81-837. Verð á allri grávöru féll verulega á níunda áratug síðustu aldar og dró þar með úr áhuga bænda á feldfjárrækt.
Með dyggum stuðningi Sveins Hallgrímssonar og Einars Þorsteinssonar, héraðsráðunautar á Suðurlandi, héldu nokkrir bændur í Meðallandi ræktun feldfjár áfram og reyndu þar með að varðveita þann árangur sem búið var að ná í þessari ræktun. Þar má nefna Guðna Runólfsson í Bakkakoti og nú seinni árin Guðna Má Sveinsson á Melhól. Á allra síðustu árum hefur áhugi á þessari ræktun glæðst dálítið á svæðinu og er það ekki síst fyrir mikinn áhuga og frumkvæði Kristbjargar Hilmarsdóttur á Þykkvabæjarklaustri í Álftaveri.
Staðan í dag
Að frumkvæði Sveins Hallgrímssonar og áhugafólks um feldfjárrækt var tekinn kynbótahrútur með tilliti til feldeiginleika, Gráfeldur 08-894, inn á Sauðfjársæðingastöðina í Þorleifskoti haustið 2013. Slíkur hrútur hafði þá ekki verið í boði á sauðfjársæðingastöðvunum í hátt á þriðja áratug.
Gráfeldur var í notkun í tvö ár en sl. haust var fenginn annar slíkur hrútur Lobbi 09-939. Þessir hrútar hafa fengið takmarkaða notkun enda fyrst og fremst ætlað það hlutverk að hjálpa sauðfjárbændum um allt land sem áhuga hafa til að ná inn í hjörð sína þeim sérstöku feldfjáreiginleikum sem til eru í íslenska fénu og nokkrir bændur í Meðallandi hafa varðveitt um árabil. Þessir hrútar eiga nú orðið afkvæmi hér og þar um landið en mestan áhuga til þessa hafa sýnt nokkur bú í vestanverðri Rangárvallasýslu.
Fyrir um ári síðan óskaði áhugafólk um feldfjárrækt eftir aðstoð Ráðgjafarmiðstöðvar landbúnaðarins við eitt og annað hvað þessa ræktun varðar. Má þar nefna, að efla kunnáttu við dóma á feldeiginleikum, utanumhald um skráningu þeirra dóma t.d. í Fjárvís og um aðra aðstoð við þessa ræktun. Undirritaður fékk það hlutverk hjá RML að liðsinna þessum hópi sauðfjárbænda.
Nokkur orð um kynnisferð til Danmerkur
Í ágúst síðastliðnum fór ég ásamt Kristbjörgu Hilmarsdóttur og Sigurði Sverrissyni, bændum á Þykkvabæjarklausti í Álftaveri, í stutta ferð til Danmerkur. Tilgangur ferðarinnar var ekki síst að kynnast þeim vinnubrögðum sem beitt er þar í landi við mat á lömbum af Gotlandskyni.
Í Danmörku eru ræktendur talsvert margir og hafa með sér samtök sem starfa nú í 12 undirdeildum um allt landið. Á heimsíðu samtakanna www.gotlamb.dk má nálgast ýmsan fróðleik um ræktun Gotlandsfjár og félagsstarf þessara bænda.
Á Gotlandi í Svíþjóð eru að sjálfsögðu öflugasta og umfangsmesta ræktun Gotlandsfjár og eru þessir dönsku bændur í nánu samstarfi við svíana. Þeir fá t.d. sænska dómara til að dæma allra bestu gripina á árlegri yfirlitssýningu.
Leyfilegt var að kaupa kynbótahrúta frá Gotlandi til Danmerkur þar til fyrir tveimur árum að lokað var á flutning á lifandi dýrum milli landanna. Anne Hjelm Jensen, framkvæmdastjóri Félags danskra feldfjárræktenda, skipulagði þessa stuttu heimsókn okkar og fórum við fyrst á bú hennar, Birkemosehus, sem er nærri borginni Sorö á Sjálandi. Anne og maður hennar eru með um sjötíu Gotlandskindur og reka jafnframt verslun á staðnum þar sem í boði eru margs konar skinna- og ullarvörur af Gotlandsfé.
Þeir sem vilja kynna sér nánar starfsemi þeirra geta skoðað www.birkemosehus.dk en þar var athyglisvert að koma.
Daginn eftir fórum við ásamt Anne á tvo bæi í grenndinni og fylgdumst með dönskum ráðunaut dæma lömb af Gotlandskyni. Stefnt er að því að dæma lömbin c.a. 120 –130 daga gömul og þjónar matið fyrst og fremst þeim tilgangi að finna efnilegustu ásetningslömbin. Dæmdir voru fjórir þættir er varða feldgæðin og síðan gefin heildareinkunn. Einkunnaskalinn var frá 1–5 og aðeins notaðar heilar tölur í öllu. Dæmdir voru eftirfarandi þættir:
Litur og þar var mikið lagt upp úr að litur hvers lambs væri sem jafnastur yfir allan bolinn.
Lokkun ullar þar sem lagt var upp úr að lokkarnir væru hæfilega stórir og lokkun byrjaði strax inn við skinn því flestar gærurnar eru loðklipptar í ákveðna háralengd. Mikilvægt var einnig að lokkurinn legðist rétt og væri sterkur.
Háragerð þurfti að vera sem jöfnust og hárin þurftu sem mest að leggjast saman í lokka og væru fín hár á milli lokkanna var það frádráttaratriði. Mikið var lagt upp úr góðum gljáa á hárunum og eftirsóknarvert að hárin væru málmgljáandi og dúnmjúk.
Þéttleiki feldar. Þar þurftu lokkarnir að standa sem þéttast saman þannig að hvergi sæi í skinnið.
Fimmta atriðið var svo heildareinkunn sem virtist oftast vera meðaltal einkunna fyrri þátta en jafnframt heildarmat dómarans.
Jafnframt var holdfylling metin hjá hverju lambi og þeim gefin stig samkvæmt Europ-kjötmatsskalanum fyrir frampart, bak og læri. Út frá því var spáð fyrir um í hvaða gerðaflokk þau færu. Dæmi; frampartur 6, bak 6, læri 7= gerðarflokkur O+. Þótt feldgæðin séu aðalatriðið í þessari ræktun er jafnframt reynt að leggja áherslu á að lömbin séu sæmilega gerð og fari helst í R-flokkana.
Hvert lamb var metið á u.þ.b. eins metra háum palli utandyra og stóð dómarinn við vinnu sína. Með þessu móti var mjög þægilegt að skoða ullina og raunar alla þætti hjá lambinu.
Þessi dagur var mjög lærdómsríkur og afslappað og skemmtilegt andrúmsloft hjá Dönum við lambadómana.
Hvað er fram undan hér heima?
Nú í október eru væntanlegar í stutta heimsókn hingað til lands, Anne Hjelm Jensen og Mailis Jepsen, sem er einn reynslumesti feldfjárdómari Dana. Þær stöllur ætla að skoða lömb hjá nokkrum feldfjárræktendum á Suðurlandi, leggja mat á feldgæði lambanna og aðstoða við að þróa áfram mat á feldgæðum hér á landi.
Æskilegt væri að ná betri yfirsýn yfir þá feldfjárrækt sem áhugi er fyrir að stunda hér á landi og að hægt verði að skrá og halda saman mati á þessum eiginleikum lamba með samræmdum hætti. Er skýrsluhaldsforritið Fjárvís langæskilegasti vettvangurinn til þess. Mikilvægt er einnig að hafa góða yfirsýn yfir aðra afurðaeiginleika í feldfjárrækt s.s. frjósemi, mjólkurlagni ánna og kjötgæði þótt megináherslan liggi í feldgæðum sem jafnframt virðast um leið gefa eftirsóknarverða ull í handverk.
Engin ástæða er til annars en að ær í feldræktun séu bæði frjósamar og mjólkurlagnar og stefnt skal að því að þær skili lömbum í gerðarflokkinn R í það minnsta, þannig að tekjur af dilkakjötinu séu eðlilegar. Að lokum eru bændur sem áhuga hafa um allt land hvattir til að horfa eftir þeim einkennum feldfjár sem lýst hefur verið í þessari grein. Ef til vill leynist einhvers staðar efniviður sem síðan má styrkja með notkun sæðinga en líflambasala er ekki leyfð úr þeim varnarhólfum þar sem feldfé er helst að finna í dag.