Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 7 ára.
Áskell Heiðar, framkvæmdastjóri LM2016, Lárus Ástmar Hannesson, formaður stjórnar LH, og Eyþór Gíslason, mótsstjóri LM2016, litu á aðstæður á landsmótssvæðinu á Hólum.
Áskell Heiðar, framkvæmdastjóri LM2016, Lárus Ástmar Hannesson, formaður stjórnar LH, og Eyþór Gíslason, mótsstjóri LM2016, litu á aðstæður á landsmótssvæðinu á Hólum.
Mynd / MÞÞ
Viðtalið 22. júní 2015

Fagmennska og gleði verður í forgrunni, frábærir hestar og skemmtilegt fólk

Höfundur: Margrét Þóra Þórsdóttir
 „Ég hlakka mikið til að vinna með skemmtilegu fólki að uppbyggingu þessarar frábæru hátíðar, sem verður allt í senn; glæsilegt íþróttamót, menningarviðburður, fjölskylduhátíð en umfram allt mannamót þar sem íslenski hesturinn verður í öndvegi,“ segir Áskell Heiðar Ásgeirsson, sem á dögunum tók við starfi framkvæmdastjóra vegna Landsmóts hestamannafélaga sem haldið verður næsta sumar á Hólum í Hjaltadal. „Svo er auðvitað skemmtilegt aukakrydd í þetta allt saman að sumarið 2016 verða liðin 50 ár frá því Landsmót fór síðast fram á Hólum.“
 
Áskell Heiðar segir ráðningu sína undirstrika ákveðna stefnubreytingu hjá Landssambandi hestamannafélaga, í þá átt að framkvæmd landsmóta verði í auknum mæli færð heim í þau héruð sem hýsa mótin hverju sinni og til fólksins sem þar býr.  „Og því er mikilvægt að hestamenn og Skagfirðingar standi saman að mótshaldinu og umgjörðinni um það.“
 
Ólst upp á sauðfjárbúi
 
Heiðar er fæddur og uppalinn í Borgarfirði eystra, næstelstur fjögurra systkina, sonur hjónanna Bergrúnar Jóhönnu Borgfjörð og Ásgeirs Arngrímssonar. Þau hjónin ráku saman sauðfjárbú á bænum Brekkubæ ásamt  ferðaþjónusturekstri og viðburðahald af ýmsu tagi varð síðar hluti af hinu daglega lífi þeirra og barnanna. Eftir að Jóhanna lést árið 2012 hefur Ásgeir haldið sauðfjárræktinni áfram og Arngrímur Viðar, elsti bróðir Heiðars, rekur nú umfangsmikla ferðaþjónustu á Borgarfirði.
 
Skólagangan fór fram heima í Borgarfirði og síðar í Alþýðuskólanum á Eiðum þaðan sem leiðin lá í Fjölbrautaskólann á Sauðárkróki. Þar kynntist hann konu sinni, Völu Báru Valsdóttur, sem er hreinræktaður Skagfirðingur. „Við bjuggum í Reykjavík á meðan við stunduðum bæði nám í borginni, hún lærði til leikskólakennara og ég var í landafræði við Háskóla Íslands.  Við snerum svo heim á Krókinn að loknu námi árið 1998 og höfum búið þar síðan,“ segir Heiðar. Þau Vala eiga fjórar dætur, sú elsta varð 18 ára í vikunni en sú yngsta varð fjögurra ára í desember síðastliðnum.
 
Byggði upp tónlistarhátíðina Bræðsluna ásamt fleirum
 
Heiðar starfaði lengi sem sviðsstjóri hjá Sveitarfélaginu Skagafirði þar sem hann hafði umsjón með menningarstarfi, viðburðum, ferða- og atvinnumálum. Hann settist á skólabekk á ný árið 2012 og lauk MA-námi í ferðamálum og viðburðastjórnun frá Háskólanum á Hólum, en hluti af því var gestanám í Englandi.  Fjölskyldan fékk þannig tækifæri til að búa í útlöndum veturinn 2013 til 2014.  Undanfarið ár hefur Heiðar kennt við Háskólann á Hólum og Háskóla Íslands, auk þess að skipuleggja eigin viðburði.  Einn sá þekktasti er Bræðslan, sívaxandi tónlistarhátíð sem haldin er á æskustöðvum hans, Borgarfirði eystra, en þá hátíð hefur hann byggt upp ásamt Magna, bróður sínum, og fleirum undanfarinn áratug.
Góð aðstaða fyrir hendi á Hólum
 
„Mér bauðst að taka að mér framkvæmdastjórn Landsmótsins næsta sumar og auðvitað er ekki hægt að láta slíkt tækifæri úr hendi sleppa, þetta er mjög spennandi verkefni, skemmtilegur viðburður og ekki spillir fyrir að hann skuli fara fram á þessum yndislega stað sem Hólar eru,“ segir Heiðar.  
 
Háskólinn á Hólum er öflugasta miðstöð landsins þegar kemur að kennslu og rannsóknum á öllu er viðkemur íslenska hestinum og það telur Heiðar einn helsta styrkleika þess að staðsetja mótið á Hólum. Fyrir hendi er á staðnum góð aðstaða, frábær húsakostur, glæsilegt hesthús, reiðhallir og fleira sem nýtist vel á mótinu.  „Mikið af hestafólki hérlendis og erlendis hefur tengsl við staðinn, t.d. eftir að hafa stundað þar nám og það er von mín að þetta fólk skili sér á landsmót.“   
 
Miklar framkvæmdir fyrirhugaðar í sumar
 
„Nú í sumar verður hafist handa við þær endurbætur sem gera þarf á svæðinu til að það verði í stakk búið til að taka á móti þeim fjölda gesta sem við vonumst eftir að sæki mótið heim. Það verða útbúnar glæsilegar áhorfendabrekkur við aðalkeppnisvöllinn og byggður verður kynbótavöllur, auk þess sem unnið verður í vegagerð og að öðrum nauðsynlegum verkefnum sem ráðast verður í svo að sem best fari um gesti og hross meðan á mótinu stendur,“ segir Heiðar. „Háskólinn á Hólum og Sveitarfélagið Skagafjörður hafa ásamt hestamannafélögunum í Skagafirði lagst á árar með Landssambandi hestamannafélaga.  Allt þetta góða fólk stefnir að sama markmiði og ég er þess fullviss að umgjörð mótsins verður eins og best verður á kosið, stórglæsileg.“
 
Markmiðið að senda gesti heim með góðar minningar
 
Heiðar segir að almennt séu Skagfirðingar ánægðir með val á landsmótssvæði, að mótið fari fram á Hólum í stað Vindheimamela, „en eflaust eru á því skiptar skoðanir eins og á öllu öðru. Ég finn hins vegar fyrir miklum hug í íbúum hér á svæðinu, menn ætla sér að leggjast á eitt um að gera landsmótið að vel heppnuðum viðburði. Markmiðið er að senda gesti heim með góðar minningar þannig að þeir vilji koma aftur og helst sem oftast heim að Hólum,“ segir Heiðar.
 
Hann nefnir að allir geri sér grein fyrir því að miklu skipti fyrir íbúa á öllu Norðurlandi að fyrir hendi sé góður landsmótsstaður í landshlutanum „og ég er sannfærður um að hestamenn og aðrir á svæðinu þjappa sér saman á bak við mótið“ segir hann og bendir m.a. á að heimamenn þurfi í sameiningu að vinna að því að koma gestum mótsins fyrir í þeirri gistingu sem þeir helst kjósa.
 
Í forgrunni að skapa skemmtilega stemmningu
 
„Það eru miklar vonir bundnar við þetta mót og við þurfum að standa okkur í því að búa til viðburð sem höfðar til hestaáhugafólks, en einnig til þeirra sem vilja sækja skemmtilegt mannamót. Við þurfum að hafa í forgrunni að skapa skemmtilega stemningu, við viljum búa til viðburð þar sem fagmennska og gleði verða aðalatriðin, frábærir hestar og skemmtilegt fólk,“ segir Heiðar.  Ómögulegt sé að segja fyrir um fjölda hugsanlegra gesta nú ári fyrir landsmót.  „En við stefnum auðvitað að því að fá mikinn fjölda til okkar, aðalatriðið er þó að allir fari glaðir heim.“
 
Heiðar sinnir væntanlegu landsmóti í hlutastarfi fram til  næstu áramóta, en á nýju ári mun hann snúa sér alfarið að undirbúningi mótsins. Fyrstu vikurnar segir hann að fari í að koma sér inn í reksturinn og kynnast fólki sem starfar við mótshaldið. Vinna er hafin við opnun miðasölu í sumar og eins er hafinn undirbúningur vegna heimsmeistaramóts íslenska hestsins í Herning í Danmörku sem verður í ágúst. „Þar verður landsmótið í góðum félagsskap á hestatorgi og munum við kynna það rækilega þar,“ segir Heiðar. 

4 myndir:

Hækkun upp á 35,5 prósent að meðaltali fyrir dilka yfir landið
Fréttir 30. ágúst 2022

Hækkun upp á 35,5 prósent að meðaltali fyrir dilka yfir landið

Uppfærslur á verðskrám sláturleyfishafa, vegna sauðfjárslátrunar 2022, halda áfr...

Fjár- og stóðréttir 2022
Fréttir 25. ágúst 2022

Fjár- og stóðréttir 2022

Fjár- og stóðréttir verða nú með hefðbundnum brag, en tvö síðustu haust hafa ver...

Riðuþolinn sauðfjárstofn verður ræktaður
Fréttir 7. júlí 2022

Riðuþolinn sauðfjárstofn verður ræktaður

Staðfest er að samtals 128 gripir bera annaðhvort ARR-arfgerð, sem er alþjóðlega...

Bændur borguðu 412 krónur með hverju kílói af framleiddu nautakjöti árið 2021
Fréttir 7. júlí 2022

Bændur borguðu 412 krónur með hverju kílói af framleiddu nautakjöti árið 2021

Afurðatekjur af nautaeldi mæta ekki framleiðslukostnaði og hafa ekki gert síðast...

Sláturfélag Vopnfirðinga boðar verulegar afurðaverðshækkanir
Fréttir 27. júní 2022

Sláturfélag Vopnfirðinga boðar verulegar afurðaverðshækkanir

Sláturfélag Vopnfirðinga boðar umtalsverðar hækkanir á afurðaverði til sauðfjárb...

„Viðnámsþróttur þjóða byggir á öflugri innlendri matvælaframleiðslu“
Fréttir 14. júní 2022

„Viðnámsþróttur þjóða byggir á öflugri innlendri matvælaframleiðslu“

Stjórn Bændasamtakana telur skýrslu og tillögur Spretthóps, sem lagaðar voru fyr...

Spretthópur leggur til 2,5 milljarða króna stuðning
Fréttir 14. júní 2022

Spretthópur leggur til 2,5 milljarða króna stuðning

Spretthópur, sem matvælaráðherra skipaði vegna alvarlegrar stöðu í matvælaframle...

Mjólkurvörur frá Örnu til Bandaríkjanna
Fréttir 13. júní 2022

Mjólkurvörur frá Örnu til Bandaríkjanna

Nýlega skrifuðu forsvarsmenn Örnu í Bolungarvík og forsvars- menn Reykjavík...