Fæðufullveldi fer dvínandi
„Ýmislegt bendir til þess að fæðufullveldi í Evrópu fari dvínandi,“ sagði Margrét Gísladóttir, framkvæmdastjóri Samtaka fyrirtækja í landbúnaði, á fundi um íslenska matvælaframleiðslu í síðustu viku.
„Þessi þróun skapar hættu á dvínandi fæðufullveldi, þ.e. minni framleiðsla í Evrópu kallar á aukinn innflutning, svo Evrópa verður háðari matvælum sem framleidd eru undir öðrum reglum og kröfum sem ESB hefur ekkert að segja um.“
Hækkandi tollar og viðskiptahindranir geta raskað aðgengi að innfluttum matvælum, sem gerir löndum mikilvægt að treysta á eigin framleiðslu, sagði Margrét enn fremur en í erindi sínu á fundinum talaði hún um mikilvægi fæðufullveldis þjóða við breyttar aðstæður í alþjóðasamfélaginu. Bandaríkin, eitt stærsta efnahagsveldi heims, geta með tollahækkunum haft áhrif á alþjóðaviðskipti og matvælaverð, sem getur bitnað á fæðuöryggi margra ríkja.
„Jafnframt hefur innrás Rússlands í Úkraínu truflað framboð á mikilvægum landbúnaðarafurðum eins og korni og áburði sem hefur leitt til hærra matvælaverðs. Þetta undirstrikar þörf ríkja fyrir að efla sjálfbæra matvælaframleiðslu og styðja við bændur í sínu heimalandi,“ sagði Margrét.
Fæðufullveldi sterkt en brothætt
Fæðufullveldi snýst um rétt fólks til heilbrigðra og menningarlega viðeigandi matvæla sem framleidd eru með vistvænum og sjálfbærum aðferðum og rétt þeirra til að skilgreina eigin matvæla- og landbúnaðarkerfi. Fæðufullveldi einblínir á vonir og þarfir þeirra sem framleiða, dreifa og neyta matvæla, frekar en kröfur markaða og fyrirtækja – í matvælakerfum og stefnum.
efnum. Samkvæmt nýlegri samantekt frá Farm Europe er fæðufullveldi ESB í heild sinni áfram sterkt – en brothætt, sagði Margrét. „Sambandið er útsett fyrir geopólitískum sviptingum, loftslagsáhættu og aðgangi að fóðri og orku. Reyndar hefur sjálfsaflahlutfall ESB í fóðri farið hratt versnandi, sérstaklega hvað varðar ræktun í Frakklandi, Þýskalandi og á Ítalíu.
Þá eru þjóðir þar, líkt og hér, að horfa upp á fækkun bænda og versnandi afkomu þeirra. ESB á það einnig sameiginlegt með Íslandi að meðalaldur bænda fer hratt hækkandi.“
Þarf að tryggja samkeppnishæfni
Margrét velti sömuleiðis fyrir sér fæðufullveldi Íslands. „Við viljum vita hvaðan maturinn okkar kemur og undir hvaða kringumstæðum hann er framleiddur,“ svaraði Margrét. „Þar má t.d. nefna að hérlendis er notkun sýklalyfja og varnarefna með því lægsta sem þekkist innan OECD-landanna og vel er fylgst með kjörum og réttindum bænda og starfsfólks í matvælaframleiðslu. Við skilgreinum sjálf okkar eigið landbúnaðarkerfi og hvernig við viljum að maturinn sé framleiddur. Við höfum lítið um það að segja þegar kemur að innfluttum matvælum.“
Margrét sagði enn fremur að til þess að styrkja fæðufullveldi Íslands þyrfti að efla sjálfbæra matvælaframleiðslu og styðja við innlendan landbúnað. „Við þurfum að tryggja samkeppnishæfni greinarinnar. Sé hún ekki tryggð verður íslenskur landbúnaður undir í keppni við innflutt matvæli, innlend framleiðsla dregst saman og við verðum háðari innfluttum matvælum. Þá höfum við ekki mikið að segja um framleiðsluaðferðir, lyfjanotkun, kjör þeirra sem að framleiðslunni standa, aðbúnað dýra og svo má lengi telja.“
Fundurinn bar yfirskriftina „Íslensk matvæli – einkamál fárra eða hagsmunir allra?“ en að honum stóðu Bændasamtök Íslands, Samtök ungra bænda, Samtök smáframleiðenda matvæla, Beint frá býli, Samtök afurðastöðva í mjólkurframleiðslu og Samtök fyrirtækja í landbúnaði.
Nýtt Bændablað kom út í dag