Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 5 ára.
Eru heilu héruðin að falla í hendur erlendra auðmanna?
Mynd / Odd Stefán
Lesendarýni 8. ágúst 2018

Eru heilu héruðin að falla í hendur erlendra auðmanna?

Höfundur: Guðni Ágústsson
Bújarðir og heilu héruðin á Íslandi munu auðmenn íslenskir eða erlendir og ekki síður matvæla­keðjur eignast verði ekkert að gert. Land verður dýrara en gull í veröld mengunar og dýrasjúkdóma. Við Íslendingar gerum okkur ekki nokkra grein fyrir verðmætunum sem í landinu okkar liggja til matvæla­framleiðslu eða nútíma lífshátta á veraldarvísu. Með EES féllu allir fyrirvarar á brott um jarðakaup íbúa á EES-svæðinu og „girðingarlögin,“ sem sett voru stóðust ekki varnir eða önnur ákvæði laga. Vandi Alþingis í þessu máli er mikill og ekkert einfalt.
 
Guðni Ágústsson.
EES-samninginn þarf að endurskoða bæði út frá jarðakaupum og því að hann stangast á við stjórnarskrána.  Siglufjörður er dæmi um jákvæða þróun til að tryggja búsetu, við stjórnmálamennirnir komum með Héðinsfjarðargöng, og töldum að þar með væri byggðinni bjargað. Ef ekki hefði komið auðmaður utan úr heimi, að vísu drengur uppalinn á Siglufirði, hefðu göngin verið nýtt til að koma síðustu íbúunum í burtu. Þessi athafnamaður, Róbert Guðfinnsson, kom og tók að gera það sem stjórnmálamennirnir staglast á í öðru hverju orði að þurfi að gera: „Byggja upp innviðina.“ Innviðir eru stórt orð og rúma allt það sem nútímamaðurinn krefst að sé til staðar. Það er sýn og fjármagn sem skiptir svo máli og að peningar séu lagðir í uppbyggingu fyrir þjónustu og gróandi atvinnu- og líf í byggðinni. Leiðirnar eru margar að því marki og þar standa nágrannar okkar sig betur eins og t.d. Norðmenn.
 
Auðmenn að verki í Fljótunum og Vopnafirði
 
Við sjáum svo að  auðmenn eru að verki bæði í Fljótunum og á Vopnafirði og víðar, erlendir menn sem skynja auðlind Íslands sjá hana með allt öðrum gleraugum en við, þeirra gleraugu eru græn en okkar svört. Þeir vita að landið er ævintýralegt ferða­mannaland, þeir vita að hinar verðlausu jarðir bændanna verða innan seilingar eitt eftirsóttasta land í veröldinni. Hér eru laxveiðiár og vötn, hér eru ferskvatnsauðlindir og ósnortið land hreint og ómengað til matvælaframleiðslu. Þessi kynslóð auðmanna er að fara vel með landseta sína og skilur að búseta er mikilvæg hverju héraði. Hér hafa erlendir menn svo um langt skeið hugað að því að koma með garðyrkjurækt og gróðurhúsaframleiðslu vegna jarðhitans, raforkunnar og hins hreina kalda lofts sem er auðlind. Enn fremur hafa útlendingar velt fyrir sér að koma með kjúklinga- og svínabúskap í stórum stíl vegna hreinleikans og þess að landið er án dýrasjúkdóma og vaxtarhraði kjúklinga og svína sá mesti sem um getur. En þessa framleiðslu eru stjórnmálamennirnir að færa erlendum bændum með tollasamningum af því að þeir skynja ekki stöðuna og leggja ekki í umræðuna við heildsalaveldið og innflutningsauðvaldið íslenska.
 
Sauðfjárbóndinn vinsæll en vanvirtur
 
Bóndinn í sauðfjárbyggðunum á sér fáa vini í kerfinu. En þjóðin metur störf bóndans og fjölskyldubúskapurinn er andstaða verksmiðjubúskaparins og heillar neytendur um allan heim. Fólkið virðir vinnu bændanna og vill hag þeirra betri, bændurnir gegna fjölþættu hlutverki í landinu, eru einnig landverðir um leið og þeir framleiða eina bestu villibráð heimsins, lambakjötið sem ætti að seljast á miklu hærra verði frá bónda til kaupmannsins. Matvælaframleiðsla í höndum bænda um land allt er besta og eina tryggingin fyrir eignarrétti okkar sjálfra á landinu. Landbúnaðarráðuneytið fór illa í stjórnarráðsbreytingunum árið 2007 og er nú nánast í skúffu í atvinnuvegaráðuneytinu og stærsta verkefni þess er að hrinda í framkvæmd matvælalöggjöf Evrópusambandsins. Hin verk-efni þess opinbera sem snúa að náttúrunni og eða landbúnaði hafa annaðhvort verið lögð af eða sett inn í MAST, eftirlitsstofnun ríkisins, þau eiga ekki þar heima. Nú er hún Snorrabúð stekkur og Bændasamtökin sundurhöggvin að kröfu ESB-reglugerðanna, bæði félaus og ráðalaus. Því spurði undirritaður í afmælisveislu hugsjónamannsins Ögmundar Jónassonar sem gert hefur sig gildandi í umræðu um landbúnað hvort þörf væri á að stofna nýjan stjórnmálaflokk? Bændum og byggðum til bjargar? Er það tilfellið að þingmenn og ráðherrar átta sig ekki á að nokkur hundruð bújarðir eru á leiðinni í eyði verði ekkert að gert í málefnum sauðfjárbænda, landbúnaðarins og byggðanna? Tekið skal fram að Kristján Þór Júlíusson er nýr í starfi landbúnaðarráðherra og Sigurður Ingi Jóhannsson nýr byggðamálaráðherra, þeir geta enn brett upp ermarnar. Spurningin er því þessi: Verður endurreisn landsbyggðanna í höndum landsmanna sjálfra eða yfirtaka auðmenn og auðhringir landið?
 
Ísland er gósenland þótt rigni sunnanlands og rigningin er góð miðað við brennandi jörð nágrannanna. Við eigum að eiga og ráða okkar landi, Íslendingar, í því er ekki fólgin andstaða við útlendinga þeir eiga hins vegar að geta fjárfest hér samkvæmt samningum þar um.
 
Höfundur: Guðni Ágústsson, fyrrverandi landbúnaðarráðherra.
 
Sama sláturhús sektað þrisvar
Fréttir 17. maí 2024

Sama sláturhús sektað þrisvar

Matvælastofnun (MAST) hefur þrisvar sinnum á þessu ári lagt stjórnvaldssekt á sv...

KS hagnaðist um 5,5 milljarða króna
Fréttir 17. maí 2024

KS hagnaðist um 5,5 milljarða króna

Hagnaður Kaupfélags Skagfirðinga af rekstri félagsins á árinu 2023 reyndist rúml...

Vorverkum bænda seinkar
Fréttir 16. maí 2024

Vorverkum bænda seinkar

Veturinn sem leið var sá kaldasti frá vetrinum 1998 til 1999, samkvæmt tíðindum ...

Riðuveiki útrýmt innan 20 ára
Fréttir 16. maí 2024

Riðuveiki útrýmt innan 20 ára

Landsáætlun um riðuveikilaust Ísland hefur verið sett í samráðsgátt stjórnvalda.

Kornþurrkstöð reist í Eyjafirði
Fréttir 16. maí 2024

Kornþurrkstöð reist í Eyjafirði

Grunnur undir kornþurrkstöð í Eyjafirði er nú að taka á sig mynd í landi Laugala...

Mjólkurframleiðendur fá arðgreiðslu
Fréttir 16. maí 2024

Mjólkurframleiðendur fá arðgreiðslu

Kúabændur á starfssvæði Auðhumlu mega gera ráð fyrir arðgreiðslu frá samstæðunni...

Vetnisknúin skip í smíðum
Fréttir 15. maí 2024

Vetnisknúin skip í smíðum

Smíði er hafin á tveimur vetnis­ skipum á vegum Samskipa. Áætlað er að þeim verð...

Drómasýki í hrossum
Fréttir 13. maí 2024

Drómasýki í hrossum

Drómasýki er vaxandi vandamál í íslenskri hrossarækt. Til stendur að stofna star...