Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 7 ára.
Gunnar Þórarinsson og Matthildur Hjálmarsdóttir á Þóroddsstöðum.
Gunnar Þórarinsson og Matthildur Hjálmarsdóttir á Þóroddsstöðum.
Mynd / HKr.
Á faglegum nótum 4. maí 2016

Eldi lamba frá sauðburði til hausts

Höfundur: Jón Viðar Jónmundsson ráðunautur hjá RML
Fyrir nokkrum árum stóðum við allmörg að því að skrifa bókina Sauðfjárrækt á Íslandi sem mér virðist að hafi mælst þokkalega fyrir af þeim sem hafa hana augum litið. Ekki var ég samt fyrr búinn að sjá verkið á prenti en mér var ljóst að einn kafli hafði alveg fallið niður. Þetta var kafli um eldi og fóðrun lamba frá fæðingu til hausts ef þau ganga ekki með mæðrum sínum.
 
Til að reyna að bæta aðeins úr þessu samdi ég við Hörð Kristjánsson ritstjóra um að taka þetta efni fyrir sérstaklega í Tímariti Bændablaðsins. Því miður vannst ekki tími til þess. Í því er að vísu birt frábært viðtal við Gunnar og Matthildi á Þóroddsstöðum í Hrútafirði, sem hafa farið ótroðnar slóðir í þessum efnum með ein­stökum árangri. Þeim sem ekki hafa þegar lesið viðtalið skal bent á að gera það hið snarasta, þangað er einstakan fróðleik að sækja.
 
Með þeirri aukningu í frjósemi veturgamalla áa og eldri hér á landi er alveg ljóst að „aukalömbunum“ fjölgar mikið árlega á mörgum búum. Hvernig til tekst að ná afurðum af þeim ræður þannig sífellt meiru um afkomu búsins. Líklega er þetta auðveldasta leiðin sem mörg sauðfjárbú eiga til að auka verulega tekjur sauðfjárbúsins án mikilla breytinga að öðru leyti. Viðtalið við Gunnar og Matthildi er rækilegasta sönnun þess.
 
Mikill breytileiki í aðstöðu og nýtingu sumarbeitilenda
 
Í þessum efnum er hins vegar augljóst að breytileiki í aðstöðu og nýtingu sumarbeitilenda er það mikill milli búa að fráleitt er að reyna að setja upp eina dagskrá fyrir alla bændur hvernig best verði að þessu staðið. Þar verður hver og einn að vega og meta hvað honum henti best í þessum efnum. Þegar verið er þannig að þróa nýjar búskaparaðstæður er ekki síður mikilvægt að leita ráða hjá þeim sem þegar búa yfir reynslu á þessu sviði. Þess vegna hafði ég samband við fólk sem ég þekkti að bjó yfir mikilli reynslu á þessu sviði sem þeir deildu með mér og leyfðu mér að vitna til. Vafalítið eru allnokkrir fleiri reynsluboltar á þessu sviði sem leita má til.
 
Reynsluboltar í Sandfellshaga í Öxarfirði
 
Um áratugur mun síðan Anna Englund og Gunnar Björnsson í Sandfelli/Sandfellshaga 2 í Öxarfirði byrjuðu að þreifa sig áfram á þessu sviði og eru líklega mestu reynsluboltarnir í landinu í dag í þessu.
Aðstaða þeirra er talsvert önnur en á Þóroddsstöðum og sitt lambaeldi byggja þau því á eldi lambanna  nánast frá fæðingu. Að sjálfsögðu leyfa þau lömbunum að vera með mæðrum sínum til að tryggja þeim mótefni úr broddmjólkinni sem þeim að sjálfsögðu er meginmál til að fá til að tryggja hreysti og heilbrigði lambanna.
 
Á þriðja til fimmta sólarhring eru lömbin tekin frá mæðrum sínum og flutt í lambabankann, sem er rúmt pláss fyrir móðurlausu lömbin á sauðburði. Fyrsta forgang hafa einlembingar undan ám, sem venja þarf undir. Þá er stór einlembingurinn fluttur í lambabankann en í staðinn tekin tvö sem mest jafnstór lömb úr bankanum. Í bankann fara einnig marglembingar frá fullorðnu ánum og annar tvílembingurinn hjá tvílembdum gemlingum. Þau hafa þá reglu að taka stærsta lambið (lömbin) frá þessum ám í bankann. 
 
Aðgengi að úthræðri mjólk og tilraun með brynningarennur
 
Í bankanum hafa lömbin aðgang að úthrærðri mjólk úr vatni og mjólkurdufti, sem þau afla sér með því að sjúga túttur. Flest lambanna virðast læra strax að sjúga tútturnar. Lömbin, sem ekki læra þetta strax, sæta forgangi þegar sækja þarf lömb í bankann á sauðburði til að venja undir aðrar ær. Nýlega eru þau byrjuð að láta lömbin drekka mjólk beint úr sundurskornum plaströrabútum (brynningarennum) og virðast nánast öll lömbin læra það strax. Þetta einfaldar verulega alla vinnu og eykur enn hreinlæti. Lömbin hafa að sjálfsögðu ætíð frjálsan aðgang að lystugu og góðu heyi og byrja strax vikugömul að gæða sér á því.
Kjarnfóður er ekki gefið en þau sögðust hafa fyrir örfáum árum látið köggla og fiskimjölsblanda smávegis af þurrheyi. Þessir kögglar eru greinilega sælgæti fyrir lömbin.
 
Við lok sauðburðar eru lömbin flutt í gamla hlöðu sem strax er farið að hafa opna og nánast strax fara lömbin að leita beitar á túninu, sem stendur þeim til boða að vild. Lömbin leita samt ætíð talsvert í hlöðuna og liggja þar lengstum inni um nætur. Gunnar sagði viðmiðunarreglu að hætta alveg mjólkurgjöf þegar létt­ustu lömbin hafa náð 10–12 kg þunga á fæti.
 
Sjúkdómar hafa ekki verið vandamál að öðru leyti en því að á fyrstu árunum hefði komið fyrir að vænstu lömbin hefðu snöggdrepist síðsumars. Grunur var um að þetta væri bráðapest og tóku þau síðan að bólusetja lömbin og hvarf þá þessi óværa. Gunnar varaði við að á markaði væri skoskt bóluefni Lambivac sem ekki inniheldur brápestarþáttinn og er því gagnslaust til þessa.
 
Með sauðburðarskjól við grænfóðurakurinn
 
Þau rækta smáblett af grænfóðri fyrir þessi lömb. Síðsumars þegar grænfóðrið hefur náð 10–15 cm hæð er akurinn opnaður og halda lömbin grænfóðrinu óbreyttu í þessari hæð til hausts en þá fara lömbin að samlagast öðrum lömbum búsins, sem þá koma úr sumarhögunum. Við litla grænfóðurakurinn hafa þau komið fyrir einu af hinum þekktu sauðburðarskjólum Norður-Þingeyinga. Þangað flytja lömbin því næturlúrinn úr gömlu hlöðunni. 
 
Til gamans sögðu þau að síðustu árin hafi þau alltaf stefnt að því að hafa lamb af forystufé í hópnum. Það hafi gefist sérlega vel því að það haldi allri stjórn á hópnum.
 
Að haustinu eru öll lömb búsins komin í einn hóp og flutt til slátrunar þegar þau eru talin hafa náð æskilegum sláturþunga og –holdum. Reynslan sé að meginhluti sumaröldu lambanna séu orðin það væn og þroskuð að þau lendi í fyrsta hópnum sem sendur er á blóðvöll á haustin.
 
Ástæða er að nefna að um árabil hefur allmikið verið til í Sandfellshaga 2 af ám með Þokugen. Því til viðbótar eru þau nánast fyrst manna til að nota arfhreina þannig hrúta til að viðhalda eiginleikanum. Í vetur gerðu þau tilraun með að draga verulega úr fengieldi hjá fullorðnu ánum og gáfu þess í stað að mestu leyti hey með fóðurgildi miðsvetrarfóðurs. Samkvæmt fósturtalningu virðist þetta hafa tekist með ólíkindum. Fullorðnu „venjulegu ærnar“ eru nær allar taldar með tvö fóstur en Þokuærnar nánast þær einu sem teljast með þrjú eða fleiri fóstur. Hér er rétt að minna á þá miklu möguleika sem opnuðust bændum með fósturtalningunum á að haga fóðrun ánna í lok meðgöngu með tilliti til þess að fá æskilegan fæðingarþunga lambanna og þannig mögulegt að draga verulega úr vanhöldum fæddra lamba.
 
Góð reynsla frá Akurnesi í Nesjum
 
Annað fólk með mikla reynslu á þessu sviði er að finna í Akurnesi í Nesjum en þar rekur Sveinn Rúnar Ragnarsson ásamt Ragnheiði Másdóttur, eiginkonu sinni, og foreldrum hans fjárbú. Í nokkur ár stunduðu þau mjólkurframleiðslu hjá ám. Sveinn sagði að meðferð lambanna undan þeim ám hefði aldrei boðið heim neinum vandamálum. Þau lömb voru ekki tekin undan ánum fyrr en um 4–6 vikna aldur lamba. Úr þeim var vandalítið að gera ekki síðri sláturdilka en afréttarlömbunum með því aðeins að veita þessum lömbum aðgang að góðri beit í beitarhólfum og síðan grænfóðri hliðstætt öðrum lömbum á haustdögum. 
 
Lömbin höfð í lambabanka
 
Fyrir tæpum áratug fjárfestu þau í sérstakri lambafóstru þar sem lömbin eru höfð í lambabanka og hafa sjálfvirka túttufóðrun á lambamjólk (sjálfvirk blanda þurrmjólkur og vatns) í bankanum. Sögðu þau að leiðbeiningar segðu hæfilegt 20–25 lömb um hverja túttu, sem félli vel að þeirra reynslu. 
 
Reynsla þeirra fellur að flestu leyti mjög að reynslu þeirra Sandfellshagahjóna og því aðeins vikið að því sem aðeins er unnið öðruvísi í Akurnesi. Sveinn lagði megináherslu á að mestu skipti hreinlæti og gott skipulag í öllum störfum. Auk þess lærðu menn fljótt að meginatriðið væri að hafa tún í góðri rækt til að tryggja góðan vöxt lambanna. Skipuleg endurræktunaráætlun er því sauðfjárbændum ekki síður nauðsynleg en kúabændum. Einnig benti hann á að oft þyrftu lömbin sem kæmu í bankann síðast á sauðburði meira eftirlit en önnur lömb. 
 
Vanda valið á tilvonandi „bankastarfsmönnum“
 
Varðandi val á lömbum sem bankastarfsmönnum sagðist Sveinn velja úr bankanum stærstu og stæðilegustu lömbin til að venja undir einlemburnar. Hjá fleirlembunum væri meginreglan að lömbin tvö sem eftir stæðu hjá ánni væru sem jöfnust að stærð. Líklega þýðir það aðeins meiri líkur á krílum í bankann en hjá þeim í Sandfellshaga.
 
Lömbin í Akurnesi eru flutt í aflagt loðdýrahús á líkan hátt og gamla hlaðan er notuð í Sandfellshaga. Þegar kemur að því að venja lömbin af mjólkurfóðrun gerðist það með nokkuð hraðfara þynningu á mjólkurblöndunni hjá fóstrunni. Lömbin sækja hins vegar verulega í að sjúga vatn í fóstrunni eftir að mjólkurfóðrun lýkur. Telur Sveinn að það sé ekki síður sogþörf en vatnslöngun sem dragi þau til þess.
Reynsla beggja búanna af haustmeðferð var mjög lík. Sveinn benti samt á að hegðun heimalambanna á haustin væri oft verulega frábrugðin því sem gerðist með fjallalömbin.
 
Reynslusaga Önnu og Gunnars og bændanna í Akurnesi ásamt viðtalinu við Gunnar og Matthildi sem áður er nefnt hljóta að opna augu fjárbænda á þeim feikilega miklu möguleikum, sem fyrir hendi eru enn fyrir flesta, á að auka hagkvæmni fjárbúskaparins með að nýta sér tiltæka þekkingu og aðlaga búreksturinn enn betur að aðstæðum hvers og eins.   
 
Að lokum skal þess getið að fagráð í sauðfjárrækt mun hafa beitt sér fyrir því að á Hesti verða í vor hafnar tilraunir með lambaeldi.

8 myndir:

Ártangi til sölu
Fréttir 31. maí 2023

Ártangi til sölu

Hjónin Gunnar Þorgeirsson og Sigurdís Edda Jóhannesdóttir hafa sett garðyrkjustö...

Skýr afstaða í könnun
Fréttir 31. maí 2023

Skýr afstaða í könnun

Meirihluti þjóðarinnar er sammála því að íslenska ríkið eigi að leggja aukið fjá...

Glaðbeittur starfsmaður í þjálfun
Fréttir 31. maí 2023

Glaðbeittur starfsmaður í þjálfun

Ágúst Sigurðsson á Kirkjubæ á Rangárvöllum hefur nýlega tekið við starfi fagstjó...

Erlendir sérhæfðir garðyrkjuráðunautar á Íslandi
Fréttir 31. maí 2023

Erlendir sérhæfðir garðyrkjuráðunautar á Íslandi

Matvælaráðherra úthlutaði nýlega styrkjum til þróunarverkefna búgreina, um 93 mi...

Afhending eftir sauðburð
Fréttir 30. maí 2023

Afhending eftir sauðburð

Matvælastofnun hefur náð samkomulagi við sauðfjárbændur á nokkrum bæjum í Miðfja...

Deilt um túlkun á gildissviði regluverks
Fréttir 30. maí 2023

Deilt um túlkun á gildissviði regluverks

Íslensk stjórnvöld telja blóðtöku á fylfullum hryssum teljast til afurðanýtingar...

Nýir pistlahöfundar
Fréttir 29. maí 2023

Nýir pistlahöfundar

Lesendur Bændablaðsins munu rekast á nýja pistlahöfunda í 10 tölublaði Bændablað...

Arfgreining nautgripa gengur vel
Fréttir 29. maí 2023

Arfgreining nautgripa gengur vel

Búið er að lesa næstum 20 þúsund niðurstöður arfgreininga í gagnagrunn nautgripa...