Búgreinar misháðar loftslagsbreytingum
Hitabylgjan hér á landi í maí hefði ekki orðið jafnmikil og raun bar vitni nema vegna gróðurhúsaáhrifa. Það er meðal niðurstaðna á rannsókn sem World Weather Attribution stóð að. Ýmsar umhverfisaðstæður landbúnaðar munu breytast verulega á komandi árum vegna loftslagsbreytinga, bæði til góðs og ills.
Dagana 13. til 22. maí sl. var hitabylgja á landinu sem orsakaðist af langvarandi hæð við Færeyjar sem færðist síðan smám saman yfir Ísland. Samkvæmt frétt Veðurstofu Íslands er hitabylgjan þessa daga óvenjuleg og þykir merkilegt hversu snemma árs hún átti sér stað, hversu lengi hún stóð og hversu útbreidd hún varð.
Mældist hitinn 20 stig eða meira einhvers staðar á landinu tíu daga í röð og var fjöldi maíhitameta settur á veðurstöðvum um land allt. Hæstur fór hitinn í 26,6 stig á Egilsstaðaflugvelli, sem er nýtt hitamet í maí fyrir landið. Reyndist þetta vera mesta hitabylgja sem vitað er um í maímánuði hér á landi.
Framkvæma rannsóknir sem næst tíma
Hópur vísindamanna hjá Granthamstofnuninni í London framkvæmdi rannsókn á hitabylgjunni sem náði til Íslands og Grænlands. Meðal þeirra sem útveguðu gögn til greiningar var Veðurstofa Íslands. Halldór Björnsson, fagstjóri veðurs og loftslags hjá Veðurstofunni, var meðal frummælenda á kynningu niðurstaðna rannsóknarinnar þann 10. júní sl.
Markmið World Weather Attribution er að taka fyrir markverðar veðurfarstruflanir og framkvæma rannsóknir á þeim sem næst í tíma. Rannsóknamiðstöðin einblínir venjulega á veðurfarslega viðburði sem hafa víðtæk áhrif á menn og innviði. Í þessu tilfelli leiddi hitabylgjan ekki til manntjóns en áhrifin hér á landi urðu helst á vegakerfinu með bikblæðingum í malbiki. Enn fremur skapaðist hætta á gróðureldum og voru gefnar út viðvaranir vegna þess.
Halldór segir að meðal þeirra spurninga sem rannsóknir sem þessar reyni að svara er hvort gróðurhúsaáhrifin séu að valda slíkum hitabylgjum. Í rannsókninni var lagt mat á það með því að greina líkön sem sýna breytingar á veðurfari án gróðurhúsaáhrifa samhliða raungögnum um veður.
Aðlögun er brýn
Niðurstöður greininganna bendi til að gróðurhúsaáhrif séu að hækka hitastig og breyta úrkomu á norðurslóðum. Halldór nefnir sem dæmi að á Egilsstöðum hefði verið nánast óhugsandi að hitabylgja sem þessi hefði átt sér stað nema án aukinnar gróðurhúsaáhrifa.
Slíkar breytingar á veðurfari geri aðlögun að loftslagsbreytingum brýnni samkvæmt niðurstöðum rannsóknarinnar. Úrbóta sé þörf á innviðum og samfélagskerfum sem munu verða fyrir áhrifum.
Grænland sé á fyrstu stigum þess að þurfa að bregðast við vaxandi ógn við lýðheilsu vegna áhrifanna. Innviðir á Íslandi og Grænlandi séu byggðir fyrir kalt veður, sem þýðir að á meðan hitabylgju stendur geti til dæmis bráðnun íss leitt til flóða og skemmt vegi og innviði.
Á Grænlandi veldur óvenjuleg hlýnun því að hafís brotnar upp, sem geti ógnað samfélögum sem eru háð honum bæði til fæðuöflunar og ferðalaga. Hlýrri sjór veldur því að fiskistofnar færa sig, þannig séu kaldsjávartegundir að færa sig norðar sem getur haft efnahagsleg áhrif á samfélögin.
Í Fjórðu samantektarskýrslu vísindanefndar um loftslagsbreytingar, sem kom út á vegum Veðurstofu Íslands frá árinu 2023, er fjallað um umfang og afleiðingar hnattrænna loftslagsbreytinga á Ísland. Í henni má nálgast sérstakan kafla um lífríki lands og landnýtingu, þar á meðal um möguleg áhrif loftslagsbreytinga á landbúnað.
Ekki hefur farið fram almenn úttekt á núverandi og væntanlegum áhrifum loftslagsbreytinga á íslenskan landbúnað síðan á árunum 2004–2007. Einnig er tilgreint í skýrslunni að greiningu vanti á því hvernig opinber loftslagsmarkmið munu hafa áhrif á landbúnað og garðyrkju hérlendis.
Búgreinar sem stundaðar eru hér á landi eru misháðar loftslaginu og verða því fyrir mismiklum áhrifum af loftslagsbreytingum. Í skýrslunni er talað um að nautgriparækt sé loftslagsháðari grein en sauðfjárrækt, hrossarækt, svína- og kjúklingarækt, enda byggi nautgriparækt á hágæða innlendri fóðurframleiðslu sem mjög er háð veðurfari.
Ótímabærir hauststormar, með mikilli ofankomu og vetrarstormum, eru nefndir sem dæmi um bein áhrif loftslagsbreytinga á sauðfjárrækt og hrossarækt. Slíkir veðurviðburðir geta valdið afföllum. Samkvæmt skýrslunni munu slíkir atburðir ekki hverfa í nánustu framtíð samkvæmt losunarsviðsmyndum.
Umhleypingar mesta vandamálið í jarðrækt
Það sama má segja um mögulegar kalskemmdir á túnum sem hafa orðið bændum til mikilla trafala. Samkvæmt köldustu losunarsviðsmynd mun vetrarhiti hækka um 1,5 gráður að jafnaði í lok aldarinnar. Slíkt gerir langvarandi svellalög á túnum ólíklegri og gæti vandinn nánast horfið á ákveðnum stöðum á landinu. En um leið og veðurfar hlýnar eykst útgufun og meiri úrkomu þarf til að viðhalda rakastigi í jarðvegi en áður. Þannig geta áhrif á ræktun túna orðið neikvæð ef úrkomuaukning verður ekki næg.
Skýrsla vísindanefndar um loftslagsbreytingar vísar til rannsókna sem sýnt hafa sýnt að heyfengur í túnrækt jókst að jafnaði um 610–779 kg þurrefnis á ha, eftir grastegundum, fyrir hverja gráðu sem vetrar- og vorhiti hækkaði.
Fleira en hitafar hefur þó áhrif á túnsprettu og hafa rannsóknir sýnt að lengd vaxtartíma, sólarstundir og framboð vatns í jarðvegi eru allt mikilvægir þættir við íslenskar aðstæður. Þannig geta nýir umhverfisþættir orðið takmarkandi fyrir uppskeru túngrasa. Sem dæmi urðu talsverðir vorþurrkar á hlýjustu árunum í kringum 2010 á vestanverðu landinu sem ollu vandamálum í túnog kornrækt þar sem ræktunin fer fram í sendnum jarðvegi, svo mjög að nokkrir bændur fjárfestu í búnaði til vökvunar á akurlendi.
Umhleypingasamir vetur og miklar hitasveiflur eru þó tilgreindar sem mesta vandamálið fyrir margar norðlægar fjölærar nytjajurtir í jarðrækt og matvælaframleiðslu.
„Þetta veldur því að mörgum slíkum fjölærum tegundum hættir til að vakna of snemma úr vetrardvala að vori og vaxa of lengi fram á haustið og hlýnandi veðurfar næstu áratuga mun trauðla breyta þessu vegna þeirra miklu sveiflna í hitafari sem einkenna veðurfarið hérlendis.“
Kornið gæti sótt í sig veðrið
Í skýrslunni er tilgreint að hlýrri vor og lengri vaxtartími fram á haustið hafa aukið möguleikana á að rækta margar tegundir í jarð- og garðrækt. Í skýrslunni eru talin upp dæmi um prófanir á ýmsum nytjajurtum í ljósi breyttra umhverfisaðstæðna, svo sem ræktun á iðnaðarhampi, olíunepju og repju, höfrum, hunangsberjum, vetrarrúg og vorog vetrarhveiti.
Í skýrslunni er staðhæft að rækta megi korn til skepnufóðurs á ríflega helmingi landsins en samkvæmt niðurstöðum vísindanefndarinnar mætti rækta til fulls kornþroska til manneldis á um helmingi þess í þremur af fjórum sviðsmyndum um breytingar á loftslagi. Árið 2095 verður svo hægt að rækta hafra til fulls þroska á um helmingi láglendis ganga tvær heitari sviðsmyndirnar eftir.
Í skýrslunni er sjónum einnig beint að garðyrkju en þess getið að enn sé langt í land þegar kemur að rannsóknum og spám um áhrif loftslagsbreytinga á ræktun matvæla og annarra nytjajurta utanhúss og hvers konar aðlögunar sé þörf.
Hlýnun síðustu ára hafa haft í för með sér ýmsar áskoranir. Aukin gróska og hlýindi hafa valdið að ýmis meindýr og plöntusjúkdómar hafa sótt í sig veðrið, meiri illgresissamkeppni verði til á frjósömu landi og því fylgi aukin umhirðuþörf. Áhrif nýrra skordýrategunda á vistkerfi landsins er þó ekki komin að fullu fram og bendir skýrslan á nýleg dæmi þess að loftslagsbreytingar hafi aukið útbreiðslu skaðvalda sem aftur hefur leitt til víðtækrar skógareyðingar.
