Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 7 ára.
Borgarbóndinn blómstrar í Osló
Fréttir 11. júlí 2016

Borgarbóndinn blómstrar í Osló

Höfundur: Erla Hjördís Gunnarsdóttir

Fasteignafélagið Bjørvika Utvikling í samvinnu við norsku bændasamtökin, Norges Bondelag, auglýstu í fyrra eftir lífrænum borgarbónda til að sinna búskap í Losætra í Bjørvika sem er á besta stað í miðbæ Oslóar. Andreas Capjon varð fyrir valinu en hann er bóndasonur og þekkir því vel til bústarfa. Nú er verkefnið komið vel af stað og hefur gengið framar vonum að sögn borgarbóndans.

„Ég sá þetta auglýst og ákvað að sækja um, mig langar að skapa eitthvað stórkostlegt í gegnum þetta verkefni. Rækta bæinn og að rækta lífrænt er eitthvað sem er hjarta mínu nærri. Mitt verkefni er að gera svæðið grænna, meira lifandi og að stað sem fólk hefur áhuga á að koma til. Hér mun almenningur fá aðstoð við að rækta sinn eigin mat og fá innblástur við það ásamt því að fræðast um hvernig maturinn er búinn til,“ segir Andreas en fjöldi umsækjenda fyrir verkefnið var mun meiri en aðstandendur verkefnisins þorðu að vona. Ásamt Bjørvika Utvikling og norsku Bændasamtökunum hafa norska vegagerðin (Statens Vegvesen) og matvörurisinn Norgesgruppen stutt verkefnið.

Græn vin í miðborginni

Svæðið sem um ræðir er um 5 hektarar að stærð og er eingöngu hugsað til lífrænnar ræktunar. Borgarbóndinn vinnur náið með ýmsum aðilum á svæðinu eins og bændum og listamönnum.

„Þetta er hin græna vin í miðborginni okkar, á einstökum stað þar sem fólkið í borginni getur lært hvernig matvælaframleiðsla gengur fyrir sig. Hér á fólk sinn skika og fær aðstoð ef þess þarf og ég sé síðan um að rækta gamlar korntegundir, grænmeti og kartöflur,“ segir Andreas sem er nú bóndi í fullu starfi rétt við norska óperuhúsið og í kringum fjölda hótelbygginga, mitt á milli tveggja hraðbrauta.

Sjálfur ólst Andreas upp á bóndabæ á Nesodden þar sem lífræn ræktun var alltaf í hávegum höfð.

„ Ég hef átt minn eigin grænmetisgarð síðan ég var 12 ára gamall svo þetta er eitthvað sem fylgir manni. Ég þarf að finna að ég sé hluti af matarblóðrásinni minni, ef þú skilur hvað ég á við. Þetta er hluti af minni tengingu við lífið og við rætur mínar, það er að rækta. Ég tel að Norðmenn vilji komast í samband við hvað þeir borða og hringrás árstíðanna miðað við þá athygli sem verkefnið hefur fengið.“

Opna augu fólks

Óhætt er að segja að ekki hafi skort á athyglina sem Andreas talaði um því bæði norskir fjölmiðlar og erlendir hafa fjallað ríkulega um norska borgarbóndann.

„Hér á Losætra hef ég mikla möguleika, vegna staðsetningar svæðisins, til að veita öðrum innblástur, koma með og njóta þessa með mér. Ég hef einnig unnið að því að koma á samstarfi við fleiri aðila, eins og til dæmis leikskóla og skóla í næsta nágrenni og eins við húsfélög sem hafa stór græn svæði á lóðum sínum eða uppi á þaki. Möguleikarnir eru víða til staðar og þetta snýst því líka svolítið um að opna augu fólks fyrir því hvað er hægt að rækta sjálfur og njóta þess.“

Á Losætra getur almenningur leigt sér aðgang, eins konar skólagarða-fyrirkomulag og þar má einnig finna býflugnabú og kryddjurtagarð.

„Við erum á stað þar sem ætti í raun ekki að vera hægt að rækta nokkurn skapaðan hlut og hér er að sjálfsögðu töluverð hljóðmengun. Stofnun fyrir lífræna ræktun (NIBIO) rannsakaði svæðið í nokkur ár áður en verkefnið hófst og er með í því áfram. Það sýnir sig að það eru góð gæði á þeim matvælum sem við framleiðum hér. Plönturnar taka vissulega í sig CO2 og svifrykið fer ekki í burtu svo það er gott að skola grænmetið áður en það er borðað en að sama skapi sýna mælingar að maturinn er vel nothæfur þrátt fyrir staðsetningu svæðisins.“

Verkefnið vindur upp á sig

Andreas segist ekki geta kvartað yfir félagslega þætti verkefnisins en hann hefur varla átt stund einn með sjálfum sér síðan verkefnið hófst, svo mikill er áhugi fyrir því og allir tilbúnir að leggja sitt af mörkum.

„Skólagarðafyrirkomulagið er ekki nýtt af nálinni og er þetta fimmta árið sem það er í boði. Um 100 manns eru með skika hér og nokkrir leikskólar eru líka með og rækta sitt eigið grænmeti. Það er í raun einfalt að rækta og maður þarf ekki svo mikið til að ná því góðu sem maður er að gera,“ segir Andreas og bendir á sem dæmi að hann rækti kartöflur í fötum á svæðinu.

Fyrir stuttu hófu samtökin Futurefarmers Flatbread Society byggingu á bökunarhúsi í skúlptúrlíki og gróðurhúsi þar sem bakað verður brauð með hráefni af korn­akrinum á Losætra.

„Fólki finnst það skemmtilegt og spennandi að við notum konunglega kúamykju sem áburð sem kemur frá sveitabæ konungshjónanna. Einnig getum við státað af að nota korg frá Kaffibrennslunni hér nálægt okkur og matarúrgang sem kokkar með Michelin-stjörnur hafa handleikið. Allir þessir litlu þættir eru með í að vekja athygli á verkefninu sem ég og allir aðstandendur þessarar vinnu erum afar ánægð með hvernig til hefur tekist hingað til.“

Skylt efni: Osló | borgarbændur | Noregur

Íslenskir verðlaunahestar í útlöndum
Fréttir 4. desember 2023

Íslenskir verðlaunahestar í útlöndum

Sjö stóðhestar, fæddir á Íslandi en staðsettir erlendis, uppfylltu viðurkenningu...

Aðgerðaráætlun í loftslagsmálum
Fréttir 4. desember 2023

Aðgerðaráætlun í loftslagsmálum

Bændasamtök Íslands senda frá sér í næstu viku aðgerðaráætlun með umfjöllun um a...

Heitt vatn finnst á Ströndum
Fréttir 1. desember 2023

Heitt vatn finnst á Ströndum

Heitt vatn fannst nýlega við borun á Drangsnesi á Ströndum.

Tímamót í baráttunni gegn riðuveiki
Fréttir 1. desember 2023

Tímamót í baráttunni gegn riðuveiki

Tímamót eru í baráttunni gegn riðuveiki í sauðfé með nýrri nálgun stjórnvalda þa...

Birgðir kindakjöts aldrei minni
Fréttir 1. desember 2023

Birgðir kindakjöts aldrei minni

Birgðir kindakjöts í lok ágústmánaðar hafa aldrei verið minni en á þessu ári.

Samningaviðræðum við Miðfjarðarbændur ekki lokið
Fréttir 30. nóvember 2023

Samningaviðræðum við Miðfjarðarbændur ekki lokið

Í umræðum á Alþingi á mánudaginn um riðuveiki í sauðfé og bætur vegna niðurskurð...

Sala sýklalyfja dregst saman
Fréttir 30. nóvember 2023

Sala sýklalyfja dregst saman

Sala sýklalyfja fyrir búfé og eldisfiska í Evrópu dróst saman um 12,7% milli ára...

Stefnir í að tap verði 525 krónur á kílóið
Fréttir 30. nóvember 2023

Stefnir í að tap verði 525 krónur á kílóið

Í nýlegri skýrslu Ráðgjafar­miðstöðvar land­búnaðarins um rekstrarafkomu nautakj...