Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 11 ára.
Bóndi ver þitt bú
Á faglegum nótum 8. maí 2014

Bóndi ver þitt bú

Höfundur: Eyrún Arnardóttir, héraðsdýralæknir
Íslendingar búa við þá góðu stöðu að vera lausir við marga af þeim erfiðu búfjársjúkdómum sem hrjá nágrannalöndin. Við búum svo vel vegna þess hve landið er einangrað og hversu vel við höfum getað fylgt eftir ströngum lögum um innflutning lifandi dýra og afurða þeirra.
 
Þrátt fyrir okkar góðu stöðu þá þekkjum við vel nokkra misalgenga sjúkdóma eins og garnaveiki, salmonellu og veiruskitu sem allir geta borist með fólki, dýrum og eða búnaði og tækjum á milli bæja. En því miður hefur orðið breyting á til hins verra á undanförnum árum og eru að berast til landsins nýir búfjársjúkdómar þrátt fyrir tiltölulega sterkar varnir. Má þar nefna smitandi barkabólgu í nautgripum, smitandi hósta í hrossum, þráðorma í hundum og berkla, sjúkdómar sem allir hafa haft alvarlegar afleiðingar í för með sér bæði út frá sjónarmiðum dýravelferðar og svo vegna kostnaðar sem af hefur hlotist fyrir eigendur og hið opinbera.
 
Við ættum því aldrei að slaka á klónni varðandi smitvarnir og við verðum að gera okkur grein fyrir því að allir bera ábyrgð og þá ekki síst eigandi eða umráðamaður búfjár. „Bóndi ver þitt bú“ það er jú bóndinn og hans dýr sem eru helstu hagsmunaaðilarnir þegar kemur að því að halda búinu „hreinu“ og lausu við smitandi sjúkdóma. 
 
Mest áríðandi er að bóndinn sjálfur verji sitt bú, hann þarf ætíð að hafa hugfast hvort hann sé að koma með eitthvað inn á búið sem hugsanlega getur borið smit í dýrin. Mesta hættan er að bera nýtt smit inn á bú með því að koma með lifandi dýr sömu tegundar inn á búið, þar á eftir saurmenguð áhöld, tæki, tól og fatnað. Bændur þurfa einfaldlega að hugsa um allt mögulegt sem getur borið smit á búið, þar á meðal hey og heyvinnuvélar.
 
Sæðingarmenn, dýralæknar, klaufskurðarmenn, rúningsmenn, viðgerðarmenn sem og aðrir gestir sem fara á milli bæja og inn í gripahús þurfa þó líka að vera meðvitaðir um smithættu á milli búa og búfjártegunda. Vel færi á því ef tekið yrði upp hér á landi nýlegt fyrirkomulag Norðmanna þar sem gerð er krafa um að hvert kúabú hafi hlífðarfatnað og stígvél fyrir þjónustuaðila og gesti, með því móti minnkar bóndinn til muna þá hættu að fá nýtt smit inn á bú sitt. Þetta hafa svína- og fuglabændur gert hér á landi til nokkurra ára. Ætti þessi regla í raun líka að eiga við á öllum búum óháð dýrategund. Einnig er sjálfsagt og augljóst að þjónustuaðilar ættu að sýna þá fagmennsku að koma með hreinan búnað hvort sem um er að ræða áhöld dýralæknis, klippur rúningsmannsins eða fjárflutningabíl sláturhússins, öll verðum við að vinna saman að smitvörnum og vinna þannig að heilbrigði og velferð dýra auk þess sem hagur býlisins er ótvíræður.
 
Nokkur góð ráð varðandi smitvarnir sem bóndi getur fylgt eftir:
 
  1. Gestir noti hlífðarfatnað og stígvél sem tilheyra búinu
  2. Hlífðarfatnaður búsins þveginn reglulega
  3. Vaskur nálægt inngangi þannig að gestir búsins geti þvegið sér um hendur áður en gengið er inn til gripa Þjónustuaðilar komi ávallt með hreinan búnað á búið og ætti bóndi að fylgjast með því
 
Skipuleggja ætti ferðir á milli býla, t.d. við gripaflutninga í sláturhús, þannig að farið yrði síðast þangað sem meiri hætta er talin á að smit geti verið til staðar. Þetta á einnig við um sæðingarmenn, dýralækna og aðra sem að fara á milli býla í sömu ferð.
 
Nú fer í hönd helsti annatími ferðaþjónustunnar og ástæða til að minna bændur á að verja sitt bú. Það er alkunn gestrisni til sveita að bjóða alla velkomna og bæði gaman og gott að fá ferðamenn og gesti á búið. Mikilvægt er því að bóndi spyrji þá sem koma erlendis frá hvort þeir hafi nýlega verið í gripahúsum í öðrum löndum. Það er ekki ógestrisni að synja fólki um inngöngu í gripahús ef gestum er greint frá áhættunni sem því gæti fylgt. Að lokum eru samtök bænda hvött til að taka upp norska fyrirkomulagið sem minnst er á hér að ofan.
 
Kolefnisspor íslenskra matvæla á pari við Evrópu
Fréttir 11. desember 2025

Kolefnisspor íslenskra matvæla á pari við Evrópu

Ný rannsókn Matís sýnir að kolefnisspor helstu íslenskra matvæla – mjólkur, kjöt...

Þörungakjarni með mörg hlutverk
Fréttir 11. desember 2025

Þörungakjarni með mörg hlutverk

Undirrituð hefur verið formleg viljayfirlýsing um stofnun Þörungakjarna á Akrane...

Húsaeiningar frá Noregi
Fréttir 9. desember 2025

Húsaeiningar frá Noregi

Nýlega komu um tvö þúsund fermetrar af svonefndum „Modulum“, sem eru forsmíðaðar...

Unnið að friðun sex svæða á landsbyggðinni
Fréttir 9. desember 2025

Unnið að friðun sex svæða á landsbyggðinni

Alþingi hefur samþykkt framkvæmdaáætlun náttúruminjaskrár til ársins 2029. Um tí...

Gervigreind í Grímsnesi
Fréttir 9. desember 2025

Gervigreind í Grímsnesi

Grímsnes- og Grafningshreppur tekur nú þátt í þróunarverkefni í samstarfi við up...

Jarðakaup frumkvöðla á landsbyggðinni
Fréttir 9. desember 2025

Jarðakaup frumkvöðla á landsbyggðinni

Þingsályktunartillaga um nýtt fyrirkomulag jarðakaupa frumkvöðla á landsbyggðinn...

Þurfum að viðhalda sérstöðu og forskoti
Fréttir 8. desember 2025

Þurfum að viðhalda sérstöðu og forskoti

Niðurstöðu COP30 sem fram fór í Brasilíu í nóvember hefur verið lýst sem lægsta ...

Fituúrgangur til framleiðslu á hreinsivörum
Fréttir 8. desember 2025

Fituúrgangur til framleiðslu á hreinsivörum

Nýsköpunarfyrirtækið Gefn sérhæfir sig í framleiðslu á umhverfisvænum bílahreins...

https://bestun.airserve.net/banner_bundles/de3e87e0d8dde67f98882b3ac12f8b2f