Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 2 ára.
Hér sést greinilega hvernig beitarstýring nautgripa virkar.
Hér sést greinilega hvernig beitarstýring nautgripa virkar.
Mynd / Hulda Brynjólfsdóttir og Tyrfingur Sveinsson,
Fréttir 27. maí 2022

Bændur í Lækjartúni í Ásahreppi bæta afkomu verulega með beitarstýringu innan girðinga

Höfundur: Hörður Kristjánsson

Tyrfingur Sveinsson og Hulda Brynjólfsdóttir tóku við búskap í Lækjartúni í Ásahreppi af foreldrum Tyrfings sumarið 2011. Tyrfingur er mikill áhugamaður um að nota beitarstýringu búfjár á ræktarlandi, reyndar í úthaga líka, og segir að reynsla þeirra sýni að af því geti verið margháttað hagræði og fjárhagslegur ávinningur.

„Þetta hefur gengið mjög vel hjá okkur og er algjör hugarfarsbreyting í búskap og maður fer að horfa allt öðruvísi á hlutina. Maður uppgötvaði fljótt hvað maður var í raun vitlaus að slá hána á haustin með ærnum kostnaði í stað þess að láta kýrnar bíta grasið í stýrðri beit fram eftir hausti. Þannig að peningabruðlið sem átti sér stað í búskapnum var alveg gegndarlaust. Þetta er ekkert sem við höfum verið að finna upp heldur höfum við lesið okkur til og reynt að læra af því hvernig menn hafa verið að gera þetta erlendis,“ segir Tyrfingur.

Jarðvegsbætandi landbúnaður

Áður hefur verið fjallað um beitarstýringuna í Lækjartúni, t.d. í Bændablaðinu 25. nóvember 2021. Þetta kallast á ensku regenerative farming, en mætti útleggja sem jarðvegsbætandi landbúnaður. Segir Tyrfingur að mikil vakning sé fyrir svona búskap erlendis þó fáir þekki hann hér á landi. Á bænum eru um 160 fjár og 60 nautgripir, auk 14 hrossa, nokkurra geita og hænsna.

– Þarf ekki nægt landrými til að geta hvílt land á milli þess sem það er beitt?
„Jú, en í raun minna land en ef ég gerði þetta ekki. Í heildina erum við með 200 hektara. Þetta eru ekki alveg samfelldar spildur þó landið sem kýrnar hafa til umráða sé samliggjandi. Markmiðið er auðvitað með stýrðri beit að landið beri fleiri gripi en áður. Reynslan sýnir að þetta eykur afköst landsins þar sem friðunartími þess verður lengri en ella. Staðan er þannig núna að ég reikna með að geta fjölga kúnum um helming frá því sem ég var áður með. Nú er mun meira gras í boði en í fyrra.“

Eykur afrakstur á hvern hektara lands

– Hvað segir þú um skynsemi og fagmennsku þegar rætt er um svona markvissa beitarstýringu?
„Ég tel þetta hafa gífurlega marga kosti. Í fyrsta lagi felst í þessu fjárhagslegur ávinningur. Maður getur verið með fleiri kýr á hvern hektara að meðaltali sem skilar sér í auknum hagnaði á hektara. Þá gef ég verulega mikið minna af heyi yfir veturinn en áður. Í raun var ég að gefa allt of mikið og í allt of langan tíma. Mér sýnist að ég sé kominn niður í þriðjung af vetrargjöfinni fyrir kýrnar þennan veturinn miðað við það sem ég var að gefa fyrir þrem til fjórum árum. Þá var ég ekki að nýta útibeit nema í júní, júlí og ágúst. Síðan voru skepnurnar á gjöf frá því í byrjun september og fram í júní.

Á síðasta ári byrjaði ég með innigjöf, en kýrnar eru á útigangi allan ársins hring. Í lok október gaf ég fyrstu rúlluna og þá síðustu í byrjun apríl. Þetta hefði ég ekki getað gert nema að vera í beitarstýringu. Nú skildi ég viljandi eftir óslegið tún í haust þannig að á því var öll sinan ósnert í vor. Holdakýrnar þurfa ekki mikið og þar sem sinan var næg og mikil næring í rótunum dugði þetta vel. Grasið sem er að koma upp úr þessu núna er töluvert meira en í öðrum túnum hjá mér og meiri þróttur í því. Kýrnar eru því í þessari stýringu hjá mér núna að bíta sinu og nýgræðing í bland.

Kýrnar fá bara til umráða um 3-400 fermetra í einu og þær hreinsa það upp á einum til tveim tímum og leggjast svo niður að jórtra. Þá standa þær upp og skíta því sem þær hafa áður verið að éta. Þá hleypi ég þeim í næsta hólf og loka á eftir þeim svo þær komist ekki til baka.“ Túnin gefa mun meira af sér með þessum hætti og ég nota samt nánast engan tilbúinn áburð. Í heild keypti ég sex poka af áburði fyrir þetta vor, en var áður að kaupa um 30 poka.“

Losna alveg við ormalyf

„Með svona stýringu dreifist skíturinn líka jafnt yfir túnið. Þær eru því aldrei að éta í kringum skítinn sinn og við það vinnst það líka að ég losna alveg við að gefa ormalyf. Ormahringrásin tekur þrjár vikur og þar sem kýrnar og kindurnar komast aldrei á blettinn á þeim tíma, rofnar þessi hringrás. Skepnurnar eru aldrei lengur en tvo til þrjá daga á sama svæði og þá loka ég beitta svæðinu á eftir þeim og friða það þar til það er tilbúið á ný til beitar. Endurvöxturinn hefst því um leið og beitinni er hætt. Svo er þetta fín hreyfing fyrir mig að færa til og lagfæra girðingar. Ég átti áður við bakvandamál að stríða áður en ég byrjaði á þessu, en ég hef ekki fundið fyrir því síðan.“

Veruleg hagræðing

Tyrfingur segir að það megi klárlega ná fram verulegri hag­ræðingu með þessum hætti, t.d. í holdanautabúskap og hrossarækt. „Ég held að við séum að gefa hrossum allt, allt of mikið. Hross líkt og holdakýr þurfa mjög lítið.Við erum hér með nokkur hross og höfum verið að beitarstýra þeim líka. Þau geta gjörbreytt högunum, t.d. þegar þau eru látin hreinsa upp sinu. Það gera þau þó ekki eins vel þegar þau ganga á stóru svæði.

Varðandi sauðféð gildir það sama, hagræðið af beitarstýringunni er augljós. Þá gjörbreytist öll umgengni um skepnurnar. Holdakýr sem ganga lausar á stóru landi eru ekkert sérstaklega skapgóðar. Þegar maður stýrir þeim á litlum bletti og er alltaf að umgangast þær breytist geðslagið verulega. Það hefur gjörbreyst með svona mikilli umgengni hjá mér. Það var þannig hjá okkur áður en við byrjuðum á þessu að kýrnar voru stökkvandi á girðingar um leið og þær sáu mann nálgast. Þær voru snarvilltar. Nú eru þær ekkert styggar. Maður gengur bara í kringum þær liggjandi og þær hreyfa sig ekki. Þær eru farnar að haga sér eins og venjulegar kýr.“

Líka hagstætt fyrir mjólkurkýr

„Ég held að það sé líka hagur í svona beitarstýringu fyrir mjólkurkýr. Þegar MAST kemur með þá kröfu að setja kýrnar út á vorin þá byrjar þessi söngur um að það sé ómögulegt því það detti niður nytin og því tapist miklir peningar. Vissulega minnkar þá eitthvað mjólkin í tanknum, en ég held að menn gleymi því að horfa á hina hliðina. Ef menn nýttu tækifærin sem felast í að setja kýrnar út á skipulagða stýrða beit, þá væri hægt að framleiða mjólkina með mun minni kostnaði. Þó lítrunum fækki eitthvað, þá vegur sparnaðurinn það upp og gott betur.

Auk þess tel ég að ef kúnum er beitt á kjarngott gras þá mætti minnka fóðurkostnað á móti. Heildarniðurstaðan gæti orðið fjárhagslegur ávinningur þrátt fyrir eitthvað minni mjólk. Ég tel því að það felist í þessu mikil tækifæri ef menn hafa á annað borð áhuga á að beygja sig eftir þeim,“ segir Tyrfingur Sveinsson.

Leyfa gas- og jarðgerð úr matarafgöngum
Fréttir 28. maí 2024

Leyfa gas- og jarðgerð úr matarafgöngum

Matvælastofnun hefur nýlega tilkynnt um að Gas- og jarðgerðarstöð Sorpu (GAJA) h...

Heimaframleiðsla lögleg
Fréttir 28. maí 2024

Heimaframleiðsla lögleg

Heimaframleiðsla nefnist umgjörð sem sköpuð var til að heimila litlum aðilum í F...

Bjórinn Naddi sló í gegn í London
Fréttir 28. maí 2024

Bjórinn Naddi sló í gegn í London

Fjórir íslenskir bjórar frá KHB brugghúsi á Borgarfirði eystra hlutu bresk bjórv...

Listeríusýkingar vaxandi vandamál
Fréttir 27. maí 2024

Listeríusýkingar vaxandi vandamál

Tíðni listeríusýkinga í Evrópu fer vaxandi og samkvæmt greiningum á fyrstu þremu...

Göngustígar hjá Geysi
Fréttir 27. maí 2024

Göngustígar hjá Geysi

Framkvæmdir við nýtt gönguleiðakerfi á Geysissvæðinu í Haukadal í Bláskógabyggð ...

Minnsta framleiðsla í ríflega sextíu ár
Fréttir 27. maí 2024

Minnsta framleiðsla í ríflega sextíu ár

Alþjóðlegu vínsamtökin International Organisation of Vine and Wine (OIV) segja í...

Aspir og wasabi ræktuð samhliða
Fréttir 24. maí 2024

Aspir og wasabi ræktuð samhliða

Nordic Wasabi er um þessar mundir að setja á innanlandsmarkað frostþurrkað wasab...

„Bjart fram undan og afurðaverð á uppleið“
Fréttir 24. maí 2024

„Bjart fram undan og afurðaverð á uppleið“

Jóhannes Geir Gunnarsson, bóndi á Efri-Fitjum í Vestur-Húnavatnssýslu, er bjarts...