Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 4 mánaða.
Valgerður Friðriksdóttir. Í könnun sem hún framkvæmdi ásamt Aldísi Birnu Björnsdóttur kemur fram að hátt hlutfall bænda leiti sér engrar aðstoðar vegna andlegrar heilsu.
Valgerður Friðriksdóttir. Í könnun sem hún framkvæmdi ásamt Aldísi Birnu Björnsdóttur kemur fram að hátt hlutfall bænda leiti sér engrar aðstoðar vegna andlegrar heilsu.
Mynd / Aðsend
Fréttir 16. júlí 2025

Bændur harka af sér

Höfundur: Ástvaldur Lárusson

Ný rannsókn bendir til þess að fólk sem starfar í landbúnaði sé ólíklegt til að leita til fagaðila vegna andlegrar heilsu.

Valgerður Friðriksdóttir og Aldís Birna Björnsdóttir, nemendur við sálfræðideild Háskólans á Akureyri, framkvæmdu könnun í vetur, sem var hluti af útskriftarverkefni þeirra, þar sem þær skoðuðu hvaða þættir hafa áhrif á andlega líðan bænda. Í ritgerð þar sem þær unnu úr gögnunum vildu þær svara rannsóknarspurningunni: „Hvaða álagsþættir hafa helst áhrif á andlega heilsu starfandi bænda á Íslandi og hafa bændur stuðning og bjargráð til að takast á við þá?“

„Við vorum ekki að skima eftir líðan, heldur hvað fólk getur gert þegar það þarf á aðstoð að halda,“ segir Valgerður. „Titillinn á ritgerðinni, „Eina ráðið er að harka af sér“, kemur beint úr opnu svörunum þegar við spurðum hvaða bjargráð svarendur hefðu gagnvart andlegri líðan þegar á þarf að halda.“

Stóla á sjálfan sig

„Bændur nýta sér aðallega persónuleg bjargráð og leita síður eftir stuðningi frá heilbrigðiskerfinu eða fagaðilum eins og RML eða Bændasamtökunum. Þeir stóla á sjálfa sig og sína eigin skapgerðareiginleika til að takast á við oft mjög erfiðar og krefjandi aðstæður. Svo eru félagsleg tengsl mikilvæg, eins og við maka, ættingja og trausta vini. Þó að stuðningurinn sé til staðar í heilbrigðis- og félagsþjónustu virðist aðgengið sums staðar vera frekar skert, sérstaklega þegar kemur að sálfræðiþjónustu.

Við spurðum hvað bændur gerðu til að bæta andlega og líkamlega heilsu sína og þar voru niðurstöðurnar sláandi. 63 prósent leita til fagfólks vegna líkamlegrar heilsu, en aðeins 25 prósent vegna andlegrar. Þá er 41 prósent sem leitar sér engra ráða vegna andlegrar heilsu. 35 prósent svarenda gera ekkert til að styrkja líkamlega heilsu sína og 37 prósent ekkert til að styrkja andlega heilsu. Við tölum um það í lokaorðunum að líkamleg og andleg heilsa helst í hendur og það þyrfti að vekja máls á þessu.“

Félagsstörf mikilvæg bændum

„Eitt af því sem kom fram í opnu svörunum þegar við spurðum hvað fólk gerði til að bæta líkamlega heilsu sína, var að bændur sinna líkamlega erfiðri vinnu allan daginn og finnst þeir ekki þurfa að hreyfa sig umfram það. Þá kom einnig fram að til að bæta andlega heilsu sinna bændur félagsstörfum, eins og að vera í kór, fara á spilakvöld eða það sem er í boði í nærumhverfinu. Tæplega 56 prósent svarenda finnst þeir hafa of lítinn tíma til að sinna áhugamálum og frístundum, sem er mjög hátt hlutfall.“

Valgerður segir ekki endilega margt í niðurstöðum rannsóknarinnar hafa komið sér á óvart, enda hefur hún haft mikinn áhuga á þessum málum um árabil. „Mér hefur oft þótt vanta stuðning við bændur í öðru en fjárútlátum. Það vantar eitthvað sem grípur þennan hóp eftir áföll, því starfið getur oft verið erfitt fyrir bændur, ekki bara fjárhagslega, heldur líka andlega.“

Vantar gagnsæi

„Í opnu svörunum gátum við séð að bændur upplifa neikvæðni og að almenningur telji að það að vera bóndi sé eins og að vera á bótum frá ríkinu. Bændur upplifa vanþekkingu og fordóma gagnvart því hvað felst raunverulega í því að starfa við landbúnað,“ segir Valgerður. Hún telur að hægt væri að vinna gegn þekkingarleysi og ranghugmyndum um íslenskan landbúnað með því að auka gagnsæi og styrkja tengsl milli neytenda og framleiðenda. Það væri meðal annars hægt með því að afurðir væru rekjanlegar beint til bænda frekar en að vera eingöngu merktar afurðastöðvum. „Bilið milli neytenda og framleiðenda er alltaf að stækka.“

Áhyggjur af búvörusamningum

„Þátttakendur svöruðu svokölluðum áhyggjuskala og í efsta sæti yfir það sem veldur bændum áhyggjum eru búvörusamningar og reglugerðarbreytingar. Á eftir því kemur verð á aðkeyptum varningi. Í fjórða sæti var almenn umræða um landbúnaðinn, en okkur fannst áhugavert að bændur hafa meiri áhyggjur af almennri umræðu en veðri og tíðarfari.

Við ákváðum vísvitandi að hafa atriði sem eru hitamál samfélagsins ekki á kvarðanum til þess að niðurstöðurnar væru tímalausar,“ segir Valgerður, en á sama tíma og könnunin var framkvæmd var meðal annars mikil umræða um tolla á ostum.

Í framhaldi af þessu ætlar Valgerður í rannsóknartengt meistaranám í sálfræði þar sem hún mun staðfæra kanadískan kvarða sem heitir Farmer´s Stress Assessment Tool. „Hann er sérsniðinn fyrir bændastéttina og er með spurningar sem snúa að þeim þáttum sem valda streitu hjá þeim sem starfa við landbúnað. Sumar rannsóknir hafa bent til þess að þegar bændur taka próf sem eiga að mæla kulnunar- eða streitueinkenni, skori þeir lægra en almenningur, því að þar er spurt um atriði sem eru ekki endilega stórt mál fyrir þeim. En þegar þú ferð að spyrja um þá hluti sem eru í þeirra umhverfi og starfi breytast niðurstöðurnar.“

Valgerður er búsett á Gunnarsstöðum í Þistilfirði og rekur sauðfjárbú ásamt eiginmanni sínum. Aldís Birna er búsett í Þýskalandi en fædd og uppalin á Skútustöðum í Mývatnssveit.

Góður árangur náðst
Fréttir 4. desember 2025

Góður árangur náðst

Hluti af áburðarráðgjöf Ráðgjafarmiðstöðvar landbúnaðarins (RML) til bænda hefur...

Ávinningur felist í því að lækka rekstrarkostnað
Fréttir 4. desember 2025

Ávinningur felist í því að lækka rekstrarkostnað

Stjórnir Frjálsa lífeyrissjóðsins og Lífeyrissjóðs bænda hafa undirritað viljayf...

Heilbrigð mold í frískum borgum
Fréttir 4. desember 2025

Heilbrigð mold í frískum borgum

Alþjóðlegur dagur jarðvegs er haldinn 5. desember ár hvert til að vekja athygli ...

Kúabændur andvígir breytingum á búvörulögum
Fréttir 4. desember 2025

Kúabændur andvígir breytingum á búvörulögum

Á föstudaginn í síðustu viku hélt hópur kúabænda á fund ráðherra þar sem mótmælt...

Gríðarlega mikilvægur vettvangur
Fréttir 4. desember 2025

Gríðarlega mikilvægur vettvangur

Framkvæmdastjóri Loftslagsráðs, Anna Sigurveig Ragnarsdóttir, segir COP enn gríð...

Loðdýraeldi leggst af á Íslandi
Fréttir 4. desember 2025

Loðdýraeldi leggst af á Íslandi

Allir loðdýrabændur á Suðurlandi, fimm að tölu, eru nú að hætta minkarækt þar se...

Breytingar á erfðafjárskatti dýr erfingjum bænda
Fréttir 4. desember 2025

Breytingar á erfðafjárskatti dýr erfingjum bænda

Frumvarp fjármálaráðherra um breytingu á ýmsum lögum um skatta, gjöld o.fl. felu...

Úthlutun í fyrsta sinn
Fréttir 28. nóvember 2025

Úthlutun í fyrsta sinn

Fyrsta úthlutun úr frumkvæðissjóðnum Fjársjóði fjalla og fjarða fór fram á dögun...