Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 8 ára.
Bændasamtökin og Starfsgreinasambandið taka höndum saman um úrbætur
Fréttir 2. maí 2016

Bændasamtökin og Starfsgreinasambandið taka höndum saman um úrbætur

Höfundur: Vilmundur Hansen

Stórlega hefur færst í vöxt að hingað til lands komi ungt fólk til að ferðast og skoða landið í nokkrar vikur eða mánuði. Algengt er að fólkið fjármagni veru sína hér með því að bjóða fram starfskrafta sína sem sjálfboðaliðar í sveit gegn fæði og húsnæði.

Einnig hefur færst í vöxt að bændur, ekki síst ferðaþjónustu­bændur, auglýsi eftir slíkum starfskrafti.
Oftar en ekki fara ráðningar af þessu tagi fram í gegnum vefsíður þar sem fólk býður þjónustu sína eða auglýst er eftir sjálfboðaliðum. Slíkar síður eru fjölmargar og nægir þar að nefna slóðir á borð við www.workaway.info/hostlist-IS.html og www.helpx.net/hostlist.asp?host_region=314&network=3.
Upplýsingar til fólks um réttindi þess og skyldur á þessum síðum eru oft takmarkaðar og jafnvel villandi að sögn formanns Bárunnar stéttarfélags á Suðurlandi.

Bændasamtök Íslands og Starfsgreinasamband Íslands ætla í sameiningu að vinna að betra aðgengi á upplýsingum, á íslensku og ensku, um réttindi og skyldur starfsmanna og launagreiðenda á heimasíðum beggja sambandanna.

Réttindalaus og ótryggð í tæpt ár

Fyrir skömmu kom fram í fjöl­miðlum rúmlega tvítug stúlka frá Ungverjalandi sem starfaði á sveitabæ á Suðurlandi í tæpt ár. Í máli stúlk­unnar kom fram að hún hafi verið án ráðningarsamnings, ótryggð og réttlaus. Fyrir nokkrum árum kom upp svipað mál þar sem finnsk stúlka sagði farir sínar ekki sléttar.
Halldóra Sigríður Sveinsdóttir formaður Bárunnar stéttarfélags segist hafa átt fund með Bænda­samtökum Íslands um þetta og önnur mál svipaðs eðlis í lok síðustu viku. Halldóra segir að því miður hafi félagið fengið ótal svona mál inn á borð hjá sér í gegnum árin. Að sögn Halldóru var fundurinn mjög góður og gagnlegur.

Formaður Bændasamtakanna brást skjótt við

„Sindri Sigurgeirsson, formaður Bændasamtakanna, hafði samband við mig strax eftir að viðtalið við ungversku stúlkuna birtist í Fréttablaðinu. Hann sagði að Bændasamtökin vildu alls ekki hafa málin með þeim hætti eins og lýst er í blaðinu.“

Að sögn Halldóru er mál ungversku stúlkunnar flókið og enn unnið að greiningu þess.

„Lýsingin í Fréttablaðinu er einhliða og ekki má ganga út frá því að hún sé að öllu leyti sönn. Í svona máli er nauðsynlegt að báðir aðilar fái að tjá sig áður en fólk fer að mynda sér skoðanir. Því miður var farið með málið í fjölmiðla áður en haft var samband við okkur. Við stefnum að því að ná lendingu í því eins fljótt og hægt er.“

Halldóra segir að á ­fundinum með Bændasamtökunum hafi verið ákveðið að Bændasamtökin og Starfsgreinasamband Íslands vinni í sameiningu að betra aðgengi að upplýsingum um réttindi og skyldur starfsmanna og launagreiðenda til sveita. Upplýsingarnar munu verða aðgengilegar á íslensku og ensku, á heimasíðum beggja sambandanna. Þar eiga vinnuveitendur og þeir sem eru í atvinnuleit að geta fundið upplýsingar um réttindi sín og skyldur. Auk þess sem Bændasamtökin ætla í herferð hjá sínum félagsmönnum til að kynna þessi mál.

Mikil vanþekking varðandi ráðningarmál

„Að okkar mati er mikil vanþekking meðal sumra bænda og vinnuveitenda um hvernig á að standa að ráðningu fólks og hvaða reglum á að fara eftir. Hugmyndin hjá okkur er að setja saman kynningu sem hægt er að fylgja og hreinlega tikka í box þar til að allt hefur verið rétt gert.

Í dag er það til dæmis þannig að fólk þarf að vafra lengi um netið til að finna hver réttindi þeirra sem ætla að gerast au pair eru. Staðallinn sem á að fara eftir er samevrópskur en því miður eru reglur sem settar eru fram á sumum ráðningarsíðum hreinlega rangar og oft verulega ábótavant.

Reglurnar hér á landi gera ráð fyrir að erlent fólk, sem er ráðið til vinnu, þurfi að fá íslenska kennitölu innan þriggja mánaða. Því miður er langt frá því að allir geri sér það ljóst og stundum kemur fyrir að fólk ruglar saman reglum.

Gott dæmi um slíkt er að einu sinni heyrði ég að hægt væri að ráða sig sem au pair sex klukkustundir á dag í sveit en vera í launaðri vinnu við mjaltir eftir það.

Við hjá Bárunni höfðum einu sinni samband við ráðuneyti á Íslandi til að spyrjast fyrir um reglur um kennitölur og fengum það svar að erlent fólk, sem ræður sig tímabundið í vinnu hér, þurfi ekki að vera með íslenska kennitölu. Samkvæmt þessu er víða pottur brotinn og greinilegt að það vantar stað þar sem hægt er að ganga að þessum upplýsingum vísum, hvort sem fólk er að leita eftir au pair, sjálfboðaliðum eða fólki í launuð störf.

Skömmu eftir að ég hóf störf hjá Bárunni árið 2001 gáfum við út leiðbeiningabækling um réttindi starfsfólks í sveitum og dreifðum á býli á Suðurlandi. Satt best að segja finnst mér lítið hafa batnað hvað þetta varðar síðan og ástandið jafnvel hafa versnað.“

Mikill vilji hjá BÍ til að leysa málið

„Vilji Bændasamtakanna til að leysa þetta með okkur er mikill og vonandi náum við að leysa úr þessu í sameiningu,“ segir Halldóra.

Ólöglegt að borga ekki laun

Aðalsteinn Árni Baldursson, formaður Framsýnar stéttarfélags á Norðurlandi, segir að fyrir hrunið 2007 hafi verið talsvert um að útlendingar hafi komið til landsins og fengið tímabundna vinnu í sveit og fengið fæði og húsnæði að launum. „Fyrst eftir hrun dró verulega úr þessu án þess þó að vinna af þessu tagi hafi alveg lagst af. Núna þegar við sjáum uppgang í efnahagslífinu hefur þetta svo aukist verulega aftur.“

Að sögn Aðalsteins hafa launa- og tryggingamál tengd verktakastarfsemi og réttindum starfsmanna sem hingað koma á vegum erlendra starfsmannaleiga verið áberandi í umræðunni. „Það er þó ekki þar með sagt að ólögleg starfsemi eigi sér ekki stað í öðrum greinum atvinnulífsins. Hingað kemur talsvert af fólki sem sjálfboðaliðar til að vinna við ferðaþjónustu og í landbúnaði.

Málið er í sjálfu sér einfalt því að ef um efnahagslega starfsemi er að ræða þá er bannað að vera með fólk í vinnu launalaust. Ef bændur, hvort sem þeir eru með hefðbundinn búskap, með ferðaþjónustu samhliða eða bara í ferðaþjónustu, ráða til sín fólk ber þeim skylda að borga því laun samkvæmt kjarasamningi og hafa tryggingar starfsmannanna í lagi.

Samkeppnisstaða þeirra sem ráða til sín sjálfboðaliða, ólöglega, upp á fæði og húsnæði er mun betri en þeirra sem borga laun samkvæmt kjarasamningum og engan veginn rétt að menn komist upp með slíkt.“

Tímabundin vinna er skattskyld

Aðalsteinn segir það ekki skipta máli hvort fólk bjóðist sjálft til að starfa tímabundið fyrir fæði og húsnæði eða hvort atvinnuveitendur auglýsi eftir því. Starfsemin er jafn ólögleg þrátt fyrir það.
„Verkalýðshreyfingin hefur í auknum mæli orðið var við að hingað komi fólk sem er að leita sér eftir vinnu tímabundið og fer svo eitthvað annað og er steinhissa á að það þurfi að borga skatta og gjöld meðan á dvöl þeirra stendur.“

Tryggingamálin verða að vera í lagi

„Annað sem skiptir gríðarlegu máli er að tryggingamál starfsmanna séu í lagi og ef fólk er ekki skráð og borgar ekki sín gjöld er það væntanlega ekki tryggt með viðeigandi hætti. Slasist sjálfboðaliðar við störf getur það auk líkamlegra áverka reynst þeim fjárhagslega dýrt.

Við hjá Framsýn höfum fengið inn á borð til okkar mál sjálfboðaliða sem hafa slasast við vinnu og ekki verið með íslenska kennitölu, ekki verið skráðir á landinu og hreinlega ekki verið til í kerfinu. Því miður er það svo að fyrir vinnuveitandann er ódýrast og best að viðkomandi yfirgefi landið og leiti sér læknisþjónustu í sínu heimalandi. Slíkt er náttúrlega ótækt fyrir viðkomandi einstakling og ómögulegt að segja hverjar afleiðingarnar af slíku eru.

Á yfirborðinu virkar það saklaust að ráða til sín sjálfboðaliða en slíkt getur snúist í höndunum á fólki og breyst í harmleik fyrir einstaklinginn sem ræður sig til starfa sé hann ekki löglega skráður og tryggður.“

Flestir vilja hafa samningana í lagi

Aðalsteinn segir að sem betur fer vilji flestir hafa þessi mál í lagi hjá sér og það hafi færst í aukana að vinnuveitendur leiti til verkalýðsfélaganna til að fá upplýsingar og lög og reglur um starfsmannahald.

„Samkvæmt upplýsingum frá Þjóðskrá þarf fólk að fá íslenska kennitölu dvelji það lengur hér á landi en sex mánuði. Ætli það hins vegar að hefja störf á Íslandi fyrir þann tíma, stofna bankareikning eða sækja um skattkort þurfa þeir að sækja strax um kennitölu. Samkvæmt þessu þarf fólk sem kemur hingað að vera með kennitölu ef það ætlar að vinna og alveg burt séð frá því hvað það ætlar að vinna lengi.“

Margir vita ekki betur

Að sögn Aðalsteins er allt of algengt að hér sé fólk að vinna við byggingarvinnu, í ferðamannaiðnaðinum og við landbúnaðarstörf sem ekki er löglega skráð og ekki á launum samkvæmt launataxta.

„Hér áður fyrr þótti sjálfsagt að unglingar færu í sveit og væru þar í nokkrar vikur eða mánuði fyrir mat og húsnæði. Staðan hefur einfaldlega breyst í dag og mun meira um að ráðningar tengist beinni atvinnustarfsemi og dæmi um að menn hafi gert út á sjálfboðaliðana.

Afskipti okkar af þessum málum sýna líka að vinnuveitendur og þeir sem bjóða fram starfskrafta sína eru ekki alltaf að brjóta lög vísvitandi. Margir vita bara ekki betur og vita ekki að þeir eru að brjóta lög eða reglur.“

Aðalsteinn segir að til að hafa allt eins og það á að vera beri vinnuveitanda að skrá allt starfsfólk, sjá til að það sé rétt tryggt og greiða því laun samkvæmt kjarasamningum.

„Það er í gildi samningur um laun fyrir almenn störf í sveitum milli Starfgreinasambandsins og Bændasamtaka Íslands þar sem tekið er á liðum eins og fæði og húsnæði þannig að það á ekkert að vefjast fyrir mönnum hver réttindi starfsfólksins eru,“ segir Aðalsteinn Árni Baldursson, formaður Framsýnar stéttarfélags á Norðurlandi, að lokum.

Refaveiði í Skaftárhreppi
Fréttir 19. september 2024

Refaveiði í Skaftárhreppi

Sveitarstjórn Skaftárhrepps samþykkti nýlega skipulag um refaveiðar í sveitarfél...

Leyfir ekki sandnám
Fréttir 18. september 2024

Leyfir ekki sandnám

Fyrirtækið LavaConcept Iceland hefur sótt um framkvæmdaleyfi hjá Mýrdalshreppi v...

Nýtt rannsóknarverkefni í byggkynbótum
Fréttir 18. september 2024

Nýtt rannsóknarverkefni í byggkynbótum

Við Landbúnaðarháskóla Íslands er nú að hefjast nýtt rannsóknarverkefni í byggky...

Helsingjar valda usla
Fréttir 18. september 2024

Helsingjar valda usla

Umhverfisstofnun vill takmarka veiðar á helsingja en bóndi á austanverðu Suðurla...

Óarðbær innflutningur
Fréttir 17. september 2024

Óarðbær innflutningur

Einkahlutafélagið Háihólmi skilaði tæplega 1,2 milljóna króna hagnaði á sínu fyr...

Kjötframleiðsla eykst áfram
Fréttir 17. september 2024

Kjötframleiðsla eykst áfram

Samkvæmt nýútgefnum tölum Hagstofu Íslands jókst innlend kjötframleiðsla um 15 p...

Ætla í samkeppni við einokunarfyrirtæki
Fréttir 16. september 2024

Ætla í samkeppni við einokunarfyrirtæki

Nýtt fyrirtæki vill koma sér fyrir á gasmarkaði á Íslandi og hefur hug á að útve...

Reisir lítið sláturhús og hyggst slátra strax í haust
Fréttir 16. september 2024

Reisir lítið sláturhús og hyggst slátra strax í haust

Skúli Þórðarson, bóndi á Refsstað í Vopnafirði og fyrrverandi sláturhússtjóri Sl...

Leyfir ekki sandnám
18. september 2024

Leyfir ekki sandnám

Skýrsla um raunveruleikann
18. september 2024

Skýrsla um raunveruleikann

Subbu-Jobbi
18. september 2024

Subbu-Jobbi

Tjöldin dregin frá
18. september 2024

Tjöldin dregin frá

Mikill áhugi fyrir samfélagsbanka á Íslandi
19. september 2018

Mikill áhugi fyrir samfélagsbanka á Íslandi