Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 5 ára.
Hulda í versluninni á efri hæðinni í Uppspuna.
Hulda í versluninni á efri hæðinni í Uppspuna.
Mynd / smh
Líf&Starf 6. mars 2019

Auka þarf virði ullarinnar

Höfundur: smh
Uppspuni, fyrsta smáspuna­verksmiðjan á Íslandi, var tekin í gagnið í júlí 2017 í Lækjartúni, rétt austan við Þjórsá. Með gangsetningu verksmiðjunnar varð í fyrsta skipti á Íslandi unnt að skilja að tog og þel hluta íslensku sauðfjárullarinnar með vélbúnaði. 
 
Hulda Brynjólfsdóttir og Tyrfingur Sveinsson eiga og reka Uppspuna, en þau eru sauðfjárbændur með 280 kindur. Nokkurn tíma tók að læra á vélarnar, sem eru alls 12 í verksmiðjunni; bæði hvernig þær virka og eins að fá þær til að gera það sem ætlast er til. Verksmiðjan er nú komin í fulla starfsemi og hefur ekki undan að sinna verkefnum. „Við höfum lært helling en við erum enn blaut á bakvið eyrun. Við erum að verða þokkalega góð í því sem við erum að gera, myndi ég segja,“ segir Hulda.
 
Hulda með samstarfskonu sinni, Björgu Kristínu Björgvinsdóttur, við eina af vélum Uppspuna, dráttarvél sem jafnar lyppurnar fyrir spunann.
 
Fjórir starfsmenn við Uppspuna
 
„Við erum þrjár hér alla daga, auk Tyrfings, sem er vélamaðurinn á svæðinu enda vélsmiður að mennt,“ segir Hulda spurð um hvernig gengið hafi fyrstu misserin og um starfsmannahaldið við rekstur svona verksmiðju. 
 
„Við vorum búin að vera að hugsa einhverjar leiðir til að auka tekjurnar þar sem sauðfjárbúskapur er nú ekki sérstaklega arðsamur. Við vorum búin að finna fyrir þessum mikla áhuga á ull, bæði hér á landi og sérstaklega í útlöndum þar sem mikil virðing er borin fyrir íslensku ullinni – og við finnum í raun fyrir mikilli aðdáun á henni,“ segir Hulda um það hvernig hugmyndin að þessari spunaverksmiðju hafi kviknað. „Ég hafði verið að prófa mig áfram með það að handspinna og selja í gegnum netið, líka bara óunna ull. Áhuginn erlendis frá var mikill og varð hvatning til að ég fór að skoða það alvarlega að setja upp svona litla spunaverksmiðju. Við spurðum Google að því í nóvember 2016 hvað Mini-Mill væri og þegar það var ljóst leið ekki nema um einn mánuður þar til við vorum búin að panta eina slíka til okkar. 
Við erum að vinna okkar eigin ull auðvitað og svo kaupum við aðeins af nágrönnum okkar – auk þess sem við þjónustum fólk líka; vinnum ull sem fólk síðan tekur heim á bæ og selur sínar prjónavörur þar. Það er mikil ásókn í þessa þjónustu og við reynum að sinna henni í það minnsta til jafns við okkar eigin vinnslu. Núna er þetta þannig að það þarf að bíða í um þrjá mánuði eftir þjónustu hjá okkur,“ segir Hulda.
 
Flík sem Hulda prjónaði úr tröllabandi, sem er grófasta bandið og unnið úr afgöngum. 
 
Sýnishornin seljast vel
 
Á efri hæð verksmiðjunnar er snotur verslun þar sem garn og prjónavörur frá Huldu sjálfri er til sölu, en einnig handverk frá öðrum úr héraði. „Við erum bæði með þessa verslun okkar á staðnum en bjóðum líka upp á að senda út á land og við höfum einnig fengið pantanir erlendis frá. Í síðustu viku fengum við meira að segja pöntun frá Ástralíu, ullarlandinu sjálfu, frá þarlendri konu sem komst á snoðir um okkur í gegnum Instagram. Við erum ekki komin með netverslun, þannig að fólk þarf bara að hafa beint samband við mig ef það hefur áhuga á okkar vörum. 
 
 Ég hef undanfarið aðallega verið að prjóna sýnishorn fyrir verslunina, sem eru líka til sölu. Þá er það aðallega sýnishorn af því sem hægt er að gera. Þau hafa selst ágætlega þannig að ég hef fengið nokkra einstaklinga til liðs við mig til að prjóna þessi sýnishorn með mér.  
 
Það kemur prjónafólk til okkar af öllu landinu og svo höfum við þjónustað Fræðasetrið um forystufé.
Við erum í raun eini valkosturinn á Íslandi fyrir þetta fólk, því Ístex tekur ekki við minna en 250 kílóa pöntunum í einum lit. Það er enginn einstaklingur sem þarf að láta vinna fyrir sig slíkt magn.
 
Við spinnum garn í þeim grófleika sem beðið er um. Algengast er að spinna tvíband sem er jafnþykkt og léttlopinn. Svo er hægt að fá allan skalann og tröllabandið er það grófasta sem unnið er úr afgöngum. Það er líka boðið upp á að fá afgreiddar lyppur eða kembur, ef viðskiptavinurinn vill sjálfur vinna áfram með efnið, til dæmis spinna eða þæfa það.“
 
Eftirfylgni með vélbúnaðinum var innifalin
 
Í vélunum tólf í Uppspuna er verka­skiptingin í grundvallaratriðunum með þessum hætti: fyrst er hráefni þvegið, þá tætt, síðan er tekið ofan af (þel skilið frá togi) og svo er kembt, undið eða spunnið. 
 
Það er ekki bara vélakosturinn sem starfsfólkið í Uppspuna hefur þurft að læra á, að sögn Huldu. „Það er bara svo margt við íslensku ullina sem þarf að læra inn á. Það er auðvitað heilmikill munur á ull lamba og fullorðins fjár – en það skiptir líka máli hvernig skepnan hefur verið fóðruð og hversu hrein ullin er þegar kemur að vinnslunni. 
 
Áður en við réðumst í kaupin fórum við út með svolitla ull til að athuga hvort þetta myndi virka fyrir okkur. Síðan komu fulltrúar frá söluaðilanum í Kanada til okkar og voru með okkur í viku á meðan verið var að setja vélarnar upp og komu svo aftur síðar og voru aðra viku við kennslu – og þetta var innifalið í kaupunum.“
 
Geitafiðan unnin í Uppspuna
 
Þegar Uppspuni hóf starfsemi sína varð í fyrsta skipti möguleiki á Íslandi að vinna geitafiðu í vél. Hulda segir geitafiðuna vera afar dýrmætt hráefni sem verður kasmír þegar hún er orðin að garni og eitt af verðmætari hráefnum heims. „Til eru angórugeitur og kasmírgeitur og íslenska geitin er sumsé kasmír-geit. Geitabændur höfðu áður þurft að senda hráefni sitt út til að láta vinna það fyrir sig í svipuðum vélum og við erum nú með hér. Það er hins vegar svo sem ekkert mikil framleiðsla hér úr geitafiðunni, bæði eru geitabændur fáir sem geta framleitt eitthvað og svo er vinnslan á fiðunni seinleg. Bæði er þetta hellings vinna fyrir geitabændurna, en líka hér hjá okkur – sem gerir þetta mjög kostnaðarsamt ferli. Þess vegna eru geitafiðuafurðirnar mjög dýrar, en ef það fjölgar eitthvað bændunum sem geta látið vinna fyrir sig þá ætti nú verðið að lækka eitthvað, með auknu framboði. Ég get alveg séð það fyrir mér að þarna séu ákveðin viðskiptatækifæri fyrir geitabændur.“
 
Plöntutrefjar til textílvinnslu
 
Að sögn Huldu er líklega svigrúm fyrir tvær til þrjár svona smáspunaverksmiðjur til viðbótar á landinu. „Mér skilst að það sé unnið að undirbúningi að reisa sambærilega verksmiðju í Öxarfirðinum, að það sé unnið að fjármögnun á verkefninu.
 
Það fer reyndar dálítið eftir því hvort spunavinnsla á öðrum efnum en ull muni aukast hversu mikið svigrúmið er, eins og til dæmis þaratrefjum. Við höfum talsvert verið að leika okkur að því að blanda ýmsum hráefnum saman við ullina; silki-, rósa- og mjólkurpróteinum og jafnvel íslenskum þara – sem er mjög spennandi. 
 
Það eru miklir möguleikar í vinnslu á alls konar plöntutrefjum og við höfum náð ágætum árangri með blöndun á þeim við íslensku ullina. Margir þeirra sem aðhyllast „vegan-hugsjónina“ telja að það sé betra að klæðast fötum úr plasti en ull sem mér finnst ákaflega rangt, því ullarfatnaður er náttúrulegur, skaðar ekki dýrin og er algjörlega í takt við þá hugsjón. Að blanda henni við þara – og ég tala nú ekki um ef hægt væri að gera flík eingöngu úr þara – hlýtur að vera mikilvægur kostur fyrir þá sem vilja vera vegan. 
 
Svo eru vísbendingar um að fatnaður sem er unninn úr þaratrefjum taki síður í sig líkamslykt hvers konar, eins og til dæmis táfýlu. Þá bjóða þessar plöntutrefjar upp á meiri fjölbreytileika í hönnun á prjónavörum,“ segir Hulda um hugsanlegan ávinning af slíkri vinnslu umfram ullarvinnsluna. 
 
Í dag er þó ekki hægt að vinna trefjarnar í þræði hér á Íslandi, en ef það breyttist væri alveg kominn grundvöllur fyrir aðra spunaverksmiðju til að helga sig eingöngu slíkum spuna. Afkastagetan er nefnilega ekki nema svona tíu til tólf kíló á dag og við erum með það mikið að gera í ullinni að við myndum ekki vilja taka kannski hálft ár í að vinna bara þara.“
 
Ullin skammarlega ódýrt hráefni
 
Það er samt ekkert sem segir að þarinn yrði endilega ódýrara hráefni sem gæfi af sér ódýrari vöru. Ullin er skammarlega verðlítil núna og í raun lítill sómi sýndur. Það þarf að hækka verð til bænda því það hefði í för með sér að þeir myndu vanda sig betur við framleiðsluna – skila ullinni fallegri til þeirra sem vinna úr henni. Bændur sjá enga ástæðu til að gera eitthvað sérstakt fyrir ullina ef þeir fá ekkert fyrir hana. Mér finnst sérstakt að vinsælasta prjónagarn á Íslandi – og víðar – sé ódýrasta garnið sem hægt er að kaupa, eins og plötulopinn. Mér þætti bara viðeigandi að verð á garni fylgdi bara markaðnum. Innflutt garn er almennt dýrara en innlent garn. 
 
Í dag er það þannig að reyfið borgar varla rúninginn. Það þarf að auka virði ullarinnar og það þarf að gera það með ýmsu móti. Hækka verð til bænda og þróa ullarvinnslu og hönnunarhlutann betur líka. Við misstum til að mynda eiginlega af lestinni í þeirri miklu þróun á útivistarfatnaði sem varð fyrir nokkrum árum síðan. Við héldum bara áfram að hanna og prjóna okkar lopapeysur á meðan ýmsar aðrar þjóðir fóru á fullt í að hanna undirföt fyrir útivistarfólk. Nú er hins vegar hægt að aðskilja þelið í vélum hjá okkur sem opnar möguleika fyrir hönnun og vinnslu á alls kyns slíkum flíkum. En þá þyrfti að stækka verksmiðjuna okkar og/eða fjölga verksmiðjum,“ segir Hulda. 
 
Vélar Uppspunaverksmiðjunnar kostuðu 25 milljónir og hlaut verkefnið styrk úr Framleiðnisjóði landbúnaðarins, þróunarsjóði sauðfjárræktarinnar, Sambandi sveitarfélaga á Suðurlandi, auk þess sem hópfjármögnun fór fram í gegnum vefinn indiegogo.com. Svo þurfti að fara í framkvæmdir við húsið sem átti að hýsa verksmiðjuna og áætlar Hulda  að heildarkostnaður við verksmiðjuna hafi verið rúmar 40 milljónir króna. 
 
Uppspuni. Heildarkostnaður við verkefnið var rúmar 40 milljónir.

4 myndir:

Nýr skóli byggður
Fréttir 3. desember 2024

Nýr skóli byggður

Fyrsta skóflustungan var tekin á dögunum að nýjum Bíldudalsskóla sem verður samr...

Ávextir beint frá spænskum bónda
Fréttir 3. desember 2024

Ávextir beint frá spænskum bónda

Rekstur norðlenska innflutnings­fyrirtækisins Fincafresh hefur vaxið jafnt og þé...

Félagssálfræðilegur munur milli sveitarfélaga
Fréttir 2. desember 2024

Félagssálfræðilegur munur milli sveitarfélaga

Vonast er til að að aukin þekking á sálfræðilegum hliðum byggðamála geti stuðlað...

Ráðinn slökkviliðsstjóri í Fjarðabyggð
Fréttir 29. nóvember 2024

Ráðinn slökkviliðsstjóri í Fjarðabyggð

Suðurnesjamaðurinn Ingvar Georg Georgsson hefur verið ráðinn í starf slökkviliðs...

Rannsókn ungra bænda
Fréttir 29. nóvember 2024

Rannsókn ungra bænda

Samtök ungra bænda (SUB) eru að kortleggja hindranir og hvata nýliðunar og kynsl...

Haustrúningur í fullum gangi
Fréttir 29. nóvember 2024

Haustrúningur í fullum gangi

Baldur Stefánsson, rúningsmaður frá Klifshaga í Öxarfirði, klippir tólf til þret...

Skipuleggja lóðir fyrir súrefnisframleiðslu
Fréttir 29. nóvember 2024

Skipuleggja lóðir fyrir súrefnisframleiðslu

Sveitarfélagið Ölfus hefur auglýst nýtt deiliskipulag fyrir lóðina Laxabraut 31 ...

Kjúklingar aftur í Grindavík
Fréttir 29. nóvember 2024

Kjúklingar aftur í Grindavík

Reykjagarður hf. hefur endurvakið kjúklingarækt í Grindavík eftir ellefu mánaða ...