Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 4 mánaða.
Vísindafólk er ekki á einu máli um hvort endurheimt vistkerfa er vænlegri til kolefnisbindingar en skógrækt, enda frekari rannsókna þörf.
Vísindafólk er ekki á einu máli um hvort endurheimt vistkerfa er vænlegri til kolefnisbindingar en skógrækt, enda frekari rannsókna þörf.
Mynd / sá
Fréttir 25. júlí 2024

Er endurheimt vistkerfa skilvirkari en skógrækt?

Höfundur: Steinunn Ásmundsdóttir

Því hefur verið varpað fram að þegar kemur að kolefnisbindingu ætti að leggja meiri áherslu á endurheimt vistkerfa en skógrækt. Ekki eru allir á einu máli um þetta.

„Mat á kolefnisbindingu með skógrækt á Íslandi er studd góðum og traustum gögnum,“ segja dr. Aðalsteinn Sigurgeirsson, skógerfðafræðingur hjá Landi og skógi, dr. Brynhildur Bjarnadóttir, líffræðingur og prófessor við Háskólann á Akureyri, dr. Bjarni Diðrik Sigurðsson, líffræðingur, skógfræðingur og prófessor við Landbúnaðarháskóla Íslands, Arnór Snorrason, skógfræðingur hjá Landi og skógi og Pétur Halldórsson, upplýsingafulltrúi hjá sömu stofnun, í sameiginlegu svari við fyrirspurn Bændablaðsins.

Gögn úr verkefninu Íslenskri skógarúttekt sýni að ræktaðir skógar á Íslandi bindi árlega að meðaltali nálægt tíu tonnum af koltvísýringi á hverjum hektara, í trjám og jarðvegi. Skógur sem ræktaður er á snauðu landi, rofnu landi, framræstu landi eða auðnum stöðvi auk þess þá losun sem stafaði af landinu áður en skógræktin hófst. „Frá sjónarmiði loftslagsávinnings hlýtur skógrækt að teljast góður valkostur, auk þess sem skógur veitir mönnum og lífríki margvíslega aðra þjónustu. Endurheimt birkiskógar er líka skógrækt en vöxtur birkisins er töluvert minni en vöxtur innfluttu trjátegundanna. Við endurheimt mólendis er binding í lífmassa enn minni. Í öllum þessum tilvikum á sér þó stað kolefnisbinding í jarðvegi sem taka verður með í reikninginn líka. Endurheimt vistkerfis getur því falið í sér ólíkar útfærslur en markmiðið ætti alltaf að vera að koma í veg fyrir losun og auka bindingu,“ segja þau Aðalsteinn, Arnór, Bjarni Diðrik, Brynhildur og Pétur.

Endurheimt náttúruskóga best

Ingibjörg Svala Jónsdóttir, prófessor í vistfræði við Háskóla Íslands, telur endurheimt vistkerfa betri kost til kolefnisbindingar en skógrækt.

„Tvímælalaust. Vaxandi fjöldi vísindagreina leggja fram gögn sem sýna að endurheimt vistkerfa almennt, og sérstaklega náttúruskóga, sé vænlegasti kosturinn fyrir kolefnisbindingu þegar til lengri tíma er litið. Endurheimt sameinar einnig vel nauðsynlegar aðgerðir til endurheimtar og verndunar líffræðilegs fjölbreytileika,“ segir Ingibjörg.

Frekari rannsókna þörf

Þóra Ellen Þórhallsdóttir, prófessor í grasafræði við Háskóla Íslands, og Ólafur S. Andrésson, prófessor emeritus við Háskóla Íslands, segja þurfa meiri rannsóknir til að svara spurningunni á fullnægjandi hátt, og forsendur þurfi að vera skýrar.

„Ef t.d. er horft til nytjaskógræktar þar sem skógur er hogginn eftir 50–100 ár og eftir það losnar meira en 90% kolefnisbindingarinnar aftur sem CO2 innan fárra áratuga, þá er mjög líklegt að endurheimt vistkerfa sem binda vel kolefni, og halda áfram að gera það, sé betri kostur til kolefnisbindingar, og oft mun ódýrari í framkvæmd,“ segja Þóra Ellen og Ólafur. Þær örverur og jarðvegslífverur sem séu afkastamestar við niðurbrot lífrænna leifa séu flestar loftháðar og þrífist ekki í vatnsósa jarðvegi. Þar hægi á niðurbroti og hálfrotnaðar plöntuleifar safnist upp sem mór.

„Með öðrum orðum, koltvísýringi er ekki skilað aftur til andrúmsloftsins og þetta ferli hefst strax og grunnvatnsstaða er hækkuð upp undir yfirborð, t.d. í framræstri mýri. Við endurheimt votlendis hefst því veruleg kolefnisbinding fyrr en við uppvöxt skóga. Þar að auki getur orðið mikil losun koltvísýrings með jarðvinnslu og raski við undirbúning plöntunar í gróið land,“ segja þau og halda áfram.

„Þegar talað er um að klæða land með skógi verður að greina á milli uppvaxtar birkiskóglendis og ræktunar barrtrjáa í plantekrum. Birkiskógar eru mikilvægir á margan hátt: þeir eru byggingarlega flóknustu landvistkerfin á Íslandi, tiltölulega tegundaauðug og meginheimkynni mikilvægra lífveruhópa, þeir eru það vistkerfi sem best stendur af sér gjóskufall í eldgosum og almenningi finnst þau aðlaðandi til útivistar. Nytjaskógrækt, þar sem upp vaxa lundir af einni eða fáum tegundum barrtrjáa, er eitt form landbúnaðar og á ekkert skylt við vistheimt. Í nýlegri landsáætlun um skógrækt segir að „Kolefnisbinding í skógum landsins sem fyrir eru og með nýskógrækt verði meginmarkmið skógræktar“. Enn vantar gögn um kolefnisbindingu ofan- og neðanjarðar í náttúrulegum birkiskógum hér á landi en þau birtast vonandi fljótlega. Þá fyrst verður hægt að bera saman með heildstæðum hætti kolefnisbindingu í barrskógum og innlendum birkiskógum hér á landi,“ segja þau jafnframt.

Skoða þarf langtímabindingu nytjaskóga

Nokkur álitamál til viðbótar koma upp varðandi nytjaskógrækt, að sögn Þóru Ellenar og Ólafs. Þær tegundir sem mest hafi verið notaðar hér á landi séu stafafura og sitkagreni.

Samkvæmt Landsáætlun um skógrækt er kolefnisbinding meginmarkmið skógræktar og stefna skal að ræktun hraðvaxinna, stórvaxinna og gjöfulla skóga. Þau telja áformin stórtæk og að þau muni hafa í för með sér róttækar breytingar á lífríki og landslagi.

„Ef þær tegundir sem mikið eru notaðar verða ágengar gætu afleiðingarnar orðið óafturkræfar, a.m.k. ef litið er til næstu aldar. Þegar litið er enn lengra er rétt að spyrja hver sé langtíma kolefnisbinding í nytjaskógum. Nokkrar rannsóknir hafa verið gerðar en ekki verið birtar hingað til og aðrar eru yfirstandandi. Þegar skógur hefur verið höggvinn tapast um eða yfir 90% af bundna kolefninu innan nokkurra áratuga. Hér er því verkefni sem byggja þarf á traustum forsendum,“ segja þau. Mörgum spurningum sé enn ósvarað.

Vegaframkvæmdum forgangsraðað
Fréttir 4. desember 2024

Vegaframkvæmdum forgangsraðað

Alls verður rúmum 27 milljörðum króna ráðstafað til framkvæmda og viðhalds á veg...

Hrossafeitin mýkri fyrir húðina
Fréttir 4. desember 2024

Hrossafeitin mýkri fyrir húðina

Fremur mun fátítt að hrossafeiti sé notuð í sápuframleiðslu hérlendis. Úr tíu kí...

Nýr skóli byggður
Fréttir 3. desember 2024

Nýr skóli byggður

Fyrsta skóflustungan var tekin á dögunum að nýjum Bíldudalsskóla sem verður samr...

Ávextir beint frá spænskum bónda
Fréttir 3. desember 2024

Ávextir beint frá spænskum bónda

Rekstur norðlenska innflutnings­fyrirtækisins Fincafresh hefur vaxið jafnt og þé...

Félagssálfræðilegur munur milli sveitarfélaga
Fréttir 2. desember 2024

Félagssálfræðilegur munur milli sveitarfélaga

Vonast er til að að aukin þekking á sálfræðilegum hliðum byggðamála geti stuðlað...

Ráðinn slökkviliðsstjóri í Fjarðabyggð
Fréttir 29. nóvember 2024

Ráðinn slökkviliðsstjóri í Fjarðabyggð

Suðurnesjamaðurinn Ingvar Georg Georgsson hefur verið ráðinn í starf slökkviliðs...

Rannsókn ungra bænda
Fréttir 29. nóvember 2024

Rannsókn ungra bænda

Samtök ungra bænda (SUB) eru að kortleggja hindranir og hvata nýliðunar og kynsl...

Haustrúningur í fullum gangi
Fréttir 29. nóvember 2024

Haustrúningur í fullum gangi

Baldur Stefánsson, rúningsmaður frá Klifshaga í Öxarfirði, klippir tólf til þret...