Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 3 ára.
Áherslur í ýmsar áttir
Mynd / EB
Skoðun 4. október 2018

Áherslur í ýmsar áttir

Höfundur: Sindri Sigurgeirsson
Í blaðinu í dag er fjallað um væntanlega landbúnaðarsýningu sem verður í Laugar­dalshöllinni 12.–14. október næstkomandi. Ástæða er til að hvetja alla lesendur til að leggja leið sína á sýninguna og kynna sér starf og áherslur þeirra nær 100 fyrirtækja og samtaka sem taka þátt í henni. Þar verða bæði afurðirnar, bútækni, bændurnir sjálfir og þeir sem þá þjónusta. 
 
Ástæða er einnig til að vekja sérstaka athygli á fyrirlestradagskrá sem fjallar að hluta til um frumkvöðla- og sprotaverkefni í íslenskum landbúnaði. Það er sannarlega margt jákvætt í gangi þó að oft verði það meira áberandi þar sem á brattann er að sækja eins og nú um stundir í sauðfjár- og loðdýrarækt. En við þurfum að hlúa að öllum sprotum og leggja rækt við fjölbreytnina.
 
Hugsum um uppruna matarins
 
Það er sótt að landbúnaðinum á ýmsan máta. Samkeppnin er að aukast, sterk króna gerir allan innflutning ódýrari en okkar útflutning dýrari, tollar hafa verið lækkaðir og samið hefur verið um að tollfrjáls innflutningur aukist verulega á næstu árum. 
 
Það er fyllilega ljóst að íslenskir neytendur hafa mikinn velvilja í garð íslensks landbúnaðar og þeir velja yfirleitt íslenska framleiðslu sé þess kostur. En þeim er ekki alltaf sagt hvaðan maturinn kemur. Það er sanngirniskrafa að úr því verði bætt. 
 
Vissulega er oft hægt að sjá uppruna á vörum úti í búð, en það er lítið um að það sé gert t.d. í mötuneytum eða veitingastöðum. Ég hvet lesendur til að spyrja eftir upprunanum þar sem þeir versla. Við erum öll neytendur og það þrýstir á um úrbætur ef að nógu margir láta í sér heyra þar sem þeir versla.
 
Tollvernd og stuðningur við landbúnað eru til þess að jafna samkeppnisstöðu. Það er engri þjóð sama um sína framleiðslu og allar þjóðir styðja við hana á einhvern hátt. Við búum í landi þar sem ræktunarmöguleikar eru takmarkaðir og nýtum okkur ekki aðferðir sem víða tíðkast til að þrýsta verðinu sem mest niður, eins og að flytja inn afurðamestu stofnana, nota hormóna eða sýklalyf sem vaxtarhvata. 
Við byggjum á fjölskyldubúum, endur­nýjanlegri orku þar sem það er hægt, hreinu vatni og grasfóðrun þar sem það á við. Við búum við þau forréttindi að nota óverulegt magn af sýklalyfjum í landbúnaði sem þýðir að hætta á ónæmi er hér miklu minni, eins og nýleg samanburðarrannsókn á íslensku og innfluttu grænmeti dró enn einu sinni fram fyrir fáum dögum. 
 
Vissulega gætum við gert ýmislegt til að þrýsta verðinu meira niður en neytendur yrðu örugglega ekki ánægðir með þær framleiðsluaðferðir.
 
Við vitum hvaðan sú framleiðsla kemur sem á sér stað hérlendis og ef það koma vandamál upp þá er sagt frá þeim og þau hljóta almenna fordæmingu eins og dæmin sanna.
 
Hvernig vörur erum við að kaupa að utan?
 
Við verðum líka að hugsa til þess að við vitum lítið um þá framleiðslu sem flutt er inn. 
  • Hvernig voru framleiðsluaðstæður og framleiðsluhættir? 
  • Dýravelferð? 
  • Lyfjanotkun? 
  • Aðbúnaður starfsfólks? 
Við erum kannski ekki mikið að spá í þetta og það er ekki sagt frá þessu hér. Að framleiðslunni erlendis koma bændur, annað starfsfólk og oft búfénaður en við vitum ekkert um aðstæður þeirra – gerum ekki þær sömu kröfur til innflutningsins og við gerum hér – vegna þess að við höfum engar upplýsingar og þeirra er ekki krafist. Um það ættum við að hugsa meira.
 
Það má benda á sláandi umfjöllun Kveiks á RÚV sl. þriðjudag um aðstæður erlendra starfsmanna hérlendis. Eðlilega vilja menn ekki sjá að gengið sé á réttindi verkafólks og bændur styðja verkalýðshreyfinguna heils hugar á því sviði. Við ætlum ekki að grafa undan kaupum og kjörum launafólks sem vinnur eftir samningum með því að ráða erlent vinnuafl á smánarlaunum. Það er það sem við erum að gera óbeint með því að þrýsta sífellt á um meiri innflutning á ódýrum mat og minni tollvernd landbúnaðarafurða. Það er bara þannig.
 
Hvar er hinn öflugi fyrirliði landbúnaðar og matvæla í ráðuneytinu?
 
Stjórnvöld á hverjum tíma hafa stutt hérlendan landbúnað á ýmsan hátt og gera enn. Nú stendur yfir endurskoðun á samningi um sauðfjárræktina sem vonandi verður hægt að ljúka farsællega. En þetta snýst ekki bara um stuðning. 
 
Það er mikil reglusetning um landbúnaðinn.  Það gilda margar og strangar reglur um framleiðsluna. Við viljum ekki neinn afslátt af því en það þýðir líka að það þarf að standa vel að stjórnsýslunni og öðru utanumhaldi. Það þarf að vera hægt að taka á málum fljótt og örugglega. 
 
Lengi var það þannig að sérstakt ráðuneyti fór með landbúnaðarmál. Því var svo slegið saman í sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneyti og svo aftur í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti, þó að því sé nú stýrt af tveimur ráðherrum.  Við þetta voru og eru margir ósáttir í landbúnaðinum. Það var þó þannig að einni skrifstofu í því ráðuneyti var ætlað að sinna málefnum landbúnaðar og matvæla. 
 
Nú í lok september bárust fregnir um að þessari einu skrifstofu ætti á slá saman við aðra. Þetta hafði ekki verið kynnt með neinum hætti og kom upp þegar ráðning nýs „öflugs fyrirliða á sviði matvæla og landbúnaðar“ (eins og ráðuneytið auglýsti sjálft) átti að vera að ljúka. Ráðherra hefur ekki séð sér fært að kynna bændum rök sín fyrir þessum breytingum. Honum þarf ekki að koma á óvart að þeim þyki þetta lýsa litlum áhuga á að efla íslenskan landbúnað nema að hann sýni fram á annað með afgerandi hætti.
Embluverðlaununum frestað fram í júní
Fréttir 26. janúar 2022

Embluverðlaununum frestað fram í júní

Vegna kórónuveirufaraldursins hefur verkefnastjórn norrænu matvælaverðlaunanna E...

Lagt til að 700 milljóna króna stuðningur fari í niðurgreiðslu á hverju keyptu tonni
Fréttir 26. janúar 2022

Lagt til að 700 milljóna króna stuðningur fari í niðurgreiðslu á hverju keyptu tonni

Í fjárlögum ársins 2022 er gert ráð fyrir 700 milljóna króna stuðningi við bændu...

Tritrichomonas greindist í ketti
Fréttir 26. janúar 2022

Tritrichomonas greindist í ketti

Sníkjudýrið Tritrichomonas foetus greindist nýverið í fyrsta sinn á Íslandi, í s...

Fjallalax fær rekstrarleyfi vegna fiskeldis
Fréttir 26. janúar 2022

Fjallalax fær rekstrarleyfi vegna fiskeldis

Matvælastofnun hefur veitt Fjallalax ehf. rekstrarleyfi til fiskeldis að Hallkel...

DEUTZE-FAHR lagt á 12 glerflöskur
Fréttir 26. janúar 2022

DEUTZE-FAHR lagt á 12 glerflöskur

Í mars 2021 var sett heims­met með stórri fagurgrænni DEUTZE-FAHR TTV Warrior tö...

Endurbygging hefst í mars á hluta Snæfellsvegar
Fréttir 26. janúar 2022

Endurbygging hefst í mars á hluta Snæfellsvegar

Skrifað hefur verið undir samning um framkvæmd við Snæfellsveg, nr. 54, á milli ...

Fjögur félagasamtök styrkt til að hreinsa strandlengjuna
Fréttir 25. janúar 2022

Fjögur félagasamtök styrkt til að hreinsa strandlengjuna

Fjögur félagasamtök verða styrkt til verkefna sem lúta að hreinsun strandlengju ...

Riða greindist í skimunarsýni
Fréttir 25. janúar 2022

Riða greindist í skimunarsýni

Matvælastofnun barst fyrir skömmu tilkynning frá Tilraunastöð HÍ að Keldum um að...