Mun meiri uppskera var á gulrótum á hvern ræktaðan hektara en undanfarin ár.
Mun meiri uppskera var á gulrótum á hvern ræktaðan hektara en undanfarin ár.
Mynd / Akur organic
Fréttir 18. desember 2025

Afburðagott ár í útiræktun grænmetis

Höfundur: Sigurður Már Harðarson

Árið sem er að líða fer í sögubækurnar sem eitt hið allra besta í útiræktun grænmetis. Sé horft aftur til 2019, þegar farið var að halda formlega utan um uppskerutölur vegna stuðningsgreiðslna, er heildaruppskeran í ár sú langmesta.

Þegar litið er til uppskeru á hvern ræktaðan hektara er árangurinn í ár einnig framúrskarandi, eða 19,33 tonn miðað við 13,03 tonn árið á undan.

Aukning í umfangi ræktunar

Uppskera á síðasta ári var reyndar óvenju slök, enda ræktunarsumarið mjög erfitt sem leiddi til þess að stjórnvöld ákváðu að greiða sérstakar bætur vegna uppskerubrests. Garðyrkjubændur létu eitt slæmt ár ekki slá sig út af laginu og juku umfang ræktunar í ár um 8,5 hektara samtals frá fyrra ári. Umfang ræktunar er þó 46 hekturum minna en 2023, en þá var skorið upp um 16 tonn á hvern hektara.

Helgi Jóhannesson, garðyrkjuráðunautur hjá Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins. Mynd / Aðsend

Helgi Jóhannesson, garðyrkjuráðunautur hjá Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins, segir að aðeins lítill hluti af aukningunni nú skýrist af nýjum aðilum sem komi inn í garðyrkjuna. Þetta sveiflist alltaf eitthvað milli ára og sé innan skekkjumarka þannig að ekki sé hægt að lesa neina slíka þróun út úr þessum tölum.

Gulrætur koma sérstaklega vel út

Gulræturnar komu sérstaklega vel út í sumar, þar er mun meiri uppskera á hektara en undanfarin ár.

„Gulrótum er sáð beint í akurinn og þær eru lengi að koma sér af stað. Þær þurfa því hlýtt og langt vaxtartímabil til að ná fullum þroska og eru að stækka langt fram eftir hausti. Sumarið í fyrra var jú stutt og kalt enda er mikill munur á uppskeru gulróta milli ára. Kartöflurnar komu líka mjög vel út. Þar eru aftur meiri takmörk fyrir því hvað bændur geta látið vaxa, markaðurinn vill ákveðna hámarksstærð og því taka bændur upp þegar heppilegri stærð er náð þó þær gætu vaxið meira,“ segir Helgi.

Samdráttur í blómkálsræktun

Spurður um áberandi samdrátt á síðustu árum í ræktun á blómkáli, segir Helgi að um frekar áhættusaman búskap sé að ræða og það sé að hans mati helsta skýringin. „Plantan er viðkvæm fyrir veðurskilyrðum, þolir illa köld vor, uppskera getur öll eyðilagst í frostum á haustin. Uppskerutímabilið er stutt, nær frá lokum júlí fram í miðjan september. Þegar uppskeran er góð alls staðar og sölutíminn stuttur hefur það áhrif á markaðinn og ekki gefið að allt seljist á góðu verði eða seljist yfir höfuð,“ útskýrir hann.

Annars er sölutímabil tegunda mjög mismunandi eftir því hversu vel þær geymast. „Í góðum árum geta íslenskar kartöflur og rófur verið á markaði allt árið. Uppskera hefst um eða eftir miðjan júlí, er selt beint af akri fram á haust og svo úr kæligeymslum fram á næsta sumar.

Uppskera á gulrótum er aðeins seinni, eða í lok júlí. Þær eru seldar beint af akri fram á haust og svo úr geymslum fram á vor. Bændur hafa undanfarin ár aukið geymsluþolið með betri tækni og ræktun þannig að við höfum séð góðar íslenskar gulrætur fram í júní af uppskeru síðasta árs,“ segir Helgi.

Ekki vænlegt að frysta uppskeruna

„Hvítkál, kínakál, blómkál og spergilkál kemur í venjulegu árferði um 20. júlí og er selt beint af akri fram á haust. Kínakál er hægt að geyma í kæligeymslu fram í desember, hvítkál út mars en blómkál og spergilkál geymist ekki nema 2–3 vikur í kæli,“ heldur Helgi áfram.

Spurður um aðrar mögulegar geymsluaðferðir, til dæmis að frysta grænmeti, segir Helgi að slíkt sé tæknilega hægt að gera en miðað við núverandi markaðsaðstæður sé það varla arðbært. „Slík framleiðsla byggir á sérhæfðri ræktun, seinvöxnum og uppskerumiklum yrkjum sem varla ná þroska hér og stærðarhagkvæmni sem varla myndi passa fyrir okkar litla markað.“