Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 7 ára.
Sundrop farms-gróðrarstöðin í Ástralíu er staðsett á gróðursnauðu og vatnslitlu landi. Hún nýtir 23.000 spegla sem beina geislum sínum að 115 metra háum turni til að framleiða hita, eima sjó og búa til raforku. .
Sundrop farms-gróðrarstöðin í Ástralíu er staðsett á gróðursnauðu og vatnslitlu landi. Hún nýtir 23.000 spegla sem beina geislum sínum að 115 metra háum turni til að framleiða hita, eima sjó og búa til raforku. .
Fréttaskýring 4. apríl 2017

„Hátækni í landbúnaði gæti afstýrt heimsstyrjöld út af vatni“

Höfundur: Hörður Kristjánsson
„Gleymið áhyggjum út af olíu og gasi, þið ættuð frekar að hafa áhyggjur út af því sem minna er rætt um, en það er sú staðreynd að heimurinn er að verða uppiskroppa með drykkjarhæft vatn.“
 
Þetta ritaði breski vísindamaðurinn dr. Rupesh Paudyal, sem áður starfaði við Leeds-háskóla, nú í janúar og birti á vefsíðu phys.org og einnig á talkplant.com og segir að beiting hátækni í landbúnaði (erfðatækni) gæti afstýrt heimsstyrjöld út af vatni. 
 
Hann segist hafa ritað greinina eftir veru sína í Katmandu, höfuðborg Nepals, sem býr nú við mikinn vatnsskort. Þrátt fyrir að allir húseigendur í borginni greiði sérstakt gjald til að fá rennandi vatn úr krönum, þá sé vatn ekki í boði nema í örfáa klukkutíma tvisvar í viku. Örvæntingarfullir íbúar séu því knúnir til að leita til einkaaðila um vatn. Þó slíkt sé vel á færi þeirra ríku, þá geti það verið mikið vandamál fyrir miðstéttirnar og þá sem lægra eru settir. Fyrir fjölmarga íbúa í þriðja heiminum, þá skipti aðgengi að vatni sköpum varðandi velgengni eða fátækt. 
 
Paudyal segir að yfir þúsund milljónir manna hafi ekki lengur nauðsynlegt aðgengi að vatni. Flestir sjúkdómar í þessum löndum sem leiði til dauða milljóna manna á hverju ári séu tengdir vatnsskorti. Sem dæmi þá deyr eitt barn af völdum niðurgangs í heiminum á sautján  sekúnda fresti. 
 
„Vegna alls þessa verðum við að finna einhverja lausn varðandi vatnsskortinn og það hratt áður en hann leiðir til meiri háttar alþjóðlegra átaka,“ segir Paudyal. 
 
Mest af vatnsbirgðum heimsins er bundið í sjónum og aðeins 3% af öllu vatni heimsins er nothæft til landbúnaðar og er drykkjarhæft. Þá er megnið af þessum 3% vatnsbirgðanna bundið í jöklum á heimsskautssvæðunum. Það þýðir að í raun eru aðeins um 0,5% af vatnsbirgðum heimsins aðgengileg og um tveir þriðju hlutar þess vatnsmagns eru notaðir í landbúnaði.  
 
Jarðarbúar verða að draga úr vatnsneyslu
 
Paudyal segir að jarðarbúar verði að draga úr vatnsneyslu og þar verði að stefna á að gera landbúnað sjálfbærari og skilvirkari. Þar sem jarðarbúum fjölgi ört verði að huga að því að finna leiðir til að rækta meira en samt með minni vatnsnotkun. 
 
Um heim allan er aðeins um 37% mögulega nýtanlegs ræktarlands notað til landbúnaðar. Víða sé ræktarland fyrir hendi en ekki notað vegna skorts á nauðsynlegum innviðum, vegna skóga og  náttúruverndarsjónarmiða. Skortur á landi sé því eiginlega ekki vandamál, heldur skortur á vatni. 
 
Vatnsræktun í lokuðum gróðurhúsum
 
Paudyal spyr sig hvernig hægt sé að rækta með minni vatnsnotkun. Ein leið kunni að vera að finna sjálfbæra leið til að fjarlægja salt úr sjó svo hann verði nýtanlegur. Í dag er slíkt einkum gert með flóknum og dýrum tækjabúnaði. Hann bendir á búgarð í Suður-Ástralíu þar sem sólarorku er beitt til að eima sjó og framleiða vatn sem síðan er nýtt til ræktunar í gróðurhúsum. Á þessum stað er jarðvegur vart nýtanlegur til ræktunar, en þess í stað fer ræktun fram í lokuðu ferli í gróðurhúsum þar sem fram fer vatnsræktun sem ekki krefst jarðvegs [sama aðferð og þekkist í íslenskum gróðurhúsum við grænmetisframleiðslu]. Með þessum hætti er hægt að nota mun minna vatn en ella. Vandinn er, að sögn Paudyal, kostnaðurinn við að koma upp slíkum gróðurhúsum. 
 
Framleiða 17.000 tonn af tómötum á ári í eyðimörkinni
 
Umrætt gróðurhús heitir Sundrop farms. Það nýtir 23.000 spegla sem beina geislum sínum að 115 metra háum turni til að framleiða hita, eima sjó og búa til raforku. Er sjónum dælt um 5 km leiðslur að turninum þar sem eimingin fer fram. Í gróðurhúsinu sem nýtir eimaða vatnið eru síðan framleidd 17.000 tonn af tómötum á ári. 
 
„Ekkert er erfðabreytt“
 
Í ljósi orða Paudyal um það sem verið er að gera í Ástralíu er athyglisvert að fyrirtækið Sundrop farms tekur sérstaklega fram á heimasíðu sinni að það noti ekki erfðabreyttar jurtir. Því gat Paudyal vart valið óheppilegra fyrirtæki til að bakka upp fögur orð sín sem á eftir koma um notkun erfðatækni í landbúnaði. Á heimasíðunni stendur; „Ekkert er erfðabreytt,“ og bætt er við: 
 
„Ef þú ert með hefðbundna ræktun þá gætir þú íhugað að nota erfðabreytt sáðkorn. Það gæti gert það sem þú ræktar þolnara fyrir sjúkdómum. Þú þyrftir auðvitað líka jarðveg og mikið af vatni. Þú mátt ekki heldur gleyma notkun á margvíslegum efnum fyrir þessar „leiðinlegu“ jurtir“. Síðan er framleiðsluferlinu hjá Sundrop farms lýst á myndbandi sem finna má á slóðinni http://www.sundropfarms.com/produce/.
 
Sundrop farms var stofnað 1976 og á bak við það stendur fjárfestingarfélagið KKR og Aalborg CPS sem er leiðandi á heimsvísu í framleiðslu búnaðar fyrir sólorkuver. Þá er Van Der Hoeven einnig aðili að fyrirtækinu en það hefur sérhæft sig í gróðurhúsaverkefnum víða um heim allar götur síðan 1953. Að þessu kemur líka ástralska verslunarkeðjan Coles Supermarkets sem er í eigu Wesfarmers, eins stærsta skráða fyrirtækis í Ástralíu. Auk þess má geta aðkomu Commonwelth Bank í Ástralíu sem hefur séð um fjármögnun ýmissa verkefna af þessum toga víða um heim. 
 
Paudyal bendir á að vísindamenn víða um heim vinni nú að því hörðum höndum að einangra gen sem gerir plöntum kleift að vaxa við mjög þurrar aðstæður. Eins og t.d. upplandahrís getur vaxið á mjög þurrum svæðum á meðan láglandahrís vex aðeins á vatnsósa ökrum. 
 
Einangrun gena og genabreytingar
 
Um leið og hægt sé að einangra gen sem gera plöntum kleift að lifa og dafna við mjög þurrar aðstæður, þá sé hægt að koma slíkum genum fyrir í nytjaplöntum með aðstoð erfðatækninnar. Þannig sé hægt að stytta þá leið sem það tæki bændur annars að rækta upp slíka nytjastofna með víxlræktun á hefðbundinn hátt. Í nýlegri rannsókn er slíkt skilgreint, en þar er beitt fjölbreyttum „rótar arkitektúr“ við ræktun á kjúklingabaunum. Vonast er til að frekari rannsóknir finni gen sem gerir rótarkerfi skilvirkari við að ná upp raka og næringarefnum úr þurrum jarðvegi. 
 
Paudyal segir að lykilatriðið varðandi þurrkþol plantna liggi í plöntuhormóninu abscisic acid (ABA). Það eykur vatnsupptökuhæfni plantna í þurrkum. Gallinn er að ABA hormón dregur um leið úr ljóstillífunarhæfni jurtanna og dregur úr vexti til langs tíma. Árangurinn verður minni uppskera. 
 
Engin ný sannindi 
 
Þegar skoðað er það sem  Paudyal er að segja virðist nokkuð augljóst fyrir leikmenn að þurrkar leiði til minni uppskeru þar sem plöntur og ekki síst nytjaplöntur eru vel yfir 90% vatn. Vart þurfi ítarlegar rannsóknir til að komast að þeirri niðurstöðu. 
 
Nútíma nytjaplöntur hafa glatað upprunalegum eiginleikum
 
Paudyal segir aftur á móti að plöntur hafi ekki alltaf haft þessa vankanta í þurrkatíð. Nútíma nytjajurtir hafi tapað lykilgeni sem frumjurtirnar höfðu til að takast á við óblíðar aðstæður og ofþornun. Bendir hann þar t.d. á mosa. Þessi hæfni hafi gert frumplöntum mögulegt að nema land í yfir 500 metra hæð yfir sjó. Eyðimerkurmosi hafi t.d. enn í dag þennan hæfileika til að safna vatni úr loftinu í gegnum lauf sitt. Segir Paudyal að það sé mikil áskorun fyrir vísindamenn að „hanna“ jurtir sem geti vaxið og dafnað við lágmarksvökvun sem hjálpi um leið til við að draga úr vatnsnotkun. 
 
Segir umdeilda tækni nauðsynlega
 
Hann segir þó að notkun erfðatækni á þessu sviði sé og verði mjög umdeild, þrátt fyrir að ýmsar rannsóknir hafi sýnt fram á að fæða úr erfðabreyttum jurtum sé örugg til neyslu. 
Heldur Pauydyal því fram að vandinn varðandi tortryggni manna út í erfðatæknina sé fyrst og fremst mistök við upplýsingagjöf. Staðreyndin sé eftir sem áður að jarðarbúar muni á endanum neyðast til að nýta sér alla mögulega tækni sem völ er á. Erfðabreyttar jurtir hafi of mikla eiginleika til að réttlætanlegt sé að sniðganga þær. 
Refaveiði í Skaftárhreppi
Fréttir 19. september 2024

Refaveiði í Skaftárhreppi

Sveitarstjórn Skaftárhrepps samþykkti nýlega skipulag um refaveiðar í sveitarfél...

Leyfir ekki sandnám
Fréttir 18. september 2024

Leyfir ekki sandnám

Fyrirtækið LavaConcept Iceland hefur sótt um framkvæmdaleyfi hjá Mýrdalshreppi v...

Nýtt rannsóknarverkefni í byggkynbótum
Fréttir 18. september 2024

Nýtt rannsóknarverkefni í byggkynbótum

Við Landbúnaðarháskóla Íslands er nú að hefjast nýtt rannsóknarverkefni í byggky...

Helsingjar valda usla
Fréttir 18. september 2024

Helsingjar valda usla

Umhverfisstofnun vill takmarka veiðar á helsingja en bóndi á austanverðu Suðurla...

Óarðbær innflutningur
Fréttir 17. september 2024

Óarðbær innflutningur

Einkahlutafélagið Háihólmi skilaði tæplega 1,2 milljóna króna hagnaði á sínu fyr...

Kjötframleiðsla eykst áfram
Fréttir 17. september 2024

Kjötframleiðsla eykst áfram

Samkvæmt nýútgefnum tölum Hagstofu Íslands jókst innlend kjötframleiðsla um 15 p...

Ætla í samkeppni við einokunarfyrirtæki
Fréttir 16. september 2024

Ætla í samkeppni við einokunarfyrirtæki

Nýtt fyrirtæki vill koma sér fyrir á gasmarkaði á Íslandi og hefur hug á að útve...

Reisir lítið sláturhús og hyggst slátra strax í haust
Fréttir 16. september 2024

Reisir lítið sláturhús og hyggst slátra strax í haust

Skúli Þórðarson, bóndi á Refsstað í Vopnafirði og fyrrverandi sláturhússtjóri Sl...

Leyfir ekki sandnám
18. september 2024

Leyfir ekki sandnám

Skýrsla um raunveruleikann
18. september 2024

Skýrsla um raunveruleikann

Subbu-Jobbi
18. september 2024

Subbu-Jobbi

Tjöldin dregin frá
18. september 2024

Tjöldin dregin frá

Mikill áhugi fyrir samfélagsbanka á Íslandi
19. september 2018

Mikill áhugi fyrir samfélagsbanka á Íslandi