Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 5 ára.
Ýmir Björgvin Arthúrsson rekur fyrirtækið Magical Iceland sem býður ferðamönnum upp á skipulagðar matarferðir. Hann segir að tækifærin séu fjölmörg í matarferðamennsku.
Ýmir Björgvin Arthúrsson rekur fyrirtækið Magical Iceland sem býður ferðamönnum upp á skipulagðar matarferðir. Hann segir að tækifærin séu fjölmörg í matarferðamennsku.
Mynd / TB
Viðtal 31. júlí 2019

„Fiskurinn og búvörurnar eru gullið sem við eigum,“ segir Ýmir Björgvin matarleiðsögumaður

Höfundur: Tjörvi Bjarnason
Leiðsöguferðum þar sem matur er í aðal­hlutverki hefur vaxið fiskur um hrygg hér á landi síðustu ár. Ýmir Björgvin Arthúrsson rekur fyrirtækið Magical Iceland sem býður innlendum og erlendum ferðamönnum upp á skipulagða matartúra um sveit og borg. Hann segir að tækifærin séu fjölmörg í matarferðamennsku og hann hvetur bændur og aðra matvæla­framleiðendur til að grípa þau.
 
Ýmir er Kópavogsbúi að upplagi, fór í Menntaskólann við Hamrahlíð, síðan í heimspeki í háskóla hér á Íslandi og í Danmörku og tók svo MBA-gráðu í viðskiptum í Barcelona. 
 
„Áhugi minn á matargerð kviknaði í kringum árið 2000 þegar ég kom heim frá Spáni. Þá komst ég yfir Jamie Oliver-bók og byrjaði að elda eins og óður maður. Þetta var komið á það stig að það var biðröð í matarboð hjá mér og það var upphafið að því að ég ákvað að gera mat og matarferðamennsku að mínu lifibrauði.“
 

Matarferðaþjónusta gengur út á jákvæða matarupplifun og að kynnast sögunum á bakvið það hvernig maturinn verður til eða hvaða hefðir liggja þar að baki. Mynd / Magical Iceland
 
Opnuðu bókunarstofu og boltinn fór að rúlla
 
Skömmu fyrir gosið í Eyjafjallajökli opnuðu Ýmir Björgvin og Hrefna Ósk Benediktsdóttir, kona hans, bókunarstofu í Austurstræti þar sem þau seldu ferðamönnum túra um landsbyggðina. Það var í raun tilviljun að þau leiddust sjálf í leiðsögustörfin. 
 
„Ég var búinn að vera með opið í viku þegar það kemur fimm manna hópur inn um hádegisbil og þau spyrja mig hvort ég sé ekki með einhvern túr í boði þann daginn því þau fljúgi af landi brott snemma næsta morgun. Þá voru ekki neinar ferðir í boði nema á morgnana á Gullfoss og Geysi og annað í þeim dúr. 
 
Ég muldraði eitthvað fyrir munni mér og segi við þau að ef þau væru vinir mínir að utan þá myndi ég fara með þau seinni partinn upp í Reykjadal, skella okkur í bað í heitri á, grilla eitthvað og fá okkur rauðvín og ganga svo til baka. Þau fóru út frá mér en svo kom einn strákurinn aftur og spurði hvort þau mættu borga mér fyrir að vera vinur þeirra! Þar með byrjaði boltinn að rúlla. Ég var alveg til í að fara í Reykjadalinn, grilla og hafa það huggulegt. Ég gerði það og fór 2–3 skipti í hverri viku í þennan túr það sem eftir lifði sumars. Valdi í raun það fólk sem kom brosandi og hresst inn á bókunarskrifstofuna. Þetta var skemmtilegur tími og svo kom haustið og veturinn. Þetta spurðist út og fólk vildi meira,“ segir Ýmir. 
 

„Mínir gestir eru að leita eftir því að hitta lókal fólk og fá að tala við það – fá að heyra sögur. Það vill fá heiðarleg svör við spurningum sínum og fræðast um lífið í landinu,“ segir Ýmir Björgvin. Mynd / TB
 
Fyrirmyndin frá New York
 
„Fyrir um sex árum síðan sá ég umfjöllun í þættinum 60 minutes um „Fat Daves tour“ í New York. Það er leiðsögumaður á gamaldags sex manna bíl sem keyrir á milli hverfa og veitingastaða með ferðafólk. Hann var með gourmet-túra og þá kveikti ég á perunni. Ég ætlaði að vera Fat Dave Íslands! Ég hef haldið mig við þetta og sinnt nær eingöngu matartúrum síðan.“ 
 
Blómleg matarmenning
 
Ýmir segir að matarmenningin hafi blómstrað hér á Íslandi síðustu ár og matsölustöðum fjölgað hratt. Hann rifjar upp sem dæmi að víða á landsbyggðinni hafi verið langt á milli matsölustaða og þeir jafnvel lokaðir á veturna. 
 
„Þegar ég var að fara fyrstu túrana í leiðsögumennskunni þá var ekkert um auðugan garð að gresja. Eftir á að hyggja býr maður að ákveðinni reynslu eftir þetta. Þá fór maður að kynnast heimamönnum betur og læra hver væri að gera hvað. Ég fór á bæina og keypti mat beint af bændum. Fór t.d. og fékk hangikjöt á einum bæ og eitthvað annað á öðrum. Þá náttúrlega skiptir jafn miklu máli hvernig maturinn er og hvernig fólkið er, aðkoman og allt saman. Það er heildarupplifunin sem skiptir mestu máli og er kjarninn í því sem ég geri. Nú er það þannig að vinsælasti túrinn minn er í Reykjavík og kallast hann Reykjavík Food & Wine tour. Hann er rúmir fjórir klukkutímar og snýst um að koma við á veitingastöðum og njóta góðs matar. Fólk upplifir það að hitta eigendurna, tala við þá og við fáum kannski mat sem er ekki endilega á matseðlinum. Ég er sjálfur þannig að ég rekst illa með hjörðinni og þess vegna hef ég einsett mér að vera ekki með fleiri en 12 manns í hverjum túr. 
 
Bjórsmökkun á Public House í Reykja­vík. Mynd / Magical Iceland
 
Ég geri greinarmun á „túristum“ og „ferðamönnum“ en þeir síðarnefndu vilja gjarnan kynnast heimamönnum og tileinka sér eitthvað nýtt. Ferðamenn eru yfirleitt forvitnir og vilja hafa hlutina skemmtilega. Það þarf að passa upp á það,“ segir Ýmir. 
 
Hrefna Ósk Benediktsdóttir töfrar fram góðgæti fyrir ferðalanga í Gamla lóninu. Mynd / Magical Iceland
 
Innlendir ferðamenn nýta líka þjónustuna
 
Æ fleiri Íslendingar mæta í mat­artúrinn í Reykjavík að sögn Ýmis. „Þetta eru auðvitað mest útlendingar en það er rosalega gaman að sjá hvað Íslendingar eru farnir að sýna sig. Fyrst var ég logandi hræddur að fá þá í túrana því ég hélt að þeir vissu allt og hefðu prófað allt. Annað kom á daginn og það var auðvitað engin ástæða til að óttast þá!“
 
Matartúr um Suðurland
 
„Gourmet Golden“ heitir túr sem Ýmir fer um Suðurlandið. „Helstu staðirnir eru Hvammslaug eða Secret Lagoon, Friðheimar og Efstidalur. Í lóninu sýð ég egg í hver og býð upp á ýmislegt snakk sem er útbúið á staðnum. Þaðan förum við yfir í Friðheima og þar er sérsmíðaður smakkseðill fyrir gestina. Eftir Gullfoss og Geysi er haldið í Efstadal þar sem ferðafólkið fær frábæran mat og sérvalið rauðvín. Þennan túr hef ég verið með í 5–6 ár og hann hefur verið mjög vinsæll.“ 
 
Friðheimar í Bláskógabyggð bjóða upp á frábæra matarupplifun. Mynd / Magical Iceland
 
Það er athyglisvert að á TripAdvisor er fyrirtæki Ýmis, Magical Iceland, með fullt hús stiga í dómum gesta. „Ég er með rosalega kröfu­hart fólk í túrunum hjá mér. Það ætlast til að allt sé í topplagi. Góðir dómar á vefnum eru æðislegir en ég þakka þá vinum og samstarfsaðilum mínum sem við heimsækjum hverju sinni, bændunum í Friðheimum og Efstadal, Bjössa í Lauginni og öllum veitingamönnunum í Reykjavík og fleirum.“ 
 
Ýmir sýður egg við Gömlu laugina á Flúðum. Mynd / Magical Iceland
 
Fólk vill heyra söguna á bakvið matinn
 
Ýmir segir að sitt hlutverk sem leiðsögumanns sé að tengja fólk við áhugaverða einstaklinga og leiða það á skemmtilega staði. „Mínir gestir eru að leita eftir því að hitta lókal fólk og fá að tala við það – fá að heyra sögur. Það vill fá heiðarleg svör við spurningum sínum og fræðast um lífið í landinu. Ég var sjálfur kaupamaður í Hrepphólum í Hrunamannahreppi hjá Stebba og Kötu og get svarað spurningum um íslenskan búskap eins og hann var og eins og hann er í dag. Mínir ferðamenn eru að megninu til Ameríkanar sem komnir eru um og yfir fertugt. Þeir eru rosalega spenntir að heyra um búskap, hvernig hann er stundaður og hvers vegna. Fólki finnst gaman að hitta bændur og merkilegt að kynnast þeim. Þetta er svona alvöru Ísland!“
 
Ýmir segir að persónuleg samskipti við bændur séu verðmæt. „Ég borga ekki mínum vinum í sveitinni eða á veitingastaðnum fyrir að brosa og vera skemmtilegir. Þetta virkar ekki þannig. Ég rækta mín sambönd og það skilar sér, það er lykilatriði. Ég segi ekki mínu fólki hvað það á að segja. Þeim mun opnara sem fólk er því betra!“
 
Ferðamenn eru yfirleitt forvitnir og vilja hafa hlutina skemmtilega. Mynd / Magical Iceland
 
Hverjir steikja bestu kleinurnar?
 
Ýmir leggur áherslu á að menn séu persónulegir og segi söguna á bakvið framleiðsluna. „Finndu út í hverju þú ert góður og bjóddu upp á það. Ég mæli með að bændur tengi sig við ferðaþjónustuaðila. Það er ekkert auðvelt, hvað þá fyrir upptekna bændur, að markaðssetja sig í ferðaþjónustu. Það er nánast ógjörningur. Ég mæli því með því að bændur á hverju svæði fyrir sig finni út hverjir eru mestu sögumennirnir, hverjir hafa eitthvað að sýna, hverjir steikja bestu kleinurnar eða gera besta flatbrauðið. Reynið að tengja það saman og benda þeim aðilum sem eru að ferðast um svæðið á ykkar þjónustu.“
 
Einfalt og ódýrt að skrá sig á Tripadvisor
 
Ýmir segir að flestir ferðamenn keyri um landið á bílaleigubílum og þeir leita upplýsinga að langmestu leyti á netinu. „Ég mæli því með að þjónustuaðilar skrái sig á TripAdvisor til þess að koma sér á framfæri. Það er einfalt og ódýrt. Góð þjónusta er fljót að spyrjast út og þannig geta hjólin farið að snúast.“
 
Mynd / Magical Iceland
 
Hyggst koma Reykjanesi á matarkortið
 
Ýmir Björgvin er að byrja á nýju verkefni þessa dagana sem unnið er fyrir Markaðsstofu Reykjaness í samvinnu við Matarauð Íslands. „Ég er fenginn til þess að kort­leggja Reykjanesið matarlega séð. Bæði hvað veitingamenn eru að gera og hvað er hægt að kaupa beint af framleiðendum, t.d. í fiskeldi og fleiru. Markmiðið er að koma Reykjanesinu á kortið sem mat­ar­áfangastað. Hugmyndin er að í framtíðinni verði komnar fram vörur og þjónusta sem hægt er að mark­aðssetja fyrir ferðamenn, t.d. ákveðinn hringur sem farinn er með hópa. Reykjanesið er að mínum dómi eins og óslípaður demantur. Hvort sem við horfum á náttúruna, matinn eða staðsetninguna. Bláa lónið er orðið segull eins og Gullfoss og Geysir og það er augljóst að margir fara þangað. Þetta er spennandi jarð­vegur tækifæra, sérstaklega í matar­ferðamennsku sem er mjög vaxandi alls staðar í heiminum. Ég trúi því staðfastlega því upplifun tengd mat er svo skemmtileg. Fólk hefur þá hugmynd um Ísland að við eigum gott hráefni í mat og drykk. Fiskur­inn og búvörurnar eru gullið sem við eigum,“ segir Ýmir Björgvin Arthúrs­son matarleiðsögumaður.
 
Mynd / Magical Iceland
 
Skógarfura í Varmahlíð föngulegust
Fréttir 4. október 2024

Skógarfura í Varmahlíð föngulegust

Skógræktarfélag Íslands hefur valið skógarfuru í Varmahlíð tré ársins 2024.

Þrír forstjórar skipaðir fyrir nýjar ríkisstofnanir
Fréttir 4. október 2024

Þrír forstjórar skipaðir fyrir nýjar ríkisstofnanir

Nýlega voru skipaði þrír forstjórar fyrir nýjar ríkisstofnanir sem urðu til með ...

Eftirlíking af hálfri kú
Fréttir 4. október 2024

Eftirlíking af hálfri kú

Nautastöð Bændasamtaka Íslands tók á dögunum í notkun eftirlíkingu af kú sem er ...

Gagnrýna nýjar reglur um hollustuhætti
Fréttir 3. október 2024

Gagnrýna nýjar reglur um hollustuhætti

Heilbrigðisnefndir kringum landið hafa gagnrýnt skort á kynningu á nýrri regluge...

Aðgerðaáætlun gefin út
Fréttir 3. október 2024

Aðgerðaáætlun gefin út

Matvælaráðherra, Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, hefur gefið út aðgerðaáætlun fyrir...

Grasrótin gaumgæfir atvinnulíf og nýsköpun
Fréttir 3. október 2024

Grasrótin gaumgæfir atvinnulíf og nýsköpun

Verkefnið Vatnaskil á Austurlandi miðar að því að efla nýsköpun og stuðla að fjö...

Áburðarverkefni í uppnámi
Fréttir 3. október 2024

Áburðarverkefni í uppnámi

Áburðarverkefni í Syðra-Holti í Svarfaðardal, sem gengur út á moltugerð úr nærsa...

Aukinn innflutningur á lægri tollum
Fréttir 2. október 2024

Aukinn innflutningur á lægri tollum

Ekki er hægt að fá uppgefna þá aðila sem standa að baki innflutningi á landbúnað...