Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 5 ára.
Býflugur gegna lykilhlutverki við frjóvgun og viðhaldi nytjajurta sem og annarra jurtastofna. Án þeirra myndi ræktun og landbúnaður hrynja og þar með afkoma manna.
Býflugur gegna lykilhlutverki við frjóvgun og viðhaldi nytjajurta sem og annarra jurtastofna. Án þeirra myndi ræktun og landbúnaður hrynja og þar með afkoma manna.
Mynd / Anthidium
Fréttir 26. mars 2018

„Ef býflugurnar hverfa þá deyr mannkynið“

Höfundur: Hörður Kristjánsson
Þrjár tegundir eiturefna sem notaðar eru í landbúnaði í ríkjum Evrópusambandsins ógna nú verulega bæði villta býflugnastofninum sem og ræktuðum býflugum. Það eru niðurstöður mat­vælaöryggiseftirlits Evrópu (Europe’s food safety watchdog) að því er fram kom í frétt Reuters á síðasta degi febrúar 2018. 
 
Samkvæmt frétt Reuters er einkum um að ræða þrjár tegundir skordýra- og plöntueiturs sem valda því að býflugnastofninn eru í þeirri hættu að deyja hreinlega út. Að baki þessarar niðurstöðu liggja yfir 700 rannsóknir sem gerðar hafa verið á áhrifum efnanna klóþíanídín, imídaklópríð og þíametoxam sem eru í einu lagi nefnd neóníkótínóíðar. Á fínna máli er yfirleitt talað um „varnarefni“ í þessu sambandi. Eitrið veldur m.a. taugalömun og gerir flugurnar ófrjóar.
 
Eitruðum varnarefnum úðað á akra. 
 
Efni af þessum toga eru lítt eða ekki notuð í íslenskum landbúnaði. Í íslenskum gróðurhúsum hafa menn fremur farið þá leið að beita náttúrulegum vörnum. Þær felast í því að nota skordýr til að vinna á öðrum skaðlegum skordýrum sem herja á plöturnar. Þá veldur hitastigið á Íslandi því að mun minna er um skaðleg skordýr í jarðvegi en þekkist þar sem hitastigið er hærra.
 
„Ef býflugurnar hverfa eigum við aðeins fjögur ár eftir ólifuð”
 
Býflugur gegna lykilhlutverki við frjóvgun og viðhaldi nytjajurta sem og annarra jurtastofna. Án þeirra myndi ræktun og landbúnaður hrynja og þar með afkoma manna. Ekki ómerkari maður en eðlisfræðingurinn Albert Einstein gerði sér grein fyrir þessu og er sagður hafa sagt í byrjun fimmta áratugar síðustu aldar: 
 
„Ef býflugurnar hverfa af yfirborði jarðar mun mannkynið einungis eiga fjögur ár ólifuð. Ef það eru engar býflugur, þá mun engin frjóvgun eiga sér stað, engar plöntur vaxa, engin dýr lifa og heldur engir menn.“
[If the bee disappeared off the surface of the globe then man would only have four years of life left. No more bees, no more pollination, no more plants, no more animals, no more man.]
 
Einstein var þó trúlega ekki fyrstur til að fjalla opinberlega um mikilvægi býflugna á þennan hátt. Er þar m.a. nefndur til sögunnar Maurice Maeterlinck, sem gaf út sambærilega yfirlýsingu í bókinni „The Life of the Bee“ sem kom út 1901. 
 
Það kom hins vegar fram í franskri náttúrufræðigreiningu „La Vie des Bêtes et l’Ami des Bêtes“ í  maí 1965 að Einstein hefði hreinlega reiknað það út að mannkynið ætti einungis fjögur ár ólifuð ef býflugurnar hyrfu af yfirborði jarðar. Þar með var tilkall hans til þessara orða staðfest. 
 
Eðlisfræðingurinn Albert Einstein er sagður hafa reiknað það út að þegar býflugurnar væru horfnar af yfirborði jarðar ætti mannkynið einungis eftir fjögur ár eftir ólifuð. 
 
Náttúrufræðingurinn Charles Darwin mun einnig hafa komið inn á þetta í hinni byltingarkenndu bók sinni um uppruna tegundanna, „The Origin of Species“, sem kom út árið 1859. Þar benti hann á mikilvægi einstakra tegunda fyrir lífið á jörðinni. Taldi hann að mikilvægar plöntutegundir gætu dáið út ef býflugurnar hyrfu. 
 
Um orð þessara snillinga efast nú fáir en samt fá fjársterk risafyrirtæki enn að stýra mannkyninu í átt til þeirrar útrýmingar sem þessir sömu snillingar lýsa. 
 
Hættan viðurkennd en samt er haldið áfram að eitra fyrir flugunum
 
Frá árinu 2013 hefur ítrekað verið staðfest með rannsóknum að notkun eiturefna (e. pesticides) veldur dauða býflugnastofna. Staðfestir Jose Tarzona, yfirmaður matvælaöryggisyfirvalda Evrópu (The European Food Safety Authority ˗ EFSA) að rannsóknir sýni að efnin hafi einkum mikil áhrif á þrjár tegundir býflugna. Þrátt fyrir ítrekaðar rannsóknir og ályktanir ESB og alþjóðlegra stofnana um málið hefur EFSA í raun staðið gegn banni á eiturefni eins og glýfósat í landbúnaði og látið þar undan kröfum stórfyrirtækja sem framleiða slík efni eins og Monsanto og Syngenta. Reglugerð sem ESB setti 2013 til að taka á þessum vanda hefur reynst nær haldlaus. 
 
Franziska Achterberg, talsamaður Greenpeace í ESB ríkjunum, segir ríkin verði að leggja til fyrrnefnd eiturefni verði bönnuð til að koma í veg fyrir skelfilegt hrun í býflugnastofnunum.
 
Stjórnleysi ríkir í notkun eitraðra varnarefna
 
Eiturefnanotkun í landbúnaði meðal aðildarríkja Evrópusambandsins virðist vera meira og minna stjórnlaus ef marka má skýrslur ESB. Þar hafa verið gerðar úttektir á árangri af fjölda reglugerða og tilskipanna sem ætlað var að draga úr eiturefnanotkuninni, en árangurinn er lítill sem enginn.
 
Matvælaeftirlitskerfi ESB virðist heldur ekki hafa auðnast að knýja menn til að fara eftir reglugerðunum sem er þó bakgrunnur þeirra heilbrigðisvottorða sem gefin eru út, m.a. vegna matvæla sem flutt eru til Íslands.
 
Aukin viðkvæmni jurta er fylgifiskur einhæfrar ræktunar
 
Áætlað hefur verið að 67 þúsund afbrigði sjúkdóma herji á uppskeru bænda um allan heim. Nytjaplöntur virðast sífellt verða viðkvæmari fyrir þessum sjúkdómum í takt við einhæfari ræktunar og að mennirnir reyna að ná sem mestri uppskeru út úr hverri tegund. 
 
Til að koma í veg fyrir skaða af völdum sveppagróðurs, skordýra og plöntusjúkdóma hafa menn farið þá leið að nota stöðugt meira af eiturefnum og beita erfðatækninni í æ ríkara mæli. Gallinn er bara sá að þessar varnarráðstafanir hafa líka afar neikvæð áhrif á náttúruna. Þær valda líka vaxandi hættu fyrir heilsu fólks sem neytir matvæla sem unnar eru úr þessum jurtum og við neyslu kjötmetis af dýrum sem fóðraðar eru á slíkri uppskeru. 
 
Skrifræði ESB dugar skammt
 
Skriffinnar í Evrópusambandinu hafa greinilega haft nóg að gera við að útbúa alls konar reglugerðir og tilskipanir til að hafa hemil á beitingu eiturefna af ýmsum tog sem ætlað er að kveða niður óværuna sem herjar á nytjajurtirnar. Gallinn er bara sá að ansi fáir virðast lesa allt það sem skriffinnarnir senda frá sér og þar af leiðandi er lítið farið eftir því. Niðurstaðan er því hömlulaus notkun eitur- og varnarefna sem eru valda náttúru, mannfólki og dýrum miklum skaða. 
 
Í Bandaríkjunum hefur mest af eiturefnum fundist á jarðarberjum. 
 
Stjórnendur Evrópusambandsins eru greinilega farnir að hafa miklar áhyggjur af þessum málum ef marka má málþing sem búið er að blása til í Brussel þann 26. júní í sumar. Er þetta í annað sinn sem slíkt er gert og er titill málþingsins ansi veglegur eða: 
 
„2nd Symposium on the Future of Sustainable Agriculture in the EU: Assessing the Role of Pesticides and Biocides“
 
Í löndum Evrópusambandsins hefur verið reynt að hafa hemil á eiturefnanotkuninni í gegnum  reglugerð um plöntuvarnarefni eða „Regulation on Plant Protection Products,“ sem innleitt var 2009 og reglugerð um lífrænar afurðir „Regulation on Biocidal Products,“ sem innleiddar voru 2012. Var þessum reglugerðum ætlað að vera til verndar heilsu manna, dýra og umhverfis. Einnig var ætlunin að draga smám saman úr notkun hættulegra efna í landbúnaði. Meira regluverk hefur verið í gangi innan ESB sem miðar að sömu niðurstöðu en að því er virðist með afar döprum árangri. Þar er meira að segja um hreinar tilskipanir að ræða eins og tilskipun um sjálfbæra notkun „varnarefna“ „The Directive on Sustainable Use of Pesticides,“ frá 2009. Þessari tilskipun var ætlað að virkja stýrða notkun á eiturefnum „Integrated Pest Management (IPM),“ sem átti að leiða til upptöku sjálfbærari aðferða við plöntuvarnir.  Ekki nóg með það því á árinu 2015 lagði framkvæmdastjórn ESB fram lista yfir virk efni sem sambandsríkjunum var gert skylt að draga úr notkun á. 
 
Eins og að skvetta vatni á gæs
 
Ekki vantar því regluverk, tilskipanir ESB og beinar skipanir framkvæmdastjórnar, en það virðist hafa verið litlu áhrifaríkara en að skvetta vatni á gæs. Í skýrslu sem gerð var um árangur af þessum markmiðum og tilskipunum árið 2016 kom í ljós að þær voru ekki að virka eins og til stóð. Það sem meira er, enn frekari yfirferð á málunum og enn ein skýrslan sem gefin var út 2017 sýndi að aðildarríkin höfðu ekki fylgt þessum málum eftir. Meira að segja er ekki enn búið að útkljá í sumum aðildarríkjunum hvort þeim beri að innleiða reglugerðirnar sem framleiddar eru í stórum stíl í Brussel um þessu mál.
 
Stríðið við stórfyrirtækin um bann við glýfósati
 
Til að kóróna allt saman hefur verið uppi mikill tvískinnungur innan sambandsins allt frá árinu 2015 um bann sem þá átti að innleiða við notkun á eiturefninu glýfósat, en hefur ítrekað verið frestað. Á bak við þær frestanir eru gríðarleg pressa frá risafyrirtækjunum sem framleiða slík efni þar sem Monsanto, Bayer AG, DuPont og Syngenta hafa verið í fararbroddi gegn banni. Leiddi það til þess að banni við notkun á glýfósati í landbúnaði í ríkjum ESB var enn frestað um fimm ár í desember 2017. Hafa fyrirtækin eytt gríðarlegum peningaupphæðum gegn banninu. Voru matvælaöryggisyfirvöld Evrópusambandsins „EFSA“, þar á öndverðum meiði við alþjóðlegu krabbameinsrannsóknarstofnunina „IARC“ sem vildi láta banna notkunina. 
 
Rannsóknir sýna fram á skaðsemi efnanna á heilsu manna
 
Meðan þessi botnlausi vandræðagangur er innan Evrópusambandsins fer umræðan vaxandi um allan heim um skaðann af notkun eiturefna við ræktun nytjajurta. 
 
Hinn 15. ágúst 2017 var birt grein í Medical Xpress þar sem fjallað var um skaðsemi af notkun eiturefna í landbúnaði. Var þar vísað til skýrslu Berkeley-háskóla sem sýni að börn á landbúnaðarsvæði í Salinasdalnum þjáðust af heilsuleysi sem tengt var við notkun eiturefna í landbúnaði. Var þar einkum talað um lungnaskaða og aukna tíðni asma í börnum sem voru innan kílómetra frá þeim svæðum sem verið var að úða eiturefnum og dreifa áburði. Þar var einnig minnst á skaðleg áhrif af brennisteini á börn og landbúnaðarstarfsmenn.  Bent var á að 21 milljón kílóa af hreinum brennisteini hefði verið í efnum sem notuð voru í landbúnaði í Kaliforníu á árinu 2013. Brennisteinn hefði mikið verið notaður í efnablöndur vegna þess að hann væri talinn lítt skaðlegur fyrir fólk. 
 
 
Í ágúst 2017 bárust fréttir notkun eiturefna í kjúklingabúum í Hollandi og bann við dreifingu eggja sem innihéldu eiturefni úr svokölluðum „plöntuvarnarefnum“.
 
Honn 19. október 2017 var frétt í The Times of India um að sjö banvæn eiturefni sem búið væri að banna á heimsvísu væru enn notuð við landbúnaðarframleiðslu á Indlandi. Varð andlát bónda í Yavatmal-héraði sem lést af eitrun slíkra efna kveikjan að þeirri frétt. Í kjölfar andlátsins birti umhverfisvísindastofnun í Delhí lista yfir sjö mjög hættuleg efni sem enn væri verið að nota í indverskum landbúnaði til að drepa óværu sem herjaði á jurtir og til eyðingar á illgresi.
 
Yfir 20 tegundir eiturefna á jarðarberjum í Bandaríkjunum
 
Hinn 30. október 2017 birti sjónvarpsstöðin CNN frétt um lista yfir óhreinu afurðirnar í ræktun ávaxta og grænmetis í Bandaríkjunum. Þar kom fram að jarðarberin trónuðu á toppi þess vafasama lista. Í einu sýni af jarðarberjum fundust yfir 20 tegundir eiturefna. 
 
Rannsókn staðfestir að eitruð varnarefni valda ófrjósemi hjá mannfólkinu
 
Er þetta litið mjög alvarlegum augum þar sem ávextir og grænmeti eru talin mikilvæg í fæðu kvenna á meðgöngutíma. Hafði mikil neysla grænmetis og ávaxta einmitt verið tengd ófrjósemi kvenna í rannsóknum á konum sem áttu í erfiðleikum með að eignast börn. Er þar vísað í rannsókn sem birtist í tímaritinu JAMA International Medicine 27. október 2017.
 
Bent er á í frétt CNN að varnarefnin svokölluðu [e. pesticides] séu óværudrepandi efni sem oft sé úðað yfir ávaxtaræktun og grænmeti til að reyna að verja uppskeruna fyrir myglu, skaðlegum sveppagróðri, rotnun, illgresi og skordýrum. Vaxandi áhyggjur séu nú yfir að notkun þessara efna tengist bráðatilfellum í heilsutjóni fólks. 
 
Vitnað er í doktor Yu-Han Chiu sem starfar við næringar­efnafræðideild Harvard T.H. Chan School of Public Health. Hann sagði m.a.:
 
„Það hafa verið uppi áhyggjur af því í nokkurn tíma að ef fólk kemst í snertingu við jafnvel mjög litla skammta af þessum varnarefnum [eiturefnum], eins og rannsóknir sýna, þá geti það haft neikvæð áhrif á heilsu manna. Einkum hjá ákveðnum hópum eins og óléttum konum. Á fóstur og stálpuð börn. Okkar rannsóknir sýna að þessar áhyggjur eru ekki ástæðulausar.“
 
Í rannsókninni sem tóku þátt 235 konur á aldrinum 18 til 45 ára sem voru að undirgangast frjósemismeðferð á almenningssjúkrahúsi í Massachusetts. Farið var vandlega í gegnum matarræði kvennanna og metið hversu mikið af eiturefnum konurnar höfðu innbirt við neyslu ávaxta og grænmetis. Var þar stuðst við opinberar tölur um notkun þessara efna frá landbúnaðarráðuneyti Bandaríkjanna og samkvæmt notkunaráætlun þar sem fylgst er með notkun slíkra efna um öll Bandaríkin. 
 
Hátt hlutfall eiturefna í ávaxtarækt
 
Þarna kom fram að tiltölulega lágt hlutfall eiturefna fannst á lárperum (avókadó), lauk, þurrkuðum plómum eða sveskjum, korni og í appelsínusafa. Hins vegar mældist hátt hlutfall í ferskum plómum, ferskjum, jarðarberjum sem og í spínati og piparávöxtum. 
 
Enn sterkari eitur fyrir erfðabreytt soja
 
Þrátt fyrir staðreyndirnar um skaðsemi efnanna halda stór­fyrirtækin áfram baráttu sinni fyrir innleiðingu jafnvel enn skaðlegri efna. Þann 12. desember 2017 birti Reuters frétt um að Monsanto hefði boðið bændum peningagreiðslu sem næmi helmingsverðmæti sojabaunauppskeru þeirra. Það eina sem þeir þurftu að gera var að leggja fram sannanir fyrir því að þeir hefðu úðað sojaakra sína sem ræktaðir eru upp af erfðabreytta afbrigðinu XtendiMax með eitraða varnarefninu VaporGrip. 
 
Það efni er byggt á eiturefninu Dicamba (3,6-díklóró-2-metoxýbensósýra) sem er sagt mun sterkara efni en Roundup sem byggir á hinu virka eiturefni glýfósat. Í fréttinni var sagt að Monsanto hefði í kyrrþey fjárfest fyrir um 1 milljarð dollara í framleiðslu á efnum sem byggðar eru á notkun Decamba. 
 
Decamba inniheldur efnið 2,4D (2,4-díklórófenoxýediksýra) sem einnig er kallað Agent Orange og var notað að bandaríska hernum til að eyða skógum í Víetnamstríðinu. Erfðabreytta sojaafbrigðinu er ætlað að þola slíkt eitur. Yfir 1.100 „varnarefni“ sem innihalda Decamba  eru nú sögð komin á markað í Bandaríkjunum. 
 
Neysla mengaðra ávaxta og grænmetis hættuleg ófrískum konum
 
Rannsóknin sýndi að konur sem borðuðu meira en  2,3 skammta  á dag af ávöxtum eða grænmeti sem innihélt mikið af eiturefnum höfðu 18% minni líkur á að geta orðið óléttar en þær sem borðuðu minna en einn skammt á dag. Þá voru 26% minni líkur hjá þeim á að geta fætt lifandi barn en hinna sem neyttu eiturefnamenguðu ávaxtanna í litlum mæli. 
 
„Allavega fundum við út að inntaka á mikið menguðum ávöxtum og grænmeti tengist beint minni frjósemi og árangri við að fjölga sér,“ sagði Yu-Han Chiu. 
 
Hann segir skynsamlegt í ljósi þessara rannsókna að fólk forðist neyslu mengaðra ávaxta og grænmetis. Annar kostur sé að leita uppi lífrænt ræktaða ávexti og grænmeti. 
 
„Það er mjög mikilvægt að hafa það í huga að þetta er í fyrsta sinn sem svona tengsl [um áhrif neyslu mengaðra ávaxta og grænmetis á meðgöngu] eru staðfest. Það er því afar mikilvægt að okkar niðurstöður verði metnar í endurteknum rannsóknum.“
 
Varnarefni verði rannsökuð og meðhöndluð ekki síður en eiturlyf
 
Dr. Philip Landrigan, deildarstjóri við Icahn School of Medicine at Mount Sinai fjallar um rannsókn JAMA Internal Medicine og segir hann m.a.:
 
„Við höfum ekki lengur efni á að álykta sem svo að ný varnarefni séu hættulaus heilsu manna fyrr það er örugglega sannað að þau valdi fólki engum skaða. Við verðum að þora að takast á við framgöngu framleiðenda, viðurkenna dulinn kostnað af lélegu regluverki. Einnig að efla kröfur bæði varðandi prófanir á nýjum efnum sem og á eftirmarkaði og vegna snertinga fólks við slík efni. ˗ Rétt eins og við gerum varðandi aðra líffræðilega virka efnaflokka eins og eiturlyf.“  
 
Í ljósi þessa hljóta menn í framhaldinu að spyrja sig um virkni opinbers eftirlits með innflutningi ávaxta og grænmetis til Íslands. Ekki síst varðandi innflutning á jarðarberjum í ljósi gríðarlegrar sölu hinnar nýju verslunar Costco á jarðarberjum á sínu fyrsta starfsári á Íslandi.  
Framleiðsla á náttúrulegum plöntuvarnarefnum
Fréttir 28. september 2023

Framleiðsla á náttúrulegum plöntuvarnarefnum

Algalíf, íslenska líftæknifyrirtækið, stefnir á að hasla sér völl í framleiðslu ...

Innviðauppbygging til 2025
Fréttir 28. september 2023

Innviðauppbygging til 2025

Fara á í 127 verkefni fram til ársins 2025 við uppbyggingu innviða til að mæta á...

Samfélagsleg ábyrgð í forgrunni
Fréttir 28. september 2023

Samfélagsleg ábyrgð í forgrunni

Sjávarútvegsráðstefnan 2023 verður haldin 2.–3. nóvember í Hörpu. Áhersluatriði ...

Heilt sumar eyðilagt hjá geitabóndanum Höllu
Fréttir 27. september 2023

Heilt sumar eyðilagt hjá geitabóndanum Höllu

Í síðasta tölublaði Bændablaðsins greindum við frá því að Halla Sigríður Steinól...

Vex fiskur um hrygg í rannsóknum, tilraunum og erlendu samstarfi
Fréttir 26. september 2023

Vex fiskur um hrygg í rannsóknum, tilraunum og erlendu samstarfi

Nemendur Landbúnaðarháskóla Íslands vinna fjölbreyttar rannsóknir og tilraunaver...

2.500 tonna kornþurrkstöð borgi sig frekar
Fréttir 26. september 2023

2.500 tonna kornþurrkstöð borgi sig frekar

25 af 33 eyfirskum bændum sem spurðir voru, sögðu að þeir myndu myndu nýta sér k...

Lífræni dagurinn haldinn hátíðlegur í Kaffi Flóru
Fréttir 25. september 2023

Lífræni dagurinn haldinn hátíðlegur í Kaffi Flóru

Lífræni dagurinn var haldinn hátíðlegur víðs vegar um landið laugardaginn 16. se...

Ágúst verður forstöðumaður
Fréttir 25. september 2023

Ágúst verður forstöðumaður

Ágúst Sigurðsson hefur verið skipaður forstöðumaður Lands og skógar, nýrrar stof...