Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 3 ára.
Ingvi Stefánsson, svínabóndi á Teigi og formaður Félags svínabænda, hér á Búnaðarþingi 2021.
Ingvi Stefánsson, svínabóndi á Teigi og formaður Félags svínabænda, hér á Búnaðarþingi 2021.
Mynd / HKr
Líf og starf 23. apríl 2021

Salan aldrei meiri hjá svínabændum en afkoman lök

Höfundur: smh

Samkvæmt tölum úr atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu um framleiðslu og sölu á kjöti á síðasta ári, seldist svínakjöt meira en kindakjöt frá afurðastöðvum – en það er fyrsta skipti sem slíkt gerist. Enn er alifuglakjöt afgerandi mest selda tegundin á Íslandi þótt salan hafi dregist saman um 7,7 prósent á síðasta ári frá 2019. Svínakjötssala jókst um 4,4 prósent frá 2019 og er í raun eina kjöttegundin þar sem sala eykst. Ingvi Stefánsson, formaður Félags svínabænda, telur að greinin eigi enn nokkuð inni og segir þróunina hér vera í takti við nágrannaþjóðir okkar.

Svínaræktin á Íslandi hefur tekið miklum stakkaskiptum á undanförnum árum; mikil hagræðing hefur orðið með gríðarlegri fækkun búa frá 1990 og árið 2014 tóku gildi reglur um hertar aðbúnaðarkröfur á svínabúum sem svínabændur hafa unnið að á undanförnum árum með tilheyrandi breytingum á húsakosti. Ímynd greinarinnar skaddaðist um tíma eftir útkomu eftirlitsskýrslu Matvælastofnunar í mars 2015 sem afhjúpaði slæman aðbúnað á gyltubúum í einhverjum tilvikum.

Mikið og gott átak í aðbúnaðarmálum

„Ég er ekki dómbær á það hvaða augum neytendur líta okkur í dag en get þó fullyrt að mikið og gott átak hefur verið unnið bæði í aðbúnaðarmálum og velferðarmálum inni á búunum, eftirlitsskýrslur Matvælastofnunar hafa einnig sýnt það. Þannig tel ég greinina standa mun sterkari á eftir,“ segir Ingvi, spurður um hvernig svínabændur hafi komist frá þessari neikvæðu umræðu.

Hann segir að veigamestu aðbúnaðarbreytingarnar snúist um lausagöngu gyltna og stærri stíur. „Ég vil leyfa mér að segja að þetta séu lang umfangsmestu breytingar sem greinin hefur nokkurn tíma staðið frammi fyrir. Til að setja þetta í samhengi hef ég stundum sagt að þetta væri svipað og að útgerðinni yrði gert að fjáfesta fyrir ríflega ársveltu og eftir þær breytingar myndu afköstin minnka um 30 prósent, bara svona til að gefa einhverja innsýn inn í stærðirnar. Greinin hefur frest að hámarki út árið 2024 til að taka upp lausagöngu í gotstíum og breyta eldisgrísadeildum.

Bændum var gefinn mun skemmri tími til að breyta geldstöðuhúsum, eða meðgöngudeildunum, og það var í raun ótrúlegt hvað það verkefni lukkaðist vel miðað við tímarammann sem var gefinn,“ segir Ingvi.

Mikil fækkun búa

Í dag eru einungis ríflega 20 svínabú eftir á landinu, sem er að sögn Ingva afleiðing mikillar hagræðingar greinarinnar. „Það hefur verið svipuð þróun hjá okkur og í öðrum búgreinum, það hefur verið mikil hagræðingarkrafa í okkar búgrein. Þegar mest var, rétt fyrir 1990, voru vel á annað hundrað svínabú á landinu og þá mörg af þeim með blandaðan búrekstur. Um aldamótin voru svínabúin um 40 en í dag er stunduð svínarækt á ríflega 20 lögbýlum. Þrátt fyrir þessa fækkun svínabúa hefur framleiðsla og neysla verið að aukast sífellt,“ segir hann.

Fyrir nokkrum árum setti Svína­ræktar­félag Íslands, sem var eldra heiti Félags svínabænda, af stað tilraunaverkefni um vistvæna grísi þar sem markmiðið var meðal annars að gera starfsemi greinarinnar meira sýnilega í sveitum landsins á opnum útisvæðum. Allnokkrir bændur gripu tækifærið til að prófa slíkt grísaeldi þar sem félagið lagði grísina til. Þegar Ingvi er spurður um hvort ekki hafi verið grundvöllur fyrir framhald á slíku verkefni segir hann að svo hafi ekki verið. „Þetta var tilraun þar sem við auglýstum eftir aðilum til að rækta grísi úti. Eðli málsins samkvæmt getur það verið ansi snúið hér á Íslandi. Þannig náði þessi tilraun aldrei góðu flugi. Ég er samt bjartsýnn á að þetta sé eitthvað sem komi til með að aukast aftur,“ segir hann.

Óhressir með leikreglurnar

Óhætt er að segja að íslenskir svínabændur hafi á stundum verið í markaðslegum ólgusjó, þar sem hörð samkeppni ríkir innanlands og við innflutt kjöt; í tolla- og stuðningskerfi sem þeim finnst harla óhagstætt. „Já, það er rétt, við erum verulega óhressir með þær leikreglur sem pólitíkin hefur verið að setja okkur á síðustu misserum og ekki hægt að tala um annað en að þar sé mikill tvískinnungur í gangi. Þá á ég við að á sama tíma og okkur er gert að uppfylla eitt metnaðarfyllsta regluverk í heimi þegar kemur að dýravelferð er sífellt verið að rýra tollverndina.

Að sjálfsögðu viljum við sífellt vera á tánum þegar kemur að dýravelferð. En það blasir jafnframt við að við getum ekki keppt við þjóðir þar sem mun minni kröfur eru gerðar í dýravelferðarmálum og sýklalyfjanotkun er tugföld í samanburði við okkur. Það er alveg nógu krefjandi að stunda það sem ESB skilgreinir sem heimskautalandbúnað í landi með mjög mikinn kaupmátt án þess að þurfa einnig að takast á við síminnkandi tollvernd og skakka samkeppni.

Síðasta árið lakasta árið afkomulega

Ingvi segir fögnuð svínabænda vera hófstilltan vegna þeirrar stöðu að vera komnir fram úr sauðfjárbændum í sölu, því ýmsar blikur séu þrátt fyrir allt á lofti fyrir afkomu greinarinnar.

„Staðan hér á landi í lamba­kjötssölu hefur auðvitað verið alveg einstök og því tóku margir eftir því þegar við tókum fram úr. Það var ekki spurning um hvort heldur hvenær það myndi gerast. Þetta er bara þróunin og ég tel að hún muni halda áfram. Ég tel reyndar að svínakjötið eigi enn talsvert inni og samanburður við nágrannaþjóðir styður við það. Verkefnið fram undan hjá okkur hlýtur að vera að auka hlutdeild innlendu framleiðslunnar á kostnað innflutnings. Áhrifin af COVID hafa helst verið þau að fóður hefur hækkað umtalsvert, auk þess sem verð til bænda hefur einnig lækkað. Þannig reikna ég með að árið 2020 verði lakasta árið afkomulega séð í ansi langan tíma.“

Þrátt fyrir versta ár svínabænda afkomulega á síðasta ári í langan tíma er Ingvi bjartsýnn.

Aukin innlend fæðuöflun

Ingvi telur að þrátt fyrir allt sé margt sem bendi til að greinin eigi eftir að vaxa og dafna á komandi árum. „Rökin fyrir því eru helst þau að við erum að framleiða heilnæma og góða vöru, sjúkdómastaðan er einstök og við erum lausir við ýmsar pestir sem herja á kollega okkar til dæmis í Evrópu. Í mínum huga eru tvö lykilmál fram undan til þess að greinin geti þrifist áfram og dafnað. Annars vegar er það aukin innlend fæðuöflun. Við sem þjóð og eyríki norður í Atlantshafi verðum að fara að taka miklu stærri skref í að auka fæðuöryggi, einn liðurinn í því er aukin kornrækt. Við verðum líka að horfast í augu við kolefnismálin í þessu samhengi og þar sé ég miklu meira af tækifærum heldur en ógnunum fyrir íslenskan landbúnað.

Hitt málið sem ég vil nefna er blessuð tollverndin. Ég hef aldrei skilið af hverju bændur eru svona feimnir við að setja hana á oddinn og ræða opinskátt um tilgang hennar, bæði við pólitíkina og neytendur. Ef við meinum eitthvað með því að stunda öflugan landbúnað verðum við að hafa tollvernd, svo einfalt er það. Hvernig er hægt að slá því upp sem einhverri frétt að matvælaverð hér sé með því hæsta í heimi, eins og ítrekað er gert; ég bara spyr: hver er fréttin? Nú er vitað að verðlag í hverju landi ákvarðast út frá kaupmætti.

Þannig birti Viðskiptaráð skýrslu í lok janúar síðastliðnum sem sýndi sæti Íslands í kaupmætti eftir mismunandi ráðstöfunarflokkum til samanburðar við 33 ríki ESB. Ísland raðar sér í 2. sæti þegar kemur að kaupmætti fyrir mat- og drykkjarvörur. Á sama tíma erum við einungis í fjórða sæti þegar kemur að fatnaði og skóm. Áhugaverður samanburður, sérstaklega þegar haft er í huga að engir tollar eru á fatnaði og skóm. Þannig sjáum við að mýtan um hátt matvælaverð á Íslandi á sér ekki stoð í raunveruleikanum. Ég tel að þarna fari hagsmunir bænda og neytenda til lengri tíma saman. Innlend framleiðsla á að fá samkeppni frá innflutningi en hún þarf að vera sanngjörn. Ef of mikið er gefið eftir í tollverndinni er hættan sú að innlenda framleiðslan minnki mjög mikið og jafnvel hverfi. Varla geta það verið hagsmunir neytenda til lengri tíma litið að stóla á örlæti innflytjenda og því að þeir skili evrópsku matvælaverði hingað upp á klakann.“

Safnað fyrir Einstök börn
Líf og starf 26. apríl 2024

Safnað fyrir Einstök börn

Stóðhestaveisla Eiðfaxa var haldin 13. apríl í HorseDay-höllinni á Ingólfshvoli ...

Umhverfisvænar blómaskreytingar
Líf og starf 25. apríl 2024

Umhverfisvænar blómaskreytingar

Náttúruleg fegurð var í fyrirrúmi á námskeiði um blómaskreytingar í Garðyrkjuskó...

Sumardagurinn fyrsti
Líf og starf 25. apríl 2024

Sumardagurinn fyrsti

Samkvæmt dagatalinu kemur sumarið 25. apríl. Bændablaðið leitaði því til lesenda...

Lóan
Líf og starf 23. apríl 2024

Lóan

Lóan er komin! Um þessar mundir eru heiðlóur að tínast til landsins en apríl er ...

Jöklapeysur úr íslenskum lopa
Líf og starf 23. apríl 2024

Jöklapeysur úr íslenskum lopa

Mjólkurfræðingurinn og frumkvöðullinn Pétur Pétursson setur nú á fót hönnunarsam...

Að höndla sér hross til reiðar
Líf og starf 22. apríl 2024

Að höndla sér hross til reiðar

Orðsins list kemur að þessu sinni úr Íslendingasögunum.

Sigurður í Pylsumeistaranum er Kjötmeistari Íslands
Líf og starf 16. apríl 2024

Sigurður í Pylsumeistaranum er Kjötmeistari Íslands

Sigurður Haraldsson í Pylsumeistaranum var krýndur Kjötmeistari Íslands í fagkep...

Paella með skelfiski
Líf og starf 16. apríl 2024

Paella með skelfiski

Paella er einfaldur réttur og til í ýmsum útgáfum, grunnurinn þó alltaf sá sami ...