Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 1 árs.
Á Melum starfrækir sonur Guðjóns Birgissonar og Sigríðar Helgu Karlsdóttur, Birgir Guðjónsson, ásamt eiginkonu sinni, Steinunni Jónsdóttur, Litlu bændabúðina en þar eru seldar vörur garðyrkjustöðvarinnar ásamt afurðum beint frá bændum og smáframleiðendum, s.s. kjöt, hrossabjúgu, kryddjurtir, mjólk, ber, sælgæti, sultur og súrkál. Vöruúrvalið byggir á uppskeru og framboði á hverjum tíma.
Á Melum starfrækir sonur Guðjóns Birgissonar og Sigríðar Helgu Karlsdóttur, Birgir Guðjónsson, ásamt eiginkonu sinni, Steinunni Jónsdóttur, Litlu bændabúðina en þar eru seldar vörur garðyrkjustöðvarinnar ásamt afurðum beint frá bændum og smáframleiðendum, s.s. kjöt, hrossabjúgu, kryddjurtir, mjólk, ber, sælgæti, sultur og súrkál. Vöruúrvalið byggir á uppskeru og framboði á hverjum tíma.
Mynd / ghp
Líf og starf 2. júní 2022

Bjartsýnir garðyrkjubændur með stáltaugar

Höfundur: Guðrún Hulda Pálsdóttir

Guðjón Birgisson og Sigríður Helga Karlsdóttir á garðyrkju- stöðinni Melum á Flúðum í Hrunamannahreppi hafa marga fjöruna sopið.

Þau byggðu sitt fyrsta gróðurhús liðlega tvítug að aldri, voru fyrst bænda í Evrópu til að rækta tómata undir lýsingu og undanfarin ár verið langstærsti einstaki ræktandi blómkáls á landinu.

Tólf ára gamall réði Kópa­vogsbúinn Guðjón sig í vinnu hjá Einari Hallgríms og Sigurbjörgu Hreiðarsdóttur í Garði.

„Þá gátu foreldrar, sem vildu að börnin sín færu í sveit, skráð þau gegnum Ráðningarstofu landbúnaðarins. Bændur hringdu inn og báðu um vinnuafl. Þannig kom ég hingað í sveitina og lærði mjög mikið af Einari og Sigurbjörgu,“ segir Guðjón en strax eftir grunnskólagöngu lá leið hans í Garðyrkjuskólann. Hann starfaði þó öll sumur í Hrunamannahreppnum og þar kynntust þau Helga. Hjónin hafa unnið samhliða alla tíð síðan og eiga þau fjögur uppkomin börn.

 „Við stofnum garðyrkjustöðina árið 1980, ég 21 árs og Helga 22 ára, og byrjuðum að byggja fyrsta gróðurhúsið um haustið 1980

Það var 900 fermetrar og fannst nágrönnum okkar þetta svo stórtækt að við þyrftum aldrei að byggja meira.“

En tímarnir hafa breyst mikið á fjörutíu árum og húsunum fjölgað með. Í dag rækta Melabændur grænmeti í rúmlega 5.000 fermetrum af upphituðum gróðurhúsum. Þar má finna tómata, gúrkur, paprikur, salat, kryddplöntur og grænkál.

Blómkálsbomban

Útiræktunin bætist svo við yfir sumartímann. Þar er blómkáls­ræktunin umfangsmest enda hefur eftirspurn eftir afurðinni verið ævintýraleg síðustu misseri sökum mataræðisbreytinga neytenda. Í fyrra komu rúm 50 af þeim 98 tonnum sem framleidd voru hér á landi frá framleiðslu Guðjóns og Helgu.

„Ég man að heildarsalan hjá öllum ræktundum fyrir svona 20 árum voru um 900 kassar á viku. Í fyrra lagði ég inn um 800-1200 kassa á viku og annað eins í hverri viku þá tvo mánuði sem við gátum uppskorið. Það var mjög lítið um afföll, það seldist eiginlega allt,“ segir Guðjón.

Jafnframt framleiða Melar ýmsar tegundir af káli, svo sem hvítkál, rauðkál, rófur, hnúðkál, spergilkál og kínakál. Fyrstu árin lögðu þau minna en einn hektara undir útiræktun en mest hafa þau ræktað í 14 hektörum. Í fyrra var ræktað í 5,7 hekturum en í ár hyggur Guðjón á verulega minnkun á framleiðslu blómkáls. Í staðinn ætlar hann að auka við kínakálið.

„Blómkálið er vinnufrekt og viðkvæmt í ræktun en kínakálið er auðveldara. Ég ætla að sjá hvort það gangi upp fyrir reksturinn að minnka umfang og álag á okkur hjónin,“ segir Guðjón, en þau Helga tóku fyrstu árin aldrei lengra frí en langa helgi. Nú hafa fríin lengst vegna tækninýjunga og frábærra starfsmanna. Guðjón segir því tímabært að fara að hægja aðeins á og fjölga frídögunum. „Við eigum örugglega inni sumarleyfisdaga sem endist út ævina.“

Umbylting og framfarir

Á þeim rúmum 40 árum sem Guðjón og Helga hafa starfað sem garðyrkjubændur hefur ótal margt átt sér stað í starfsumhverfinu.

Í fyrsta lagi hafa aðstæður til útiræktunar tekið stakkaskiptum. Með lengri sumrum tognar úr vaxtarskeiði útiræktaðra afurða og því fylgja möguleikar á fleiri afbrigðum í öllum tegundum þess grænmetis.

Á Melum eru framleiddar um 10% af gúrkum landsins.

„Veðurfarið er bara allt annað en það var fyrir 30–40 árum síðan. Sumrin eru lengri og hlýrri. Fyrir tuttugu árum var frost 1. maí og tímabilinu lauk 15. september því þá var aftur komið frost. Núna er tímabilið hálft ár og maður nokkuð rólegur fram að 15. október.“

Þá hafa gífurlegar tækniumbætur átt sér stað, framfarir sem Guðjón og Helga hafa átt stóran þátt í.

„Ég er verulega nýjungagjarn og hef alltaf viljað prófa það nýjasta sem er í gangi. Þetta er til dæmis fyrsta einkarekna stöðin í Evrópu sem ræktaði tómata með lýsingu.“

Árið 1994 framkvæmdu þau hjónin tilraun í samstarfi við Rarik, Samband garðyrkjubænda og fleiri aðila um að rækta tómata undir ljósum að vetri til.

„Í Garðyrkjuskólanum höfðu verið gerðar tilraunir með lýsingu tómatplantna á árunum 1977–1978, en þá var kunnáttan ekki meiri en svo að notuð voru 50 watta ljós. Ég gerði tilraun með 160 wött og þá tókst ræktunin sæmilega. Í dag eru tómatar ræktaðir með 250 wöttum,“ segir Guðjón, en ylrækt undir ljósum er í dag grundvöllur tómataræktunar hér á landi sem og víðar í Norður-Evrópu.

Tækniframfarir eru hægari í útiræktun og því enn afar mannfrek framleiðsla.

„Þegar við Helga byrjuðum notuðum við alla páska til að prikla eftir að hafa sáð í bakka. Svo gengum við bogin um garðana og plöntuðum. Nú er fljótlegt að sá með sáðvél. Plöntunin er einnig vélræn en það þarf reyndar sex til sjö manns í verkið,“ segir Guðjón, en þegar afurðin er tilbúin þarf að handskera hvern einasta kálhaus upp. Hann segist þurfa sex auka starfsmenn þá sex mánuði sem útiræktunin fer fram.

„Til eru vélar sem skera kál erlendis. En þar sem jörðin hér er kaldari verður stilkurinn styttri svo vélin nær ekki að skera.“

Vinsælir á fjögurra ára fresti

Guðjón sér bjarta tíma fram undan í íslenskri garðyrkjuframleiðslu enda séu afurðirnar góðar, heilnæmar og ræktaðar án eiturefna, sem ættu að vera eftirsóknarverðir eiginleikar fæðu. Það sem háir aukningu í ylræktarframleiðslu er að sögn Guðjóns raforkuverð, tíðrætt málefni sem dúkkar upp reglulega á vettvangi stjórnmálanna.

„Okkur var lofað fullum endurgreiðslum af flutningi, eins og alltaf fyrir kosningar. Enn vantar upp á 20% og athugið að þetta er bara flutningurinn, ekki magnið. Við erum að borga samkvæmt sömu gjaldskrá og heimilin, sem er galið.

Ég er með tvær heimtaugar sem ég er örugglega búinn að borga upp 30 sinnum. En stjórnmálamenn gleyma okkur fljótt, svo skjóta þeir aftur upp kollinum í umræðunni um málefnið hálfu ári fyrir næstu kosningar.

Þá verðum við mjög vinsælir,“ segir Guðjón, sem fær 5–6 milljóna króna rafmagnsreikning í hverjum mánuði.

Guðjón og Helga rækta þrjár tegundir af tómötum; stærst eru þau í litlum heilsutómötum en auk þeirra rækta þau gula kirsuberjatómata og stærri hefðbundnari tómata.

Bjartsýnin borgar sig

Á Melum starfrækir sonur hjónanna, Birgir, ásamt eiginkonu sinni, Steinunni Jónsdóttur, Litlu bændabúðina, en þar eru seldar vörur garðyrkjustöðvarinnar ásamt afurðum beint frá bændum og smáframleiðendum, s.s. kjöt, hrossabjúgu, kryddjurtir, mjólk, ber, sælgæti, sultur og súrkál. Vöruúrvalið byggir á uppskeru og framboði á hverjum tíma.

Guðjón unir sér best í ræktuninni sjálfri enda þekkir hann lítið annað. „Einhver er ástæðan fyrir því að ég er búinn að hanga í þessu starfi í 52 ár. Það eina sem ég hef unnið í lífinu, annað en í garðyrkju, eru fjórir mánuðir hjá trésmið. En að vera garðyrkjubóndi er mjög fjölbreytt starf og skemmtilegt. Maður þarf að vera píparinn, rafvirkinn og smiðurinn, annars gengur þetta ekki upp. En ég hef alltaf haft gaman af þessu.“

Starfinu fylgir enn fremur heilsubót, enda felst í henni mikil hreyfing og útivera, auk þess sem það skemmir ekki að hafa greiðan aðgang að fersku grænmeti.Hins vegar er garðyrkju­fram- leiðsla alltaf ákveðið glæfraspil, því rekstrarreikningurinn flöktir með utanaðkomandi óvissuþáttum, eins og veðurfari. „Kostnaðurinn er óstöðugur. Allt hefur til að mynda hækkað núna, bæði áburður og fræ. En það er vonandi bara tímabundið vandamál, sem maður tekst á við með því að fá minna í kassann í haust en ella. Svo er dýrt að lenda í tjóni eins og uppskerubresti. Maður er þegar búinn að eyða öllum efniskostnaði og vinnuafli við ræktunina þegar hún eyðileggst. Það þarf því allt að ganga vel svo þetta borgi sig.“

- En hvernig gengur það upp?

„Þú þarft að vera bjartsýnn og hafa ágætis taugar,“ segir Guðjón Birgisson, garðyrkjubóndi á Melum.

Útiræktaðar kálplöntur voru um það bil að verða tilbúnar til útplöntunar. Guðjón og Helga hafa verið umfangsmestu ræktendur blómkáls í landinu en í ár hyggjast þau minnka við sig í þeirri framleiðslu. Þess í stað verður aukning á ræktun kínakáls.

Litríkar paprikur vaxa á Melum.

Mannlíf á Búnaðarþingi
Líf og starf 25. mars 2024

Mannlíf á Búnaðarþingi

Æðsta samkoma Bændasamtaka Íslands er Búnaðarþing. Í ár stóð það yfir frá fimmtu...

Stjörnuspá 21. mars - 11.  apríl
Líf og starf 21. mars 2024

Stjörnuspá 21. mars - 11. apríl

Vatnsberinn hefur lengi verið að velta því fyrir sér að flytja sig um set og jaf...

Félagsskapur eldri borgara
Líf og starf 19. mars 2024

Félagsskapur eldri borgara

Stofnfundur Félags eldri borgara í Hvalfjarðarsveit var haldinn sunnudaginn 11. ...

Áframhaldandi búseta talin möguleg
Líf og starf 13. mars 2024

Áframhaldandi búseta talin möguleg

Við Langanesströnd sem liggur að botni Bakkaflóa stendur Bakkafjörður ásamt bæði...

Kirkjugarðsklúbburinn
Líf og starf 12. mars 2024

Kirkjugarðsklúbburinn

Halaleikhópurinn víðfrægi tók að sér verkið Kirkjugarðsklúbbinn eftir Ivan Mench...

Bændamótmæli á Íslandi?
Líf og starf 11. mars 2024

Bændamótmæli á Íslandi?

Mótmæli bænda í Evrópu hafa verið í fréttum undanfarin misseri þar sem þeir vald...

Stjörnuspá 7. mars - 21. mars
Líf og starf 8. mars 2024

Stjörnuspá 7. mars - 21. mars

Vatnsberinn hefur alla burði til þess að koma í framkvæmd þeim hugmyndum sem eru...

Lundi
Líf og starf 6. mars 2024

Lundi

Lundi er algengasti fuglinn okkar og jafnframt einn af okkar einkennisfuglum. Ha...