Ríkidæmi þjóðar
Mynd / Bbl
Skoðun 11. september

Ríkidæmi þjóðar

Höfundur: Hörður Kristjánsson

Orðatiltækið enginn veit hvað átt hefur fyrr en misst hefur, lýsir vel því hugsunarleysi sem fólk lifir oft við í amstri dagsins. Það er þó hægt að ganga lengra í þessari hugsun varðandi núvitundina meðal okkar Íslendinga, því flest okkar gerum okkur alls ekki grein fyrir þeim forréttindum sem við búum við sem þjóð.

Íslendingar hafa oft öfundað Norðmenn af þeirra dýrmætu olíulindum. Sú öfund er þó ástæðulaus því afar líklegt er að aðrar þjóðir séu þegar farnar að öfunda okkur vegna okkar auðlinda. Sumar þeirra auðlinda eru af slíkri stærðargráðu sem við gerum okkur líklega fæst fulla grein fyrir.

Fyrst bera að nefna þá auðlind sem lyfti okkur úr aumustu fátækt sem þjóð til ríkidæmis, en það er fiskurinn í sjónum. Vissulega hefur okkur ekki auðnast að búa til kerfi um þá auðlind sem tryggir sanngjarna skiptingu tekna milli íbúa landsins. Menn hömpuðu samt kvótakerfinu sem skástu lausninni þegar það var sett var á 1984. Illu heilli var það síðan gert að skrímsli með frjálsu framsali kvótans 1991. Þá vankanta sem þá urðu til hefur mönnum enn ekki tekist að sníða af kerfinu þrátt fyrir að menn hrósi sér yfir að byggja stjórn fiskveiða á vísindum. Illa hefur líka gengið að útskýra fyrir fávísum lýðnum hvers vegna margháttuð friðun á vísindalegum grunni og stíf veiðistjórnun í áratugi hefur t.d. ekki skilað sér í umtalsvert auknum veiðum á þorski.

Þrátt fyrir alla vankantana verður ekki fram hjá því horft að mikið ríkidæmi er falið í fiskveiðiauðlindinni í lögsögu Íslands. Þá auðlind, eða aðrar í okkar lögsögu, má aldrei braska með eins og Bretar gerðu við sínar fiskveiðiauðlindir þegar þeir gengu inn í ESB 1972. Það brask reynist Bretum nú dýrkeypt við tilraun þeirra til að slíta sig aftur úr faðmlaginu við ESB.

Þó við getum ekki státað af að eiga jarðolíu eins og Norðmenn, þá búum við svo vel að sitja á jarðhitapotti sem sparar okkur árlega gríðarleg innkaup á olíu og kolum til húskyndingar. Þennan jarðhita getum við líka nýtt til að framleiða rafmagn og til að hita upp gróðurhús.

Þó við eigum ekki olíulindir í jörðu, þá getum við hæglega framleitt jurtaolíu sem nýta má á ökutæki og vinnuvélar. Repjuolía sem þannig er framleidd getur skilað verulegum umhverfislegum ávinningi í stað þess að nota innflutt eldsneyti.

Enn stærri auðlind er falin í fallvötnum Íslands. Þar fáum við raforku sem dugar til að knýja stóriðju, sem að vísu er afar umdeild, en hefur skapað hér umtalsverða vinnu og verðmæti. Raforkuna nýtum við líka til lýsingar íbúðarhúsa og gróðurhúsa í stórum stíl og erum enn að bæta þar í. Raforkuna getum við líka nýtt til að framleiða vetni sem nýta má til að knýja efnarafala í farartækjum.Vindurinn og sjávarföll eru svo tvær auðlindir til viðbótar.

Þó hér hafi verið talinn upp fjöldi auðlinda sem Íslendingar búa svo vel að eiga, þá er ein enn sem ekki hefur verið nefnd, en er kannski sú dýrmætasta fyrir utan mannauðinn. Það er hreina neysluvatnið. Hratt gengur nú á neysluvatnsbirgðir heimsins og fáar þjóðir geta enn státað af að geta boðið hreint drykkjarvatn beint úr vatnslindum án þess að það hafi fyrst þurft að fara í gegnum dýrar hreinsistöðvar. Þetta höfum við nýtt okkur til að framleiða hreinar landbúnaðarafurðir og t.d. bjór sem ekki er framleiddur úr endurunnu skólpi eins og víða þekkist. Í þessu liggja gríðarleg verðmæti til langrar framtíðar. Við skulum passa vel upp á vatnsauðlindina okkar því hún er ekki sjálfgefin eign. Enda hafa hernaðarspekingar lýst því yfir að næsta stórstyrjöld muni snúast um aðgengi að neysluvatni.

Ríkidæmi þjóðar
Skoðun 11. september

Ríkidæmi þjóðar

Orðatiltækið enginn veit hvað átt hefur fyrr en misst hefur, lýsir vel því hugsu...

Misræmi í inn- og útflutningstölum frá ESB
Skoðun 10. september

Misræmi í inn- og útflutningstölum frá ESB

Enn af tollamálum, forysta Bændasamtakanna hefur á síðustu vikum fundað með fjár...

Enn um endurheimt votlendis
Lesendabásinn 7. september

Enn um endurheimt votlendis

Alllengi hefur mig undrað hve margir bændur virðast vera andsnúnir eða feimnir v...

Hinir óæðri
Skoðun 21. ágúst

Hinir óæðri

Það eru mikil átök í fræðslumálum sem snerta landbúnaðinn um þessar mundir. Má ...

Göngur og réttir með öðrum brag
Skoðun 20. ágúst

Göngur og réttir með öðrum brag

Nú líður að því að bændur fari til fjalla og smali saman búfénaði sem gengið hef...

Gætum hagsmuna hver annars
Skoðun 5. ágúst

Gætum hagsmuna hver annars

Það er áþreifanleg spenna í þjóðfélaginu þrátt fyrir að nú séu flestir landsmenn...

Veljum íslenskt fyrir umhverfið og efnahaginn
Skoðun 4. ágúst

Veljum íslenskt fyrir umhverfið og efnahaginn

Á sumarleyfistímum er lítið um að vera í hinu opinbera kerfi. Allir njóta þess a...

Hvað er mjólk og hvað er kjöt?
Skoðun 16. júlí

Hvað er mjólk og hvað er kjöt?

Undanfarin ár hafa jurtaafurðir og önnur matvæli sem líkja eftir eiginleikum hef...