Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 1 árs.
Högni Elfar Gylfason.
Högni Elfar Gylfason.
Lesendarýni 13. apríl 2022

Íslenskur landbúnaður og fæðuöryggi

Höfundur: Högni Elfar Gylfason

Nú er komin upp sú staða í þriðja skiptið á fáeinum árum að spurningar vakna um fæðuöryggi á Íslandi. Fyrst var um að ræða fjármálakreppu á heimsvísu sem vakti menn til umhugsunar. Næst var það heimsfaraldur kórónuveirunnar, en nú er það styrjaldarástand í Úkraínu og möguleg heimsstyrjöld sem illu heilli gæti fylgt í kjölfarið.

Hér á landi hafði landbúnaður ásamt sjávarútvegi séð þjóðinni fyrir lífsnauðsynlegri næringu frá landnámi og fram á 21. öldina. Þá bar svo við að sífellt fleiri stjórnmálamenn létu glepjast af hagsmunum innflytjenda og stórkaupmanna á kostnað innlendrar framleiðslu. Þessir hagsmunir vel stæðra kaupmanna voru og eru gjarnan skreyttir með þeim fögru orðum að um hagsmuni neytenda sé að ræða fremur en að þeir snúist um arðgreiðslur stórfyrirtækja í vasa fáeinna útvalinna einstaklinga. Þessi stefnubreyting stjórnvalda hefur valdið mikilli fækkun meðal bænda og lífskjör þeirra hafa versnað til muna. Er nú svo komið að byggð víða um land er í hættu þar sem rekstur búanna er ekki lengur sjálfbær.

Ráðherra segir engar vísbendingar um að fæðuöryggi sé ógnað!

Á Alþingi Íslendinga kom nýverið upp umræða um fæðuöryggi lands­manna, en slík umræða hefur vart fengist upp á borð stjórnvalda þrátt fyrir að blikur hafi verið á lofti um alllanga hríð. Þá ber svo við að nýlegur ráðherra land- búnaðarmála, Svandís Svavarsdóttir, segir að ekkert bendi til þess að fæðuöryggi Íslendinga verði ógnað í nánustu framtíð. Aðeins megi reikna með lítils háttar hiksta í framleiðslukeðjunni vegna stríðsátakanna í Úkraínu.

Það er þyngra en tárum taki að ráðherra fæðuöryggismála sjái ekki hættuna sem stafar af snarminnkandi landbúnaðarframleiðslu vegna stóraukins kostnaðar en um leið lítilla væntinga bænda um leiðréttingar á afurðaverðum til samræmis.

Ef illa fer munu bændur ekki sjá sér annað fært en að draga mikið úr ásetningi næsta haust og jafnvel að fækka mikið í bústofnum sínum næsta og þarnæsta haust og einhverjir munu væntanlega hætta rekstri. Framleiðsla matvæla tekur tíma og breytingar gerast ekki hratt. Þá er óvíst að þeir sem bregða búi geti eða vilji hefja framleiðslu á ný.

Afskiptaleysi yfirvalda leiðir til aukins innflutnings

Grænmetis- og loftslagsblæti ráðherra landbúnaðar er orðið vandræða­legt á að hlusta. Svo virðist sem mjólkur- og kjötframleiðsla séu bannorð úr hennar munni þar sem fátt annað heyrist úr þeirri átt en þessi þrjú orð: Tækifæri, loftslagsmál og grænmetisrækt, í þessari röð að því er virðist.

Það eru örugglega flestir Íslend­ingar áfram um að rækta sem allra mest af því grænmeti sem við neytum hér á landi og þeirra á meðal er undirritaður, en þrátt fyrir heilnæmi og hreinleika þess eru hlutfallslega ekki margir sem telja sig geta lifað á grænmetinu einu saman. Því mun kaffæring kjöt- og mjólkurframleiðslu ásamt afskiptaleysi yfirvalda af grein­unum aðeins verða til þess að innflutningur verður aukinn, það er að segja þegar og ef ekkert kemur í veg fyrir það, svo sem fjármála- hrun, heimsfaraldur veirusýkinga eða stórstyrjaldir.

Ekki byggt á sterkum vísindalegum rökum 

Hvað þarf að gera til að ekki fari illa í matvælaframleiðslu hér á landi? Jú, það þarf að fara að hlúa að og vernda greinina í stað þess að vinna gegn henni á beinan eða óbeinan máta. Það væri til dæmis gott ef stjórnmálasamtök létu ógert að tala gegn neyslu ákveðins hluta innlendrar landbúnaðarframleiðslu eins og flokkur umrædds ráð­herra gerði um árið með sínu „kjötlausa“ landsþingi.

Áróður fámenns hóps gegn kjötneyslu hérlendis byggir ekki á sterkum vísindalegum rökum, heldur fremur tilfinningum, vafasömum rannsóknum (eða engum) og ágiskunum. Íslenskar rannsóknir vantar, en nýbirt rannsókn fræði­manna í Landbúnaðarháskóla Íslands á losun kolefnis frá túnum í mýrlendi hér á landi sýnir að himinn og haf er á milli þeirrar ímynduðu losunar sem yfirvöld gefa upp og raunverulegrar losunar sem rannsóknin bendir til.

Slíkt hið sama gæti hæglega gilt um aðra þætti íslensks landbúnaðar, en það kemur ekki í ljós nema málin verði rannsökuð.

Stórefling innlendrar matvælaframleiðslu

Það má að lokum benda á að Miðflokkurinn hefur ítrekað lagt fram viðamikla þings­ályktunar­tillögu í 24 liðum um stóreflingu innlendrar matvælaframleiðslu og öruggt og fyrirsjáanlegt rekstrarumhverfi landbúnaðar.

Gott væri ef stjórnar­flokkarnir brytu odd af oflæti sínu og færu í að hrinda þessum tillögum í framkvæmd, ef ekki á illa að fara.

 

Högni Elfar Gylfason
Korná
Höfundur er sauðfjárbóndi
og áhugamaður um þjóðmálin
í víðu samhengi.

Jarðgöng undir Reynisfjall með aðliggjandi láglendisvegi
Lesendarýni 23. nóvember 2023

Jarðgöng undir Reynisfjall með aðliggjandi láglendisvegi

Árið 1984 voru Dyrhólahreppur og Hvammshreppur sameinaðir í einn hrepp, Mýrdalsh...

„Ærnar renna eina slóð“ – Um kindagötur
Lesendarýni 21. nóvember 2023

„Ærnar renna eina slóð“ – Um kindagötur

Göngumanni í íslenskum úthaga er það léttir að ramba á kindagötu. Því má treysta...

Fé smalað með dróna
Lesendarýni 20. nóvember 2023

Fé smalað með dróna

Í haust og fyrrahaust gerði ég tilraunir með að smala með dróna, af svæði sem er...

Samfélagsskuld við bændur
Lesendarýni 10. nóvember 2023

Samfélagsskuld við bændur

Starfsskilyrði bænda hafa verið í umræðunni síðustu daga og vikur. Loksins.

Kolefnisbinding í sauðfjárrækt
Lesendarýni 9. nóvember 2023

Kolefnisbinding í sauðfjárrækt

Á undanförnum árum hefi ég fjallað um kolefnisspor dilkakjöts frá ýmsum hliðum. ...

Borgaralaun fyrir bændur
Lesendarýni 8. nóvember 2023

Borgaralaun fyrir bændur

Núverandi staða bænda er óásættanleg. Stöðugar fréttir berast af því að stór hlu...

Þegar sett eru lög um starfsemi sem í raun fela í sér bann
Lesendarýni 7. nóvember 2023

Þegar sett eru lög um starfsemi sem í raun fela í sér bann

Árið 2011 voru sett lög um skeldýrarækt sem þáverandi formaður Samtaka atvinnulí...

Tillaga um jarðalánasjóð
Lesendarýni 6. nóvember 2023

Tillaga um jarðalánasjóð

Ég legg hér með fram tillögu sem miðar að því að stórlækka fjármagnskostnað og a...