Ilmbjörk í trjálundi í safngarðinum.
Ilmbjörk í trjálundi í safngarðinum.
Lesendarýni 28. nóvember 2025

Gerum allt að garði

Höfundur: Edda Kristín Sigurjónsdóttir, garðyrkjufræðingur sem vinnur í myndlist og ritstýrir menningarmiðlinum Edda og Greipur mæla með.

Garðurinn í kringum Listasafn Árnesinga í Hveragerði er bæði umgjörð um safnið og framlenging á því. Í tilefni af 30 ára afmæli safnsins ákvað safnstjóri, Kristín Scheving, að ýta úr vör langþráðu langtímaverkefni um uppbyggingu á lóð safnsins og hlúa að ræktun í garðinum.

Safnið er í eigu átta sveitarfélaga sem bera veg og virðingu að framgangi þess og er ræktun garðsins nú hluti af starfsemi þess. Samlegðaráhrifin voru því fullkomin þegar greinarhöfundur setti sig í samband við Kristínu fyrir um þremur árum síðan í von um að geta unnið með garðyrkju í skapandi samhengi. Þráðurinn er hér pikkaður upp frá skrifum fyrir um ári síðan þar sem ég sagði frá hreyfingunni í garðinum og nokkur atriði eru hér tíunduð sem hafa vakið mig til umhugsunar á nýliðnu ræktunarári.

Garðar eru nærandi staðir

Aðalmarkmiðið með ræktun garða er að þar líði fólki vel. Ræktun garða getur svo verið gjöful á marga vegu, allt eftir því hver áherslan er. Í frjósömum garði sem hlúð er að verður lífríkið blómlegt og litríkt. Hann verður þægilegur og fallegur. Garðurinn í kringum safnið er í hægfara mótun og þróast í takti við árstíðirnar og miðar að akkúrat þessu, litríki, fjölbreytileika og vellíðan.

Ég ber þá einlægu trú í brjósti að við sem samfélag förum að veita stóru og smáu grænu svæðunum í manngerðu umhverfi okkar meiri gaum og nýta þau í ríkulegri mæli okkur sjálfum til góða. Eða ganga enn lengra og gera eins og bandarísk-japanski listamaðurinn David Horvitz skrifar, „Make Gardens Everywhere“, að rækta garða alls staðar eins og hann boðaði í nýju myndlistarverki sem hann sýndi á sýningunni Geislagarðurinn í Y Galleryi í Hamraborginni í vor.

Á hraða árstíðanna

Í samfélaginu virðast langtímahugsun og -markmið oft þurfa að víkja fyrir skjótum ávinningi og skammvinnum gróða. Með ræktun í garði safnsins spyrnum við eilítið við þessu, meðvituð um að við sem stöndum að ræktuninni munum ef til vill fyrst á elliárum horfa upp í stórar trjákrónur. Vesalings berjahríslurnar gætu orðið fljótari að komast á legg. Berin voru fá en safarík í ár og hver veit nema greinunum muni fjölga og laufskrúðið þéttast svo klasar af sólberjum og rifsberjum af ýmsum gerðum muni drjúpa úr greinaþykkni eftir fáein ár.

Öllu jafna er gæfulegt að horfa til plönturíkisins og þess máttar sem þar býr til að rækta heilbrigða sál og hraustan líkama. Þar getur tími í grænu umhverfi haft heilandi áhrif í sjálfu sér og haft í för með sér aukna framleiðslu hormóna í líkamanum sem hafa jákvæð áhrif á líðan okkar. Hver og ein plöntutegund þróar með sér viðbragð við þeim aðstæðum sem hún lifir í og hefur þannig til að bera ýmsa eiginleika sem geta verið gagnlegir fyrir okkur mannfólkið. Í kaldara loftslagi vaxa plöntur hægar en í tempruðu og þær eru því þéttari í sér, hlutfall þurrefnis er hærra og þar með hlutfall virkra efna en í þeim sem vaxa hraðar.

Að rækta á Íslandi

Fjöldi plantna sem hafa verið notaðar í lækningaskyni vaxa villtar á Íslandi, svo sem vallhumall, mjaðurt, hvönn, fjallagrös, rauðsmári, maríustakkur, blágresi og birki. Aðrar plöntur vaxa vel úti við íslenskar aðstæður séu þær forræktaðar, svo sem morgunfrú, kamilla, hjartafró og ýmsar kryddjurtir, oreganó, steinselja og hvítlaukur svo fátt eitt sé nefnt. Aukinheldur eru þær sem eru fjölærar og dafna skínandi vel eins og túnfíflar og ýmsar tegundir piparmyntu og aðrar tegundir sem við góðar aðstæður geta vel sáð sér sjálfar og komist á legg eins og hjólkrónan. Í vor kom í ljós að salvían lifði veturinn af og kamilla, hjólkróna og morgunfrú sáðu sér sjálfar í garðinum og döfnuðu býsna vel í hlýju sumrinu.

Með ræktun á nytjaplöntum í garðinum er það von mín að draga athygli að ýmsum plöntum sem vaxa léttilega í því loftslagi sem við búum við á Íslandi með sinni miklu sumarbirtu en lága hitastigi, stutta sumri og umhleypingum vormánaða sem eru það sem reynist mörgum plöntum hvað erfiðast að aðlagast. Þetta eru allt plöntur sem eru ósköp duglegar og krefjast lítils annars en eilítils skipulags í forræktun, næringar í moldina og nokkurrar umhyggju, sem þær svo endurgjalda margfalt. Þegar þessi orð eru rituð er miður nóvember og nokkrar fjólur standa enn keikar þrátt fyrir hressilegt snjó- og kuldatímabil.

Öll augu á villigarðinum, hlutverk menningar í samfélögum

Í grýttan jarðveg baka til í garðinum hafa ýmsar plöntur sáð sér og ætlunin er einfaldlega að fylgjast með þeim dafna. Í daglegu tali höfum við talað um þennan reit sem villigarðinn. Hér má þegar finna fjölskrúðugt líf, birki, reynivið, greni, krækiberjalyng, blóðberg, hreindýramosa og fleiri tegundir. Í hvert sinn sem hugurinn reikar í litla villi- garðinn verður mér hugsað til þrautseigju og áræðni manna, dýra og plantna í harðneskju- og átakanlegu umhverfi um veröld víða. Mér þykir hreint ótrúlegt hve seigla mannfólksins getur verið mikil í erfiðum aðstæðum og þess hve stóran sess ræktun, matargerð, menning og listir skipa í slíkum aðstæðum.

Að þessu þurfum við að hlúa í okkar eigin samfélagi. Eins og í búlegum garðinum er fjölbreytileiki hér lykilorð því án hans erum við snauð, ekkert kaffi, taco, lasagna né silkimjúkt korma. Mín ósk væri ávallt að búa í samfélagi sem er bundið saman í þétta heild af fjölbreytilegri menningu frekar en nokkru öðru. Þar geta ræktun og garðar skipað mikilvægan sess líkt og sjá má um víða veröld í klausturgörðunum, lystigörðum, grasagörðum og fjölgandi samfélagsgörðum, hvar við erum þó nokkrir eftirbátar nágrannalanda okkar. Nokkuð er einnig að aukast að hugað sé sérstaklega að görðum í tengslum við menningarstarfsemi, eins og fjölmargir garðar hins hollenska Piet Oudolf sem sérhæfir sig í fjölæringum gefa til kynna. Calder Gardens í Fíladelfíu er þar nýjasta og framsæknasta dæmið þar sem arkitektúr og garðar mynda umgjörð um verk Alexanders Calder.

Glötuð þekking dregin fram

Grunnhugmynd ræktunarinnar er að í safngarðinum megi finna fjölda nytjaplantna, ætiblóma og lækningajurta sem skarta fjölbreytilegum litum, áferð, grófleika og virkni. Hugað er að lækningamætti þeirra, þekkingar sem kynslóðirnar á undan okkur höfðu á takteinum og nýttu sér í hversdeginum. Samhliða því að tækni og læknavísindum vatt fram glataðist dýrmæt þekking um heilandi mátt jurta úr samfélagsvitundinni. Það varð kynslóðarof. Ég hef undanfarin ár unnið í Jurtaapótekinu og notið innblásturs og ráðgjafar frá Kolbrúnu Björnsdóttur grasalækni sem þar er húsráðandi en sú vinna hefur opnað fyrir mér dyr inn í marglaga máttugan heim grasalækninga. Með ræktun í garðinum er lagt lítið lóð á vogarskálarnar til að endurheimta þessa gömlu þekkingu sem úreldist ekki.

Við val á sumum plöntum í garðinn hugsaði ég til skapandi ræktenda sem með eldmóði sínum og seiglu hafa haft djúpstæð áhrif á umhverfi sitt og samborgara. Ingólfur Guðnason og Hildur Hákonardóttir standa þar fremst meðal jafningja. Garðurinn teygir þannig anga sína langt út fyrir endimörk sín og veitir öðrum eldhugum vonandi innblástur til að rækta eigin garð og veita nærumhverfi sínu aukna athygli.

Teblöndur safnsins

Ég ákvað að útbúa tvær teblöndur safnsins sem settar eru saman úr jurtum af tegundum sem vaxa í garðinum. Aðalmarkmiðið er þar að veita fólki innblástur til að nýta nærumhverfi sitt og sjá að það þarf ekki að vera svo flókið að nýta plöntur á ýmsa vegu.

Hugmyndin að því að búa til teblöndu safnsins rann úr munni Ingólfs Guðnasonar í einhverju samtalinu fyrir alllöngu þegar ég leitaði ráðgjafar hjá honum um verkefnið, en Ingólfur og námið í Garðyrkjuskólanum sýndu mér og sönnuðu að fjölbreytileg ræktun á Íslandi er ekki bara möguleg heldur augljós og góður kostur til að bæta lífsgæði á okkar gjöfulu eyju. Við gætum verið mun nærri því að vera sjálfum okkur nóg með fæðuframleiðslu á Íslandi, það er einfaldlega ákvörðun sem krefst pólitískrar samstöðu. Fyrir þessi samtöl og innblástur er ég þakklát.

Teblöndurnar hlutu nöfnin Angan og Keimur. Angan er blanda sem hugsuð er til að örva og styrkja meltinguna og skerpa skilningarvitin en í henni er morgunfrú sem bæði er bólgu-, bakteríu- og sveppaeyðandi, fíflablöð sem eru vökvalosandi og styrkjandi og piparmynta sem bæði örvar meltinguna og er vindeyðandi. Keimur inniheldur kamillu sem hefur bæði róandi áhrif og græðir slímhúð í meltingarfærunum, hjartafró sem hefur róandi áhrif á huga og hjarta og hefur auk þess andhistamín virkni og vallhumal sem er bæði græðandi, lækkar blóðþrýsting og er bólgueyðandi. Keimur er því meira róandi blanda fyrir huga, hjarta og meltingu og hver veit nema hún opni skilningarvitin eilítið. Gestir geta nálgast teblöndurnar í safnbúðinni og á kaffihúsinu og látið ylja sér á vetrardögum.

Te, myrkur og ný bók Hildar Hákonardóttur

Nú þegar við siglum loks inn í veturinn þetta milda ár finnst mér vert að staldra við, horfa yfir sumarið og finna þá lífsorku sem okkur tókst að safna úr sumarbirtunni. Finna hvað líkaminn þarf í myrkrinu um leið og við minnum okkur á að myrkrið hefur upp á ótalmargt nærandi að bjóða. Ljósið er enda einfaldlega undantekning á myrkrinu og eins og með andstæðurnar í lífinu þá myndi hvorugt vera til án hins.

Hildur Hákonardóttir, myndvefari, rithöfundur, baráttukona, ræktandi og fyrrverandi safnstjóri Listasafns Árnesinga, gefur nú út nýja bók, Ef ég væri birkitré, en útgáfu hennar verður fagnað í safninu sunnudaginn 7. desember. Þar gefst kjörið tækifæri til að kynna sér bókina, heyra um tilurð hennar og innihald frá höfundi. Hildur hefur enda ríkulega tengingu við jörðina og smýgur hér inn í birkitréð, sem er ein af okkar allra seigustu plöntum sem hefur enda átt bólstað sinn hér á landi allt frá landnámi. Get þess til gamans að vallhumallinn í garðinum er einmitt tileinkaður Hildi en í samtali fyrir alllöngu sagðist hún myndu taka hann með sér á eyðieyju, hann sé okkar fjölhæfasta lækningajurt.

Að innbyrða fegurð með öllum skilningarvitunum getur að ég held liðkað fyrir góðri líðan og fært okkur ró í beinin. Ég leyfi mér að fullyrða að það að borða blóm við sérhvert tækifæri, drekka af þeim te, nýta í salöt og þurrkuð sem kökuskraut og heilt yfir að rækta garðinn sinn sé hollt fyrir líkama og sál, hvort heldur er að vori, sumri, hausti eða vetri. Samverustundin á kaffihúsi safnsins á aðventunni verður vafalaust ljúf og aukinheldur tækifæri til að smakka tein og kíkja í garðinn og á yfirstandandi sýningar.

Gerum allt að garði
Lesendarýni 28. nóvember 2025

Gerum allt að garði

Garðurinn í kringum Listasafn Árnesinga í Hveragerði er bæði umgjörð um safnið o...

Ríkið á ekki að styrkja skógrækt með framandi ágengum tegundum
Lesendarýni 27. nóvember 2025

Ríkið á ekki að styrkja skógrækt með framandi ágengum tegundum

Aukin ásókn í ræktun skóga með framandi ágengum tegundum, eins og hún hefur tíðk...

Að vera í stríði við sjálfan sig
Lesendarýni 27. nóvember 2025

Að vera í stríði við sjálfan sig

Snjótittlingurinn er ein helsta hetja norðursins. Vegur um 40 grömm og stenst fr...

Aðgerðir til stuðnings sjálfbærum landbúnaði
Lesendarýni 27. nóvember 2025

Aðgerðir til stuðnings sjálfbærum landbúnaði

Tækifærin til orkusparnaðar, aukinnar sjálfbærni og samdráttar í losun gróðurhús...

Bóndi er bústólpi, bú landstólpi
Lesendarýni 27. nóvember 2025

Bóndi er bústólpi, bú landstólpi

Um allt land á Íslandi eru lítil þorp, með litlum húsum en stórum garði. Garðuri...

Er ríkið að takmarka eignarrétt á kostnað landeigenda?
Lesendarýni 26. nóvember 2025

Er ríkið að takmarka eignarrétt á kostnað landeigenda?

Framkvæmdaáætlun náttúruminjaskrár gengur í fáum orðum út á það til hvaða aðgerð...

Beitarstýring er best
Lesendarýni 18. nóvember 2025

Beitarstýring er best

Í 16. tölublaði Bændablaðsins frá 11. september er forsíðugrein sem heldur því f...

Ávaxtaðu jarðveginn þinn
Lesendarýni 18. nóvember 2025

Ávaxtaðu jarðveginn þinn

Heimsbyggðin stendur frammi fyrir tveimur áskorunum, loftslagsbreytingum og hnig...