Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 4 ára.
Sigurður Ingi Jóhannsson.
Sigurður Ingi Jóhannsson.
Lesendarýni 15. apríl 2020

Íslenskur landbúnaður í breyttum heimi

Höfundur: Sigurður Ingi Jóhannsson

Við lifum á einkennilegum tímum. Við sótthreinsum á okkur hendur og setjum á okkur hanska þegar við förum í kjörbúðina og ekki er ólíklegt að við rekumst á fólk með andlitsgrímur í verslunum og á förnum vegi. Við erum flest, ef ekki öll, orðin meðvitaðri um hvað við snertum, hvort heldur það er hurðarhúnar eða andlit okkar.

Okkur er ráðlagt af yfirvöldum að heilsa ekki með handabandi, kossum eða faðmlögum. Fyrir nokkrum vikum hefðum við litið á slíkt ástand sem kafla úr vísindaskáldsögu, jafnvel hryllingssögu. Þessi fjandans veira hefur mikil áhrif á daglegt líf okkar og mun eflaust hafa það um ókomna tíð.

Vísindi og lýðheilsa

Eitt af því sem ég tel að þessar einkennilegu vikur muni hafa áhrif á er viðhorf til matvæla. Norrænir fréttamiðlar hafa á síðustu dögum fjallað um að sýklalyfjaónæmi gæti verið einn þeirra þátta sem hafi áhrif á alvarlegar afleiðingar Covid-19. Ekki er nema rúmt ár síðan Framsókn stóð fyrir fjölsóttum fundi um sýklalyfjaónæmi þar sem amerískur prófessor, Lance Price, lofaði íslenska matvælaframleiðslu fyrir ábyrgð og framsýni hvað varðar notkun sýklalyfja í framleiðslu sinni. Á þessum fundi var einnig framsögumaður Karl G. Kristinsson, prófessor og yfirlæknir, sem hefur verið einn helsti baráttumaðurinn í því að vekja athygli á þeim ógnum sem fylgja óheftri notkun sýklalyfja í landbúnaði. Við sjáum honum bregða fyrir í fréttum þessa dagana þar sem hann berst við kórónuveiruna ásamt frábæru íslensku heilbrigðisstarfsfólki.

Það var á grunni vísinda og lýðheilsu sem Framsókn barðist fyrir því að íslensk stjórnvöld lýstu því yfir að Ísland yrði fyrsta landið í heiminum til að banna sölu og dreifingu á matvælum með sýklalyfjaónæmum bakteríum. Þar stigum við mikilvægt skref sem á síðustu vikum sýnir mikilvægi sitt enn frekar.

Hráa kjötið

Innflutningur á hráu kjöti til landsins hefur verið mikið hitamál enda mikið undir fyrir bændur en þó einn meira fyrir íslenska neytendur sem eru vanir því að þurfa ekki að hafa áhyggjur af því að það sem þeir kaupa í verslunum, hvort heldur það er í kjötborði eða grænmetisdeild, sé ekki örugg fæða. Ástæðan fyrir því að opna varð á innflutning er sú að árið 2004 gerðu íslensk stjórnvöld ekki kröfu um bann við innflutning á hráu kjöti, heldur aðeins lifandi dýrum og erfðaefni. Það er þó ljóst að atburðir síðustu vikna hljóta að breyta stöðunni. Þjóðir Evrópu hafa tekið ákvarðanir sem eflaust eiga eftir að hafa gríðarleg áhrif á samvinnuna innan Evrópu. Þar sannast hið fornkveðna: Það er ekkert til sem heitir vinátta þjóða, aðeins hagsmunir.

Sáttmáli um fæðuöryggi

Velta má því fyrir sér hvort komið sé að gerð sáttmála milli matvælaframleiðenda, neytenda,  verslunarinnar og ríkisvaldsins þar sem fæðuöryggi þjóðarinnar yrði tryggt. Sáttmála um að umhverfi matvælaframleiðslunnar verði tryggt. Þjóðin treystir á innlendan mat, það sannast núna á þessum erfiðu tímum. Við verðum sem þjóð, sér í lagi vegna landfræðilegrar staðsetningar okkar að tryggja það að matvælaframleiðsla standi sterkum fótum og víkka út þá geira sem fyrir eru á jötunni. Þá liggur fyrst og beinast við að koma til móts við grænmetisbændur varðandi flutningsverð á raforku. Um það hefur verið rætt og á ég von á að það verði hægt innan skamms.

Ábyrg framleiðsla

Hætt er við því að sú efnahagsdýfa sem hafin er og tímabundin fækkun ferðamanna á Íslandi mun hafa einhver áhrif á íslenska bændur og allt það fólk sem starfar í matvælageiranum. Framtíðin er þó björt sé rétt haldið á spilum. Sá grunnur sem íslenskur landbúnaður stendur á með sinni hreinu matvælaframleiðslu er lýðheilsulegur fjársjóður fyrir íslensku þjóðina. Vörur úr þeim jarðvegi geta einnig orðið eftirsóttar fyrir íbúa annarra þjóða nú þegar allir gera sér grein fyrir því hvað óábyrg framleiðsla og óábyrg meðhöndlun matvæla getur haft alvarleg áhrif á heilsu og hag fólks um allan heim.

Ég efast ekki eina mínútu um að við komumst í gegnum þetta ef við stöndum saman. Við mætum þessum vanda af yfirvegun og æðruleysi eins og stórhríðunum sem við þekkjum vel. Öll él birtir um síðir. Það kemur vor og það kemur sól og daginn lengir. Við höfum áður tekist á við erfiðleika og staðið sterkari eftir. Við getum gert það aftur.

Sigurður Ingi Jóhannsson,
formaður Framsóknar og samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra.

Viðsjár eru uppi um veröld víða
Lesendarýni 3. desember 2024

Viðsjár eru uppi um veröld víða

Á undanförnum árum hefur íslenskur landbúnaður sýnt af sér mikla aðlögunarhæfni....

Nytjaskógar, nytjaplöntur, nytjaland
Lesendarýni 2. desember 2024

Nytjaskógar, nytjaplöntur, nytjaland

Að nytja eitthvað er að hafa gagn af einhverju, mega nota sér til framdráttar á ...

Kosningar
Lesendarýni 29. nóvember 2024

Kosningar

Kæru kjósendur. Það er ekkert mikilvægara en að nýta atkvæðisréttinn sem svo mik...

Tryggjum nýliðun og skattalega hvata
Lesendarýni 29. nóvember 2024

Tryggjum nýliðun og skattalega hvata

Það eru vissulega forréttindi að búa í sveit, ala upp börnin sín í faðmi náttúru...

Verum til vinstri – verndum náttúruna
Lesendarýni 28. nóvember 2024

Verum til vinstri – verndum náttúruna

Á meðan Vinstri hreyfingin – grænt framboð hefur staðið vörð um náttúruna og gæt...

Þú treystir ekki hverjum sem er fyrir búinu þínu
Lesendarýni 28. nóvember 2024

Þú treystir ekki hverjum sem er fyrir búinu þínu

Að vera bóndi getur verið félagslega einangrandi, sérstaklega ef aldrei er svigr...

Eignarhald bænda á jörðum tryggir hag þeirra best
Lesendarýni 27. nóvember 2024

Eignarhald bænda á jörðum tryggir hag þeirra best

Umræða um jarðir, jarðaviðskipti og kynslóðaskipti í landbúnaði er og á að vera ...

Landbúnaður í velsældarhagkerfi
Lesendarýni 27. nóvember 2024

Landbúnaður í velsældarhagkerfi

Landbúnaður í heiminum öllum stendur frammi fyrir umbyltingu vegna framfara í ræ...