Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en mánaðar gamalt.
Jarmað, hneggjað, baulað ...
Leiðari 19. maí 2025

Jarmað, hneggjað, baulað ...

Það vakti athygli margra að í nýjustu ráðleggingum embættis landlæknis um mataræði, sem voru gefnar út í mars og eru byggðar á grunni nýjustu Norrænu næringarráðlegginganna (NNR 2023), sé mælt með „hóflegri neyslu á eggjum“.

„Hófleg neysla“ vísar til að takmarka eigi neysluna verulega, en þó eru engin rök færð fyrir þessum ráðleggingum – og ekkert magn tiltekið – einungis að þess konar neysla geti verið „hluti af hollu og fjölbreyttu mataræði“. Raunar er fátt annað sagt um eggjaneyslu í ráðleggingum embættis landlæknis.

Í dag má þó nánast fullyrða að egg séu viðurkennd ofurfæða. Í NNR 2023 segir að egg innihaldi öll nauðsynleg næringarefni nema C-vítamín. Þau innihalda hágæða prótein og fágæt vítamín og steinefni eins og B12, D3, járn, selen, joð, auk hollra fitusýra – sem öllu er pakkað inn í fullkomna neysluvöru.

Í næringarráðleggingunum er einnig horft til umhverfisáhrifa matvæla og lagt til grundavallar að almennt eigi það við að það sem sé gott fyrir heilsu okkar sé einnig gott fyrir umhverfið – og öfugt. Í ráðleggingum embættis landlæknis segir að eggja- og alifuglakjötframleiðsla hafi nokkuð lítil umhverfisáhrif í samanburði við aðra kjötframleiðslu. Í NNR 2023 segir að eggjaframleiðsla valdi minni losun gróðurhúsalofttegunda en kjötframleiðsla. 

Lengi hefur loðað við eggjaneyslu að hún geti verið varasöm með tilliti til hjartasjúkdóma – en áður töldu læknavísindin að neysla á kólesterólríkum eggjarauðum gæti með beinum hætti hækkað kólesterólgildi mannfólks með tilheyrandi áhættu á kransæðastíflu. Áður segir hér, því þetta hefur fyrir löngu verið hrakið. Fyrst með stórum faraldsfræðilegum rannsóknum, á níunda og tíunda áratugum síðustu aldar, og síðar endanlega vísindalega staðfest í öðrum rannsóknum nálægt aldamótum.

Í NNR 2023 er þó tiltekið að ekki sé hægt að mæla með æskilegu tilteknu magni eggja á viku, til þess skorti frekari gögn.

Nýlega birti Matís skýrslu sem sýnir að íslensk egg eru nánast mengunarfrí af PFAS (manngerð þrávirk efni sem safnast upp í líkamanum og valda skaðlegum áhrifum) og blýi – en þessi efni voru þar sérstaklega til skoðunar. Ástæða rannsóknarinnar er meiri meðvitund um ógnir þessara efna við matvælaöryggi og til að ganga úr skugga um að egg framleidd á Íslandi séu að þessu leyti örugg til neyslu og uppfylli kröfur Evrópusambandsins.

Voru sýni tekin frá öllum helstu eggjabúum landsins, einnig eina lífræna vottaða framleiðandanum. Nýlega kom upp mál í Danmörku þar sem PFAS-efni fundust í talsverðum mæli í lífrænum eggjum, sem mátti rekja til fiskimjöls sem notað var til að fóðra hænurnar. Fiskimjöl getur innihaldið PFAS vegna mengunar í sjávarumhverfinu, þar sem þessi efni safnast upp í fiskum sem eru hráefni í fiskimjöl.

Í Matís-rannsókninni var magn annarra skaðlegra aukaefna ekki kannað í íslenskum eggjum – hvorki varnarefni eða önnur lífræn mengunarefni eins og PCB eða díoxín. Full þörf er á slíkum rannsóknum svo hægt sé að ganga úr skugga um að alveg óhætt sé að neyta íslenskra eggja – jafnvel í „óhóflegu magni“.

Skylt efni: Landlæknir | Egg

Jarmað, hneggjað, baulað ...
Leiðari 18. júní 2025

Jarmað, hneggjað, baulað ...

Mælaborð landbúnaðarins er þróunarverkefni á vef Stjórnarráðsins. Um frábært ver...

Auka, ekki draga úr
Leiðari 13. júní 2025

Auka, ekki draga úr

Íslendingar eru sjálfum sér nógir um margar landbúnaðarafurðir. Gera má ráð fyri...

Jarmað, hneggjað, baulað ...
Leiðari 3. júní 2025

Jarmað, hneggjað, baulað ...

Efist einhver um miklar breytingar á landbúnaði undanfarna áratugi má rýna í töl...

Í gegnum moldviðrið
Leiðari 30. maí 2025

Í gegnum moldviðrið

Gríðarlegar breytingar hafa orðið á íslenskum landbúnaði á þessari öld og væri h...

Jarmað, hneggjað, baulað ...
Leiðari 19. maí 2025

Jarmað, hneggjað, baulað ...

Það vakti athygli margra að í nýjustu ráðleggingum embættis landlæknis um mataræ...

Landeldi vex fiskur um hrygg
Leiðari 15. maí 2025

Landeldi vex fiskur um hrygg

Gríðarleg uppbygging á sér nú stað hjá íslenskum landeldisfyrirtækjum. Fram kemu...

Jarmað, hneggjað, baulað ...
Leiðari 5. maí 2025

Jarmað, hneggjað, baulað ...

Margir muna sjálfsagt eftir því að vörugjöld á sykur, eða svokallaður sykurskatt...

Tækifærin blasa við
Leiðari 2. maí 2025

Tækifærin blasa við

Tækifærin blasa við í íslenskum landbúnaði. Á síðustu áratugum hefur verið byggð...