Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en mánaðar gamalt.
Hvammsvirkjun, skjáskot úr myndbandi
Hvammsvirkjun, skjáskot úr myndbandi
Leiðari 24. október 2025

Jarmað, hneggjað, baulað ...

Varla hefur farið fram hjá mörgum að mikill þrýstingur á auknar virkjanaframkvæmdir hefur verið að byggjast upp á síðustu misserum. Ríkisstjórn Kristrúnar Frostadóttur tekur undir og talar um að létta regluverkið svo hægt sé að halda af stað í nýjar framkvæmdir. Ástæðan er sögð sú að það þurfi að auka hagvöxt og byggja undir vaxtarplan stjórnarinnar fyrir íslenskt atvinnulíf til næstu tíu ára.

Í orðræðu forsætisráðherra um vaxtarplanið og fleiri virkjanir ber lítið á náttúruvernd og sömuleiðis er lítið talað um það í hvað orkan á að fara. Sporin hræða í báðum efnum. Lágmarkskrafa er því að vaxtarplani stjórnvalda fylgi verndarplan fyrir náttúru landsins, ítarleg greining á því hver staðan er og hvert skuli stefna – eins konar sáttarplan um það hvað skuli nýta og hvað skuli vernda í náttúru landsins. Hugmyndir um það virðast því miður komnar á flot með tali um aukna orkuframleiðslu. Þá er ekki síður mikilvægt að setja saman stefnu um það hvernig skuli nýta þá orku sem mögulega verður framleidd. Líklegra er að sáttin haldi ef fólk veit í hvað orkan á að fara og vissa er til staðar um að nýting hennar skili sér til uppbyggingar á atvinnugreinum sem eru samfélaginu jafnt sem umhverfinu hollar.

Sem fyrr er mikil ásókn í þá grænu orku sem hér er framleidd frá útlöndum. Á síðustu öld var valið að selja hana í stórum stíl til hráefnisframleiðslu erlendra álfyrirtækja. Nú er eftirspurnin mikil frá þeim sem reka gagnaver. „Stærstu tæknifyrirtæki heims eru að byggja upp mikið af reiknigetu og hafa sýnt Íslandi áhuga, enda hefur reynslan sýnt að hér sé gott rekstrarumhverfi þar sem boðið er upp á endurnýjanlega orku á samkeppnishæfu verði,“ segir á heimasíðu Landsvirkjunar.

Tinna Traustadóttir, framkvæmdastjóri sölu og þjónustu hjá Landsvirkjun, var í þættinum Sprengisandi sl. sunnudag að benda á þessa miklu eftirspurn eftir grænni orku meðal gagnavera og að tækifærin myndu renna okkur úr greipum ef ekki yrði brugðist við fljótt. Sérstaklega þyrfti að gera þessum fyrirtækjum hægara um vik að koma sér fyrir hér á landi með því að stytta leiðir og einfalda regluverk.

Fyrr í vikunni stóðu Samtök iðnaðarins svo fyrir fundi þar sem rætt var um þróun og áhrif gervigreindar í heiminum og stöðu Íslands í gervigreindarkapphlaupinu en þar sagði bandarískur sérfræðingur að leggja þyrfti nýjan og öflugan sæstreng frá landinu svo Ísland héldi samkeppnishæfni í orkufrekri vinnslu gervigreindar í gagnaverum. Logi Einarsson, ráðherra menningar, nýsköpunar og háskóla, sagði í viðtali við RÚV eftir fundinn að töluverður áhugi væri á uppbyggingu hér vegna grænnar orku: „Tæknin er að þróast í veldisvexti þannig að ég held að allt gerist hraðar heldur en það gerðist í gær.“

Gagnaver eru kannski nýja töfralausnin eins og álver voru upp úr miðri síðustu öld. Það hljómar skynsamlega að Íslendingar dragist ekki aftur úr í vinnslu gagna og séu þátttakendur í gervigreindarkapphlaupinu. Tinna nefndi nokkur af helstu vandamálum samtímans sem gagnaverin, sem þegar starfa hér, væru að hjálpa til við að leysa. Og auðvitað eigum við að taka þátt í því að leysa þessi vandamál sem snúa meðal annars að heilsu og loftslagsmálum. En spurningin er hvernig við gerum það. Og hvort rétta leiðin sé endilega að framleiða meiri orku til þess að selja tæknirisum heimsins. Þeir eru vafalítið tilbúnir til þess að borga mikið fyrir endurnýjanlega orku en kannski er farsælla að þessu sinni að verja orkunni í hérlenda nýsköpun sem ekki aðeins felst í hráefnaframleiðslu heldur fullunninni vöru sem skilar arðinum öllum hér innanlands.

Aðalatriðið er þó að gefa okkur tíma til þess að taka yfirvegaða ákvörðun um það hvort við virkjum meira og þá til hvers. Förum okkur hægt.

Jarmað, hneggjað, baulað ...
Leiðari 4. desember 2025

Jarmað, hneggjað, baulað ...

Stofnanir og fyrirtæki á þessu landi virðast mörg hver vera orðin þreytt á því a...

Fæðuöryggi og landbúnaður
Leiðari 4. desember 2025

Fæðuöryggi og landbúnaður

Umræðan um fæðuöryggi er alltaf að taka á sig skýrari mynd. Atvinnuvegaráðherra ...

Jarmað, hneggjað, baulað ...
Leiðari 24. nóvember 2025

Jarmað, hneggjað, baulað ...

Tregðan til þess að seinka klukkunni hér á landi er sorglegt dæmi um íhaldssemi ...

Mikill vöxtur í landeldi
Leiðari 20. nóvember 2025

Mikill vöxtur í landeldi

Mikill vöxtur er fyrirsjáanlegur í íslensku landeldi á næstu árum, eins og fram ...

Vannýtt tækifæri
Leiðari 6. nóvember 2025

Vannýtt tækifæri

Hlutfall innlendrar búvöruframleiðslu á íslenskum matvörumarkaði hefur dregist s...

Jarmað, hneggjað, baulað ...
Leiðari 24. október 2025

Jarmað, hneggjað, baulað ...

Varla hefur farið fram hjá mörgum að mikill þrýstingur á auknar virkjanaframkvæm...

Út í óvissuna
Leiðari 23. október 2025

Út í óvissuna

Ljóst er að það markmið frumvarps atvinnuvegaráðherra um breytingar á búvörulögu...

Kraftapólitík og undanbrögð
Leiðari 14. október 2025

Kraftapólitík og undanbrögð

Búvörulög mynda grundvöllinn að starfsskilyrðum bænda í landinu ásamt búvörusamn...