Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 8 ára.
Trúarbragðadeilur og bætt mataræði – Castelvetro kominn til sögunnar
Á faglegum nótum 8. október 2015

Trúarbragðadeilur og bætt mataræði – Castelvetro kominn til sögunnar

Höfundur: Hafsteinn Hafliðason

Trúarbragðadeilur og eftirfylgjandi flóttamannastraumur úr einu landi í annað hefur verið viðvarandi öld fram af öld. Æ ofan í æ skýtur upp hópum og fylkingum rétttrúnaðarmanna sem með engu móti geta sætt sig við á hvern veg nágranninn hugsar og breytir.

Reyndar er það sama hvaða trúarbragðakerfi á í hlut. Sagan sannar það og við höfum reynt það á eigin skinni undanfarin ár.

Öðrum til varnaðar og í Jesú nafni

Í Evrópu logaði allt í trúarbragðadeilum á sextándu og sautjándu öld og reyndar nokkuð fram á þá átjándu. Fjöldi manna þurfti að flýja sín heimahéruð til að leita griða undan rannsóknarréttum kaþólsku kirkjunnar. Með fulltingi og að fyrirmælum Páfagarðs risu upp sérstakir rannsóknarréttir á Ítalíu, Spáni og í Portúgal. Allir sem boðuðu ný viðhorf eða settu fram vísindauppgötvanir sem brugðu frá lögboðnum kennisetningum Páfagarðs voru beittir þungum refsingum. Í vægum tilvikum settir út af sakramenti, bannfærðir eða hýddir. En ef sannfæringin var mikil og sannleikurinn augljós voru þeir brenndir á báli fyrir villutrú og dýrkun á djöflinum. Öðrum til varnaðar og í Jesú nafni. Vald kirkjunnar skyldi bestá, sama hvað á gekk og hvaða brögðum þyrfti til þess að beita!

Á einu þessara tímabila ólst söguhetja okkar í þessum pistli upp. Og þótt líf hans og boðskapur snerist mikið og mest um samskipti kirkjunnar og almennings, þá er hann öllu þekktari fyrir þau áhrif sem hann hafði á matarvenjur og matseld fólks í Vestur- og Norður-Evrópu meðan hann var og hét. Og margt sem við þekkjum af því tagi og er fyrir löngu orðið viðvarandi í nágrannalöndunum hefur líka borist til okkar og orðið okkur tamt.

Giacomo úr gósenlandinu

Giacomo hét hann, það er ritháttur mállýsku hans fyrir mannsnafnið Jakob. Hann var af efnaðri fjölskyldu banka- og fræðimanna sem dró fjölskyldunafn sitt af litlum smábæ á Norður-Ítalíu. Nánar tiltekið þorpsins Castelvetro í Modenahéraði. Héraðið er þekkt fyrir frjósöm ræktarlönd þar sem allur jarðargróður dafnar í ofgnótt og heilbrigði. Svo hefur verið frá því að sögur hófust. Vínviður, ólífur, korn og aldin af öllu tagi og að sjálfsögðu grænmeti og rótarávextir í meiri fjölbreytileika en nokkur kann skil á.

Þarna fæddist Giacomo Castelvetro í áliðnum marsmánuði árið 1546. Faðir hans var vel stæður bankastjóri og frændur hans sjálfstæðir fræðimenn sem fetuðu fræðaslóðir sem litlar líkur voru á að myndu færa þeim upphefð og velgengni í Vatíkaninu. Lúðvík, föðurbróðir hans, lagði stund á gagnrýni og útskýringar fornra, rómverskra og grískra texta. Hann hafði líka imprað á því að refsingar og allt stjórnkerfi kirkjunnar væru í litlum tengslum við kenningar Krists. Einhver kvittur barst til Rómar um þessar skoðanir Lúðvíks. Honum tókst þó að koma sér yfir til Genfar í Sviss áður en útsendarar Rannsóknarréttarins komu höndum yfir hann. Þar bjó hann síðan í miklu áliti það sem eftir var.

Smyglað yfir landamæri

En hinn ungi Giacomo, og eldri bróðir hans, Lelio, hafa eflaust orðið fyrir áhrifum Lúðvíks, frænda síns. Lítið er svo sem vitað um skólagöngu og líf þeirra fyrstu árin. En þegar Giacomo var átján ára, var honum og Lelio, bróður hans, smyglað yfir landamærin til Sviss. Þar fóru þeir til Lúðvíks og fengu heimilisfesti hjá honum. Giacomo var fróðleiksfús og ferðaðist milli skóla og borga í Sviss næstu árin. Hann gerðist handgenginn heimspekingnum Tómasi Erastus, sem hélt því fram að kirkjan skyldi halda sig við það einungis að boða fagnaðarboðskapinn, en ríkið ætti að sjá um réttarhöld og refsingar í öllum brotum, hver sem þau væru. Jafnvel guðlasti, villutrú og göldrum. Þessar kenningar áttu ekki upp á pallborðið hjá kirkjuvaldinu í Róm á þessum tíma, sem sjálft vildi sjá um sínar aftöku- og hirtingaraðferðir, en náðu fljótt miklum vinsældum, að vísu mjög mistúlkuðum, jafnvel oftúlkuðum hjá mótmælendum í N- og V-Evrópu. Ekki síst hér á Íslandi á öld stóradóms og galdrafárs.

Eftir lát Erastusar 1583 kvæntist Giacomo ekkju hans og gaf út rit hans og fylgdi þeim eftir vítt um svæði mótmælenda í Evrópulöndunum. Alveg norður til Svíþjóðar. Og yfirleitt gisti hann á heimilum þarlendra kónga eða krónprinsa. En um hjónaband hans og Ísottu, ekkju Erastusar, fara litlar sögur og lítið er vitað um afdrif hennar. Þau koma ekki fram í síðari gögnum eða öðrum æviatriðum hans.

Afleiðingar villutrúarkenninga

Bræðurnir gerðust mótmælendatrúar og fóru nokkuð um til að kynna þær hugmyndir sem þeir höfðu tileinkað sér. Við lát föður þeirra 1578 sneru þeir aftur til Ítalíu en Giacomo áleit að ekki yrði hann þar lengi í öruggri höfn. Eftir að hann hafði gengið frá föðurarfinum og selt allar eignir sínar fór hann til Englands. Þar hafði hann komið sér upp sterkum samböndum og öflugum vildarmönnum. Í Englandi var hann óhultur og umgekkst enska höfðingja og aðalsfólk eins og jafningja sína. 1598 gerði hann tilaun til að setjast að í Feneyjum. Þar var Lelio bróðir hans kominn fyrir. En ekki lengi eftir það. Því Lelio endaði líf sitt og málflutning með því að Rannsóknarrétturinn lét binda hann við staur sem svo var kynnt undir uns askan ein varð eftir. Það var árið 1609 og dómsúrskurðurinn hljóðaði upp á villutrú. En ekki var Giacomo lengi vært í Feneyjum. Árið 1611 var hann handtekinn og ákærður fyrir villutrú og dóminum til fullnustu skyldi hann hljóta sömu örlög og Lelio bróðir hans. En þá blandaði enski ambassadorinn á Ítalíu sér í málið og hótaði alvarlegum, stjórnmálalegum afleiðingum fyrir samskipti Englands, Vatikansins og Ítalíu ef konunglegur þjónn og hjálparhella Bretakonungs væri tekinn af lífi fyrir svona sakir. Þarna skall hurð nærri hælum. En Giacomo var látinn laus og fór samstundis til Englands og var þaðan af í friði fyrir ítalska Rannsóknarréttinum. Hann lést bláfátækur í marsmánuði árið 1616 eftir þrálát veikindi og átti þá fjóra daga eftir í sjötugt.

Garðyrkjumaðurinn

En nú skal greint frá áhrifum hans á matargerð og matarkúltúr og þeim umbótum sem hann gerði á því sviði. Hann var líka vel að sér í tísku og eins konar „trendsetter“ hjá fyrirfólki síns tíma. Og sem maður frá Modena kunni hann allt um garðyrkju. Það er ekki út í bláinn að það hérað er eins konar heilög vé „slow-food“-hreyfingarinnar. Útlitið og sjarmann hafði hann með sér og lipran talanda á ítölsku, þýsku, frönsku og ensku. Hvergi rak hann í vörðurnar. Líklega hefur hann verið eins konar dásamleg blanda af Margréti Sigfúsdóttur, Vilmundi Hansen og Heiðari snyrti í einni og sömu persónunni. Í kóngahús átti hann alltaf erindi og var aufúsugestur hvar sem hann kom.

Í Englandi ofbauð honum allt þetta þunga kjötát Englendinga. Hann saknaði grænmetisins heiman frá sér. Ekki leið á löngu þar til hann var búinn að koma upp matjurtagörðum vítt og breitt á þeim höfðingjasetrum sem hann heimsótti og dvaldi vikum saman á hverjum stað. Giacomo Castelvetro varð fyrstur til að kynna tómata fyrir Bretum og kenna þeim að nota þá. Og hann kenndi garðyrkjumönnunum öll trixin og tæknina til að fá fullkomna uppskeru. Pjattlaus var hann með þeim í verki, á hnjánum með moldugar hendur. Fræ útvegaði hann frá bændum í heimasveit sinni. Og það var ekki bara í Englandi sem hann sinnti garðyrkjufræðslunni. Hann fékk ágræðsluteinunga af eplum, perum, kirsuberjum og plómum og ferðaðist með þá langar leiðir – pökkuðum inn í hunang til að þeir þyldu flutninginn og langa bið án þess að þorna upp. Nyrst fór hann og græddi epla- og perukvisti á rætur í garði Karls hertoga, sem síðar varð Karl IX sem konungur Svíþjóðar. Svíar hafa lengst af tekið flóttafólki vel. En það er hins vegar ljóður á þessum kynnum hvernig Karl IX tileinkaði sér kenningar Erastusar, sem Castelvetro færði honum, og oftúlkaði þær af sannri einurð með því að starta miklu galdrafári í Svíþjóð með tilheyrandi brennum. Hann hefði betur verið iðnari við garðyrkjuna.

Tómataát og hrásalat með hverri máltíð

Í Englandi dvaldi Castelvetro iðulega hjá greifafjölskyldunni í Bedford (Bedfordskíri, NV við London). Með honum og greifynjunni Lucy tókst mikill vinskapur, jafnvel gagnkvæm aðdáun, og hún hvatti hann til að taka saman bók um garðyrkjufræði sín. Það var auðsótt mál. Á nokkrum vikum skrifaði hann bók sem hann kallaði „Aldin, urtir og grænmeti Ítalíu“ og tileinkaði Lucy hana. Bókina skrifaði hann á ítölsku. En það kom ekki að sök. Allt hefðarfólk sem máli skipti nálgaðist sitt eintak, sem lesið var upp til agna og hagnýtt eftir bestu getu. Garðyrkjumenn, kokkar, eldabuskur og annað þjónustufólk tileinkaði sér fræðin. Þannig barst nýbreytni Castelvetros út. Tómataát og hrásalat með hverri máltíð, það var nú eitthvað nýtt á þessum tíma. Margt af því sem Castelvetro skrifar um var algjör nýjung fyrir Norðurálfubúa. Og það var ekki bara það að hann teldi upp allar mögulegar tegundir og afbrigði þeirra. Hann bætti við ræktunarleiðbeiningum fyrir þær allar og eins hvernig best væri að matreiða þær. Með fylgdu líka oft athugasemdir um hvernig ætti að leggja á borð svo að viðeigandi umgjörð væri fyrir hverja máltíð. Réttir litir og réttur borðbúnaður. Enn í dag vottar fyrir þessum leiðbeiningum Castelvetros í garðyrkjuritum og hússtjórnarbókum. Það var samt ekki fyrr en árið 1989 að bókin kom út í ýtarlegri enskri þýðingu og varð metsölubók sem hefur verið endurútgefin nokkrum sinnum síðan.

Svona er það, að landflótta maður sem fyrst og fremst var mikilvirkur pólitískur rithöfundur og fyrirlesari sem gaf út ótal rit um kenningar, siðfræði og lífspeki kristinnar mótmælendatrúar í andstöðu við páfadóm verður mönnum minnisstæðastur fyrir að skrifa litla, netta og gagnlega garðyrkjubók.

„Spjallað“ við kýr
Á faglegum nótum 9. janúar 2023

„Spjallað“ við kýr

Atferli, hegðun, útlit og ástand nautgripa getur gefið gríðarlega mikilvægar upp...

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands

Á aðalfundi Landssambands skógareigenda (LSE) sem haldinn var í Borgarnesi í maí...

Lífræn framleiðsla – nú er lag
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Lífræn framleiðsla – nú er lag

Á undanförnum árum hefur VOR látið til sín taka með ýmsum hætti til að hvetja ti...

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið
Á faglegum nótum 3. janúar 2023

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið

Meindýr eru skaðvaldar í garð- og skógrækt og óvelkomnir gestir sem flestir vild...

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna
Á faglegum nótum 2. janúar 2023

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna

Vinna við norrænu næringarráðin (NNR), sem Norræna ráðherra­nefndin heldur utan ...

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022
Á faglegum nótum 30. desember 2022

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022

Í heildina var útkoma lamba í haust góð. Meðalfallþungi á landinu var 16,6 kg og...

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?
Á faglegum nótum 28. desember 2022

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?

Hér á landi fellur til gríðarlegt magn af lífrænum úrgangi á öllum stigum samfél...

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs
Á faglegum nótum 27. desember 2022

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs

Nú þegar líður að áramótum og allir eru búnir að skila haustskýrslu til matvælar...